30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

220. mál, ávöxtun fjár tryggingafélaga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Tilgangurinn með þessu frv. er að sjálfsögðu sá að afla lánsfjár til íbúðabygginga hjá tryggingafélögum. Hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, að með þessum hætti fáist um 20 millj. kr. á ári til ráðstöfunar fyrir húsnæðismálastjórn.

Nú munu tryggingafélög eitthvað hafa keypt af skuldabréfum húsbyggjenda að undanförnu, svo að ekki verður séð a.m.k. með neinni nákvæmni, hversu mikill hluti af þessum 20 millj. verður viðbótarfé húsnæðismálastjórn til handa.

Það mun enginn draga það í efa, að þörfin fyrir þetta viðbótarfé til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum landsins er ærin. Sú þörf er orðin að því þjóðfélagsvandamáli, að það spor, sem stigið er með þessu frv., nær harla skammt, þó að óneitanlega stefni þetta í rétta átt. Hinn öri vöxtur dýrtíðarinnar á undanförnum árum hefur skapað mönnum þann vanda í byggingarmálum, að vandséð er, hvernig fram úr þeim málum verður ráðið. En þessi vandi er þó sárastur fyrir unga fólkið, fólkið, sem er að stofna heimili. Þetta fólk hefur varið æskuárunum til náms og hefur því lítil tækifæri haft til þess að safna fé til íbúðabygginga í svo stórum stíl sem dýrtíðin krefur, og samt er það eitt fyrsta takmark, sem ungu hjónin setja sér, að eignast þak yfir höfuðið. Það er sannarlega lofsvert, hvað þetta fólk leggur mikið á sig til að ná þessu marki. En þótt hjónin bæði vinni við byggingu íbúðar sinnar, jafnvel dag og nótt, þá er eldur dýrtíðarinnar á aðra hönd og brennir stöðugt upp nokkurn hluta af árangri þessarar miklu vinnu. Þannig er ástandið.

Þær upplýsingar liggja nú fyrir, að á milli tvö og þrjú þúsund umsóknir um byggingarlán séu nú hjá húsnæðismálastjórn. Til þess að fullnægja þeim mun þurfa eitthvað á milli 230 og 280 millj. kr., og við þetta bætist svo hin árlega byggingarþörf, sem er a.m.k. 1500 íbúðir á ári. Ef ætti nú að vinna upp þennan slóða, við skulum segja t.d. á 5 árum, og fullnægja auk þess hinni árlegu byggingarþörf, þá þarf a.m.k. að byggja allt að 2000 íbúðum á ári. Með því að lána aðeins einar 150 þús. kr. til hverrar íbúðar, mundi þetta kosta um 300 millj. í lánsfé, ef ekki er dregið neitt úr lánareglunum.

En vandinn er ekki aðeins sá, hversu margar íbúðir þarf að byggja árlega, heldur er lánsfjárupphæðin til hverrar íbúðar með öllu óviðunandi, eins og nú er komið byggingarkostnaðinum, og svo veit enginn, hvað kostar að byggja íbúðir á næstu 5 árum, ef dýrtíðin heldur áfram að vaxa, eins og hún hefur gert að undanförnu.

Skv. upplýsingum frá Efnahagsstofnuninni var meðalstærð íbúða, sem byggðar voru í landinu 1962, um 375 rúmmetrar hver íbúð. Samkvæmt skýrslum hagstofunnar kostaði íbúð af þessari stærð í febr. 1960 462 þús., í febr. 1961 532 þús., í febr. 1962 603 þús., í febr. 1963 633 þús. og í febr. 1964 kostar hún 734 þús. Miðað við febrúarmánuð hvert ár hefur þessi íbúð hækkað í verði frá 1960–61 um 70 þús. kr., frá 1961–62 um 71 þús. kr., frá 1962 –63 um 30 þús. kr. og loks frá því í febr. í fyrra þangað til í febr. nú í vetur um 101 þús. kr. A 4 árum hefur þá íbúð af þessari stærð hækkað í verði um 272 þús. kr.

Fyrir hv. Alþ. liggur nú frv. um skyldusparnað unglinga. Þar er gert ráð fyrir, að ógift ungmenni safni sér sparifé sem nemur 15% af launatekjum þeirra. Ef 18 ára maður ræðst í opinbera þjónustu, tekur laun samkv. 10. launafl. og sparar 15% af þessum launum sínum, þar til hann er 26 ára gamall, en giftist ekki á tímabilinu, þá hefur hann safnað sparifé, sem nemur hér um bil 100 þús. kr. auk vaxta. Við skulum hugsa okkur, að konuefni þessa manns hefði líka sparað, t.d. helminginn af þessari upphæð, á sama tíma, þá eiga þessi ungu hjón um 150 þús. kr. stofnfé auk vaxtanna af því, þegar þau ætla að fara að byggja sér íbúð, eða jafnmikið og húsnæðismálastjórnin lánar nú til íbúðarinnar. Þrátt fyrir þetta þurfa þau að afla sér annarra lána, sem nemur yfir 400 þús. kr., til þess að geta komið íbúðinni upp. Af þessu má gleggst sjá, að 150 þús. kr. lán til hverrar íbúðar er með öllu óviðunandi. Eða hvar eiga þessi ungu hjón að fá slíkt lánsfé umfram byggingarsjóðslánið?

Þótt unnt reyndist að afla fjár til að fullnægja öllum lánsumsóknum, sem berast húsnæðismálastjórn, með því að lána 150 þús. kr. til hverrar íbúðar, þá er það ekki nema hálf lausn á byggingarvandamálinu, því að mikill fjöldi ungra manna getur ekki byggt sér íbúð, ef hann fær ekki hærra lán en þetta.

Fyrir 6 árum, eða í febr. 1958, var byggingarkostnaður meðalíbúðar, þ.e.a.s. íbúðar af þessari stærð, sem ég nefndi, umfram lán byggingarsjóðs um 300 þús. kr. En í febr. 1964 er byggingarkostnaður jafnstórrar íbúðar umfram lán byggingarsjóðs 580 þús. kr. Þannig hefur vaxið vandi húsbyggjendanna til þess að leggja fram sitt eigið framlag.

Þá kem ég að annarri hlið á þessu vandamáli: Hvaða tekjur þarf maðurinn að hafa til þess að búa í íbúð, sem hefur kostað yfir 700 þús. kr.? Ég skal ekki fara út í þá sálma að reikna það, en ég vil þó benda á, að vextirnir af þeim hluta byggingarkostnaðarins, sem umfram byggingarsjóðalánið er, eru um 50 þús. kr. á ári með núverandi vaxtakjörum, og reikna ég auðvitað með því, að maðurinn fái enga vexti af því, sem hann leggur sjálfur í íbúðina.

Þurfa menn svo að vera undrandi yfir því, að fólk heimti hærri laun, þegar þróunin er þessi í húsnæðismálunum? Þessi árlegi húsnæðiskostnaður meðalfjölskyldu, sem ég hef bent hér á og er vafalaust 40–50 þús. eða kannske meir, er svo reiknaður á 11 þús. kr. í útreikningi vísitölu framfærslukostnaðar, þ.e.a.s. um það bil 1/4–1/5 hluti af hinum raunverulega húsnæðiskostnaði. Þetta sýnir, hvað er að marka vísitölu byggingarkostnaðarins í útreikningi framfærslukostnaðar. En þrátt fyrir það, að svona lágt er húsnæðiskostnaðurinn reiknaður í framfærslukostnaði manna, þá segja skýrslur hagstofunnar, að 4 manna fjölskylda þurfi samt 106 þús. kr. til lífsnauðsynjanna á ári, og þó vantar þarna á sjálfsagt 30–40 þús. kr. í húsnæðiskostnaðinn. Ósanngirni þeirra manna er því ekki ýkjamikil, sem geta ekki þegjandi sætt sig við 77 þús. kr. árslaun fyrir 8 stunda dagvinnu alla virka daga ársins, þegar raunveruleg útgjöld fjölskyldunnar eru um 130–140 þús. kr. á ári og af þeirri upphæð er húsnæðiskostnaðurinn a.m.k. 35–40%.

Þetta frv, er spor í rétta átt, en það ræður ósköp litla bót á þeim mikla vanda, sem húsnæðiskostnaður manna er nú orðið.

Ég vil að lokum minna á það, að Alþ. hefur sínar skyldur að rækja við vaxandi kynslóð í landinu, ekki sízt í húsnæðismálunum, og það veltur á miklu fyrir þetta fólk, hversu fljótt og hversu vel Alþ. rækir þessa skyldu sína.