12.11.1963
Neðri deild: 14. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 17. ágúst s.l. til lausnar á kjaradeilu verkfræðinga, sem hafði staðið frá 27. júní. Var þessi deila orðin mjög bagaleg, og verkfræðingar fengust ekki í þjónustu ríkisins, á meðan þeir höfðu vonir um að ná hagstæðari samningum en kjaradómur hafði ætlað þeim, en það töldu þeir sig hafa, á meðan þeir héldu uppi kröfunni um allt að 20 þús. kr. á mánuði, en kjaradómur gerði hins vegar aðeins ráð fyrir 14 440 kr. En svo sem greint er í forsendum brbl. um lausn kjaradeilunnar, hófst algert verkfall hjá verkfræðingum í þjónustu ríkisins 27. júní s.l.

Frá og með 1. júlí tók, gildi hér nýtt launakerfi opinberra starfsmanna skv. lögum -um kjaramál, l. nr. 53/1962: Samkvæmt því kerfi er almennum verkfræðingum ætlaður 22. launaflokkur, en í þeim flokki eru mánaðarlaun 14 440 kr. Voru kröfur Stéttarfélags verkfræðinga miklu hærri en þessu nemur, sem verkfræðingum er ætlað í 22. launaflokki, en það eru þau laun, sem margir opinberir starfsmenn hafa látið sér lynda, en hafa þó sambærilega þekkingu og verkfræðingar. Má þar t.d. nefna náttúrufræðinga og sérfræðinga hjá atvinnudeild háskólans. skógrækt, náttúrugripasafni, veðurstofu o.fl.

Hefði verkfræðingum tekizt að knýja fram sérsamninga, miklu hærri en kjaradámur ætlar þeim að hafa, þú hefði það verið ögrun við opinbera starfsmenn, sem sættu sig við það, sem þeim var úrskurðað skv. kjaradómi, og það hefði leitt til þess, ef Stéttarfélagi verkfræðinga hefði tekizt að kljúfa sig út úr, að launakerfið hefði hrunið og aðrir starfshópar hefðu komið á eftir og leikið sama leikinn.

Það liggur því í augum uppi, að það var nauðsynlegt að grípa hér inn í, ekki aðeins vegna þess, að verkfræðingarnir voru í verkfalli, heldur einnig vegna þess, að ef þeim hefði tekizt að knýja fram miklu betri og hagstæðari kjör en verkfræðingum eru ætluð með kjaradómi, þá hefði launakerfið hrunið. Það hefði haft þau áhrif, að ýmsir stéttahópar hefðu skorið sig úr og knúið fram enn hærri laun en þeir nú hafa, og þykir sumum, að í hærri launaflokkunum hafi kjaradómur skammtað allríflega, en út í það skal ekki farið að rökræða hér.

Úrskurður gerðardóms liggur nú fyrir, og er sýnt, að gerðardómur hefur haft það sjónarmið að samræma kjör verkfræðinga, sem vinna ekki hjá ríkinu, við það, sem þeim er ætlað skv. úrskurði kjaradóms. Talið er, að það sé nokkru betra að vera fastastarfsmaður hjá ríkinu en hjá einkafyrirtækjum, það sé meiri trygging. Sá, sem hefur einu sinni verið skipaður starfsmaður hjá ríkinu, er öruggur með að halda því starfi, ef hann brýtur ekki af sér, en maður, sem er hjá einkafyrirtæki, hefur aðeins vissan uppsagnarfrest. Auk þess hefur verið tekið tillit til þess, að lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er nú, ef svo mætti segja, vísitölutryggður samkvæmt lögum frá síðasta þingi, en þeir, sem starfa hjá einkafyrirtækjum; hafa ekki slíkan lífeyrissjóð.

Þess vegna hefur það þótt eðlilegt og rétt að ætla verkfræðingum, sem ekki vinna hjá ríkinu, nokkru hærri laun en verkfræðingum, sem eru hjá ríkinu, og er þetta frá 5.5% og allt upp í 11% hærri laun, sem verkfræðingum er ætlað hjá einkafyrirtækjum og bæjum, heldur en hjá ríkinu. Það eru t.d. byrjunarlaun hjá verkfræðingum skv. kjaradómi 12 300 kr., en verkfræðingum hjá Reykjavíkurborg og öðrum bæjar- og sveitarfélögum eru ætlaðar 12980 kr. í byrjunarlaun. Þetta er 5.5% hærra. Eftir eitt ár hafa sömu verkfræðingar hjá ríkinu 12 980 kr., en 13 690 kr. hjá Reykjavíkurborg eða öðrum sveitarfélögum, eftir 3 ár skv. kjaradómi 13 690, en skv. gerðardómi 14 440, það er einnig 5.5% hærra, og eftir tíu ára þjónustu 14 440 skv. kjaradómi og skv. gerðardómi 15240, 5.5% hærra.

Fastráðnir verkfræðingar, almennir verkfræðingar hjá einkafyrirtækjum, hafa allt upp í 11% hærra en almennir verkfræðingar hjá ríkinu, þar sem þar er búið við minna öryggi en hjá Reykjavíkurborg og sveitarfélögum.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta mál. Það liggur alveg ljóst fyrir. En það verður að segja það eins og er, að á meðan á verkfalli verkfræðinga stóð, var örðugt að halda uppi framkvæmdum hjá ríkinu. Vegagerðin var að komast í vandræði, en það bjargaðist með því, að fjórir verkfræðingar réðu sig hjá vegagerðinni strax upp á þau kjör, sem kjaradómur býður, og seinna hafa verið ráðnir tveir verkfræðingar hjá vegagerðinni til viðbótar, þannig að vegagerðin hefur nægilegan mannskap til þess að vinna þau verk, sem fyrir liggja.

Síðan gerðardómur var upp kveðinn, hafa fjórir verkfræðingar tjáð sig fúsa til þess að ráða sig hjá landssímanum. Einn hefur tjáð sig fúsan til að ráða sig hjá raforkumálunum, en eins og ýmsir verkfræðingar hafa sagt, þá vildu þeir bíða eftir úrskurði gerðardómsins með að ráða sig. En síðan gerðardómur var upp kveðinn, hafa ýmsir verkfræðingar komið til viðtals við forstöðumenn ríkisstofnana og tjáð sig fúsa til að ráða sig hjá ríkinu upp á kjör kjaradómsins. Og síðan brbl, voru útgefin, er ekki um neitt verkfall að ræða hjá verkfræðingum, en þeir hafa ýmist unnið upp á væntanlegan gerðardóm eða eftir sömu reglum og giltu, áður en þeir fóru í verkfallið.

Þetta mál er nú þannig leyst sem betur fer. Það eru allir sammála um það, að verkfræðingum ber að borga vel fyrir þeirra störf. En þótt þeirra störf séu mikils virði, þá mega þeir vitanlega ekki nota þekkingu sína og sérstöðu til þess að sprengja allt launakerfið og skapa slíkt fordæmi, en það hefði orðið, ef ekki hefði verið gripið hér inn í, og það var þess vegna gert af illri nauðsyn. Og mér er kunnugt um það, að margir verkfræðingar voru þessari lausn fegnir, voru leiðir yfir því, að þetta verkfall hafði verið boðað, og voru því alls ekki samþykkir.

Ég vil leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv, allshn.