14.11.1963
Neðri deild: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessum umr., er það frv., sem hér liggur fyrir, flutt til staðfestingar á brbl., sem hæstv. ríkisstj. gaf út í ágústmánuði s.l. Með þessum brbl. greip hæstv. ríkisstj. inn í samningaumr., sem þá stóðu yfir á milli verkfræðinga og ýmissa atvinnurekenda þeirra. Og ég hygg, að þessi lög hafi einmitt verið sett um það leyti, sem segja mátti, að nokkurn veginn væri víst, að samningar væru að takast og sú deila, sem þá var, væri þá að leysast, enda er það kannske í fullu samræmi við það, sem fram kemur í röksemdum hæstv. ríkisstj. fyrir þessu frv., að það hafi verið nauðsynlegt að setja lögin til þess að koma í veg fyrir það, eins og hæstv. landbrh. sagði hér, þegar hann talaði fyrir frv., til þess að koma í veg fyrir það, að samið yrði á þann hátt um launakjör verkfræðinga, að það leiddi til hruns á því launakerfi, sem þá hafði verið komið upp með kjaradómi varðandi launakjör opinberra starfsmanna. Hæstv. ráðh. lagði á það allmikla áherzlu, að hefðu verkfræðingar komið fram kröfum sínum, hefði launakerfi ríkisins hrunið með því.

Ég vil taka það fram hér strax, að við Alþb.- menn eru algerlega mótfallnir þessu frv., sem hér liggur fyrir, og þeim brbl., sem ríkisstj. setti um þetta mál í ágústmánuði s.l. Við teljum, að það sé röng stefna, að ríkisstj. sé að blanda sér á þennan hátt í samninga um launakjör hinna ýmsu starfsstétta í landinu. Hið eðlilega sé, að samningafrelsið sé virt og viðkomandi stéttarfélög fái tækifæri til að semja við atvinnurekendur sína á jafnréttisgrundvelli um launakjörin. Mér dettur ekki í hug að halda, að verkfræðingar í landinu geti ekki alveg á sama hátt og aðrir átt samninga við atvinnurekendur um launakjör sín og á hliðstæðum grundvelli, að þeim sé ekki á sama hátt trúandi fyrir því að fara með samningsréttinn og svo þá þeim atvinnurekendum, sem eiga við þá að semja, en ríkisvaldið þurfi ekki að grípa þar inn í og ætla að verða leiðsögn fyrir annan hvorn aðilann, enda vita menn, að niðurstaðan hefur í rauninni orðið allt önnur en hæstv. ríkisstj. hafði ætlazt til. Niðurstaðan hefur orðið sú, að þessi afskipti ríkisvaldsins hafa leitt af sér mjög kostnaðarsamar truflanir varðandi öll verkfræðistörf í landinu og beinlínis orðið til tjóns í ýmsum tilfellum án efa. Þetta hefur t.d. leitt til þess í sumum tilfellum, að verk hafa stöðvazt, það hefur ekki verið hægt að vinna að þeim. í öðrum tilfellum hefur þetta svo komið þannig út, að atvinnurekendur hafa gert sérsamkomulag í hverju einstöku tilfelli við verkfræðingana, sem eftir sem áður hafa þá unnið, og greitt allt annað en það, sem ríkisstj. vill láta standa á einhverjum opinberum pappírum.

Félög verkfræðinga, bæði Stéttarfélag verkfræðinga og Verkfræðingafélag Íslands, mótmæltu strax setningu brbl. og töldu þar gengið á sinn samningsrétt. Og ég held, að reynslan, sem orðið hefur einmitt í þeim tveimur tilfellum, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur gripið inn í með setningu brbl. varðandi kjör verkfræðinga, — ég held, að reynslan hafi einmitt orðið sú, að það hefði átt að sýna ríkisstj., að slík afskipti sem þessi eru mjög óheppileg og óeðlileg í hæsta máta. Sú röksemd, að samningar, sem verkfræðingar hefðu gert við sína atvinnurekendur um launakjör þeirra, hefðu leitt til þess að sprengja launakerfið í landinu, eins og hæstv. ráðh. sagði, — ég get ekki séð á nokkurn hátt, að nokkur rök séu fyrir því. Það hefur ekki sprengt launakerfið, þó að þessir sömu verkfræðingar, eins og ég segi, hafi náð samkomulagi við fjöldamarga atvinnurekendur um kröfur sínar í framkvæmd, eða a.m.k. virðist hæstv. ríkisstj. telja, að þetta almenna launakerfi sé ekki hrunið enn.

Það eðlilega er, að stéttarfélög, eins og í þessu tilfelli Stéttarfélag verkfræðinga, hafi sitt fulla samningsfrelsi, geti gengið til samninga við vinnuveitendur á jafnréttisgrundvelli, og þá efast ég ekkert um það, að báðir aðilar finna sinn samkomulagsgrundvöll, áður en langir tímar líða, því að ég ætla, að þeim sé sams konar vandi á höndum og öðrum þeim, sem verða að semja í alveg hliðstæðum tilfellum, og reynslan hefur sýnt, að sé samningafrelsið virt, leiðir það til samninga eftir eðlilegan tíma. En einmitt þessi afskipti ríkisins geta truflað eðlilega samningagerð. Þegar aðilarnir eru farnir að hafa á vitundinni, að von sé á því, að ríkisvaldið grípi inn í, þá getur það truflað eðlilegan samkomulagsvilja aðila. Og á því er auðvitað enginn vafi, að þannig voru málin komin hjá verkfræðingum, að þar áttu menn von á því, eins og í hinu fyrra tilfellinu, að ríkisvaldið færi að grípa inn í, sem það líka gerði.

Afstaða okkar Alþb.-manna er því í stuttu máli þessi, að við teljum, að það hafi verið rangt af ríkisvaldinu að grípa inn í þessi samningamál á milli verkfræðinga og þeirra atvinnurekenda, og við álitum, að bæði þessi og fyrri bein afskipti ríkisstj. af samningum verkfræðinga hafi verið mjög truflandi og haft skaðvænleg áhrif. Við teljum, að það beri að virða samningafrelsið jafnt hjá verkfræðingum sem öðrum vinnustéttum í landinu og hið eðlilega sé, að stéttarfélögin og atvinnurekendur geti komizt að samkomulagi um þau launakjör, sem eiga að gilda á markaðinum á hverjum tíma. Það er svo engum til góðs að reyna að þvinga fram einhverja gervisamninga á pappírnum, halda því fram með lagasetningu, að kjörin skuli vera eins og þar er skráð, en reynslan á markaðinum sýnir svo allt annað. Það er engum til góðs, síður en svo. En til þess hafa þessi afskipti ríkisins m, a. leitt. Við Alþb: menn munum því greiða atkv. á móti þessu frumvarpi.