14.11.1963
Neðri deild: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að hæstv. ráðh. hafi illa fylgzt með því, sem gerzt hefur í þessum málum, ef hann heldur, að hans ráðstafanir með brbl., bæði þeim fyrri og þeim síðari, hafi leitt til þess að draga úr byggingarkostnaði, draga úr kostnaði af verkfræðistörfum. Það er þvert á móti. Ef það er nokkuð, þá hefur það beinlínis leitt til hækkunar, um það er hægt að færa fram fjölmörg dæmi til sönnunar. Nei, hið sanna er það, að þessi afskipti ríkisins hafa leitt til þess, að það hefur komið upp mesta vandræðaástand í landinu varðandi verkfræðilega vinnu, og það ástand er enn þá þannig, t.d. hjá ríkinu, vegna allra þessara árekstra, að þær stofnanir, sem einna mest þurfa á verkfræðingum að halda við störf, hafa sárafáa verkfræðinga. Verkfræðingarnir hafa vegna deilnanna við ríkið horfið þar úr sinni fyrri þjónustu og tekið upp sín verk með allt öðrum hætti og á þann hátt, sem tvímælalaust er dýrara en ef það hefði verið farið eftir samningaleiðum.

Ég vil t.d. spyrja hæstv, ráðh. um það, hvað séu margir verkfræðingar starfandi nú hjá Vita- og hafnarmálaskrifstofunni. Hitt er mér kunnugt um, að þeir menn, sem þar voru starfandi, hafa yfirleitt skrifað öllum hafnarnefndum í landinu og boðið upp á þjónustu sína eftir sínum sérstöku töxtum, sem þeir nú hafa sett upp, fyrir utan allar þessar reglur, sem hæstv. ráðh. er að setja.

Hæstv. ráðh. ræddi hér nokkuð um hin fyrri brbl. varðandi launakjör verkfræðinga, þegar tiltekinn kauptaxti, sem verkfræðingar höfðu auglýst, var bannaður og þeir voru skyldaðir til þess að verðleggja störf sín eftir reglugerð, sem þá var orðin margra ára gömul. Ég fyrir mitt leyti vil ekki halda því fram, að sú verðlagning á verkum verkfræðinga, sem þeir hafa lagt þar til grundvallar, sé rétt, ég er ekki nægilega kunnugur þeim málum og treysti mér ekki til að kveða þar upp neinn dóm. Hitt er það, sem ég álít að sé hið eðlilega, að við verkfræðingana sé samið af þeirra vinnuveitendum, og þá er ég alveg viss um, að báðir aðilar munu finna sér hið eðlilega meðalhóf í þessu. En hitt get ég mætavel skilið og hef rekið mig á í einstökum tilfellum, að gamla gjaldskráin, sem var raunverulega lögleidd með fyrri brbl. ríkisstj., var úrelt, það var ekki hægt að leggja hana lengur til grundvallar. Fyrri brbl. voru að þessu leyti eintóm vitleysa, og það var ekki hægt að fara eftir þeim, enda kom það bezt í ljós, þegar gerðardómurinn var kveðinn upp núna samkvæmt síðari lögunum, þá er einmitt um reglugerðina, sem hæstv. ráðh. var að berjast við að lögleiða, beinlínis yfir lýst, að það sé ekki hægt að vinna eftir henni lengur. Þá mátti fara að leggja til grundvallar það, sem hæstv. ráðh. hafði verið að banna áður, en hitt, sem hann hafði viljað lögbinda, það var viðurkennt af gerðardómnum, að það væri orðið svo úr sér gengið, að það væri ekki hægt að vinna eftir því.

Hæstv. ráðh. sagði, að nú ynnu verkfræðingarnir með eðlilegum hætti, nú t.d. væri hægt að fá þá til þess að taka að sér ýmsa ákvæðisvinnu. En einmitt þessi ummæli hæstv. ráðh. sýna, að afskipti ríkisvaldsins eru mjög ótímabundin og óeðlileg. Þau hafa leitt til þess, að verkfræðingarnir hafa ekki fengizt til að fastráða sig eftir þeim reglum, sem áður höfðu verið, eða í því formi, sem þeir hafa þó gert ráð fyrir, þegar þau vildu semja um sín launakjör. Nú sveigðu þeir inn á aðrar brautir og tóku að sér hin ýmsu verk í ákvæðisvinnu og komu þannig í gegn öllum sínum næstu launakröfum og í sumum tilfellum enn þá hærri. Þetta var niðurstaðan.

Hæstv. landbrh. sagði, að þessi brbl., sem hér eru nú til staðfestingar, hefðu ekki verið sett, fyrr en slitnað hefði endanlega upp úr samningum á milli verkfræðinga og vinnuveitenda þeirra á s.l. sumri. Þetta er alveg rangt. Þeir aðilar, sem í þessum samningum stóðu, gáfu yfirlýsingu um það einmitt, að samningar hefðu þá verið að nást. Og það er enginn vafi á því, að samningar hefðu auðvitað tekizt á milli þessara aðila, eins og á milli annarra, kannske eftir nokkur átök og deilur, eins og stundum vill verða, en einmitt reynslan af því, að ríkisvaldið var að grípa inn í samningana, það hafði truflandi áhrif á það, að samningar tækjust á eðlilegum tíma.

Nei, niðurstaðan, sem við stöndum frammi fyrir nú vegna þessara afskipta ríkisvaldsins um launakjör verkfræðinga, hún er þessi: Verkfræðingarnir hafa mjög margir horfið úr fyrri störfum og gefa nú ekki kost á sér sem fastráðnum mönnum þar lengur. Þeir hafa hins vegar sett upp meira og meira af verkfræðistofum, sem taka að sér tiltekin verk með ákvæðisvinnufyrirkomulagi, og eftir þeirri aðferð ná þeir fram, eins og ég segi, öllum sínum ýtrustu kröfum í flestum tilfellum, en þetta hefur haft mjög truflandi áhrif á rekstur ýmissa stofnana í landinu og ýmsa verkfræðilega vinnu.

Ég er því alveg sannfærður um, að reynslan af þessum afskiptum ríkisvaldsins hefur orðið ill, og það er einmitt það, sem mér þótti eiginlega verst af því, sem ég heyrði hjá hæstv. ráðh., þegar hann síðast talaði um þetta mál, að hann flutti mál sitt þannig, að maður gat skilið hann svo, að hann héldi, að hann hefði verið að vinna hér eitthvert gagnlegt verk. Framhaldið af því gæti svo auðvitað orðið það, að hann héldi þessum upptekna hætti áfram. En það er enginn vafi á því, að hér hefur verið unnið illt verk, skaðlegt verk, og það hafa verið brotin hér þau grundvallarprinsip, sem á að virða um samningafrelsi á milli stéttarfélaga og vinnuveltenda. Það er sú regla, sem hefur gefizt bezt, bæði hér hjá okkur og annars staðar, en bein afskipti ríkisvaldsins hafa leitt til vandræða í ýmsum efnum, og í þessum efnum hafa vandræðin komið mjög greinilega fram.