14.11.1963
Neðri deild: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, mætti nú helzt halda, að hann hefði ekki verið á þingi seinustu vikurnar og ekkert komið nálægt þeim málum, sem hér hafa verið til umr., hann hafi komið einhvers staðar af fjöllum. Hvað er það, sem hefur verið mest rætt um hér í þinginu á undanförnum vikum og sérstaklega þó seinustu vikuna? Aðalmálið, sem hefur verið rætt um, er það að hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram frv. um að binda allt kaupgjald í landinu í fastar skorður, og það vita allir, sem með þessum málum fylgdust, að þetta mál var fram komið vegna þess, að ýmsar stéttir, eins og verkamenn, verzlunarmenn, iðnaðarmenn o.fl., höfðu gert kröfur um kjarabætur og kauphækkun með hliðsjón af þeim hækkunum, sem opinberir starfsmenn höfðu fengið. Á þessar kröfur vildi hæstv. ríkisstj. ekki fallast, því að hún taldi þá, að það væri ósanngjarnt og ekki eðlilegt að miða kaupgjald þessara stétta með hliðsjón af því, sem opinberir starfsmenn fengju, og hefur haldið því fram, að það ætti ekki neitt samband að vera þar á milli. Með þessum rökum rökstyður hún kaupbindingarlögin ekki sízt.

Hér liggur það hins vegar fyrir í brbl., sem hæstv. ríkisstj. hefur sett, hún segir hvað þessa stétt snertir, sem þessi lög fjalla um, verkfræðingana, að þá eigi að ákveða kjör þeirra, sem vinna hjá einkafyrirtækjum, með hliðsjón af því, sem ríkið greiðir, eða algerlega andstætt því, sem hún hélt fram alla seinustu viku og notaði sem aðalröksemd fyrir kaupbindingarlögunum. En rökin fyrir kaupbindingarlögunum voru ekki sízt þessi, að þær kaupkröfur, sem voru bornar fram af verkamönnum og verzlunarmönnum, væru óeðlilegar og ósanngjarnar, vegna þess að það væri ekki eðlilegt, að það væri samband á milli þess, hvað ríkið borgaði og hvað einkafyrirtækin borguðu, og þessir aðilar ættu ekki að miða sínar kröfur við þær kauphækkanir, sem opinberir starfsmenn hefðu fengið. Hér liggur hins vegar fyrir í brbl., sem eru til umr., að það eigi að miða laun viðkomandi aðila, sem vinna hjá einkafyrirtækjum, eða ákveða þau með hliðsjón af því, sem ríkið borgar sambærilegum starfsmönnum. Og þetta er vitanlega allt alveg nýtt og allt annað en það, sem fólst í kaupbindingarlögunum og stefnt var að með þeim.

En það er líka annað nýtt í þessu sambandi, sem er ekki síður athyglisvert, því að sá gerðardómur, sem hefur starfað samkvæmt þessum brbl., hefur fellt þann úrskurð, að þegar launakjör hjá því opinbera séu lögð til grundvallar fyrir því, hver eigi að vera launakjör hjá einkafyrirtækjum, í þessu tilfelli hvað snertir verkfræðingana, þá skuli launakjörin hjá einkafyrirtækjum vera 10% hærri, vegna þess að atvinnuöryggið sé þar minna og önnur fríðindi minni.

Ég minnist þess ekki, að það hafi áður verið felldur opinber dómur, sem kveður jafnskýrt á um það, að laun skuli vera hærri hjá einkafyrirtækjum heldur en hjá því opinbera. Þetta er líka alveg nýtt, og þetta hlýtur að hafa sín áhrif á þær kaupdellur, sem nú er verið að vinna að lausn á. Það er ekki hægt að ætlast til þess, alls ekki hægt að ætlast til þess, að í þessum efnum gildi aðrar reglur, t.d. um verzlunarmenn og verkamenn og verkfræðinga, því að verkamenn og verzlunarmenn, sem vinna hjá einkafyrirtækjum, það skortir ekki síður á það, að þeir búi við nægilegt atvinnuöryggi, heldur en verkfræðingar, með tilliti til þess öryggis, sem menn hafa hjá ríkinu. Og þess vegna er það alveg óhjákvæmilegt, að þessi gerðardómur hafi veruleg áhrif á þær deilur, sem nú er unnið að lausn á. Og það skiptir engu máli í þessu sambandi, sem ég efast líka um að sé rétt hjá hæstv. landbrh., hver launakjör verkfræðinga kunna áður að hafa verið með einhverjum sérsamningum milli einstakra. atvinnurekenda og einstakra verkfræðinga. Það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er, að það liggur hér fyrir opinber dómur um það, að launakjörin skuli vera hærri hjá einkafyrirtækjum en hjá ríkinu, vegna þess að þar sé ekki um eins mikið atvinnuöryggi og eins mikil fríðindi að ræða. Og með því að þetta er kamið fram og hæstv. ríkisstj. leggur jafnmikla áherzlu á það eftir sem áður, að þessi lög nái fram að ganga, þá verður ekki öðruvísi litið á þetta mál en þannig, að það sí yfirlýsing af hennar hálfu, að þessi stefna sé rétt, að launakjör hjá einkafyrirtækjum eigi að vera yfirleitt heldur hærri en hjá ríkinu. Og það er náttúrlega allt annað en það, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að halda hér fram undanfarna daga og hélt fram með kaupbindingarfrv., því að þá var hún að berjast fyrir því, að launakjör hjá einkafyrirtækjum væru lægri og verri en hjá ríkinu. Þess vegna er hér um allt aðra stefnu að ræða. Og ég skal taka það skýrt fram, og ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki heldur misskilið það, að ég er ekki að ámæla hæstv. ríkisstj. fyrir þessa stefnubreytingu. Ég hef látið það koma mjög skýrt fram í umr. hér á Alþ., að ég teldi þá stefnu ranga, sem ríkisstj. hefur verið að berjast fyrir og barðist fyrir með kaupbindingarfrv., að launakjörin ættu að vera lægri hjá einkafyrirtækjum en hjá ríkinu. Ég álit, að þarna eigi að vera samræmi á milli, og það er svo matsatriði, hvort það á að miða við þessi 10%, sem umræddur gerðardómur hefur kveðið upp, ellegar munurinn eigi að vera einhver annar. En það liggur hins vegar fyrir frá þessum opinbera aðila, sem ríkisstj. leggur blessun sína yfir með því að leggja til, að þetta frv. verði samþykkt, að það eigi að vera munur, sem er í því fólginn, að launin séu hærri hjá einkafyrirtækjunum en hjá ríkinu. Og það er þetta, sem er aðalatriði málsins.

En í tilefni af því, að hæstv. ráðh. var að hrósa sér af því, að hann hefði áorkað einhverju sérstöku með þessari löggjöf eða brbl., þá vit ég taka undir það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég held, að þau hafi tvímælalaust heldur orðið til hins verra en betra hvað snertir sambúð þessara tveggja stétta, sem hér eiga hlut að máli, verkfræðinga og atvinnurekenda. Og ég er mjög hræddur um, að þau afskipti, — ég vil segja óþörfu afskipti, — sem ríkisstj. hefur haft af málum verkfræðinga, verði til þess að ýta undir þann flótta verkfræðinga úr landinu, sem hefur verið allt of mikill á undanförnum árum. Það er ekki nema eðlilegt, að verkfræðingar hvekkist við það, að hér skuli vera beitt þeim starfsháttum, sem ég held að hvergi annars staðar þekkist í veröldinni, a.m.k. ekki vestantjalds, að ríkisvaldið skuli alltaf vera að hafa afskipti af þessum málum.

Nú vitum við, að það er þegar of lítið af verkfræðingum í landinu, miðað við þá þörf, sem við höfum fyrir þá, og jafnframt, að þörfin fyrir verkfræðinga hlýtur mjög að vaxa á komandi árum, og yfirleitt er líka alls staðar unnið að því í öðrum löndum að fá sem flesta sérmenntaða menn í þessum greinum. Og það er kannske eitt hið nauðsynlegasta í sambandi við uppbyggingu landsins, að við greiðum sem mest fyrir því, að við eignumst sem flesta sérmenntaða menn, sem vilja starfa hér. En það er vitanlega ekki leiðin til þess, að við fáum þessa menn til að setjast hér að, þegar þeim eru boðin betri kjör annars staðar, þegar ríkið er alltaf að hafa óþörf og tilefnislaus afskipti af þessum málum. Þess vegna tek ég fullkomlega undir það, sem hér hefur verið sagt, að ég álit, að afskipti ríkisvaldsins af þessum málum hafi verið til hins verra, og við eigum í þessum efnum að hafa nákvæmlega sama háttinn á og okkar nágrannaþjóðir og yfirleitt allar vestrænar þjóðir, að láta verkfræðinga og þeirra atvinnurekendur eigast eina við um þessi mál, en vera ekki að skipta okkur af því. Og í samræmi við það mun ég greiða atkvæði um þetta frv., þegar þar að kemur.

En þrátt fyrir þetta fannst mér rétt að vekja athygli á því, að mér finnst sú stefna að öðru leyti, sem kemur fram í þessu frv. af hálfu ríkisstj., vera betri en sú, sem fólst í kaupbindingarfrv., því að hér fellst ríkisstj. á það sjónarmið, að það eigi að ákveða laun hjá einkafyrirtækjum með hliðsjón af því, sem ríkið borgar, gagnstætt því, sem hún hélt fram í sambandi við kaupbindingarlögin, og hér virðist hún einnig taka undir þá stefnu, sem ég álít vera mjög til athugunar, að laun hjá einkafyrirtækjum eigi að vera hærri en hjá ríkinu. En það er í raun og veru eitt aðalatriðið í þessu frv., eða þessum brbl., ef það nær fram að ganga, að því er slegið föstu hvað verkfræðingana snertir, að hjá einkafyrirtækjunum skuli þeir hafa 10% hærri laun en hjá ríkinu, og slíkt ætti þá einnig að gilda um aðrar stéttir sambærilegar, eins og t.d. verkamenn, verzlunarmenn og iðnaðarmenn.