02.03.1964
Neðri deild: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Frsm. meiri hl. (Einar Ingimundason):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað og rætt á nokkrum fundum sínum frv. til l. um lausn kjaradeilu verkfræðinga. N. hefur borizt umsögn um frv. frá Stéttarfélagi verkfræðinga, og einnig hafa nm. rætt efni frv. við nokkra aðila, þ. á m. ráðuneytisstjórann í atvmrn. og samgmrn, og enn fremur við forustumenn Stéttarfélags verkfræðinga. Nm. hafa ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþykkt með þeirri breyt., sem prentuð er í nál. á þskj: 325, en minni hl. n., hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 4, þm. Sunnl., leggur til, að frv. verði fellt, og skilar sérstöku nál. um það.

Stéttarfélag verkfræðinga er samtök launþega í verkfræðingastétt, annarra en þeirra, sem fastráðnir eru í þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Gerðu samtök atvinnurekenda nokkrum sinnum kjarasamninga við félagið fyrir hönd meðlima þess á árunum 1954–1959, en frá 1. des. 1959 hafa engir kjarasamningar verið í gildi á milli þessara samtaka. Munu meðlimir stéttarfélagsins síðan hafa unnið eftir ráðningarskilmálum verkfræðinga frá 1961, þar til á s.l. vori, að þeir leituðu nýrra kjarasamninga við samtök atvinnurekenda. Varð ekki samkomulag milli þessara aðila um kaup og kjör, og hófst verkfall verkfræðinga, sem eru meðlimir í stéttarfélaginu og starfa hjá Reykjavíkurborg, 30. maí s.l., en sömu aðilum hjá ríkisstofnunum þann 22. júní s.l. Samningar tókust ekki milli deiluaðila fram eftir sumri, og þann 17. ágúst s.l. voru sett þau brbl. um lausn kjaradeilunnar, sem nú er leitað staðfestingar á, en samkv. þeim brbl. skyldi gerðardómur ákveða, hver skyldu vera kjör verkfræðinga, sem ekki eru fastráðnir hjá ríkisstofnunum og sveitarfélögum, og einnig setja gjaldskrá fyrir verkfræðistörf, sem unnin eru í ákvæðisvinnu og tímavinnu. Þá segir einnig í brbl, að gerðardómurinn skuli viti ákvörðun mánaðarlauna, vinnutíma og launa fyrir yfirvinnu hafa hliðsjón af því, hver séu kjör verkfræðinga og annarra sambærilegra starfsmanna í þjónustu ríkisins samkv. launakerfi því, sem gilt hefur frá 1. júlí 1963, þ.e.a.s. samkv. úrskurði kjaradóms.

Gerðardómurinn samkv. brbl. kvað upp dóm sinn 28. okt. s.l. Hljóðaði dómurinn um það, að meðlimir Stéttarfélags verkfræðinga skyldu yfirleitt fá um 11% hærri laun en þeir verkfræðingar, sem vinna sambærileg störf og fastráðnir eru hjá ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Var því hér raunverulega með dómi gerðardómsins um að ræða mat á því, hvers virði væri traustari aðstaða og fríðindi þeirra, sem fastráðnir eru hjá ríkisstofnunum og sveitarfélögum, fram yfir þá, sem starfa hjá öðrum aðilum eða eru ekki fastráðnir hjá ríki og sveitarfélögum.

Því er ekki að leyna, að meðlimir Stéttarfélags verkfræðinga eru ekki ánægðir með dóm gerðardóms og telja, að með setningu brbl. hafi samningsfrelsi þeirra um kaup og kjör raunverulega verið brotið á bak aftur. Einnig telja þeir, að það sé þvert ofan í anda laga um kjaradóm, að kaup þeirra og kjör séu ákveðin með hliðsjón af úrskurði kjaradóms um kaup og kjör stéttarbræðra þeirra í þjónustu ríkis og sveitarfélaga, heldur beri að miða kaup og kjör þeirra, sem kjaradómi hlíta, við þau kjör, sem stéttarfélagið hefur náð með frjálsum samningum. Hvað sem um þetta má segja almennt, er það staðreynd, að aðrar stéttir launþega hafa þegar í framkvæmd rökstutt launahækkunarkröfur sínar með þeim launahækkunum, sem ákveðnar voru til handa starfsmönnum ríkisins með úrskurði kjaradóms á s.l. sumri, sbr. vinnudeilur þær, sem risu á s.l. hausti, og hafa því vissar stéttir launþega þegar miðað kaup sitt og kjör við úrskurð kjaradáans. Og víst er um það, að hefðu brbl. þessi ekki verið sett á s.l. sumri, hefðu meðlimir Stéttarfélags verkfræðinga komið fram og mundu sennilega knýja fram, ef brbl. yrðu ekki staðfest, miklu hærri laun sér til handa en ákveðin voru með dómi gerðardóms samkv. brbl., en af því mundi að sjálfsögðu leiða, að stéttarbræður þeirra hjá ríki og sveitarfélögum mundu krefjast sambærilegra launa, þegar til endurskoðunar kæmi á úrskurði kjaradóms frá 1. júlí 1963, en sú endurskoðun á lögum samkvæmt að hefjast eftir næstu áramót. Aðrir starfshópar í sömu launaflokkum mundu svo væntanlega sigla í kjölfarið, og hljóta því allir að sjá, hvað af slíku kapphlaupi mundi leiða.

Að þessu athuguðu fellst meiri hl. allshn. á, að nauðsynlegt hafi verið, eins og á stóð, að setja þau brbl., sem hér eru til umr., og leggur til, að þau verði samþykkt með þeirri breytingu, sem lýst er í áliti meiri hl. n. um frv.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.