12.03.1964
Efri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. til l. um lausn kjaradeilu verkfræðinga var flutt í hv. Nd. til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 17. ágúst s.l. Tilefni þess, að þessi lág voru gefin út, var það, að algert verkfall hafði staðið frá 27. júní s.l. og þar til lögin voru út gefin. Af þessu leiddi talsverð vandræði, eða réttara sagt mikil vandræði, því að meðan á verkfallinu stóð féll niður víða öll verkfræðileg vinna. Verkfræðingar, sem aftur höfðu ekki fengið lausn frá störfum í hinum ýmsu stofnunum, vildu ekki ráða sig, á meðan á samningaumleitunum stóð, og verkfræðingafélagið gerði kröfu um að fá miklu hærra kaup og betri kjör en kjaradómur hafði úrskurðað. Af þessu leiddi, að brýna nauðsyn bar til að leysa þetta mál, til þess að verkfræðingar fengjust til starfa, bæði hjá ríkisstofnunum og hjá einkaaðilum, og lögin voru sett til þess að firra vandræðum í þessu efni.

Gert er ráð fyrir því í l., að hæstiréttur tilnefni 3 menn í gerðardóm til að ákveða kjör verkfræðinga, Gerðardómurinn var skipaður samkv. l. og vann eins og þar er gert ráð fyrir að lausn þessa máls og kvað upp úrskurð um kjör verkfræðinga, sem vinna annars staðar en hjá ríkinu, og hafði þá hliðsjón af því, hvers virði það er að vera opinber starfsmaður og njóta þeirra hlunninda, sem því fylgja, sem er meira atvinnuáryggi en hjá einkafyrirtækjum eða bæjarfélögum, og að lífeyrissjóður opinberra embættismanna er vísitölutryggður, en ekki aðrir lífeyrissjóðir. Og með tilliti til þess úrskurðaði gerðardómurinn, að verkfræðingar, sem ekki vinna hjá ríkinu, hafi að jafnaði 5–11% hærra kaup en verkfræðingar, sem starfa hjá ríkinu.

Mér er kunnugt um, að fjöldi verkfræðinga gerir sig ánægðan með þennan úrskurð og verkfræðingur yfirleitt hafa sætt sig við hann með því að hefja störf og vinna samkvæmt þeim kjörum, sem gerðardómurinn gerir ráð fyrir. Og eftir að gerðardómur hafði gefið úrskurð í þessu máli, fengust margir verkfræðingar í þjónustu ríkisstofnana, sem ekki hafði verið unnt að fá áður, utan aðeins 4 verkfræðinga, sem höfðu ráðið sig hjá vegagerðinni, áður en úrskurður gerðardóms féll. En eftir það hafa margir verkfræðingar ráðið sig hjá ríkisstofnunum, svo sem hjá vegagerðinni, raforkumálaskrifstofunni, landssímanum og víðar.

Lögin hafa þess vegna náð tilætluðum árangri. Með þeim hefur verið ákveðinn hæfilegur launamunur á milli verkfræðinga, sem vinna hjá ríkinu, og þeirra, sem vinna annars staðar, þannig að þau kjör, sem verkfræðingar nú búa við, verða ekki til þess að ýta undir kaupkröfur annars staðar. En eins og kunnugt er um lög um kjaradóm opinberra starfsmanna, er gert ráð fyrir því, að kjör opinberra starfsmanna verði endurskoðuð nú eftir rúmlega eitt ár, og ef verkfræðingum, sem vinna annars staðar en hjá ríkinu, hefði tekizt að spenna bogann hátt og ná samningum um miklu hærri og betri kjör en þeir verkfræðingar, sem vinna hjá ríkinu, leiðir það af sjálfu sér, að við endurskoðun samnings við opinbera starfsmenn eftir rúmlega ár hefði það víðtæk áhrif og ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Lögin voru sett af brýnni nauðsyn. Þau hafa náð tilgangi sínum. Þau hafa orðið til þess, að verkfræðingar, sem ekki vinna hjá ríkinu, hafa eðlileg og góð kjör, nokkru betri en þeir, sem eru fastir starfsmenn hjá ríkinu, en þó ekki meira en svo sem nemur þeim hlunnindum, sem því fylgja að vera ríkisstarfsmenn.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Það má geta þess, að í Nd. var gerð lítilsháttar breyting, sem, eins og það var orðað þar, mildar þetta svolítið frá því, sem áður var, en breytir ekki á neinn hátt meiningunni, en mér er kunnugt um, að verkfræðingar sætta sig betur við löggjöfina með því orðalagi, sem komið er inn í 4. gr., enda þótt meiningin breytist ekki neitt, sem heitið geti.

Herra forseti. Ég vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2, umr. og hv. fjhn.