12.03.1964
Efri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Enn er hæstv. samgmrh. á ferðinni hér í þessari hv. d. með brbl. um verkfræðinga. Þetta er að verða fastur erindrekstur hjá þessum hæstv. ráðh., að rölta á milli deilda árlega með slíkt plagg upp á vasann. Í fyrra kom hann með lög um hámarkslaun verkfræðinga, en í ár veifar hann lögum um afnám réttinda verkfræðinga til frjálsra samninga og um bann við verkföllum. Það er ekki óeðlilegt, að spurt sé: Hvað kemur næst?

Þessi brbl. voru, eins og hæstv. ráðh. tók fram, gefin út í ágúst 1963. Strax eftir birtingu brbl. bárust öflug mótmæli gegn þeim frá stjórnum verkfræðingasamtakanna. Stjórn Stéttarfélags verkfræðinga benti á í sínum mótmælum, að hér sé um að ræða harkalegustu árás á verkfalls- og samningsrétt stéttarfélags, sem starfar samkv. gildandi lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, og að þetta sé gert samtímis því, að samningavíðræður standi yfir og von sé á árangri af þeim. Stjórn Verkfræðingafélags Íslands lagði í sínum mótmælum einkum áherzlu á, að brbl, sýndu skilningsleysi ríkisvaldsins á þeirri staðreynd, að tæknilegar framfarir eru hverju þjóðfélagi nauðsynlegar, eigi að halda í horfinu.

Þannig birtist ánægja verkfræðinganna með setningu þessara brbl., en hæstv. samgmrh. talaði eitthvað um ánægju verkfræðinga með þessi lög.

Það er mjög áberandi, að hæstv. ríkisstj., sem nú hefur setið að völdum á fimmta ár, hefur frá upphafi átt í látlausum útistöðum við hina íslenzku verkfræðingastétt og að hún hefur á allan hátt reynt að þrengja kosti þessarar stéttar. Það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. þyki þessi stétt harla óþörf í þjóðfélaginu og því betra væri sem verkfræðingar í landinu væru færri. Ég skal taka fram, að það eru fleiri í þessu landi en hæstv. ríkisstj., sem líta svipað á þetta mál. Enn eru allmargir með þjóðinni, sem lifa svo í gamla tímanum, að þeir telja, að brjóstvitið eitt geti dugað, þegar um verklegar framkvæmdir er að ræða, þar þurfi ekki neinn lærdómur til að koma. Þetta fólk lítur eðlilega á störf verkfræðinga og tæknifræðinga sem óþarfa. Og ef dæma má af verkum hæstv. ríkisstj., er hún sömu skoðunar. Nútíminn hins vegar telur brýna þörf á fjölgun verkfræðinga og aukinni menntun þeirra, og íslenzkir menn, sem þessa skoðun hafa, viðurkenna, að við erum í þessum efnum aftur úr öðrum þjóðum. T.d. eiga aðrar þjóðir Norðurlanda hlutfallslega mun fjölmennari verkfræðingastétt en við Íslendingar, og þó hyggja þær á að fjölga í stéttinni að mun á næstu árum. En eins og ég sagði áðan, hafa stjórnarvöldin íslenzku nú á fimmta ár lagt allt kapp á að skerða starfskjör og önnur kjör verkfræðinga hér á landi og fæla menn jafnframt frá því að búa sig undir slíkt starf.

Ég tel vera mikið vandamál, hvort þessi lög, sem nú er um að ræða hér, svo og lögin frá í fyrra um hámarksþóknun til verkfræðinganna, brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Hið sama gildir raunar um nokkur önnur brbl. þessarar hæstv, ríkisstj., og get ég nefnt þar sem dæmi brbl. frá 1961 um þjónustuskyldu lækna í Reykjavík við Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Ég held, að það sé engin fjarstæða að láta sér detta í hug, að hæstv. ríkisstj. hafi met í stjórnlagabrotum hér á landi. Kunnur maður í hópi eldrí lögfræðinga sagði nýlega í blaðagrein, að Alþingi hafi á síðari árum iðulega samþykkt lög, sem fara að meira eða minna leyti í bága við stjórnarskrána. Ekki skal ég fullyrða um, hvort þessi aldni lögfræðingur telur lögin um verkfræðingana í þeim flokki, en mér finnst það ekki ótrúlegt, að hann hafi átt við þau brbl. ásamt öðrum lögum.

Með þessum brbl. — eða öllu heldur ólögum — eru verkfræðingar landsins sviptir réttindum til samninga um eigin kjör. Þeim er bannað að gera verkfall. Gerðardómur skal ákveða kjör þeirra verkfræðinga, sem starfa hjá einkaaðilum, og gildir þar einu, hvort um fastráðningu, tímavinnu eða ákvæðisvinnu er að ræða. Og það er ekki nóg með, að verkfræðingar séu sviptir þessum lýðræðislega rétti sínum um stundarsakir, heldur er það gert, að því er bezt verður séð af lögunum, um alla framtíð.

Í þessum I. birtist hugarþel núv. stjórnarvalda til launastétta landsins grímulaust. Réttur launþegans til að verðleggja vinnu sína skal að engu ger. Verkfallsrétturinn skal afnuminn og lífskjörin í framtíðinni ákvarðast að verulegu leyti af óviðkomandi aðilum, sem oft og einatt hafa mjög ónóga þekkingu til brunns að bera í þessum efnum. Þessi er þá stefnan í lífskjaramálum launafólks á Íslandi í dag. Og hún birtist í framkvæmd í þessum brbl., sem hér liggja fyrir. Nú að þessu sinni hittir hún þá verkfræðinga, sem vinna í þjónustu annarra. Hún getur komið til víðtækari framkvæmda síðar og mun áreiðanlega gera það, ef núv. ríkisstj. endist aldur til. Og þannig getur hún með tímanum komið til með að bitna á öllum launastéttum landsins. Þessi brbl, eru mjög harkaleg í garð einnar launastéttar, og það er slæmt. Hitt er þó miklu verra, að þau geta hæglega reynzt upphafið að almennu afnámi samningafrelsis og verkfallsréttar. Þau geta reynzt upphafið að einum allsherjargerðardómi um lífsafkomu hins vinnandi manns.

Hæstv. ríkisstj. sýnir hug sinn til verkfræðinga landsins með þessari lagasetningu, og hún sýnir skilning sinn á þörf þeirra. Hún sannar með l. áþreifanlega, hve gersneydd hún er því að kunna að meta þjóðhagslegt gildi verkfræðilegrar kunnáttu og nútímatækni. Þetta er ein af mörgum veikum hlíðum hæstv. ríkisstj., og fyrir þetta ásamt öðru má þjóðin þola nú og í náinni framtíð. Í þessu lagafrv. er ekki að finna eitt einasta ákvæði um annað en það, sem kreppir kjör íslenzkra verkfræðinga og gerir þá óánægðari en ella með hlutskipti sitt í landinu. Afleiðingin er og hlýtur að verða sú, að þeir hæfustu í hópi verkfræðinga halda áfram að flýja land í sívaxandi mæli og leita sér arðvænlegri starfa erlendis. Það er engin tilviljun, að íslenzkir verkfræðingar hafa flykkzt úr landi síðari árin. Nokkra hugmynd um þá hreyfingu má fá af skýrslu, sem Hagstofa Íslands gaf út 1962 um brottflutning fólks frá Íslandi árin 1953–1960. Samkvæmt þeirri skýrslu fluttust af landi burt á þessum 8 árum 25 verkfræðingar, auk 9 tæknifræðinga og 5 náttúrufræðinga, og var brottflutningsástæðan hjá öllum þessum mönnum betri lífskjör erlendis. En það er eftirtakanlegt, að þessi flótti sérfræðinganna var ekki jafn öll árin, 1953–1960. Árið 1957 fór aðeins 1 verkfræðingur burt af nefndri ástæðu og 2 19513. Hins vegar voru það hvorki meira né minna en 9 verkfræðingar, sem flúðu land 1960, á fyrsta viðreisnarári hæstv. ríkisstj., þ.e.a.s. á fyrsta ári viðreisnarinnar flýr land rúmlega þriðjungur þeirra verkfræðinga, sem á þessu 8 ára tímabili fóru úr landi til þess að leita sér betri lífskjara. Því miður kann ég ekki að rekja söguna lengra, því að ég hef ekki séð skýrslur um þetta efni fyrir árin 1961–1963, en ég hygg, að þar muni talsverðan fróðleik að finna um þetta efni.

Hæstv. ríkisstj. getur ekki betur gert en hún gerir til þess að fæla verkfræðingana burt úr landinu og til þess að aftra ungum mönnum frá að leggja út í verkfræðinám. Ég sá það nýlega í blaðafregnum, að austurrískir verkfræðingar leituðu mjög úr landi, einkum til Vestur-Þýzkalands, þar sem þeim byðust betri kjör. Um þetta var rætt í Austurríki og menn þar áhyggjufullir. Það var á það bent í Austurríki og í Vestur-Þýzkalandi, að ástandið í Austurríki væri nú að þessu leyti að verða nokkuð svipað og í Grikklandi, í Portúgal og á Íslandi, og þótti sýnilega langt til jafnað. Af þessu má sjá, að hæstv. ríkisstj. hefur þó tekizt að gera Íslendinga heimsfræga að einu leyti, að því að fæla burt verkfróða menn úr landinu. Ég skal ekkert segja um, hvað því veldur, að verkfræðingafæð er í Grikklandi og í Portúgal, þar sem lýðræði er, eins og kunnugt er, mjög lítið. En á Íslandi er verkfræðingafæðin fyrst og fremst afleiðing þeirrar stefnu ríkisvaldsins að gera hlut allra launastétta sem minnstan.

Ég vil leggja áherzlu á það, áður en ég lýk máli mínu, að með þessu frv., sem liggur hér fyrir hv. d., er brotinn einn af megingrunnstólpum lýðræðis á Íslandi. Grundvallarréttindi frjálsra launþegasamtaka eru tröðkuð í þessum brbl. Þessu tilræði ríkisvaldsins ber að mótmæla harðlega, og skiptir þá ekki máli, hvaða stétt launþega nú á í hlut. Brbl. um þvingunarlausn kjaradeilu verkfræðinga frá í sumar eru til vansæmdar þeim, sem að þeim standa, og áreiðanlega í bráð og lengd til tjóns allri þjóðinni. Það er að setja blett á heiður Alþingis að mínum dómi og stuðla að staðfestingu slíkra brbl. Þess vegna ber að fella þetta frv.