12.03.1964
Efri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hún var skrifuð, hún var á mörgum blöðum, hefur verið á þunnum pappír. En það hefði verið fyrirgefanlegt að halda slíka ræðu, ef hún hefði ekki verið hugsuð og samin fyrir fram, og ég er sannfærður um það, að þeir, sem hlýddu á hv. ræðumann, eru sammála um, að þar var ekki um annað að ræða en rakalaus stóryrði, sem eru sem betur fer orðin sjaldgæf hér í hv. þingi. Þm. venja sig æ meira á það að finna orðum sínum stað og finna einhver rök, láta einhver rök vera að baki fullyrðinganna. En þessi hv. þm. lét það alveg vera að þessu sinni, og það er því meira undrunarefni, að ræðan var fyrir fram samin.

Hv. þm. var að tala um, að það væri orðin föst venja að flytja frv. eða gefa út brbl. vegna kjaramála verkfræðinga. Og hvers vegna hefur þetta verið gert fyrr en nú með þessu frv.? Hv. alþm. vita það. Það hefur verið gert af nauðsyn. Í fyrsta lagi vegna þess, að verkfræðingar hafa ætlað að taka sér rétt fram yfir aðra borgara þessa lands, hafa ætlað að skapa sér önnur og betri kjör en menn með sambærilega menntun hafa átt kost á að hafa. Og þessi brbl., sem hér er um að ræða, eru gefin út 17. ágúst, eftir að algert verkfall verkfræðinga hafði staðið frá 27. júní. Þau eru gefin út, eftir að komið var í algert öngþveiti með alla verkfræðilega þjónustu í landinu, og ef verkfallið hefði haldið áfram og ekki hefði verið unnt að fá verkfræðilega þjónustu, hefðu verklegar framkvæmdir á s.l. haust algerlega Lagzt niður. Þetta lá alveg ljóst fyrir. Svo leyfir þessi hv. þm. sér áðan að segja, að þessi lög hafi verið gefin út, þegar út leit fyrir, að samningar næðust. Það var alls ekki gert fyrr en það þótti sýnt, að samningar næðust ekki. Sáttasemjari ríkisins hafði haldið marga fundi, og á síðasta fundinum, sem haldinn var, stóðu samningar ekkert nær en á þeim fyrsta, og það bar vissulega það mikið á milli, að það þótti sýnilegt, að það bil yrði ekki brúað með samningum. Þess vegna voru þessi lög gefin út, og allur almenningur í landinu fagnaði því, að verkfræðiþjónustan lagðist ekki niður, að það var hægt að halda áfram verklegum framkvæmdum s.l. sumar, það var hægt að halda áfram margs konar byggingum í landinu, það var hægt að halda áfram vegagerðum, það var hægt að halda áfram að ljúka við brúargerðir, það var hægt að halda áfram rafvæðingu landsins, það var hægt að halda áfram símalagningu og eðlilegri símaþjónustu.

En hv. þm., sem talaði hér áðan, fullyrðir, að það hafi verið algerlega óþarfi að vera að gefa út lög, sem tryggðu það, að það væri unnt að halda allri verklegri starfsemi áfram í landinu. Og hann þykist tala sem umboðsmaður verkamanna og alþýðunnar í landinu. Hvernig hefðu hagsmunir verkamanna og launþega verið tryggðir í landinu, ef allar verklegar framkvæmdir hefðu stöðvazt á s.l. sumri? Þessi hv. þm, hefur ekki umboð til þess að tala fyrir verkamenn eða láglaunafólk, enda hefur hann og hans flokkur ætíð sýnt, að það er ekki mögulegt að fá kjarabætur fyrir lægst launuðu mennina. Ef það er reynt, þá sjá þessir hv. menn, hv. þm., sem talaði hér áðan, og hans flokksbræður, venjulega um það, að þeir hæst launuðu fái nokkru meira. Þess vegna hafa þeir lægst launuðu aldrei getað fengið kjarabætur. En það er dálítið hlálegt, þegar hv. þm., sem talaði hér áðan, kemur hér í ræðustólinn með skrifaða ræðu, sem hann væntanlega hefur hugsað eitthvað um, um leið og hann var að skrifa hana niður, þykist tala hér í umboði þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, talar um verkfræðingastétt landsins, eins og hún sé í einhverju svelti. Hann telur, að ríkisstj. kunni ekki að meta verkfræðingana og sérmenntun þeirra.

Það er vitanlega algerlega fráleitt að halda slíku fram. Þessi lög eru út gefin vegna þess, að ríkisstj. viðurkenndi, að við gátum ekki án verkfræðingaþjónustunnar verið. Og verkfræðingar í þessu landi eiga vissulega að vera vel launaðir. Þeir eiga að vera vel launaðir, en þeir geta ekki og mega ekki taka sér þann rétt, sem hinn almenni borgari í landinu hefur ekki: að skammta sér allt önnur og betri kjör en sambærilegar stéttir í þjóðfélaginu hafa. Og verkfræðingar, þótt við metum þá mikils, mega ekki haga sér þannig, að þeir setji allt launakerfi landsins úr skorðum, eins og hefði gerzt, ef þessi lög hefðu ekki verið sett. Og ég er sannfærður um það, að hv. ræðumaður, sem talaði hér áðan, sér þetta, ef hann gefur sér tíma til þess að hugsa málið til hlítar.

Fullyrðingar eins og þá, að ríkisstj. hafi met í stjórnlagabrotum, er náttúrlega ekki ástæða til þess að ræða að þessu sinni. í fyrsta lagi er nú það, að hv. þm. hefur enga sérmenntun í 1ögum eða stjórnlagafræði. En hann vitnaði hér áðan í lögfræðing, ágætan lögfræðing, sem hann telur, að hafi fullyrt þetta. Og ég er sannfærður um, að hv. alþm. vildu gjarnan fá að vita, hvaða lögfræðingur þetta væri, t.d. hvort það væri Páll Magnússon. Það er vitað, að hann fullyrti, að það hefði verið framið stjórnlagabrot, þegar stóreignaskatturinn var settur á. Ekki ætla ég að dæma um það. Og ég ætla ekki heldur að segja neitt um lögfræðiþekkingu Páls Magnússonar. En vegna þess að hv. þm., sem talaði hér áðan, greiddi atkv. með stóreignaskattinum, þá væri fróðlegt að vita, hvort það væri þessi lögfræðingur eða hvort það fyndist nokkur annar en hann, sem staðhæfði þetta.

Hv. þm. sagði, að hugur ríkisstj. til launþeganna birtist í þessu frv. Það má segja það. Hugur ríkisstj. til launþeganna birtist á s.l. sumri með þessu frv., þar sem útgáfa þessara laga tryggði, að það var full atvinna allt sumarið og allt haustið og síðan. En ef lögin hefðu ekki verið gefin út, hefði orðið hér atvinnuleysi.

Svo talar hv. þm. um, að þetta frv. sé stefna ríkisstj. í lífskjaramálum þjóðarinnar. Það má vel vera, að hv. þm. vilji halda því fram, að verkfræðingarnir með sínum kröfum hafi veríð að berjast fyrir sínum nauðsynlegu lífskjörum. Ég vil ekki halda því fram. Ég vil miklu heldur halda því fram, að verkfræðingar hafi viljað með sínum kröfum fá nokkru meira, eins og þeir eiga vissulega skilið, heldur en aðeins það brýnasta, sem þarf til þess að geta lifað. Og hv. þm. ætti að gera sér ljóst, að því aðeins getum við haldið uppi góðum lífskjörum í landinu, að launakerfið fari ekki allt úr skorðum og hér verði unnt hverju sinni að halda uppi eðlilegum og miklum framkvæmdum. Það verður ekki gert, ef einni stétt tekst að skera sig algerlega úr og taka miklu meira en aðrar stéttir, sem hafa hliðstæða eða svipaða aðstöðu.

Hv. þm. talaði mikið um það hér áðan, að verkfræðingar flyttu úr landi, að þeir hafi s.l. 8 ár flutt úr landi, en sízt árin 1957 og 1958. Það var nú kannske eðlilegt, að hv. þm, vildi reyna að einhverju leyti að afsaka vinstri stjórnina og koma því hér að, að hún hefði á einhvern hátt búið betur að verkfræðingum en áður eða á eftir. En þetta er vitanlegs algert vindhögg, því að kjör verkfræðinga bötnuðu ekkert á þessum árum, og ég vefengi þessar tölur hv. þm. algerlega, og þó gæti slík tilviljun hafa átt sér stað, án þess að nokkur aðstöðubreyting hafi orðið í landinu á þessum árum. En einu vil ég algerlega mótmæla, sem hv: þm. sagði hér áðan, sem hreinni fjarstæðu. Ég skrifaði það upp, sem hv. þm. sagði. Hann sagði, að hæfustu verkfræðingarnir héldu áfram að fara úr landi. Ég segi nú: Ef hæfustu verkfræðingarnir hafa farið úr landi síðustu átta árin, mætti skilja það svo, að eftir í landinu væru aðeins þeir lélegustu. Mér finnst þetta algerlega ómakleg árás á þá verkfræðinga, sem eru starfandi í landinu, vegna þess að það er kunnugt, að þar eru margir ágætir og vel starfhæfir menn. Hitt er svo rétt, að úr landinu hafa farið verkfræðingar, það hafa farið læknar, það hafa farið verzlunarmenn, það hafa jafnvel farið sjómenn, það hafa jafnvel farið verkamenn úr landinu. En fólksflutningar frá landinu eru þó með minnsta móti nú, sem betur fer, ég segi: betur fer, vegna þess að okkur vantar fólk. Við erum raunverulega of fámennir til þess að vinna þau störf, sem fyrir hendi eru og núv. ríkisstj. hefur lagt sterkari grundvöll að en nokkru sinni áður, vegna þess að aldrei hefur verið blómlegra atvinnulif á Íslandi en nú síðustu 3–4 árin. Og það veit ég, að hv. þm. viðurkennir. Það ber ekki á atvinnuleysi nú á Íslandi, en það var nokkuð algengt á dögum vinstri stjórnarinnar, að í hinum ýmsu kauptúnum úti um land væri atvinnuleysi.

Það er nú ástæðulaust að vera að segja meira í tilefni af ræðu hv. þm. Það er ekkert þar að finna, sem eru stoðir í, heldur aðeins fullyrðingar, sem detta um sjálfar sig algerlega. Og ég er sannfærður um það, að hv. þm., sem hugsa á raunhæfan hátt út í þessi mál, viðurkenni það í hjarta sínu, að það var nauðsynlegt að setja þessi lög. Ég veit, að verkamenn og allur almenningur í landinu fagnaði l. og gerir sér ljóst, að ef verkfall verkfræðinga hefði haldið áfram s.l. sumar og ríkisstj. hefði ekki kippt í taumana, hefðu verklegar framkvæmdir stöðvazt og af því hefði skapazt atvinnuleysi og fólkið hefði ekki fengið þau þægindi, sem það hefur fengið með því að ljúka hinum mörgu framkvæmdum, sem á döfinni voru á s.l. ári. Og með því að staðfesta þessi lög er lagður grundvöllur að því, að við getum einnig á næsta sumri notið hinnar nauðsynlegu verkfræðiþjónustu og haldið hinum nauðsynlegu framkvæmdum uppi og atvinnu, sem fólkið ætlast til að verði á hverjum tíma.