09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið alllengi til meðferðar hér í allshn. þessarar hv. d., og hefur niðurstaða af þeirri athugun orðið sú, svo sem nál. á þskj. 603 ber með sér, að n. hefur ekki orðið sammála um afstöðu til málsins. Þrír nm. mæla með því, að frv. verði samþ. með tilteknum breyt., en tveir nm. leggja til, að frv. verði fellt.

Allshn. ræddi frv. þetta við fulltrúa frá Verkfræðingafélagi Íslands annars vegar eða fulltrúa þeirra aðila, sem mega teljast verktakar eða hafa sjálfstæða starfsemi og gjaldskrárreglur fyrst og fremst taka til, þær sem frv. fjallar um, og hins vegar fulltrúa frá Stéttarfélagi verkfræðinga.

Það var sérstaklega innt eftir því við fulltrúa Stéttarfélags verkfræðinga, hvort hugsanlegt væri eitthvert samkomulag við þá um afgreiðslu málsins. En því var afdráttarlaust lýst yfir af þeirra hálfu, að það eina, sem þeir gætu fellt sig við, væri það, að frv. yrði ekki samþ. og félli úr gildi. Báðir þessir hópar l,ýstu sig andvíga frv. og töldu, að með því væri réttur brotinn á verkfræðingastéttinni, sem ekki væri hægt við að una.

Þar sem ljóst var af þessum viðtölum, að samkomulagsgrundvöllur var ekki um neina afgreiðslu málsins á þann hátt, sem meiri hl. n. taldi mögulegan, og það var algert skilyrði af verkfræðinga hálfu, að lögin næðu ekki fram að ganga, þá töldum við í meiri hl. n. ekki grundvöll til að ræða það mál nánar, og byggist nái. okkar á þeirri grundvallarskoðun, sem við höfum á málinu, út frá þeim forsendum, sem áður hefur verið lýst, og niðurstöðu þessara viðræðna við fulltrúa verkfræðinga.

Þegar frv. var lagt hér fyrir hv. d., gerði hæstv. samgmrh. grein fyrir því og lýsti ástæðum þess, að bráðabirgðalögin, sem frv. er til staðfestingar á, voru upphaflega sett. Ég skal ekki fara að rekja þau málsatvik, en meiri hl. n. getur fyrir sitt leyti fallizt á, að rökin fyrir setningu laganna hafi verið rétt, þannig að óumflýjanlegt hafi verið á sínum tíma að gefa út þessi brbl. til þess að leysa þessa alvarlegu deilu.

Það er hins vegar ákveðin skoðun okkar í meiri hl. n., að það sé mjög hörmulegt að þurfa að grípa til slíkra ráðstafana, að leysa deilur á þann veg, sem hér hefur verið gert, og það sé mjög hörmulegt, að það skuli hafa verið svo um allmargra ára bil, að það hafa verið ítrekaðar deilur í sambandi við kjaramál verkfræðinga, sem hafa leitt til þess, að grípa hefur þurft af ríkísvaldsins hálfu inn í kjaramálin, svo sem öllum hv. þm. er kunnugt um, og vissulega er þess að vænta, að í framtíðinni sé auðið að finna þann grundvöll fyrir starfsemi þessarar óneitanlega mjög þýðingarmiklu stéttar í þjóðfélaginu, að ekki þurfi að grípa inn á kjaramál þeirra með svipuðum hætti og hér hefur orðið að gera.

Það er hins vegar skoðun meiri hl. n., —enda kom sú skoðun fram í hv. Nd. og var þar gerð breyt. á frv. í samræmi við það viðhorf, — að það sé vitanlega ekki með löggjöf sem þessa auðið að láta hana gilda til frambúðar, þannig að unnt sé að ákveða í eitt skipti fyrir öll, að skipun kjaramála verði á þann veg. Nú mun það að vísu aldrei hafa verið ætlunin með þessum brbl., að svo yrði. En það er að sjálfsögðu þá nauðsynlegt að tímabinda lögin, þannig að ótvírætt komi í ljós, að þau skuli ekki gilda nema til tiltekins tíma, og niðurstaðan hefur orðið sú, að við leggjum til í meiri hl. n., að gildistími laganna verði til ársloka 1365. Auðvitað má endalaust um það deila, hvaða tímamark eigi að velja í efnum sem þessum, en ástæðan til þess, að þetta tímamark er valið, var af okkar hálfu, að þá falla úr gildi launasamningar opinberra starfsmanna, en skv. þeim brbl., sem sett voru, var gert ráð fyrir, að hliðsjón yrði höfð af þeim kjörum, sem þeim voru ákveðin, og gerðardómur hefur kveðið upp sinn úrskurð með hliðsjón af þeim kjörum opinberra starfsmanna. Þetta veldur því, að við höfum gert ráð fyrir og leggjum til, ekki aðeins að þessi tilteknu ákvæði laganna verði takmörkuð við þann tíma, heldur að lögin beinlínis falli úr gildi í árslok 1965, og verður vissulega að vænta þess, að það verði þá fundinn sá grundvöllur að þessum málum, að ekki þurfi að grípa til slíkra aðgerða í framtíðinni.

Ég vil svo taka það fram með hliðsjón af þeim viðræðum, sem fóru fram milli fulltrúa frá verkfræðingum og n., að þar kom fram af hálfu fulltrúa Verkfræðingafélagsins, að varðandi gjaldskrána væri það mjög bagalegt, að þar væri ekki gert ráð fyrir að hafa möguleika til þess að endurskoða hana, einkum með hliðsjón af því, að það væru alltaf að koma fram ný atriði, sem gjaldskráin gerði ekki ráð fyrir. Þó að það sé ekki beint tekið fram í þessum lögum, þá vil ég, að það komi fram sem skoðun meiri hl, n. — og ég vænti raunar n. allrar, þó að ágreiningur hafi orðið um grundvallaratriði málsins, að það beri að líta svo á, að ef vandræði stafa af þessum sökum, þá eigi gerðardómurinn að ákveða um slík atriði sem viðbætur við þessa gjaldskrá, því að það er auðvitað fjarri öllu lagi og má ekki koma fyrir, að þetta verði til þess að hindra það, að það sé með eðlilegum hætti hægt að starfa að atriðum, sem gjaldskráin ekki beinlínis nær til.

Við teljum einnig sjálfsagt að túlka svo ákvæði laganna um endurskoðun á launakjörum verkfræðinga, að ef kjaradómur á tímabili gildistíma laganna fellir úrskurð um breytingu á kjörum opinberra starfsmanna, þá gildi það ákvæði að sjálfsögðu einnig um endurskoðun gjaldskrár, þó að það sé ekki beinlínis tekið fram, en ætti þó í rauninni að leiða af eðli málsins.

Ég hygg, að ekki séu fleiri atriði, sem sérstaklega þurfi að ræða um, nema síðari umr. og grg. hv. minni hl. gefi þá tilefni til þess, því að till. okkar í meiri hl. n. er einfaldlega sú, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem við gerum, og jafnframt viljum við láta í ljós þá von, að þær aðstæður þurfi ekki að skapast að nýju, að til slíkra aðgerða þurfi að koma. Það er ekki endalaust hægt að leysa kjaramál með þessum hætti, og það er auðvitað hin mesta nauðsyn, að það verði fundinn þarna viðunandi starfsgrundvöllur, bæði varðandi verkfræðingana sem launþega og einnig fyrir þá, sem reka sjálfstæðar verkfræðiskrifstofur. Og við vitum það öll, að starfsemi þessarar stéttar er ómissandi fyrir okkar litla þjóðfélag, og það er eitt, sem við auðvitað verðum að gera okkur grein fyrir, að verkfræðingar hafa nokkra sérstöðu vegna síns náms, að þeir hafa í rauninni að segja má, ef þeir vilja sýna óbilgirni, þá hafa þeir töluvert góða aðstöðu til þess vegna sinnar algildu menntunar, sem ekki aðeins gildir hér í þeirra þjóðfélagi eða okkar hér, heldur hefur a]þjóðlega þýðingu. Þess er því mjög að vænta, að það verði af þeirra hálfu þess gætt að sýna ekki óbilgirni í trausti þessarar aðstöðu sinnar, og jafnframt er þá að sjálfsögðu eðlilegt, að þeir vænti þess á móti, að skilningur sé sýndur á því, sem eru sanngjarnar óskir þeirra um eðlileg kjör þeim til handa.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið, en við í meiri hl. leggjum til, að það verði afgreitt svo sem ég hef hér skýrt frá.