09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Frsm. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef sáralitlu að svara því, sem fram hefur komið í þessum umr. Það, sem ráðh. sagði um þetta mál, var svo almenns eðlis, að það gefur eiginlega ekki tilefni til frekari umræðna. Hann reyndi, sem vonlegt var, að réttlæta útgáfu þessara brbl., en tókst það nú ekki að mínum dómi.

Hann taldi, eins og hann hefur áður talið, að það hafi verið brýn þörf að grípa til þessara brbl., og hann andmælti því, að samningar hefði verið í þann mund að takast, þegar þau voru gefin út, og hneykslaðist jafnvel á því, sem ég sagði um þetta, og þóttist vita þar miklu betur en ég.

Nú tók ég það rækilega fram í minni frumræðu, að ég gæti persónulega ekki um þetta sagt, af því að ég tók engan þátt í þessum samningum og veit ekki, hvað þar fór fram. En hins vegar liggur fyrir í bréfum frá verkfræðingum, að þeir staðhæfðu, að svo hafi verið. Og hið sama kom fram á fundum þeim, sem þeir áttu við allshn.

Þetta hefur komið frá öðrum aðilanum, sem tók þátt í þessum samningum, — staðhæfing um það, að á þessu stigi hafi málum þannig verið háttað, að það hafi verið komið los á atvinnurekendur, sumir þeirra hafi verið algerlega reiðubúnir til að ganga til samninga, og það hafi verið útlit fyrir, að samningar mundu takast á næsta leiti. Það hefur hins vegar ekki komið fram stakt orð frá hinum samningsaðilanum, sem tók þátt í þessum umr., um að andmæla þessu. Hæstv. ráðh. hefur ekki getað lagt fram eitt einasta orð frá þeim ýmsu aðilum, sem voru samningsaðilar hinum megin við borðið, þegar verkfræðingar sátu á samningafundum með þeim fyrir tilstilli og með aðstoð sáttasemjara ríkisins. Hæstv. ráðh. segist bara vita þetta, en hann hefur ekki leitt nein vitni að því. Og á meðan hann gerir það ekki, vil ég hafa fyrir satt það, sem Stéttarfélag verkfræðinga og stjórn þess hefur um þetta sagt.

Hæstv. ráðherra lét sem hann væri hneykslaður á þeim ummælum, sem ég hafði viðhaft um gerðardóm og þess efnis voru, að gerðardómur hefði virt að vettugi þau fyrirmæli, sem honum voru gefin í 2. mgr. 2. gr. þessara brbl. um það, að gjaldskráin skyldi miðuð við gjaldskrána frá 1955.

Nú hefur verið svo rækilega endurtekið af hv. 9. þm. Reykv. um staðreyndirnar í þessu máli, að það er nú óþarfi, að ég fari að endurtaka það, en ég vil bara segja, að vitaskuld voru ekki í mínum ummælum nein ámæli til gerðardómsins, heldur mátti segja það, að ég segði honum þetta miklu frekar til lofs, að hann komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki hægt að fara eftir þessari gjaldskrá frá 1955. En fyrst og fremst skírskotaði ég auðvitað til þessa til þess að sýna og draga fram þann áfellisdóm, sem gerðardómurinn með þessum orðum kvað upp yfir hinum fyrri brbl. hæstv. ráðherra, brbl. um hámarksþóknun verkfræðinga, þar sem sagt var, að gjaldskráin frá 1955 skyldi áfram um eilífðartíma vera í gildi. En ári síðar kemst gerðardómur að þeirri niðurstöðu, að sum ákvæði þeirra gjaldskrár séu orðin algerlega úrelt og óviðunandi, og kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé ómögulegt við hana að miða, það sé ómögulegt að hafa hliðsjón af henni við ákvörðun gjaldskrár. Það verði að leggja til grundvallar þá gjaldskrá, sem samin var af sjálfu verkfræðingafélaginu og felld var úr gildi með brbl.

Já, þetta er þungur dómur hjá gerðardóminum yfir gerðum hæstv. ráðherra. Það er vissulega meiri ástæða fyrir hæstv. ráðherra að senda þeim gerðardómi kaldar kveðjur heldur en mig, því að ég hef enga ástæðu til þess. En þetta, sem gerðardómurinn gerði, verður vitaskuld ekki kallað öðru nafni en því, sem ég sagði: að sniðganga, þverbrjóta bókstaf laganna. En vitaskuld kemur það fyrir, því miður, að lög eru sett, sem ómögulegt er að fara eftir bókstaflega, og þá verða skynsamir dómendur að víkja þeim til hliðar og leggja í þau þann skynsamlegasta skilning, sem þá er hægt. Það er þeirra hlutverk.

Þeir voru að tala um það, bæði hæstv, ráðherra og hv. 9. landsk. þm., að það væri svo hér á landi, að það hefði engin stétt sjálfdæmi um sín kjör, og töldu upp ýmsar stéttir, bændur, sjómenn, o.s.frv. Því er til að svara, að ég veit ekki til þess og það hefur ekki komið fram í þessu máli, að Stéttarfélag verkfræðinga óskaði eftir neinu sjálfdæmi um kaup og kjör sín. Það félag óskar bara einfaldlega eftir sama rétti og önnur stéttarfélög. Það óskar eftir samningsrétti um kaup og kjör. Það óskar eftir rétti til þess að mega semja við atvinnurekendur, óskar ekki eftir neinu sjálfdæmi. Það má að vísu frekar segja, að því er gjaldskrána varðar, að þá sé þar um sjálfdæmi að ræða. En það er eins og sýnt hefur verið fram á og hv. 9. landsk. gerði mjög góða grein fyrir og ég hafði bent á í minni framsöguræðu, að því er einmitt svo háttað yfirleitt um þessar gjaldskrár, að þær eru settar af sjálfdæmi. Og hv. 9. landsk. viðurkenndi, að það væri ekkert réttlæti í að setja verkfræðinga við annað borð að þessu leyti heldur en aðra. Hann sá að vísu leið í því, þá að færa hina niður á plan verkfræðinganna að þessu leyti, ef ekki fengist önnur lausn á því.

Hæstv. ráðherra var að gera því skóna, hvaða hvatir lægju til þess hjá mér og okkur, sem stöndum að áliti minni hl., að taka í þessu efni upp hanzkann fyrir verkfræðinga, og hann var að gera því skóna, að við værum á einhverjum biðilsbuxum, að mér skildist, hjá verkfræðingum og ætluðum að fá einhvern pólitískan ábata af þessu, auknar vinsældir hjá þeim, þar sem hann aftur á móti var karlmannlegri og kvaðst reiðubúinn að taka á sig óvinsældir, sem af þessu stöfuðu, nú um ókomna tíð, en bjóst samt við, að þær mundu ekki vara lengi. Þetta er misskilningur hjá hæstv. ráðherra. Það eru ekki neinar pólitískar hvatir, sem liggja að baki þessarar afstöðu hjá okkur. Ég geri ráð fyrir og veit það reyndar með vissu, að verkfræðingar, eins og eðlilegt er, skiptast milli ýmissa stjórnmálaflokka, sjálfsagt einhverjir framsóknarmenn — og ég vona sem flestir — í þeirra hópi. En ég geri mér nú ekki í hugarlund og hef ekki þá skoðun á verkfræðingum, að þeir færu að skipta um stjórnmálaflokk vegna þessa máls eins. (Gripið fram í.) Jæja, það má vera. Þá er það gott. En það er ekki af þeirri sök, sem við í minni hl. tökum þessa afstöðu. Enda er sannleikurinn sá, ef maður talar hreinskilnislega um þetta, þá er alveg óvíst, hver afstaða er líklegri til pólitísks fylgis almennt séð, því að það er nú þannig, því miður, að það gengur mörgum hjá okkar þjóð illa að viðurkenna það, að vissir aðilar í þjóðfélaginu verði að bera allmiklu meira úr býtum en aðrir. Það er pólitískt ekkert óvinsælt á ýmsum fundum að prédika það, að þessir og þessir hafi of há laun. Það er mál, sem út af fyrir sig er ekkert óvænlegra til fylgisaukningar almennt séð, og það er kannske það, sem hæstv. ráðherra hefur þá í huga, að því er hann sjálfan varðar og málstað hæstv. ríkisstj.

Nei, það er ekki af þeim ástæðum, sem við tökum þessa afstöðu í þessu máli. Það er bara réttlætissjónarmið, sem við fylgjum hér fram, og það réttlætissjónarmið er í algeru samræmi við þá afstöðu, sem við höfum tekið í öðrum málum af sams konar tagi. Það er því miður ekkert einsdæmi nú á síðustu og verstu tímum, að það hafi verið gripið til gerðardóms. Það hefur einmitt verið eitt hið mest áberandi einkenni á þessari hæstv. ríkisstj, sem nú situr, að hún hefur sífellt legið í stríði við ýmsar starfsstéttir, og hún hefur oft, því miður mjög oft, gripið til þess örþrifaráðs að veifa valdinu að lokum gagnvart þeim stéttum og grípa til gerðardóma. Það mætti nefna mýmörg dæmi þess, en ég ætla ekki að fara að tefja tímann á því hér, þau eru öllum í fersku minni.

Framsfl. hefur verið alveg á móti öllum slíkum gerðardómum. Það má segja, að hann hafi einu sinni verið með því að gripa til slíks gerðardóms. Það var árið 1942, ef ég man rétt, eða 1941. Þá fékk hann af því vissulega reynslu, og hann dró að mínu viti réttan lærdóm af því, sem þá skeði, og hann hefur yfirleitt ekki léð máls á því síðan að vera með lögþvinguðum gerðardómum. Auðvitað gegnir allt öðru máli um þá gerðardóma, sem stéttir koma sér saman um, því má ekki blanda saman, eða stéttir fallast á, eins og t.d. opinberir starfsmenn gerðu á sínum tíma varðandi kjaradóminn. Það þarf þess vegna ekki að undra neinn, að við framsóknarmenn erum andvígir þessum gerðardómi. Við erum almennt andvígir lögþvinguðum gerðardómum um kaup og kjör. Við erum fyrst og fremst á móti þessu af „prinsip“ástæðum, en auk þess á allt það, sem ég hef um þetta sagt og hv. 9. þm. Reykv., við um það, hversu hættulegt það er og hversu örlagaríkar afleiðingar það getur haft að grípa til þessa ráðs gagnvart verkfræðingum, sérstaklega vegna þess, að þeir eru með þessu lagðir í einelti á þann hátt, sem lýst hefur veríð, að það er ekki bara í eitt skipti, sem gripið hefur verið til þessa gagnvart þeim, heldur er þetta í annað sinn. Og það fást alls engar yfirlýsingar um, að það verði ekki gripið til þessa ráðs endranær.

Hæstv. ráðherra sagði, að þegar þessi lög rynnu út eftir till. meiri hl. allshn., þá vænti hann þess, að það væri hægt að semja við verkfræðinga, en ef ekki tækjust þá þeir samningar, sem honum þóknaðist, þá mátti skilja það á hæstv. ráðherra, að það væri engan veginn .óráðlegt, að í þriðja skipti þyrfti að grípa til slíks gerðardóms gagnvart verkfræðingum. Ég held, að þessi hugsunarháttur sé hættulegur. Ég held, að hugsunarháttur hæstv. ríkisstjórnar sé yfirleitt hættulegur í þessum málum. Hann einkennist allt of mikið af einstrengingshætti og ofríkishugsunarhætti, af valdboði. Það er ekki heppilegt. Það verður að leysa svona mál með öðrum hætti. Þess vegna hefði það að mínum dómi verið, eins og ég hef áður tekið fram, langheppilegast; að þetta mál hefði verið látið daga uppi, og ég harma það, svo að maður noti þau orð, sem hér hefur oft borið á góma í þessum umr., — ég harma það, að hæstv. ráðherra og hans stuðningsmenn skyldu ekki sjá sér þann kost vænstan að velja þá leið. Og það er glöggt, að sumir í þeirra hópi hafa þó litið þá leið hýru auga, ef ég mætti svo segja, því að ég vil ljúka þessum orðum á því að undirstrika alveg sérstaklega þau orð, sem hv. 9. landsk. þm. sagði hér. Hann vænti þess, sagði hann, að þegar þessi lög væru úr gildi fallin, — „þá tel ég miklu líklegri leið til sátta og friðar,“ — það er sannleikurinn, þegar þessi lög eru úr sögunni og dauð, þá er miklu líklegri leið til sátta og friðar í þeim kjaradeilum, sem verkfræðingar hafa orðið að halda uppi, og það hefði verið langlíklegasta leiðin til fullra sátta í þessu efni að láta þau falla þegar úr gildi með þeim hætti að láta þau daga hér uppi.

Ég vil að lokum segja það, að ég álít, að okkar þjóðfélag, eins og það er á vegi statt, megi ekki við því að eiga í stríði við verkfræðinga.