13.12.1963
Efri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir álit fjhn. og legg til, að frv. ríkisreikningsins 1962 verði samþykkt. Með því segi ég ekki, að ég sé efnislega samþykkur öllu því, sem reikningurinn ber með sér að gert hefur verið. Það, sem á reikninginn er fært, er orðinn hlutur. Töluleg endurskoðun getur varla orðið nein hjá Alþingi. Alþingi verður að treysta því, að endurskoðunardeild stjórnarráðsins sjái um, að tölur séu rétt upp teknar, rétt lagt saman o. s. frv. Þá kýs og Alþingi árlega þrjá yfirskoðunarmenn ríkisreikninga og kýs þá hlutfallskosningu, þ.e.a.s. sú kosning er pólitísk. í 43. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi hæstv.forseta:

„Yfirskoðunarmenn þessir eiga að gagnskoða árlega reikninga um tekjur og gjöld landsins og gæta þess, hvort tekjur landsins séu þar allar taldar og hvort nokkuð hafi verið af hendi greitt án heimildar. Þeir geta, hver um sig, tveir eða allir, krafizt að fá allar skýrslur þær og skjöl, sem þeim þykir þurfa. Síðan skal safna þessum reikningum fyrir hvert fjárhagstímabil í einn reikning og leggja fyrir Alþingi frv. til l. um samþykkt á honum og aths. yfirskoðunarmanna. Rétt er yfirskoðunarmönnum að fá að sjá reikninga og bækur ríkisféhirðis og sömuleiðis stjórnarráðsins fyrir ár það, sem er að líða eða liðið er. Þyki þeim nokkuð athugavert, skulu þeir gera eftirmönnum sínum vísbendingu um það skriflega.“

Þannig segir stjórnarskráin um yfirskoðunina og yfirskoðunarmenn og starfsemi þeirra. Og það er ljóst af þessum orðum stjórnarskrárinnar, þó að þau séu að vísu nokkuð liðinstímaleg, að yfirskoðunarmenn þeir, sem Alþingi kýs, eru þeir trúnaðarmenn Alþingis, sem það verður að setja traust sitt á auk endurskoðunardeildarinnar um, að reikningur ríkisins sé réttur.

Yfirskoðunarmennirnir endurskoða tölulega og þó ekki síður sem gagnrýnendur að því er snertir framkvæmdir fjárl. og greiðslur utan fjárlaga, sem alltaf vilja verða meiri og minni. Það, sem sjálfsagt er að athuga, þegar ríkissjóðsreikningurinn er lagður fram til samþykktar, er þá fyrst og fremst, hvaða aths. fylgja honum frá yfirskoðunarmönnunum. Auðvitað er líka sjálfsagt fyrir hv. alþm. að kynna sér reikninginn sem bezt og athuga, hvernig fylgt hefur verið fjárl., og kynna sér þá sögu, sem reikningurinn segir af þeirri ríkisstj., sem með framkvæmd fjármála ríkisins fer hverju sinni.

Augljóst er, að ekki er hægt að vera fljótur að gera þvílíka athugun, svo ýtarleg sem hún ætti að vera. Í því sambandi vil ég segja það, að þótt ágætt sé fyrir Alþingi að fá ríkisreikninga til athugunar sem fyrst að loknu hverju reikningsári, er það ekki nóg. Það þarf líka að gefa Alþingi tóm til að athuga reikninginn. Segja má, að þessi ríkisreikningur sé snemma á ferð, og er það ágætt. En sagt er, að ætlun hæstv. fjmrh. sé að fá afgreiðslu á honum lokið á Alþingi fyrir jól, og það finnst mér óforsvaranlega stuttur tími, sem Alþingi er með því ætlaður til að fjalla um reikninginn, jafnhliða þeim miklu önnum, sem nú eru á Alþingi við undirbúning og afgreiðslu fjárlaga fyrir n. k. ár. Út á þetta leyfi ég mér að setja. Ég sé ekki heldur, að þetta hafi aðra þýðingu en að stofna til hroðvirkni af hálfu Alþingis. Reikningurinn yrði álíka nýr og ófyrndur, þótt hann biði fram yfir áramótin endanlegrar afgreiðslu á þingi. En þrátt fyrir þetta skrifaði ég undir nál. í fyrradag og mæli með samþykkt frv. nú. Það geri ég vegna þess, að ég er friðsamur og vil ekki stofna til ófriðar um þetta mál, þykir naumast taka því.

Hins vegar áskildi ég mér rétt til aths. eins og aðrir hv. nm. í fjhn. og hef nú þegar lýst þeirri aths., að ég tel hæstv. fjmrh. og stuðningsmenn hans leggja of mikla og óviðeigandi áherzlu á að sigla þessu frv. eins og hraðbát gegnum þingið. Því liggur, eins og ég sagði áðan, að mínu áliti ekki það á, að ekki megi athuga farminn, sem það flytur, eins og til er ætlazt að gert sé. En til þess að framkvæma slíka athugun vannst enginn tími í fjhn. þessarar hv. deildar.

Líti maður nú á rekstrarreikning ríkissjóðs, sést, að tekjur ríkissjóðsins hafa farið rúmlega 300 millj. fram úr áætlun 1962, en það virðist mér vera hátt á 18. prósent. Mestu munar þar á því, sem tollar og skattar hafa hækkað. Þar er hækkunin frá áætlun 282 millj., eða nærri því, að hækkunin sé 1/5 hluti frá áætlun. Kemur þar auðvitað til bæði aflagóðæri, sem leiddi af sér mikinn innflutning, og svo verðbólgufarganið, sem yfir okkur gekk og gengur.

Rekstrarhagnaðurinn varð 184.4 millj. kr. meiri en hann hafði verið áætlaður. Um 118 millj. fóru í hækkun rekstrarkostnaðarins.

Þegar athugaðir eru einstakir kostnaðarliðir, sést t.d., að stjórnarráðskostnaður hefur hækkað um rúmlega 4 millj. kr. frá áætlun, eða úr 22.2 millj. í ca. 26.6, og er það hlutfallslega mikið. Manni kemur í hug Parkinsonslögmálið. Samgöngur á sjó hafa hækkað um 1/3 frá áætlun, en þar með mun eitthvað hafa verið fært til útgjalda, sem ekki kom til reiknings 1961, og dregur það út af fyrir sig úr hækkuninni, sem tilheyrir þessu ári beinlínis. Til eru liðir, sem fara í heild svo að segja eftir áætlun, t.d. kennslumálin, og er þar þó um háan lið að ræða eða 223 millj. Enn fremur eru til liðir, sem koma lægra út en áætlað var. Má þar helzt nefna 16. gr. A., landbúnaðarmál. Lækkunin er rúmlega 4 millj. kr. Hún stafar af því, að jarðræktarframlag lækkar úr 14 millj. í áætlun í 12 millj. í framkvæmd og tillag til framræslu úr 12 millj í áætlun í 10 millj. í framkvæmd. Þetta sýnir samdrátt þann, sem átt hefur sér stað í þessum framkvæmdum, og sýnir hann óumdeilanlega. Stórkostleg hækkun má segja að hafi orðið á 19. gr. l. Það er til niðurgreiðslu á vöruverði og uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, eða 300 millj. í áætlun hafa orðið í reynd 378 millj. kr. Þessar tölur sýna, að uppbótakerfið svonefnda, sem hæstv. núv. ríkisstj. fordæmdi, þegar hún tók við völdum, Lifir býsna góðu lífi í höndum hennar. Hlutfallslega mest hækkun virðist mér þó hafa orðið á 19. gr., 4. lið. Hann er óviss útgjöld. Þar hafa 10 millj. orðið 13.5 millj., eða 33% hækkun. Á það þar sinn ríka þátt, hve hæstv. ríkisstj. hefur verið ör á greiðslur til ýmissa nefnda, sem hún hefur sett á laggir, og að því kem ég síðar í sambandi við aths. yfirskoðunarmanna. Greiðsluhagnaðurinn á árinu varð 161.7 millj. eða rúmlega helmingur þess, sem tekjur fóru fram úr áætlun. Af þeirri fjárhæð hefur hæstv. fjmrh. lagt 100 millj. kr. í varasjóð, og skal síður en svo af mér að því fundið. En 67.1 millj, kr. ætti að vera óráðstafað eftir reikningnum að dæma.

Ríkisreikningnum fylgja, eins og hv. frsm. n. sagði áðan, aths. yfirskoðunarmanna, svör ráðh. við þeim aths. og að lokum ályktanir yfirskoðunarmanna út af svörum ráðh. eða að þeim fengnum. Upphaflegar aths. yfirskoðunarmanna eru í 38 greinum og svör hæstv. ráðh. í allmörgum töluliðum. Ég vil nú minnast á nokkrar þessar aths. og leyfi mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa þær upp úr þessari bók: Ríkisreikningurinn fyrir árið 1962.

Fyrsta aths., sem ég ætla að minnast á, er sú 18., á bls. 264 í bókinni. Hún er svo hljóðandi: „Samkv. fjárlögum eru ætlaðar kr. 21063 000.00 til utanríkismála, en samkv. ríkisreikningnum hafa þessi gjöld numið kr. 22340 684.00. Fyrir fram er vafalaust ekki auðvelt að segja nákvæmlega fyrir um það, hver kostnaður þessara mála þarf óhjákvæmilega að vera, sakir þess hve erindisrekstur þeirra kann að vera mikill og margvíslegur. Þannig er t.d. á fjárlögum ferðakostnaður áætlaður 509 þús. kr., en verður samkv. ríkisreikningnum kr. 1333 452.45. Eins og ástatt er nú orðið um viðskipti þjóða á milli og erindisrekstur, verður ekki hjá því komizt að sinna slíkum málum af hálfu ríkisvaldsins, en gæta ber þess til hins ýtrasta, að allrar aðgæzlu sé gætt um meðferð fjármuna og ekki sé eytt meira fé en óhjákvæmilegt er.“

Mér virðist, að þessi hækkun á ferðakostnaðinum sé um 140%. Hæstv. ráðh. svarar þessari aths. á þessa leið: „Utanrrh. svarar aths. með eftirfarandi grg.“ Hann á vitanlega að svara fyrir þessa liði: „Fjmrn. hefur sent utanrrn. aths. yfirskoðunarmanna út af því, að kostnaður við utanríkismál hefur orðið kr. 22 340 684.00, en að áætlun hafi numið kr. 21063 000.00, eða m. ö. o., að farið hafi verið fram úr áætlun um kr. 1277 684.00. Aðalástæðan til þess, að svona hefur farið, er sú, að ferðakostnaður varð venju fremur hár að þessu sinni og fár um kr. 824 452.45 fram úr áætlun, eins og vikið er að. Þessi kostnaðarliður hefur raunar undanfarin ár farið vaxandi vegna aukinnar þátttöku í alþjóðaráðstefnum og vegna verzlunarsamninga, án þess að þess hafi verið gætt sem skyldi að fá hann hækkaðan á fjárlögum.“

Þetta segir utanrrh. Áreiðanlega, er full ástæða til þess fyrir Alþingi að hafa hér gát á. Yfirskoðunarmenn segja, er þeir hafa fengið þetta svar: „Upplýst með svarinu. Hafa ber strangar gætur á meðferð þessara mála og að ekki sé eytt til þeirra um skör fram. Málið er því til athugunar framvegis.“ Ég tel sjálfsagt, að hv. þd. vilji taka undir þessa aths. endurskoðenda og telji hæstv. ríkisstj. skylt að hafa þetta til athugunar framvegis.

Þá er aths. 21 á sömu bls. Þar stendur: „Yfirskoðunarmenn veittu því athygli, að engar greiðslur eða lán eru færð á reikning ríkisins vegna þeirra framkvæmda, sem byrjað var á á árinu 1961 og haldið áfram á árinu 1962 á Reykjanesbraut. Upplýst hefur verið, að lán hafi verið tekið til þessara framkvæmda. Eins og venja er til, hefði átt að færa þetta í eignaskýrslu ríkisins, bæði eigna- og skuldamegin, og kostnaður við framkvæmd verksins að færast á reikning ríkisins og vegamálanna á 13. gr. Af hverju hefur þetta ekki verið gert?“ Þetta segja yfirskoðunarmenn. Hér er efni, sem var til umr. í sambandi við síðasta reikning eða ríkisreikninginn 1961, því að þá hafði bæði verið tekið lán til þessarar framkvæmdar og unnið að vegagerð. Þá var því svarað, að þetta hefði orðið á ýmsan hátt svo síðbúið við ársuppgjör, að það hefði ekki komizt inn á reikninginn hjá vegagerðinni, en yrði lagfært á árinu 1962. Nú gera yfirskoðunarmenn þessa aths., sem sýnir, að þetta hefur ekki verið gert, eins og heitið hafði verið árið 1962. Samgmrn. svarar aths. þannig: „Í eignahlið efnahagsreiknings vegamálanna fyrir árið 1961 (bls. 148 í ríkisreikningi) eru útistandandi skuldir taldar kr. 9 643 784.98. Innifalið í þeirri upphæð er kostnaðarverð Reykjanesbrautar í árslok það ár, þ. e. kr. 7 821922.67. Í skuldahliðinni eru skuldheimtumenn taldir með kr. 18 019 055.66, en þar af eru 9 millj. 700 þús. kr. lán Framkvæmdabankans vegna Keflavíkurvegar, eins og það var í árslok 1961. Mismunur þessara upphæða, þ. e. lánsins til Framkvæmdabankans og kostnaðarverðs vegarins, kemur því einnig fram í höfuðstól vegagerðarinnar, sem er nettó kr. 37 791875.98, sbr. bls. XII í ríkisreikningi 1961. Á sama hátt er í eignahlið efnahagsreiknings vegamálanna fyrir árið 1962 (bls. 184 í ríkisreikningi) innifalið í útistandandi skuldum, sem þar eru kr. 38 414 495 97, kostnaðarverð Reykjanesbrautar í árslok 1962, kr. 37 371907.36, en í skuldahlið efnahagsreiknings eru á sama hátt innifaldar kr. 35 085 073.34 í útistandandi skuldum, sem alls eru kr. 42 988 978.22 í árslok það ár. Mismunur þessara talna kemur að sjálfsögðu inn í höfuðstól stofnunarinnar á eignaskýrslu, kr. 48 465172.96. Samkvæmt framansögðu innifelur efnahagsreikningur vegamálanna bæði kostnaðarverð Reykjanesbrautar og skuldir vegna hennar hin umræddu ár, jafnframt því sem mismunur á þessu tvennu, raunveruleg skuld 1961, er nemur kr. 1878077.33, og raunveruleg eign síðara árið, að upphæð kr. 2 286834.02, koma fram í tilgreindum höfuðstól stofnunarinnar á eignaskýrslu.“

Þetta er nú satt að segja allþvælingslegt svar, svo þvælingslegt, að mér þótti ástæða til þess að lesa það hér upp. Vitanlega er fráleitt að færa skuld vegna Reykjanesbrautar eða Keflavíkurvegar, sem sú braut er oft kölluð, hjá vegagerð ríkisins ár eftir ár og veginn sem eign þar á móti. Vegir hafa að mér skilst aldrei verið taldir til eigna hjá ríkinu. Og skuldin er tvímælalaust ríkisins — ríkissjóðsins, en ekki vegagerðarinnar. Með sama rétti mætti telja margt af framkvæmdum ríkisins hjá framkvæmdastofnunum þess, jafnvel skólabyggingarkostnaði hjá fræðslumálaskrifstofunni, ef sami háttur væri á hafður.

Þegar yfirskoðunarmenn hafa fengið þetta svar, þá segja þeir: „Gefin er skýring á færslum fjármunanna við vegagerðina og lántökum til hennar. Framvegis er rétt að færa þetta á þann hátt, er segir í aths. Er það til eftirbreytni.“

Ég verð fyrir mitt leyti að ítreka það, sem ég í raun og veru hélt fram í fyrra og þarna hafa endurskoðendur líka bent á, að ekki verði látið undir höfuð leggjast að færa þessi viðskipti á ríkisreikning eftirleiðis. Það er engin ástæða til að hafa þau þannig utan borðs í framtíðinni, eins og þau eigi ekki að liggja fyrir í sambandi við afkomu ríkissjóðs. Vitanlega er hún að því leyti fallegri sem þessari upphæð nemur, ef vegagerðin er ekki skoðuð um leið.

Þá er það 30. aths. hún er á bls. 266: „Kostnaður við ráðstefnur og mót erlendis hefur orðið kr. 1069 552.77, og ferðakostnaður embættismanna erlendis á vegum ríkisstj. hefur orðið kr. 939 942.76. Eins og ofanskráðar tölur bera með sér, hefur miklu fé verið varið til þessa erindisreksturs, og eflaust verður ekki hjá því komizt að verja verulegum fjármunum til þess, en þess verður vandlega að gæta, að ekki sé varið til þessara hluta meira fé af hálfu þess opinbera en óhjákvæmilegt er og að gætt sé samræmis um þessar greiðslur til manna, eftir því sem hægt er.“

Hæstv. ráðh, svarar þessu á þá leið: „Ráðuneytið er sammála því, sem í aths. felst.“ Alþingi hlýtur líka að vera því sammála, og væntanlega er það, þegar allir þessir aðilar eru sammála, að aths. verði höfð til fyrirmyndar og eftirbreytni í framtíðinni.

Þá er 31. aths. Þar stendur: „Skv. 19. gr. 5 er kostnaður við 17 nefndir kr. 1358 272.17.“ Kostnaðarsömustu nefndirnar eru: Vegalaganefnd kr. 222 332.02. Stóriðjunefnd kr. 205 332.29. Vinnutímanefnd kr. 170 942.00. Vinnumálanefnd Keflavíkurflugvallar kr. 1.33100.00. Kostnaður við hinar nefndirnar hefur orðið innan við 100 þús. kr. við hverja eða frá kr. 15 371.50 upp í kr. 93 022.56.“ Þetta eru tölur, sem yfirskoðunarmenn hafa séð sérstakar ástæður til að benda á, og vitanlega eru þær út af fyrir sig allháar, t.d. að því er vegalaganefnd snertir á því ári, 1962, rúmlega 40 þús. á mann, það er 5 manna nefnd, skilst mér. Að sjálfsögðu hefur sú nefnd unnið tímafrekt starf, en þetta sýnist nú vera mikil borgun.

Hæstv. ráðh. svarar á þá leið: „Aths. gefur ekki tilefni til svars.“ Nú er ekki svo þægilegt að ráða allar gátur. Þetta svar er á vissan hátt gáta og dálítið furðulegt, að þegar minnzt er á svona stórt atriði, — atriði, sem var allmikið talað um á þeim tíma, sem ríkisstj. hóf störf sín, að þyrfti að vera í betra lagi en þá var talið, og virðist ekki hafa færzt til betri áttar. Aths. er svarað með því, að hún gefi ekki tilefni til umr. eða svars!

Í þessari aths. yfirskoðunarmanna er aðeins tekin ein útfærð samtala úr yfirlitinu, sem er í 19. gr., þ.e. kr. 1358 272.17. Ég finn ekki betur en tína megi saman úr greininni hliðstæðar tölur, þ. e. hliðstæðar greiðslur á nefndarstörfum, sem gera, að mér finnst a.m.k., 2½ millj., auk þeirrar upphæðar, sem yfirskoðunarmenn nefna. Og þetta rifjar það upp fyrir mér, þegar hæstv. ríkisstj. var að taka til starfa, og þá talaði hæstv. fjmrh. mikið um fækkun nefnda. Ég sé ekki, að það hafi orðið mikið af slíkri fækkun í reynd, jafnvel sýnist mér helzt þróunin hafa verið í öfuga átt. Það hefur að vísu verið breytt nafni á nefndum í ríkisreikningnum, þar er talað um kostnað vegna hagsýslu og athugunar á ýmsum efnum, sem upp eru talin. Þess konar nefndarstörf virðast mér, eins og ég sagði áðan, geta numið allt að 2½ millj. á þessari grein. Þarna sé ég ekki, að hafi verið um neinn sparnað að ræða, en einmitt var talað um sparnað, man ég, þegar fjárlög voru fyrst lögð fram af hálfu núv. hæstv. ríkisstj., og ég man ekki betur en þegar fjárlög komu úr nefnd, þá væri tala sparnaðarliðanna orðin samanlögð hjá hæstv. ráðh. og stuðningsmönnum hans í fjvn. 59 liðir. En ég sé ekki betur en Parkinsonslögmálið sé mjög ríkjandi hjá hæstv. ríkisstj. og það í stórum stíl og dýrum. Það er líka hætt að tala um sparnað, og hæstv. ráðh. virtist ekki vilja um þessi mál tala við yfirskoðunarmennina, því að hann segir við réttmætri athugasemd, sem mér virðist að Alþ. hljóti að taka undir, að hún gefi ekki tilefni til svars. Það er víst sama og að segja: „Þei, þei og ró, ró“ — eða „Við skulum ekki hafa hátt, hér er maður á glugganum.“ Ég tel sjálfsagt fyrir Alþ. að leggja mikla áherzlu á það að reyna að hamla móti Parkinsonslögmálinu, og þess vegna hef ég gert þetta að umræðuefni.

Þá er 32. aths. hjá yfirskoðunarmönnum. Hún er á þessa leið: „Samning lagafrv. og reglugerða samkvæmt 19. gr. hefur kostað kr. 920152.82. Rétt væri að athuga það rækilega, hvort ekki væri vegur til þess að fela þessi störf, eftir því sem hægt er, embættismönnum ríkisins og föstum starfsmönnum, án sérstakra launagreiðslna fyrir þau störf.“ Undir þessa aths. yfirskoðunarmanna vil ég taka.

Hæstv. ráðh, svarar: „Ráðuneytið fellst á álit yfirskoðunarmanna, en vekur athygli á því, að samning lagafrumvarpa og reglugerða er oft svo viðamikið verk, að ekki er unnt að ætlast til þess, að starfsmenn ríkisins anni því í venjulegum vinnutíma.“

Það virðist svo sem þessi aths. valdi ekki neinum ágreiningi, og mætti því ætla, að hún yrði höfð til hliðsjónar framvegis, eins og yfirskoðunarmennirnir álykta hér. Ráðuneytið lítur líkum augum á málið og yfirskoðunarmenn. Þá ætti það að geta orðið til athugunar framvegis.

36. aths. hjá yfirskoðunarmönnum er svo hljóðandi: „Skýrsla um greiðslur vegna lána, sem ríkið er í ábyrgð fyrir, hefur hingað til verið í ríkisreikningi, en ekki nú. Stofnaður hefur verið sérstakur sjóður vegna þessara ábyrgðargreiðslna ríkisins, og úr honum eiga greiðslurnar að fara fram. Sú stofnun á einnig að annast innheimtu ábyrgðargreiðslnanna. En þótt þessum málum hafi verið breytt á þennan veg, álíta yfirskoðunarmenn, að skýrsla eigi að fylgja ríkisreikningnum yfir allar þær greiðslur, er sjóðurinn innir af höndum í þessu skyni, svo að jafnan sé auðvelt að sjá, hvað þessum viðskiptum liður hjá hverjum aðila.“

Ég taldi á sínum tíma stofnun ríkisábyrgðasjóðs þarflausa og er raunar þeirra skoðunar enn. Að sjálfsögðu er skylt, að skýrsla um hann fylgi jafnan ríkisreikningi, eins og yfirskoðunarmenn segja, og ég vil leggja áherzlu á, að það verði svo framvegis.

Þessu er svarað af hæstv. ráðh. á þessa leið: „Ráðuneytið fellst á athugasemdina og mun gera ráðstafanir til þess, að svo verði gert eftirleiðis.“

Þá er 37. aths. „Yfirskoðunarmenn hafa fengið skýrslu um það, hvað langt er komið endurskoðun ríkisendurskoðunarinnar. Er hún nú komin talsvert lengra en verið hefur, þótt talsvert skorti á, að hún hafi afgreitt alla reikninga til ársloka 1962. En yfirskoðunarmenn telja eigi ástæðu til að láta það hindra afgreiðslu reikningsins, þar sem ætla má, að á því sé hert, að ríkisendurskoðunin ljúki starfi í tæka tíð framvegis. Munu yfirskoðunarmenn hverju sinni fylgjast með því, hvaða aths. koma fram við þá reikninga, sem ekki er lokið endurskoðun á.“

Síðustu ár hefur ríkisendurskoðunin eða ríkisreikningaendurskoðunin, sú umboðslega, verið of skammt komin með sitt verk að mínu áliti, þegar reikningur ríkisins hefur verið lagður fyrir Alþingi. Nú segja endurskoðunarmenn, að þetta hafi lagazt dálítið, en ekki var annars tími til þess í fjhn. að athuga, hve mikið hefur miðað til lagfæringar. En vitanlega er allt til bóta, sem til lagfæringar miðar, og ég vil taka undir það með hv. frsm. n. áðan, að ég treysti því, að það verði unnið að því áfram, að endurskoðanirnar fylgist sem mest að.

Ég læt nú hér lokið máli mínu um ríkisreikninginn. Ég hef bent á í sambandi við hann nokkur atriði, sem ég tel umhugsunarverð. Ástæða hefði auðvitað verið til að nefna miklu fleira, en ráðrúmstíminn er við athugun hans of stuttur.

Margt er auðvitað athugavert við þá sögu, sem reikningurinn segir. En þar er um orðinn hlut að ræða, og því verður ekki breytt fyrir árið 1962, sem þegar hefur verið gert. Þess vegna verður Alþingi að samþykkja reikninginn eins og hann liggur fyrir, eins og venjulegt er. Hins vegar er það, sem reikningurinn sýnir að úrskeiðis hefur farið, til þess fallið að læra af því, eins og slæmri reynslu og til athugunar framvegis, eins og yfirskoðunarmennirnir segja í sambandi við það, sem þeir telja að ekki megi endurtaka sig, og sumt af því hef ég nú bent á.

Alþingi á að leggja áherzlu á þetta, og það geri ég fyrir mitt leyti og við framsóknarmenn í fjhn., þótt við samþykkjum reikninginn sem skýrslu um það, sem gerzt hefur.