12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja hér nokkur orð í tilefni af því frv., sem hér er til umr. um lausn kjaradeilu verkfræðinga. Þetta frv. hefur verið hér áður á ferðinni. Það var eitt af fyrstu málum, sem lagt var fyrir þetta hv. Alþingi í okt. s.l., fyrir 7 mánuðum. Þá hlaut það þá meðferð hér í Nd., að það var samþykkt af stjórnarsinnum, sent hv. Ed., og nú er það sem sagt eftir allan þennan tíma komið til okkar aftur. Ég var mótfallinn þessu frv., þegar það v ar hér fyrr til afgreiðslu, og ég skal segja það strax, að ég er það enn. Þær smávægilegu breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. í Ed., valda ekki neinni afstöðubreytingu hjá mér. Það er aðeins dregið úr ákvæðum um tímatakmarkanir t frv., og má segja að það sé kannske betra en áður var, en það er engan veginn lagfæring á meginákvæðum frv., sem ég vil nú gera grein fyrir.

Frv. miðar að því að skipa kjara- og launamálum með lögum, með afskiptum löggjafarvaldsins, og þeirri stefnu er ég og flokksbræður mínir hér mótfallnir. Menn höfðu einnig ástæðu til að ætla, að hæstv. ríkisstj. og þeir, sem hana styðja hér á hv. Alþingi, væru líka mótfallnir þessari stefnu, a.m.k. þeir, sem trúnað lögðu á kosningaloforðin 1960. Eitt af meginatriðunum, eitt af því, sem fyrst var talið upp í stefnuskráryfirlýsingu núv. hæstv. ríkisstj., þegar efnahagsmálafrv. var hér til afgreiðslu 1960, var einmitt það, að ríkisstj. mundi hafa það að leiðarljósi, að það skyldi vera mál launþega og atvinnurekenda að semja um kaup og kjör. Ríkisstj. ætlaði engin afskipti af því að hafa. Þetta átti að vera alveg sjálfsagður hlutur og ekki nema einn liður í því frelsi, sem þessi hæstv. ríkisstj. þóttist mundu beita sér fyrir, ef henni yrði trúað fyrir stjórninni, en hefur náttúrlega reynzt argasta blekking og öfugmæli, eins og allir vita og oft hefur verið gerð hér grein fyrir, og eru enn að koma fram angar af því hér á hv. Alþingi. Menn halda þetta að vísu ekki lengur, að stjórnarsinnar séu þessarar skoðunar um samninga um kaup og kjör. Menn fengu nefnilega staðfestingu þess í nóv. s.l.. að ríkisstj, var hætt við þetta, þar sem hún bar þá fram frv. til l. um launabindingu og ætlaði að ganga feti framar í því en nokkur önnur ríkisstj. hér hafði leyft sér fram að þeim tíma. Það út af fyrir sig kemur ekki lengur á óvart, þá að stjórnarliðar tækju ekki nærri sér að ákveða kjaradeilu með lögum.

Það hefur verið bent á það hér við þessa umr., bæði fyrr hér á hv. Alþingi og einnig nú, að hér væri samt nokkuð sérstakt mál á ferðinni, þar sem verkfræðingum einum allra stétta er ætlað að búa við það, að gerðardómur ákveði kjör þeirra og gerðardómurinn setji gjaldskrá fyrir verkfræðistörf, sem eru unnin í ákvæðisvinnu eða í tímavinnu. Það hefur verið bent á, að aðrar stéttir sérmenntaðra manna þurfa ekki að sætta sig við þessa skerðingu. Þeim er enn í sjálfsvald sett að setja sér gjaldskrár, og ef einhver vill kaupa þeirra vinnu fyrir það, sem sett er upp, er ekkert við það að athuga frá ríkisvaldsins hálfu. Það eru bara verkfræðingar, sem þessi réttur er tekinn af. Aðrir menntamenn og sérfræðingar hafa þennan rétt. Lögfræðingar setja sér gjaldskrá, læknar setja sér gjaldskrá, endurskoðendur, tannlæknar og ýmsir meistarar í iðngreinum. Þessir menn setja allir gjaldskrá, og það er þeim heimilt. Verkfræðingarnir eiga ekki að fá þetta. Þetta er þeim mun einkennilegra, þegar þess er gætt, að verkfræðingar eru einmitt sú stétt manna, sem við nú á síðari tímum allra sízt getum verið án. Hér er varla haldin svo ræða á hv. Alþingi, að ræðumaður undirstriki ekki nauðsyn þess að taka tæknina og vísindin í þjónustu atvinnuveganna, og það er vissulega alveg hárrétt, að lífsbarátta þjóðanna nú í dag er einmitt alveg sérstaklega undir því komin, að þjóðirnar hafi á að skipa færum og vel menntuðum mönnum til þess að færa sér í nyt þær breytingar á vísinda- og tæknisviðinu, sem gerast svo að segja daglega. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar þeirri stétt manna, sem heldur, ef svo má segja, á lyklinum að framtíðinni í þessu efni, eigi að setja þrengri skorður en öllum öðrum, sem eru þó ekki eins nauðsynlegir þjóðfélaginu, þótt nauðsynlegir séu, og situr sízt á mér að draga úr því um sumar þær stéttir a.m.k., sem ég áðan nefndi. Alveg sérstaklega tel ég, að það sé rangt að setja ákvæði um, að dómurinn skuli setja gjaldskrá fyrir verkfræðistörf, sem eru unnin í ákvæðisvinnu og tímavinnu, þannig, að hvaða skoðun sem menn hafa annars á því að skipa launum með gerðardómi, held ég, að menn ættu þá að geta sameinazt um að fella þessi ákvæði niður, ákvæðin um það, að dómurinn skuli einnig setja gjaldskrá fyrir verkfræðistörf, sem eru unnin í ákvæðisvinnu eða tímavinnu.

Ég vil undirstrika það, sem ég áðan sagði, að ég er mótfallinn því að skipa kjaramálum með dómi, sérstaklega þegar ekki er um það samkomulag milli aðila. Málskot til dóms getur auðvitað átt fullan rétt á sér, þegar aðilar eru sammála um, að það sé rétt að leita úrskurðar utanaðkomandi aðila, en í kaup- og kjaramálum tel ég, að dómsúrslit eigi ekki að vera að með öðrum hætti, það á ekki að vera lögþvingaður kjaradómur. En sérstaklega er þetta ósanngjarnt, þar sem fjallar um gjaldskrána. Það má auðvitað segja, að gerðardómur geti með einhverri hugsanlegri sanngirni og réttlæti kveðið á um það, hvaða laun t.d. verkfræðingur á að hafa, sem ræður sig í vinnu hjá öðrum. Það má segja, að það séu einhver skilyrði til þess, að utanaðkomandi aðilar geti metið það að tiltölu við önnur störf í þjóðfélaginu, mann, sem ræður sig t.d. í vinnu hjá öðrum fyrir tiltekinn vinnustundafjölda, skulum við segja, á dag eða viku. Það er alls ekki ósennilegt, að gerðardómur hafi skilyrði til þess að meta þetta, gera samanburð á því, hvaða prósentu t.d. hver og ein stétt eigi eð fá í laun af einhverri tiltekinni fjárhæð fyrir slíka vinnu. En ég held, að utanaðkomandi gerðardómur í málefnum verkfræðinga hafi mjög litla möguleika á því að meta það með nokkru réttlæti, hvað eigi að greiða fyrir sérstök verkfræðistörf. Margt af þessum störfum er ákaflega sérhæft, eins og allir vita, og það er tæplega á færi annarra en þeirra, sem hafa unnið við þessi störf, að kveða upp úr um það, hvað eigi að borgast fyrir þau. Þetta er líka óþarfi, vegna þess að enginn verkfræðingur selur vinnuna, nema einhver fáist til þess að kaupa hana, og það eru takmörk fyrir því, hvað verkkaupar geta borgað veikfræðingum í laun, og þess vegna mun finnast í því sú sanngjarnasta meðalleið, sem um er að ræða.

Undir því, sem fellur undir gjaldskrá, er sem sagt að sjálfsögðu átt við kostnað fyrir að vinna tiltekið verk. Þessi kostnaður er auðvitað uppbyggður úr mörgum liðum. Einn liðurinn er laun verkfræðingsins sjálfs, en þar með er ekki nærri því allur liðurinn talinn. Inni í þessum kostnaði er að sjálfsögðu mjög margt annað, sem verkfræðingurinn eða sá, sem verkfræðistofuna rekur, þarf að greiða — allan kostnað, alla aðstoðarvinnu, sem hann þarf að kaupa. Þetta þarf hann allt að greiða af þeim taxta, sem settur er upp fyrir ákvæðisvinnu eða tímavinnu fyrir tiltekin verk. Ég held því, að það sé mjög erfitt fyrir gerðardóm að kveða á um þennan „skala“, og það mun hafa sýnt sig, eins og hér var nokkuð rakið áðan, að enda þótt það sé reynt að hafa áhrif á gjaldskrár verkfræðinga, eins og gert var fyrir nokkrum árum, kemur í ljós við notkun, að það er ekki hægt, þar sem gerðardómurinn, eins og hér var rækilega lýst, varð einmitt að taka upp þá gjaldskrá, sem verkfræðingarnir höfðu sjálfir samið og sett, að mér er sagt, aðeins tveim dögum áður en brbl. voru sett fyrra sinnið. Það skiptir auðvitað ekki máli, heldur hitt, að þau afskipti, sem ríkisvaldið ætlaði sér að hafa af þessu, reyndust þannig, að það var ekki hægt að framkvæma þau. Þess vegna varð að taka upp þá gjaldskrá, sem verkfræðingarnir sjálfir höfðu sett. Þannig hygg ég, að muni oftar fara, þó að reynt verði að setja gjaldskrá, sem gengur langt frá þeim reglum, sem verkfræðingar eða þeir, sem þekkinguna hafa, setja um málið.

Ég hef staðið hér upp til þess að mæla þessi fáu orð, ekki fyrst og fremst til þess að mótmæla þessari lagasetningu, það hefur áður verið gert, bæði í ræðum og með atkvgr., og virðist ekki ætla að hafa mikla stoð. Ég vildi þó, áður en ég kem að því, sem var erindi mitt hingað, lýsa því, að ég er andvígur frv. engu síður nú en ég var, þegar það kom hér fyrst, enda tel ég þær breytingar, sem gerðar hafa verið í hv. Ed., mjög lítils, ef nokkurs virði. En með því að allar horfur virðast nú á því, að hæstv. ríkisstj. muni ætla sér að knýja fram samþykkt á þessu frv., vildi ég freista þess að bera fram við það brtt. við tvo liði, ef vera mætti, að með því mætti sníða af því verstu vankantana, sem að mínum dómi eru á frv, enn. Þess vegna mun ég leyfa mér að leggja hér fram brtt. við þetta frv., enda þótt mér sé ljóst, að hún sé of seint fram borin, og það hefur ekki unnizt tími til að prenta hana, þannig að ég verð að leggja hana fram skrifl. og fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir því, að hún megi koma hér til afgreiðslu. En síðustu daga þingsins er það ekki fordæmalaust, að ýmsir hlutir séu lagðir fram lítt undirbúnir og ekki alveg í samræmi við þingsköp. Vona ég því, að mér fyrirgefist þetta, ekki sízt þegar málið er rekið hér í gegn með þeim hraða, sem raun ber vitni.

Þær brtt., sem ég leyfi mér að flytja, eru þessar, þ.e.a.s. við 1. gr., að 2. málsl. 1. mgr. hennar falli niður, þ.e.a.s. niður falli þessi orð: „Dómurinn skal einnig setja gjaldskrá fyrir verkfræðistörf, sem unnin eru í ákvæðisvinnu eða tímavinnu.“ Þá verður 1. mgr. aðeins svona: „Hæstiréttur tilnefnir þrjá menn í gerðardóm, sem ákveður kjör verkfræðinga, sem starfa hjá öðrum aðilum en ríkinu.“ Og hin brtt., sem er bein afleiðing af þessu, er þannig, að síðari mgr. 2, gr. falli niður. Síðari mgr. 2. gr. er svona: „Við setningu gjaldskrár fyrir verkfræðistörf unnin í ákvæðisvinnu og tímavinnu skal höfð hliðsjón af gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 19. apríl 1955 og reglum, er gilt hafa um framkvæmd hennar.“ Það segir sig vitanlega sjálft, að þessi 2. mgr. þarna verður að falla niður, ef fyrri breytingin á að fá staðizt. Með tilvísun til þeirra röksemda, sem ég hef hér talið, ásamt því, sem greint hefur verið við fyrri umr. þessa máls hér í hv. d., leyfi ég mér að vænta þess, að hv. alþm. geti fallizt á, að þessi breyting sé eðlileg og hún verði því samþ., þótt hún sé seint fram borin. Ég leyfi mér þá að leggja till. til hæstv. forseta.