12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ræddi þetta frv. hér nokkuð í dag, — nei, í gær, kl. er nú að ganga eitt, runninn nýr dagur, og ég undrast það, að hæstv. ráðh. skuli ekki nota sinn forgangsrétt til þess að taka til máls um málið. Það er venja, að það er brugðið út af röð, þannig að ráðh. taka til máls, þó að þeir kveðji sér síðar hljóðs en aðrir þm. En nú er ekki einu sinni hægt að toga orð út úr hæstv. viðkomandi ráðh., og hann hverfur yfirleitt, þegar þörf er á, að hann sé hér nærstaddur og gegni sinni þingmannsskyldu. Fyrir hann voru lagðar spurningar í dag, og það hafa verið margítrekaðar óskir um það, að hann svaraði þeim spurningum. Einn af starfsbræðrum hans í hæstv. ríkisstj. tók það að sér í dag að koma spurningunum á framfæri við ráðh., og það veit ég að hæstv. dómsmrh. hefur örugglega gert. (Gripið fram í.) Nú, hefur ráðh. í hyggju að svara fyrir barnið? Það væri náttúrlega góðra gjalda vert, ef einhver vildi svara fyrir þann hæstv. ráðh., sem nú virðist mállaus með öllu. Ég sé ekki annað en það væri miskunnarverk. En ég vil enn lifa í voninni um það, að hæstv. ráðh. komi og komi fyrir sig orði sjálfur varðandi þetta mál. Það er ömurlegt til þess að vita, að hæstv. ríkisstj. skuli, jafnvel eftir að hún er nú farin að hafa friðarorð mjög á vörum við launastéttir og launþegasamtök, að þrátt fyrir það skuli vera haldið áfram því linnulausa stríði, sem hæstv. ríkisstj. hefur átt við hverja launastéttina á fætur annarri. Lengi stóð hæstv. ríkisstj, í alvarlegu stríði við kennarastéttina, þangað til hún greip til þess ráðs að segja unnvörpum upp störfum og stöðum hjá ríkinu. Þá varð að ganga til samninga við hana. Næsti þáttur í styrjöld ríkisstj. við launastéttirnar var stríðið við læknastéttina. Læknarnir voru farnir að flýja land, það var boðað, að þeir mundu ráðstafa sér til starfa erlendis í enn ríkari mæli, og þá varð loks að semja við þá stétt. Stríðið við verkalýðssamtökin hefur verið í gangi allt fram að þessu. Stríðið við verkfræðingana er yfirstandandi.

Hér er um það að ræða, að löggjöf hefur verið sett, þó í formi brbl., og leitað er eftir staðfestingu Alþingis á þessum brbl. Gerðardómur hefur verið kveðinn upp samkv. þessum brbl. og allir vita, að það hefur ekkert gildi, enga þýðingu, hvort þessi brbl. verða staðfest eða ekki af Alþingi. Hæstv. ríkisstj, er búin að láta dæma verkfræðingunum laun samkv. brbl., og það mundi ekkert ske, þó að þau yrðu bara látin detta upp fyrir eða lögð í bréfakörfu og hætt við að knýja fram staðfestingu þeirra hér á hv. Alþingi.

Þeir menn, sem hafa það á vörunum, að hér eigi að auka iðnað í landinu, byggja upp nýjar atvinnugreinar, virðast loka augunum fyrir því, að það verður ekki gert á næstunni, ef við hrekjum íu landi okkar sérfræðinga í verkvísindum, og af öllu óhyggilegu held ég, að það sé einna óhyggilegast af öllu.

Ég sá fyrir nokkru áætlanir í Svíþjóð um þörf hins sænska þjóðfélags á tæknimenntuðum mönnum, verkfræðingum og tæknifræðingum, og þar voru gerðar áætlanir um þörf þjóðfélagsins fyrir tæknimenntaða menn langt fram í tímann, og það var áberandi, að þörf Svía fyrir tæknimenntaða menn hafði margfaldazt á þessum áratug, miðað við þann næsta á undan, og þegar áætlun var svo gerð hjá Svíum um næsta áratug á eftir, komust þeir að þeirri niðurstöðu, að þörf þeirra fyrir tæknifræðinga og verkfræðinga mundi þrefaldast a.m.k. Mig minnir og ég held, að það sé rétt, að þeir hafi talið sig þurfa 90 þús. tæknimenntaða menn og verkfræðinga, til þess að eðlileg þróun og framfarir gætu átt sér stað í sænsku atvinnulífi. En á sama tíma er það að gerast hér, að þeir menn, sem aflað hafa sér sérþekkingar í verkvísindum, eru sviptir mannréttindum, fá ekki að ákveða sér laun við frjálst samningaborð við atvinnurekendur, ríkið grípur inn í og setur lög um launakjör þeirra manna, sem vinna í annarra þjónustu en ríkisins, sem vinna hjá prívat-atvinnurekstrinum. Það er ekkert óeðlilegt, að ríkið sjálft ákveði launakjör þeirra verkfræðinga, sem hjá ríkinu og ríkisstofnunum starfa, og það mál er sjálfsagt leyst með kjaradómi, sem ákveðið hefur laun opinberra starfsmanna yfirleitt. En þeir, sem hjá öðrum en ríkinu vinna, áttu auðvitað að njóta þeirra mannréttinda að fá að semja við gagnaðila, réttan gagnaðila að þeirra vinnumarkaði, um kaup sitt og kjör. En það er þetta, sem þessi óbilgjörnu, ósanngjörnu, ranglátu brbl. hæstv. ráðh. svipta verkfræðingana. Þau svipta þú þeim mannréttindum, og það leiðir ekki til annars en þess, að íslenzka þjóðfélaginu helzt illa á þessum mönnum. Þeir leita út á heimsmarkaðinn með sína verkþekkingu, og það er tekið við þeim opnum örmum af sérhverju því þjóðfélagi, sem er í nokkurri uppbyggingu. Þeim duga ekki yfirleitt þeir tæknimenntuðu menn, sem menntast hjá þeim, og það er boðið í íslenzka verkfræðinga úr öllum áttum. Ég gæti vel búizt við því, — að einmitt nú, eftir að gerð hefur verið margítrekuð tilraun til þess af hv. Alþingi að fá stjórnarvöldin til að hverfa frá þessari valdbeitingu og það tekst ekki, að stórt skarð komi í tölu þeirra verkfræðinga, sem enn eru í landi, og þeir leiti sér atvinnu annars staðar. Þeirra þekking er lítils virt. Það lítur ekki út fyrir, að stjórnvöld landsins telji þjóðfélagið hafa þörf á því, og þá hljóta þeir auðvitað að leita annarra verksviða hjá öðrum þjóðum, þó að þeir auðvitað umfram allt vilji fá að vinna sinni eigin þjóð.

Samtök verkfræðinganna hafa frá því fyrsta látið til sín heyra í þessu máli. Öll samtök verkfræðinga hafa sent hv. Alþingi mótmæli sín gegn þessari lagasetningu. Ég hef hér fyrir framan mig mótmæli frá stjórn Félags ráðgjafaverkfræðinga. Þau mótmæli eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Félags ráðgjafaverkfræðinga mótmælir brbl. ríkisstj. um lausn kjaradeilu verkfræðinga, er sett voru 17. ágúst 1963. Auk þess að fella niður með valdboði samningsrétt verkfræðinga í launþegastétt, banna l. ráðgjafaverkfræðingum að verðleggja þjónustu sína. Þá verðlagningu eiga aðrir aðilar að meta, og má öllum ljóst vera, hve fráleitt slíkt er, enda eru ekki fordæmi fyrir slíku. Stjórn félagsins lítur svo á, að I. verði til þess að draga úr verklegum framförum, en við því má íslenzka þjóðin sízt.

Stjórn Félags ráðgjafaverkfræðinga.“ Þarna er með hógværum orðum mótmælt þessari ranglátu lagasetningu og bent á, að l. muni verða til þess að draga úr verklegum framförum hjá okkur, og það er hverju orði sannara, að við því má íslenzka þjóðin sízt af öllu.

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands hefur einnig sent mótmæli, og eru þau svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Verkfræðingafélags Íslands mótmælir harðlega árás þeirri á verkfræðingastéttina, sem felst í hinum nýju brbl. um svonefnda lausn á kjaradeilu verkfræðinga, þar sem almennur samningsréttur er tekinn af Stéttarfélagi verkfræðinga og ráðgjafaverkfræðingar sviptir rétti til að ákveða gjöld fyrir þjónustu sina, en öðrum óskyldum aðilum ætlað það verk. Brbl. sýna skilningsleysi á þeirri staðreynd, að tæknilegar framfarir eru hverju þjóðfélagi nauðsynlegar, eigi að halda í horfinu. Getur enginn gengið þess dulinn, að íslenzka þjóðin er þar á vegi stödd, að verkmenning er hér af skornum skammti og á langt í land. Ber því frekar að bæta aðstæður til eflingar hennar og laða til sín færa menn á því sviði en að beita valdboðum, er munu hafa þveröfug áhrif.

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands.“

Í þriðja lagi liggja hér fyrir hv. Alþingi mótmæli frá stjórn Stéttarfélags verkfræðinga, og þau mótmæli eru svo hl jóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Stéttarfélags verkfræðinga mótmælir harðlega brbl. ríkisstj. um gerðardóm til þess að ákveða kjör verkfræðinga hjá öðrum en ríkinu og afnámi verkfallsréttarins í yfirstandandi kjaradeilu verkfræðinga. Hér er um að ræða harkalegustu árás á verkfalls- og samningsrétt stéttarfélags, sem starfar samkv. l. nr. 80 frá 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Þetta er gert á sama tíma og samningaviðræður standa yfir og von er á árangri af þeim. Stjórn Stéttarfélags verkfræðinga telur afskipti ríkisvaldsins af þessari deilu tilefnislaus með öllu og krefst þess, að lög þessi verði felld úr gildi.

Stjórn Stéttarfélags verkfræðinga.“ Þessi samþykkt er greinilega samin og send, þegar hæstv. ráðh. greip inn í deilu, sem stofnað hafði verið til með löglegum hætti og var yfirstandandi, þegar brbl. voru gefin út. Allar þessar mótmælaorðsendingar hefðu mátt vera hæstv. ríkisstj. og þá alveg sérstaklega þessum viðkomandi hæstv. ráðh., samgmrh., viðvörun um það að þreyta ekki þetta mál miklu lengur. Þar var nægileg aðstaða til undanhalds og að láta skynsemina ráða. En það hefur ekki verið gert, og það er ekki hægt að knýja hæstv. ráðh. til þess að taka skynsamlega afstöðu til þessa máls enn þá. En hans hlutur mun þó alltaf í þessu máli verða því verri, sem hann þrjózkast lengur við að taka af skynsemd á málinu.

Upphaflega var þannig til þessara fyrri brbl. stofnað, að það var látið heita svo, að það væri verið að banna að ákveða laun verkfræðinga samkv. gjaldskrá fyrir verkfræðistörf. En sýnilega var ætlunin sú almennt að láta l. taka til allra launakjara verkfræðinga. En það var ekki hægt að sjá annað en það hefðu ruglazt þarna saman tvö alveg óskyld atriði í brbl., því að það er allt annað að ákveða gjald fyrir framlagða vinnu verkfræðings eða fyrir verkfræðistörf, sem seld eru út af verkfræðiskrifstofu. En þessum óskyldu meginatriðum virtist vera ruglað saman í frv. eða brbl. fyrstu, og ber það þess vott, að hæstv. ráðh. hefur ekki einu sinni haft fyrir því að kynna sér meginefni málsins.

Ég minnist þess, að þegar þetta mál var fyrst á döfinni, var því m.a. haldið fram hér á hv. Alþingi, að það væri bráðnauðsynlegt fyrir íslenzka þjóðfélagið, ef það ætti að standast, að grípa þarna í taumana, því að ef verkfræðingarnir kæmust fram með það að verðleggja vinnu sína óhóflega hátt, eins og stjórnarvöldin töldu að þeir væru að gera, mundi þetta sprengja upp allt annað kaupgjald í landinu. En ég hélt því þá fram, að það væri algerlega út í hött að refsa þessa andspyrnu gegn launakröfum verkfræðinga á þeim grundvelli, að verkafólk almennt í landinu mundi þá byggja sínar kröfur á tilvitnun í launakröfur verkfræðinga. Verkafólki hefur áreiðanlega aldrei dottið í hug að miða launakröfur sínar við launakröfur eða launakjör hálærðra langskólamanna; sérfræðinga í ýmsum sérgreinum, og jafnvel allra sízt að miða sínar launakröfur við kröfur manna eins og verkfræðinga. Ég er því alveg sannfærður um það enn í dag, að það hafa verið allt önnur „mótíf“, allt annar tilgangur með þessari ofsóknarherferð á hendur verkfræðingastéttinni heldur en að verjast almennum launakröfum frá ófaglærðu verkafólki. En það, sem mestu máli skiptir fyrir mér, er það, að öll verkalýðsstéttin hefur að því leyti staðið með verkfræðingunum, að hún taldi óviðunandi, að ríkisvaldið bryti niður starfsemi löglegs stéttarfélags, sem ekkert hafði gert annað en að starfa samkv. hinni íslenzku vinnulöggjöf, hafði þreytt samninga við atvinnurekendur þá, sem félag þeirra var eðlilegur samningsaðili við, og þegar samningar tókust ekki, boðað vinnustöðvun með löglegum hætti og hélt þó áfram að halda öllum leiðum opnum til þess að leysa málið með samningum. Og skjallegar sannanir liggja fyrir um það, að þegar brbl. voru sett, leit fyllilega út fyrir, að samningar væru að takast. En þá er gripið inn í, engu líkara en það væri gert til þess að koma í veg fyrir, að friðsamleg lausn fengist á málinu og sættir tækjust. En ef það hefði gerzt, hefðu áreiðanlega fleiri verkfræðingar verið í landi að störfum til þess að leysa margvísleg vandamál, sem alltaf steðja að í okkar þjóðfélagi, bæði á vegum hins opinbera og í atvinnurekstri einstaklinganna. En nú eru verkfræðingar íslenzkir tugum saman farnir úr landi og komnir í þjónustu víðs vegar um heim.

Það eru ein af mjög alvarlegum mistökum í þessu máli, að gerðardómurinn, sem skipaður var, fékk þau fyrirmæli í löggjöfinni að byggja aðgerðir sínar og kveða upp sinn úrskurð á grundvelli gjaldskrár frá 1955: En þegar dómararnir fara að glugga í þetta plagg, sem lögin fyrirskipa þeim að starfa eftir, kemur í ljós, að þetta er úrelt plagg, sem þeir sjálfir telja, að ekki sé hægt að byggja dómsniðurstöðu sína á. Þetta plagg nær ekki yfir ýmsar greinar íslenzkrar verkfræði og verkfræðistarfa, og þeir taka því það ráð að kveða upp sinn úrskurð á grundvelli allt annarrar gjaldskrár — frá 1962 — og geta þess í dómsniðurstöðum sínum. Ég fæ ekki betur séð en það sé fyllilega ástæða til að prófa það fyrir dómstólum hvort úrskurður gerðardómsins fær því staðizt, þegar hann er ekki byggður á því grundvallarplaggi, sem lögin fyrirskipa gerðardómnum að starfa eftir og byggja á. Hjá slíkum málarekstri yrði þó auðvitað komizt, ef hæstv. ráðh, brygði á það skynsamlega ráð að hverfa nú frá því að knýja þessa lagasetningu í gegn.

Það munu flestir skilja, að það er ekki nema eðlilegt, að verkfræðingarnir telji sig rangindum beitta, þegar hægt er að sýna það og sanna, að önnur sérfræðingastétt — ég á hér við lögfræðinga — fær að ákveða sínar launatekjur, sín kjör, með gjaldskrá og setja hana sjálfir. Ég hef hér í höndum línurít, sem sýnir í senn, hvernig Lögmannafélagi Íslands ér heimilað að ákveða lögmannastéttinni laun samkv; gjaldskrá, er þeir hafa frjálsræði til að setja sjálfir um verk, sem þeir taka að sér að vinna. Þetta línurít sýnir, að gjaldskrá Lögmannafélags Íslands, lágmarksgjaldskrá þeirra; heimilar þeim miklu hærra verð fyrir sína vinnu heldur en verkfræðingunum er ætlað. Gjaldskráin er miðuð við verðmæti þess verkefnis, sem um er að ræða. Að því er snertir Lögmannafélagið, má þóknunin nema 21% af 50 þús. kr. verðmæti viðfangsefnis, en miðað við sama verðmæti viðfangsefnis mega verkfræðingar ekki taka fyrir sína vinnu nema milli 15 og 16%. Og þegar upphæðir verða mjög háar, skakkar þó enn þá meira á þessum tveimur gjaldskrám. Þegar um er að ræða 50 millj. kr. verðmæti viðfangsefnis, mega lögmennirnir taka milli 6 og 7% af upphæðinni fyrir sitt verk, en verkfræðingarnir ekki nema rúmlega 3%. önnur stéttin nýtur frjálsræðis til þess að ákveða sínar tekjur, en hin er mannréttindum svipt, og finnst mér engin von til þess, að verkfræðingastéttin vilji una því.

Ég gat um það í dag, að þegar Stéttarfélag verkfræðinga stóð í kjaradeilu, löglegri deilu á allan hátt, þá gerðist það, að vegamálaskrifstofan undir yfirstjórn þessa hæstv. sama ráðh. réð til sín 4 verkfræðinga. Verkfræðingafélagið leit svo á, að þessir meðlimir stéttarfélagsins hefðu gerzt verkfallsbrjótar, og vék þeim úr félaginu. Það er í íslenzkri löggjöf bannað að hafa áhrif á vinnudeilur með vilyrðum um uppbætur á laun til þeirra, sem í verkfalli standa. Auðvitað hljóta þessi stig að ná til hæstv. ríkisstjórnar Íslands, alveg eins og til sérhvers íslenzks borgara. En það situr náttúrlega miklu verr á ríkisstj. að brjóta lögin. Nú er spurningin: Hafa verið höfð áhrif á hina löglega reknu vinnudeilu Stéttarfélags verkfræðinga með vilyrðum um uppbætur á laun til þessara verkfræðinga, sem ráðnir voru til vegamálaskrifstofunnar og annarra opinberra stofnana ríkisins? Spurningar þær, sem ég bar fram í dag, snúast um það að fá upplýst, með hvaða kjörum þessir verkfræðingar, sem ráðnir voru til vegamálaskrifstofunnar, voru ráðnir. Hefur sá orðrómur við rök að styðjast, að þeim hafi verið heitið fríðindum og laun þeirra séu þannig í rauninni allt önnur en látið er í veðri vaka? Þetta skiptir miklu máli í þessari deilu, því að ef þarna er um að ræða veruleg fríðindi, sem kannske allt að því tvöfalda laun verkfræðinganna, sem fengnir voru til þess að ráða sig í opinbera þjónustu, en bregðast jafnframt stéttarbræðrum sínum í verkfalli, þá eiga verkfræðingarnir í raun og veru að fá sambærileg laun við þessa menn, þ.e.a.s. hin viðurkenndu opinberu laun þeirra og fríðindin. En með því að halda því leyndu, hvaða fríðinda þessir menn njóta, er verið að skerða lagalegan rétt verkfræðinganna, sem gerðardómnum verða að lúta, til þess að fá sín kjör réttilega ákveðin samkv. honum.

Nú spyr ég hæstv. ráðh., sem er hér nú viðstaddur, í fyrsta lagi: Var verkfræðingunum, er ráðnir voru til vegamálaskrifstofunnar, boðin eftirvinna, og var gert við þá fast samkomulag um hana? Hversu mikla eftirvinnu fá verkfræðingarnir greidda, og er sú eftirvinna unnin, en sumir vilja halda því fram, að um það sé samið, að hún þurfi ekki að vinnast? Í annan stað: Var verkfræðingunum einum eða öllum veitt 60 þús. kr. lán til bifreiðakaupa vaxtalaust? En því er haldið fram, að þetta hafi þeir fengið í því skyni, að þeir gætu eignazt bifreið, svo að hægt væri síðar að greiða þeim bifreiðastyrki. Í þriðja lagi: Er það rétt, að verkfræðingunum ýmsum sé greiddur bifreiðastyrkur, og þá hve mikill, og að sá styrkur verði ekki talinn fram til tekna, þ.e.a.s. hann eigi að vera skattfrjáls? Það væri snoturt, ef hæstv. ráðh. stæði að skattsvikum hjá þessum mönnum. (Gripið fram í: Er ekki bifreiðastyrkur opinbers aðila skattfrjáls?) Það held ég ekki. Ég held, að bifreiðastyrkur verði að teljast með í launatekjum manna. (Forseti: Það er ekki lagt á hann fyrir það.) Í fjórða lagi: Hve mikil eru raunveruleg laun þessara verkfræðinga, sem sagðir eru á kjörum samkv. kjaradómi, en kjaradómskjör 10 ára verkfræðings eru 14400 kr.? Hver eru heildarlaunakjörin hjá þeim? Þetta var viðvíkjandi launakjörum verkfræðinganna í þjónustu vegamálaskrifstofunnar.

En það er önnur ríkisstofnun, sem einnig heyrir undir sama hæstv. ráðh., sem hefur ráðið verkfræðinga í þjónustu sína í trássi við stéttarfélag þeirra, og er sagt, að því er snertir verkfræðinga, sem starfa hjá Landssíma Íslands, að laun þeirra séu allt að 25% hærri en kjaradómskjör, enn fremur, að þeim sé greitt þetta álag fyrir vinnu utan venjulegs vinnustaðar og utan vinnutíma, og fyrir þetta álag komi ekki vinna nema að því leyti, að það komi fyrir, að fyrirspurnum sé beint til verkfræðinganna um síma utan vinnutíma. Það er fullyrt, að landssímastjóri hafi fengið leyfi fyrir þessum greiðslum frá ráðh. Ég spyr um það, hvort það sé rétt líka.

Enn fremur fýsir mig að vita, að hve miklu leyti ríkisstofnanir hafi látið útlenda verkfræðinga starfa hér á landi, meðan brbl. hin fyrri voru í gildi um lausn á kjaradeilu verkfræðinga, en þau bönnuðu að greiða fyrir verkfræðiþjónustu meira en 147.81 kr. fyrir hverja klst. Þá er einnig fýsilegt að fá að vita um það, hvernig greiðslum til þessara útlendinga var háttað. Voru lögin brotin, eða var hinum útlendu verkfræðingum greitt eigi meira en 147.81 kr. á tímann? En talið er, að þeim hafi verið greiddar 1200 kr. á klst., — er það rétt? Ef þetta er rétt, hefur þekking útlendra verkfræðinga verið metin nokkru meira en hinna íslenzku, og þá var hægt að opna budduna.

Ég treysti því, að hæstv. ráðh., sem nú er hér viðstaddur og hefur heyrt þessar spurningar fram bornar enn á ný, víkist nú ekki undan þeirri ráðherraskyldu sinni að upplýsa, hvað er satt og rétt í þessu máli. En ef hann er þannig á vegi staddur, að hann komi engu orði upp í þessu máli, þá væri mér mikil þökk á því, að hæstv. dómsmrh. kæmi honum til hjálpar og gæfi þær upplýsingar, sem hæstv. ríkisstj. getur veitt í málinu, og áðan heyrðist mér það á hæstv. dómsmrh., að hann væri ekki fjarri því að svara fyrir barnið. Í raun og veru þykist ég alveg vita það, að hæstv. samgmrh. sitji ekki einn inni með vitneskjuna um það, hvernig starfað hefur verið í þessu verkfræðingamáli. Þetta er sennilega ekki einvígi hæstv. samgmrh. við verkfræðingastéttina, heldur allsherjarstríð allrar ríkisstj. við þessa okkar sérfræðingastétt. Og svo mikið er víst, að ef saka er leitað á hendur einhverra aðila út af þessu óskemmtilega, einstæða máli, þá verður að leggja sökina á hendur allrar hæstv. ríkisstj. Það er ekki hugsanlegt, að hæstv. samgmrh. hafi haldizt það uppi að heyja þetta rangindastríð einum, án þess að hinir ráðh., meðráðh. hans, hétu honum að vera hans bakhjarlar og stuðningsmenn í stríðinu.

Ég ætla nú að láta máli mínu lokið og freista þess enn, að hæstv. ráðh. gegni þeirri skyldu sinni að gefa svör, eins og hann veit sannast og réttast, um þau atriði, sem hér hefur verið spurt um enn þá einu sinni.