02.12.1963
Neðri deild: 22. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. viðskmrh. hefur gert grein fyrir, er um að ræða tvær meginbreytingar í þessu frv. um Seðlabanka Íslands frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að heimila nokkru hærri bindingarskyldu á fé í Seðlabankanum frá bankakerfinu almennt heldur en í gildi hafa verið. Það er m.ö.o. gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn geti krafið banka og sparisjóði óg innlánsdeildir um allt að 25% af heildarinnistæðufé viðkomandi stofnana í sparisjóði og að sú upphæð verði bundin á sérstökum reikningi í Seðlabankanum. En um þetta hafa gilt þær reglur fram til þessa, að hér hefur verið um að ræða 15–20% hámark, en nú á sem sagt að hækka þessa bindingarskyldu. Hin breytingin er svo um það, að Seðlabankinn fái heimild til að gefa út gengistryggð verðbréf.

Fyrra atriðið af þessum tveimur hefur verið í gildi í höfuðatriðum nú um nokkurra ára skeið, og það er því fengin nokkur reynsla af því að framkvæma slíka innlánsbindingu, eins og þar er gert ráð fyrir. Hæstv. viðskmrh. hefur í framsögu fyrir þessu máli gert grein fyrir því frá sínu sjónarmiði, hvernig þessi bindingarskylda hefur reynzt. Ég hlýt. að benda á það, að þegar þessar reglur voru upp teknar á sínum tíma, var því haldið fram, að rétt væri, að Seðlabankinn fengi þessa heimild til að skylda sparisjóði og banka í landinu til að geyma nokkuð af sparifjáraukningunni á bundnum reikningi í Seðlabankanum í því skyni, að Seðlabankinn gæti þar með tekið að sér miðlunarstarfsemi með peninga, þannig að hann gæti dregið inn úr sparisjóðskerfinu og bankakerfinu almennt í landinu nokkra fjárfúlgu, sem hann síðan endurlánaði aftur öðrum bönkum, svo að þeir gætu betur staðið undir rekstrarfjárþörf atvinnuveganna. Þetta var aðalskýringin, sem gefin var, þegar þessar reglur voru settar.

En hvernig hefur þetta orðið í reyndinni? Hæstv. viðskmrh. sagði, að nú væri svo komið, að þetta bindingarfé í Seðlabankanum næmi orðið 756 millj. kr. Hefur nú verið farið eftir því, sem yfir var lýst, þegar þessar reglur voru upp teknar? Hefur þetta fé verið endurlánað rekstrarlánabönkunum, til þess að þeir gætu aukið lán sín til undirstöðuatvinnuveganna? Nei, hið rétta er það, að eftir þessari reglu hefur ekki verið farið á neinn hátt. Innlánsbindingin hefur ekki orðið til þess að auka útlánin til undirstöðuatvinnuveganna, heldur þvert á móti til þess að draga úr útlánunum til undirstöðuatvinnuveganna. Endurkaupalánin hafa á þessum tíma verið minnkuð úr 67%, sem þau voru almennt, miðað við útflutningsverð t.d. á framleiddum sjávarafurðum, og niður í 52–55% af útflutningsverðinu. Og rekstrarlánabankarnir, þeir sem eiga að standa undir lánum til sjávarútvegsins t.d., Landsbankinn og Útvegsbankinn, hafa báðir verið skyldaðir til þess að geyma allmikið fé á bundnum reikningum í Seðlabankanum og hafa beinlínis borið því við æ ofan í æ, þegar leitað er til þeirra um lán fyrir aðalatvinnuvegi landsmanna, að þeir geti ekki lánað eins mikið og þeir gerðu áður eða eftir sömu reglum og þeir gerðu áður, vegna þess að fé hefði verið af þeim tekið og bundið í Seðlabankanum. Nú kemur svo hæstv. viðskmrh. hér í annað sinn og leggur til, að þessi bindingarskylda verði enn aukin frá því, sem áður var, og einnig með sömu loforðin á takteinum, allt á þetta að gerast til þess, að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar geti fengið meiri lán.

Það var að vísu rétt, að það hafði ekki verið lengi haldið áfram að draga fé inn á þessa bundnu reikninga í Seðlabankanum frá sparisjóðum og viðskiptabönkum landsins, er ríkisstj. hafði skipt með öllu um skýringu á því, til hvers leikurinn væri gerður. Þá var því ekki lengur haldið fram, sem hafði þó fylgt í grg. fyrir málinu, þegar það var hér fyrst lagt fyrir, að þetta væri allt saman gert til þess að auka lánveitingar til framleiðsluatvinnuveganna. Þá vissi hæstv. ríkisstj., að það var útilokað að halda þessu lengur áfram, því að menn höfðu fengið að þreifa á hinu sanna í málinu. Nei, þá var hinu haldið fram, að ráðstöfunin væri alveg nauðsynleg til þess að skapa mótvægi í Seðlabankanum gegn vaxandi gjaldeyrissjóðum þjóðarinnar. Reyndar hafði hæstv. ríkisstj. sagt í sjálfu frv. um Seðlabankann, þegar það var lagt hér fram í ársbyrjun 1961, að það væri allt annað fé bankans, sem ætti að standa undir gjaldeyrissjóðunum, því að eðlilegra væri að haga því í þessu landi eins og öðrum, að það væri fyrst og fremst seðlavelta bankans á hverjum tíma og svo eigið fé bankans, sem ætti að standa undir mótvæginu gegn gjaldeyrissjóðunum. Það hafði greinilega verið tekið fram í grg. fyrir frv., að þannig ætti að haga því hér eins og annars staðar. En sem sagt, á miðri leið var hlaupið frá þessari skýringu, og þá var hin illræmda binding á sparifénu í Seðlabankanum útskýrð með hinu, að hún væri beinlínis undirstaðan undir það, að Seðlabankinn gæti átt þá gjaldeyrissjóði, sem hann hefði nú eignazt. Og nú sem sagt er hlaupið aftur yfir í gömlu skýringuna, þegar á að hækka þessa sparifjárbindingu í Seðlabankanum, og nú er sagt: Þetta er gert eingöngu til þess, að hægt sé að auka útlánin til aðalatvinnuvega landsins. Og svo er farið um það mörgum orðum, að í rauninni hafi aldrei verið hægt og sé enn ekki hægt að hafa það fyrirkomulag á, að Seðlabankinn veiti afurðalán út á útflutningsframleiðsluvörur, nema eitthvert sérstakt fjármagn sé bundið í bankanum á móti, til þess að þetta sé kleift. Að öðrum kosti leiði slík útlánastarfsemi bankans til verðbólgu í landinu.

Ég hélt nú satt að segja, að umr. um þetta hefðu farið fram og svo ýtarlega fyrir nokkru, að það væri búið að kveða niður með öllu þessa alröngu skýringu og menn þyrftu ekki að taka hana hér upp aftur. Það er margbúið að sýna fram á það, að þó að Seðlabankinn veiti bráðabirgðalán, venjulega aðeins til nokkurra mánaða út á framleidda vöru, sem í flestum tilfellum er seld úr landi, en bíður afskipunar og greiðslu, þó að Seðlabankinn hlaupi í skarðið í þessu tilfelli og veiti lán til nokkurra mánaða út á þær gjaldeyrisbirgðir, sem þannig liggja fyrir í landinu og samsvara beinum gjaldeyri, þá er það ekki á neinn hátt verðbólgumyndandi, enda í rauninni suðvelt að koma þessum lánum fyrir, þó að enginn seðlabanki væri að þvælast þarna í millihöndinni, ef framleiðendurnir mættu fara þá leið, sem hér þekktist einu sinni, en það er að fá gjaldeyrisverðmæti sín greidd út á þessa vöru, áður en hún fer úr landi, því að það er auðvelt verk. Og svo er það sagt, eins og hæstv. viðskmrh. sagði hér áðan, að ef Seðlabankinn lánar fé út á framleidda útflutningsvöru, sem bíður afskipunar og greiðslu, þá streymi fé, eins og hæstv. ráðh. sagði, út úr Seðlabankanum og auki á verðbólgu í landinu og verði til þess að draga úr gjaldeyrissjóðum landsins. M.ö.o.: þegar Seðlabankinn um nokkurra mánaða skeið veitir bráðabirgðalán, til þess að gjaldeyrisverðmætin myndist í landinu, sem breytast í peninga eftir nokkra mánuði, þá á það að verða til þess að gera gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar lakari, að það var hægt að eignast þessar gjaldeyrisbirgðir, en hitt hefði auðvitað gengið miklu betur, að láta framleiðsluna liggja hálfunna eða óunna að mestu og vitanlega þá um leið enga gjaldeyrisframleiðslu vera í gangi, en halda að sér höndum í Seðlabankanum. Nei, hér er vitanlega um grundvallarmisskilning að ræða, ef það er misskilningur, sem ég vil ekki trúa að um sé að ræða hjá hæstv. viðskmrh. Ég ætla, að hann hafi gert sér grein fyrir því fyrir löngu, að það er aðeins eðlileg starfsemi og ekki á neinn hátt skaðleg fyrir hagkerfið, þó að Seðlabankinn láni nokkur lán til bráðabirgða út á útflutningsframleiðsluvöru, sem telja má alveg örugga í sölu og breytist innan skamms í beinan, harðan gjaldeyri. Hitt er svo allt annað mál, sem á ekki að blanda saman við þetta, þau útlán, hvort heldur það er hjá Seðlabankanum eða öðrum aðilum, út á aðra framleiðslu, sem ekki er útflutningsframleiðsla, en notuð er eingöngu innanlands. Um það gilda allt aðrar reglur og er margviðurkennt.

Það væri laglegt, ef svona kerfi eins og áður hefur verið sýnt fram á ætti nú að fara eftir þessu kerfi í fullri alvöru. Við skulum fyrst hugsa okkur dæmið þannig, eins og reyndar það er sett upp fyrir okkur oftast nær, að svo sé ástatt hjá Seðlabankanum, að hann sé búinn að lána út að fullu og öllu og hafi engin aukaumsvif, hafi sem sagt notað allt sitt ráðstöfunarfé, það sé bundið, það sé búið að lána það út. En svo skulum við bara gera ráð fyrir því, að það komi fyrir það einstaka happ, sem kemur stundum fyrir hér í okkar landi, að við skulum segja Hvalfjörður fyllist af síld, eins og hann hefur gert áður, við gætum á örskömmum tíma framleitt hér gjaldeyrisverðmæti upp á 100–200 millj. kr. Við eigum skipin, við höfum fólkið, við eigum veiðarfærin, en það þarf eigi að síður nokkurt fé til þess að stafla upp þessum framleiðsluverðmætum hér, stafla upp mjölinu, stafla upp lýsinu, það þarf nokkurt fé til þess, að hægt sé að sinna því verkefni að breyta þessu í söluhæfa útflutningsvöru. Vegna þess að Seðlabankinn er búinn að lána allt sitt fé, hann er búinn að ráðstafa sínu ráðstöfunarfé, þá má hann ekki gera neitt meira, ekki nema hann fari á stúfana og safni sér sparifé í landinu til þess að binda á móti. Það tekur nokkurn tíma og hætt við því, að síldin verði kannske farin. En ef til hins yrði gripið, að Seðlabankinn lánaði út helminginn, eins og reglurnar segja til um núna, af útflutningsandvirði þeirrar framleiðslu, sem þarna væri auðveit að vinna með þeim tækjum og vélum og mannakosti, sem við ráðum yfir, — ef Seðlabankinn lánaði helminginn af útflutningsverðinu til nokkurra mánaða, fengi auðvitað í sinn kassa eftir 3–4 mánuði beinan, erlendan gjaldeyri fyrir framleiðsluna, þá hefði þetta átt að vera hættuleg ráðstöfun, óframkvæmanleg ráðstöfun, nema hún hefði valdið verðbólgu í landinu.

Það er, eins og ég sagði, löngu búið að þrautræða þetta svo, og það er búið að fá viðurkenningu einnig hjá hagfræðingunum, sem byrjuðu á rangri túlkun á þessu máli, fá viðurkenningu þeirra fyrir slíkri útlánastarfsemi sem þessari út á beina framleiðslusköpun á útflutningsafurðum, sem venjulega er veitt aðeins til stutts tíma. Þar er bankinn aðeins sem milliliður að lána peninga út á gjaldeyrisverðmæti, alveg eins og í öðrum tilfellum, þá lánar hann peninga út á beinan gjaldeyri, sem kemur inn í bankann annars staðar frá, því að í eðli sínu er auðvitað lýsið í lýsisgeymunum eða mjölið í mjölgeymunum, sem þegar er selt, út af fyrir sig ekkert lakari gjaldeyrir en gjaldeyriskrónur, sem greiddar eru inn í bankann. Þar er aðeins um að ræða stuttan tíma á millibilstímabili, sem einmitt Seðlabankinn á að aðstoða til þess að komast yfir. En menn nefna ekki í þessu sambandi, að það sé neitt voðalegt fyrir Seðlabankann, þótt að hann láni út handa ríkissjóði, eins og honum er beinlínis ætlað með lögum. Þar er ætlazt til þess, að Seðlabankinn láni ríkissjóði, geti verið búinn að lána honum kannske 200 millj. kr., eins og komið hefur fyrir á miðju ári, út á tekjur, sem ríkissjóður ætlast til að fá seinni hluta ársins. Það hefur ekki verið talið, að þetta væri útilokað eða þetta væri hættulegt. Það hefur ekki verið talið, að það væri nein hætta í því fyrir seðlabanka að gera þetta, að því skilyrði uppfylltu, að ríkissjóður gæti skilað þessu fé aftur, helzt á sama ári, hér væri aðeins um bráðabirgðalán að ræða út á verðmæti, sem kæmu inn síðar. Sömu reglurnar gilda um þetta varðandi afurðalán Seðlabankans á útflutningsframleiðsluvörur, á beinar gjaldeyrisvörur. Vil ég vænta, að hæstv. viðskmrh. viðurkenni í þessum umr.; að þessu er ekki svona farið, og hann sé ekki að blanda þessu saman við gersamlega óskylda hluti, því að það er full aðstaða til þess í bankakerfinu frá hálfu Seðlabankans að lána eðlileg endurkaupalán í þeim tilfellum, þar sem er verið að lána út á útflutningsvöru, sem má telja örugga í sölu. Og það þarf ekki að taka það fram, að um þetta gilda nákvæmlegu sömu reglur, hvort sem um er að ræða útflutningsvöru sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, í þeim tilfellum, þar sem um er að ræða gjaldeyrisvöru, vöru, sem ætlað er að flytja út úr landinu og hún breytist í handbæran gjaldeyri innan skamms. Um það gilda vitanlega sömu reglur, hver svo sem varan er. Það er því með öllu rangt, hvort heldur það er á árunum 1955–1959 eða síðar, að þessi endurkaupalán Seðlabankans, þó að þau hafi hækkað nokkuð vegna vaxandi gjaldeyrisbirgða í landinu, útflutningsvörubirgða í landinu, hafi valdið nokkurri ólukku. Það er mesti misskilningur. Það er ekki aukning endurkaupalánanna, sem er orsök þenslunnar, sem er svo mikið talað um í okkar landi nú. Það er allt annað, sem er orsök að þessari þenslu, eins og ég skal víkja nokkuð að síðar.

Ef hins vegar meiningin er sú með því að auka nú á bindingu sparifjár í Seðlabankanum frá því, sem verið hefur, að Seðlabankinn ætli að fara að taka að sér hin almennu störf viðskiptabankanna, hann ætli að safna sparifénu til sín í auknum mæli, en taka að sér þau störf, sem hæstv. viðskmrh. viðurkenndi að væru í öllum löndum og hefðu verið hér verkefni viðskiptabankanna, að Seðlabankinn ætli að taka að sér þessi störf og fara nú að veita almenn rekstrarlán, sem rekstrarlánabankarnir hafa gert, þá er hér vitanlega um grundvallarbreytingu að ræða, sem ég fyrir mitt leyti álit að sé röng og við eigum ekki frekar að taka hér upp heldur en aðrir. Hæstv. ráðh. veit það mætavel, að reglurnar um endurkaupalánin hafa verið, t.d. varðandi sjávarútveginn, — en það er fyrst og fremst um þau lán að ræða, sem numið hafa einhverjum verulegum fjárhæðum lengst af, — þau hafa verið á allt öðrum grundvelli en almenn rekstrarlán sjávarútvegsins. Jafnt fiskibátar sem aðrir hafa fengið nokkur rekstrarlán hjá rekstrarlánabönkunum til sinnar starfsemi, en um þau lán hafa gilt allt aðrar reglur en um endurkaupalánin og allt aðrar veðsetningar. Þau lán hafa líka verið mjög breytileg frá tíma til tíma og milli einstakra fyrirtækja. Það er eðlilegt, að svo sé háttað um rekstrarlán. Rekstrarlánabankarnir hafa auðvitað á undanförnum árum lánað iðnaðarfyrirtækjum rekstrarlán, þeir hafa lánað verzluninni í landinu rekstrarlán eftir ýmsum reglum. En sé það nú meiningin, að Seðlabankinn komist yfir meira og meira af sparifé landsmanna, dragi það frá hinum almennu sparisjóðum og rekstrarlánabönkunum í því skyni, að Seðlabankinn ætli að fara að taka að sér þetta starf, að fara að lána almenn rekstrarlán til iðnaðar eða verzlunar, þá er verið sem sagt að fara hér inn á gersamlega nýtt bankakerfi, sem ég held, að verði síður en svo til bóta frá því, sem verið hefur.

Nei, aðalatriði þessa máls eru þau, að það er, eins og ég hef sagt, eðlilegt og sjálfsagt, að seðlabanki landsins veiti hófleg afurðalán út á allar útflutningsvörur landsmanna, vegna þess að þau ákvæði eru bundin í okkar lögum, að Seðlabankinn hefur einkarétt á því að fá í sínar hendur allan gjaldeyrinn, sem fæst fyrir útflutningsvörurnar. Það er skylda að skila andvirði þeirra, þegar þær fara úr landi, og það fé tekur Seðlabankinn. Ef ríkisstj. teldi hentugra að afnema þetta ákvæði, að það væri engin afhendingarskylda á gjaldeyrinum, þá þyrfti ekki heldur að biðja Seðlabankann um þessi endurkaupalán. Þá væri, eins og ég sagði, auðvelt að fá lánin hjá þeim, sem kaupa okkar afurðir, eins og hér þekktist áður fyrr, þannig að þeir greiddu inn á kaup sin, um leið og varan væri framleidd. Ég skal hins vegar segja það, að ég tel, að það kerfi, sem hér hefur verið gildandi um alllanga hríð, sé miklu eðlilegra, að Seðlabankinn fái í sínar hendur allan gjaldeyrinn fyrir útfluttar vörur, en 1áni hins vegar í staðinn, meðan á framleiðslunni stendur, afurðalán með svipuðum hætti og verið hefur, nema ég álit, að endurkaupalánin hafi verið of lág nú um hríð, þau hafi verið óeðlilega lág, þau hefðu átt að vera í því formi, sem þau voru áður. Ég tel því aðalatriðið að viðurkenna það, að þessi endurkaupalán eru eðlileg, eru framkvæmanleg og þau skaða fjárhagskerfið ekki á neinn hátt. Og það þarf ekki að binda í Seðlabankanum, hvorki eitt né neitt af sparifé landsmanna, til þess að hægt sé að halda við þessum endurkaupum. Þetta er alveg undirstöðuatriði að viðurkenna. Hinu skal ég svo ekki neita, að ef Seðlabankinn ætlar að fara að taka að sér að veita almenn rekstrarlán, t.d. iðnaðinum eða verzluninni eða öðrum aðilum, sem starfa hér eingöngu innanlands, en framleiða ekki neitt fyrir erlendan markað, þá er bankanum auðvitað nauðugur sá kostur, að þá þarf hann að kalla inn fé með einhverjum hætti, þá þarf hann að fara að safna sparifé í kapp við sparisjóðina og rekstrarlánabankana í landinu.

Ég vík þá með nokkrum orðum að hinu meginatriðinu til breytinga á seðlabankalögunum, sem er að finna í þessu frv., en það er það að veita Seðlabankanum heimild til að gefa út verðbréf með gengistryggingu. Eins og fram kom í ræðu hæstv. viðskmrh., er alveg augljóst, að þessi heimild er tekin hér upp í því skyni að gera Seðlabankanum léttara fyrir með að keppa við aðrar stofnanir í landinu, sem nú safna sparifé, eins og sparisjóðir og viðskiptabankar, keppa við þá um spariféð. Seðlabankinn ætlar sér að bjóða þeim, sem ráða yfir lausu fjármagni, upp á þau býti að leggja inn féð í Seðlabankann og þá skuli hann veita gengistryggingu á féð, en öðrum bankastofnunum í landinu og öllum öðrum aðilum í landinu er þetta óheimilt samkv. lögum. Það var einmitt eitt af ákvæðunum, sem sett voru í efnahagsmálalöggjöfina frægu, viðreisnarstefnuna, það var ákvæði um að banna með öllu slíka starfsemi sem þessa. Þar var ákveðið, að það væri bannað með öllu, að bankar í landinu eða aðrir, sem hafa með höndum fjármálastarfsemi, mættu setja í samninga nokkur ákvæði um það, að gengistrygging ætti að gilda þar á lánunum, hvort heldur væri varðandi vexti eða afborganir. Þetta var bannað. En nú sem sagt þykir nauðsynlegt, að Seðlabankinn fái einn allra heimild til að bjóða út lán með þessum kjörum. Það er greinilegt, að það þykir mikið við liggja, að féð fari í Seðlabankann og jafnvel fé úr öðrum peningastofnunum í landinu, því að það er auðvitað alveg gefið mál, að það getur ekki öðruvísi farið en svo, að eitthvað af því fé, sem nú er geymt í sparisjóðum eða í rekstrarlánabönkunum, kemur til með að verða dregið út úr þessum stofnunum og það fer inn í Seðlabankann, þar sem boðin eru betri kjör, þar sem boðið er upp á gengistryggingu. Mér sýnist því, að þetta ákvæði stefni að því að þrengja kjör viðskiptabankanna í landinu, minnka það fjármagn, sem þeir hafa yfir að ráða, en draga í auknum mæli fé inn í Seðlabankann.

Hæstv. viðskmrh. vildi afsaka þetta með því, að með þessu væri Seðlabankinn að gefa yfirlýsingu um traust sitt á genginu. Ja, drottinn minn dýri! Ætli það sé of mikið traust, sem þeir hafa á genginu nú í dag? Og ætli traustið vaxi mikið við þetta? Út af fyrir sig eru þessi ákvæði hin furðulegustu, hvernig sem á þau er litið. Fyrst er búið að veita Seðlabankanum þann rétt, að hann má ákveða gengisskráninguna í landinu, hann þarf ekki að spyrja Alþingi um það, hann getur ákveðið, hvað gengið skuli vera á hverjum tíma, hvort á að fella það eða hækka það. Auk þess á hann svo að fá, einn allra stofnana í landinu, leyfi til þess að bjóða út lán með gengisákvæði. M.ö.o.: hann getur alveg ákveðið það sjálfur, hvenær hann telur hentugt fyrir sig að hækka eða lækka gengið, en hefur eigi að siður einkarétt á að bjóða út skuldabréfalán með þessum hætti. Þetta mundi hafa þótt alleinkennilegt, ef aðrir hefðu átt í hlut, að hafa slíkt sjálfdæmi. En eins og málin standa nú, á meðan bankakerfið og þá fyrst og fremst Seðlabankinn er eigandi að allmiklum erlendum gjaldeyri, fjárhæð, sem jafnvel nemur yfir 1000 millj. kr., þá er auðvitað áhættan ekki ýkjamikil fyrir bankann, þó að hann dragi inn til sín frá öðrum bönkum í landinu og sparisjóðum 100–200 millj. kr., t.d. að taka, og taki þar á sig nokkra gengisáhættu af því fé, þegar hann hefur hins vegar hagnaðarmöguleikana í sambandi við gengislækkun af miklu hærri upphæð, sem er gjaldeyriseignin, eins og hún stendur hjá bankakerfinu nú. Ég held því, að þeir muni vera fáir, sem lesi eitthvert traust á gjaldeyrinum út úr þessari heimildarbeiðni Seðlabankans. Hitt held ég hins vegar að eigi að liggja alveg ljóst fyrir öllum, að tilgangurinn með þessu er í rauninni sá sami og með fyrra ákvæðinu. Tilgangurinn er þessi: að auðvelda Seðlabankanum að draga til sín meira fé frá öðrum peningastofnunum í landinu eða þá einnig annað fé, sem kann að vera fyrir utan peningastofnanir landsins.

Og þá kemur spurningin þessi: Hver er hinn raunverulegi tilgangur með því, að þeir, sem stjórna Seðlabankanum nú, telja, að það skipti miklu máli, að Seðlabankinn geti dregið til sin meira af sparifé landsmanna en hann hefur gert, að hann geti dregið til sín meira fé en meira að segja eftir heimildinni um bindingu sparifjár, að hann geti einnig dregið til sín fé eftir þessari leið? Hver er ástæðan til þess arna? Halda menn virkilega, að ástæðan sé sú, að Seðlabankinn ætli að taka þetta fé, sem hann fær á þennan hátt, og afhenda það á nýjan leik, t.d. til Útvegsbankans og Landsbankans, sem aðallega standa undir útlánum til framleiðsluatvinnuveganna? Það væri gaman að spyrja þá um það í þessum tveimur bönkum af fyrri reynslu, sem þeir hafa fengið, hvort þeir, sem þar stjórna málum, tryðu mikið á þetta, — þeir, sem að undanförnu hafa borið sig sem verst undan því, að þeir gætu ekki haldið uppi venjulegum lánum til atvinnuveganna, vegna þess að þeir væru píndir svo mikið til þess að binda fé í Seðlabankanum, að ef þeir þyrftu á fjármunum að halda vegna skyndibreytinga, þá væri þeim refsað með 18% vaxtagreiðslu af Seðlabankanum.

Nei, það er víst enginn vafi á því, að það er ekkí það, sem stendur til með þessu, að Seðlabankinn taki þetta aukna fé, sem honum kann að áskotnast með þessum hætti, og fari að lána það út til rekstrarlánabankanna aftur, sem veiti fé í auknum mæli til undirstöðuatvinnuveganna. Það dettur engum í hug. En hverjar eru þá ástæðurnar fyrir þessu? Ástæðurnar eru þær, að hæstv. ríkisstj. lítur svo á og þeir, sem ráða málefnum Seðlabankans, að það sé of mikið fé í umferð í landinu, það skapi of mikla þenslu, það þurfi að draga úr þessu fjármagni, það þurfi að loka það inni. Það er þessi hugsun, sem stendur á bak við. Það á að reyna að draga meira af sparifé landsmanna inn í Seðlabankann og binda það þar, til þess að það valdi ekki þenslu í landinu. Það á að draga meira, einnig af almennum peningum, sem bankakerfið hefur eða rekstrarlánabankarnir hafa, inn til Seðlabankans og binda það þar, til þess að draga úr framkvæmdum í landinu, til þess að minnka þensluna. Þetta er auðvitað tilgangurinn. Og ástæðan til þess, að ríkisstj. hefur ekki talið duga að hafa fyrri breytinguna eina í frv., breyt. um að hækka skylduna á bindingu sparifjárins, heldur tekur einnig upp þetta n,ýja ákvæði um að gefa út skuldabréf með gengistryggingu, — ástæðan er sú, að það er farið að bera á því og það mjög tilfinnanlega, að sparifé landsmanna komi ekki lengur inn í bankana. Reynslan núna í októbermánuði, Síðasta mánuði, sem skýrslur liggja fyrir um enn þá, varð sú, að heildaraukningin á innlánsfé í öllu bankakerfinu er rétt rúmar 2 millj. kr., á móti 108 millj. kr., sem söfnuðust fyrir í bankakerfinu í sama mánuði árið á undan. Spariféð var sem sagt hætt að koma inn í bankana. Ég hygg, að ég muni það rétt, að í septembermánuði var útkoman sú, að aukningin á sparifé í bönkum og sparisjóðum varð aðeins 5 millj. kr. Það má því segja, að málin höfðu þróazt þannig, að spariféð var hætt að koma inn í bankana. Nú eru þó allar líkur til þess, að afkoma hafi verið þannig í flestum greinum í landinu, að það hefði samkvæmt öllu eðlilegu átt að myndast álíka mikið sparifé núna á þessu hausti og t.d. á s.l. hausti. Kaup hefur fremur hækkað en hitt, framleiðsla hefur verið mikil. Það virðist hafa verið, sbr. söguna um alla þensluna, talsvert unnið í landinu og menn eflaust fengið talsverða peninga á milli handa. En sem sagt útkoman varð sú, ríkisstj. horfði á það, að stjórn hennar á efnahagsmálum landsins hafði leitt til þess, að peningarnir voru hættir að koma inn í bankakerfi landsins, þeir sigldu þar fram hjá. Það var sem sagt þannig, að menn virtust fremur kjósa að ráðstafa fé sínu sjálfir heldur en að biðja bankana fyrir að geyma það. Og þegar svona er komið, þá segir ríkisstj.: Það dugir ekki bara að hafa í gildi einhver ákvæði um, að það skuli ákveðin prósenta af sparifjáraukningunni í hverjum mánuði leggjast fyrir í Seðlabankanum og geymast þar. Ef aukningin er ekki orðin nein, þá kemur lítið út úr því að fá tiltekna prósentu af þeirri aukningu. — Og þá er fundið upp þetta ráð, að Seðlabankinn megi fara út á hinn almenna markað og bjóða út skuldabréfalán með allt öðrum kjörum en öllum öðrum í landinu er heimilt, sem sagt með þeim kjörum, að hann skuli fá að tryggja menn fyrir hugsanlegu gengisfalli.

Það er svo spurning auðvitað, hvort hinir almennu sparifjáreigendur í landinu, þeir sem gætu lagt inn eitthvert fé í bankakerfið og hafa gert á undanförnum árum, koma nú hlaupandi til Seðlabankans og kaupa þessi gengistryggðu bréf, leggja fram sparifé sitt á þennan hátt, — það er mikil spurning, — eða hvort þeir halda áfram uppteknum hætti og ráðstafa fé sínu með því að koma því í fast eða á þann hátt, sem menn búast nú við að gengislækkunin nái ekki til. En hitt má telja nokkurn veginn víst, að ýmsir þeir aðilar, sem fram til þessa hafa geymt peninga sína í bönkum landsins eða sparisjóðum án nokkurrar gengistryggingar, taki út peninga sína úr bönkum og sparisjóðum og fari með þá í Seðlabankann og kaupi þar gengistryggðu verðbréfin. Það má fyllilega búast við því. Og á þann hátt hefur sem sagt ríkisstj. og Seðlabankinn fengið þetta einstaklega þægilega kerfi: Þegar sparifé safnast í bönkum og sparisjóðum, þá gildir fyrri reglan og þá festist í Seðlabankanum tiltekin prósenta af þessu fé. Ef sparifé kemur ekki inn í Seðlabankann gegnum viðskiptabankana og sparisjóðina, þá reynum við þó að ná fénu með því að bjóða enn þá betur en bankar og sparisjóðir almennt bjóða, með gengistryggingarákvæðinu, og vonumst til þess að geta haldið áfram að binda sífellt meira og meira fé í Seðlabankanum á þennan hátt. — Þetta finnst mér, að hæstv. viðskmrh, hefði átt að segja sem grg. fyrir þessu frv., svona stæði á þessu, þetta væri tilgangurinn. En hitt þykir mér afskaplega lítið karlmannlegt, að koma hér og segja, eins og sagt var í fyrra skiptið, sem svona ákvæði var hér lögbundið, að ætlunin sé nú að gera þetta til þess að ná þarna í nokkurt fé frá hinu almenna bankakerfi og koma því til undirstöðuatvinnuveganna, því að það er ábyggilega ekki meiningin, þannig hefur ekki verið haldið á þessum málum.

Ég vil taka það skýrt fram, að við Alþb.- menn erum algerlega andvígir þessu frv. Við teljum, að það leysi engan vanda, síður en svo, það geri miklu frekar bölvun í hagkerfinu, ef það yrði framkvæmt. En við bendum á það eins og áður, að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig stendur á þeim erfiðleikum, sem við er að glíma í efnahagsmálum landsins, hverjar eru ástæðurnar. Hvernig stendur á því, að það hefur verið ráðizt í meiri framkvæmdir í landinu en ríkisstj. telur nú að átt hefði að vera? Hvernig stendur á því, að fjárfestingin í landinu er of mikil? Hvernig stendur á því, að það er flutt inn of mikið af vörum til landsins, þannig að gjaldeyrissjóðirnir fara minnkandi? Hver er ástæðan? Það hefur verið upplýst hér, m.a. af hæstv. viðskmrh., að nú á þessu ári hafi fjárfesting einstaklinga í verzlun og iðnaði vaxið sérstaklega mikið og farið langt fram úr gerðum áætlunum. Hvernig skyldi nú standa á því, að verzlunin hefur fjárfest óvenjumikið núna á s.l. ári? Hvernig skyldi standa á því? Hvaðan hefur hún fengið peninga? Hún hefur grætt, grætt meira en nokkurn tíma áður. Hún hefur grætt, m.a. vegna þess, að ríkisstj. hefur sjálf beitt sér fyrir því að afnema í ýmsum tilfellum hámarksálagningarreglur, sem gilt höfðu í mörg ár, og verzlunin hefur síðan séð um það að hækka álagninguna og auka sinn gróða. Þetta eru staðreyndir, sem liggja fyrir. Og í öðru lagi er það svo vitanlegt mál, að með góðu samþykki ríkisstj. hefur verzlunin í landinu verið að draga til sín sífellt í auknum mæli peningamagn bankanna í landinu. Á 10 fyrstu mánuðum þessa árs, eða til októberloka, hafði verzluninni í landinu tekizt að draga út úr bankakerfinu 275 millj. kr. í nýjum viðbótarlánum við það, sem fyrir var. Verzlunin var einmitt sá aðili í landinu, sem mestu hafði náð til sín af sparifé bankanna. Hvers vegna hefur ríkisstj. ekki beinlínis gert ráðstafanir til þess, að þessi verzlun, sem staðið hefur í of mikilli fjárfestingu, aukið á þensluna, hefði minna fé á milli handa, að það yrðu minnkuð dálítið við hana útlán, að það yrði dregið úr gróða hennar? Við teljum, að það sé miklu eðlilegra og hollara að gera sér fulla grein fyrir því, hvernig stendur á því, að það ríkir ofþensla í landinu, hvernig stendur á því, að ýmislegt hefur gengið hér úr skorðum, heldur en að loka augunum fyrir sannindum málsins og grípa svo í sífellu til þess annaðhvort að reyna að lækka kaupið hjá hinum almenna launþega með ýmsum hætti, eins og gert hefur verið, eða reyna að ráðast á sparifé með þessum hætti og loka það inni í Seðlabankanum, eins og gert hefur verið. Slíkt leysir engan vanda.

Þessu er mjög svipað farið með ýmsar greinar iðnaðarins í landinu eins og með verzlunina. Það sýnir sig, að iðnaðurinn hefur dregið til sín mikið fé og getað líka ráðizt í stórfelldar framkvæmdir. Það er vegna þess, að ýmsar greinar iðnaðarins hafa stórlega hagnazt nú í seinni tíð. Það ber vitanlega að draga úr þessum gróða og draga úr fjáraustri til þessara aðila, og það á ekki að leyfa þessum aðilum að ráðast í fjárfestingu án alls skipulags. Það er alveg óhjákvæmilegt að setja sterka reglu um það , hvaða fjárfesting skuli sitja fyrir og hvaða fjárfesting eigi að dragast aftur úr eða bíða. Það er sem sagt skoðun mín, að hæstv. ríkisstj. sé hér að vísu að glíma við mikinn vanda, en að hún grípi til alrangra aðgerða. Stjórn henna á peningamálunum sem öllu áti að bjarga, hefur beðið algert skipbrot eins og hennar efnahagsmálastefna sem heild.

Fyrst hafði hæstv. ríkisstj. haldið því fram að það væri hægt að halda í skefjum útlánum bankanna á þann einfald hátt að hækka vexti. Vextirnir voru hækkaðir og gerið hér hærri en í flestum öðrum löndum. En þrátt fyrir það, þó að vextirnir séu svo háir sem menn þekkja nú og miklu hærri en í flestum nálægum löndum, þá kemur í ljós að eftirspurnin eftir lánum hefur ekki minnkað, eftirspurnin hefur þvert á móti aukizt. En vaxtahækkunin hefur orðið til þess að hækka verðlagið í landinu, auka dýrtíðina, sem hefur vitanlega sínar afleiðingar. Aukin dýrtíð kallar á hækkað kaup, aukinn framleiðslukostnað. Nú treystir hæstv. ríkisstj. sér ekki til að halda því fram, að það eigi að draga úr þessum of miklu útlánum bankanna með því að hækka vextina enn einu sinni, og þá grípur hún til ráðstafana eins og þessara að reyna að handsama fé með einhverjum hætti og loka það inni.

Það er rétt, að ríkisstj. stendur í miklum vanda, eins og nú er komið efnahagsmálum landsins. Dýrtíðin æðir áfram, eins og menn vita, og það er ekki nóg með það, að hún hafi hækkað meira nú á síðustu mánuðum en dæmi er til um áður. Hitt vita enn einnig að það standa til enn stórkostlegar hækkanir á flestum sviðum. Á s.l. sumri beitti hæstv. ríkisstj. sér fyrir því að afnema öll verðlagsákvæði landsins. Eimskipafélagið hafði barizt við stjórnvöld landsins um margra ára skeið og vildi í sífellu fá að hafa hærri flutningsgjöld, taldi sig eiga rétt á því að græða meira en félagið gerði, og græddi það þó tvímælalaust mjög vel. Ríkisstj, varð því á s.l. sumri að afnema þessi verðálagsákvæði og reynslan gefur orðið sú, að flutningsgjöld á almennum vörum til landsins hafa hækkað sem afleiðing af þessu ferli frá 26% og upp í 60%. Almennast munu flutningsgjöldin hafa hækkað um 40–50%. Menn vita svo sem að hin mikla tollheimta ríkisins er lögð ofna á flutningsgjöldin ásamt innkaupsverði vörunnar, ríkissjóður fær því nokkurði sinn kassa af hækkuðum flutningsgjöldum en tvímælalaust græða skipafélögin nokkra milljónatugi á þessum ráðstöfunum. En þetta er allt gert undir því fagra kjörorði að frelsið eigi að vera sem allra mest, menn eigi að vera frjálsir að því að verðleggja þá vinnu sem allra mest. Það er bara einn maður sem má ekki vera frjáls og það er sá sem selur vinnuafl sitt. Hann má ekki ráða því, honum er jafnvel bannað að setja í samninga það, sem atvinnureksturinn er almennt farinn að borga, það verður jafnbel að rjúka upp með lög og stöðva slíkt, að samningar séu gerðir á milli aðila um launakjör. En það má ríkja þetta fullkomna fresi í verðlagsmálum almennt. Afleiðingin verður auðvitað stórhækkandi vöruverð í landinu, og það er það, sem hefur veriðað ganga yfir þær afleiðingar koma í ljós. Nú á næstu mánuðum hlýtur vöruverð í landinu almennt séð að hækka mjög verulega sem afleiðing af hækkandi flutningsgjöldum. Sú hækkun á eftri að koma inn í verðlagið, hún kemur á næstu mánuðum.

Frá því hefur verið skýrt, að það muni á næstunni eiga að hækka sjúkrasamlagsgjöld feiknalega mikið, jafnvel um helming, hefur maður heyrt. Daggjöld á sjúkrahúsum er talað um að hækka úr 210 kr. upp í 300 kr. á dag. Það er vegna hækkandi rekstrarkostnaðar á öllum sviðum og mikilla þarfa hjá sjúkrahúsum. Það hefur verið boðað, að það muni verða mikil hækkun á hitaveitugjöldum og rafmagni og strætisvagnagjöldum nú á næstunni. Svo hygg ég, að allir í landinu búist nú við því, að kaup verzlunarfólks muni hækka og kaup iðnaðarfólks muni hækka. Og ríkisstj. skýrir frá því að kaupmenn segja, að ef kaup verslunarfólks hækki, þá vilji kaupmenn fá hækkaða álagningu, því að þeir ætla ekki að gefa neitt eftir af sínu. Og iðnrekendur segja það sama. Ef kaup iðjufólksins á að hækka, þá verður líka álagningin hjá iðnrekendum að hækka. og sú ríkisstj., sem hefur það að aðalsjónarmiði, að í þessum efnum eigi að gilda sem mest frelsi um álagningu og verðlag, hún lætur þetta auðvita allt ganga út í verðlagið með tilheyrandi afleiðingum.

Ég bendi á þetta aðeins til að vekja athygli á því, að rætur þessa meins að mínum dómi. Þær liggja í því, að ríkisstj. hirðir ekki um að koma í veg fyrir hækkandi verðlag í landinu vegna þess að hækkandi verðlag hefur sínar afleiðingar fyrir hagkerfið sem heild. Þvert á móti hefur ríkisstj. beinlínis verið á þeirri skoðun, framkvæmt þá stefnu að verðlagið mætti fara hækkandi, það er það sem þarf að gera í þessum efnum, að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir sívaxandi verðalag. Það þarf að koma í veg fyrir sívaxandi gróða, m.a. hjá verzluninni. Það þarf að koma í veg fyrir það, að hún taki til sín allt of mikið af fjármagni landsmanna, eins og hefur átt sé stað nú síðustu árin. Það eru ráðstafanir í þessa átt, sem á að gera. Ríkisstj. getur auðveldlega lækkað vextina í landinu, en það mundi draga stórkostlega úr dýrtíðinni á ýmsum sviðum. Það eru svona ráðstafandir,s em þarf að gera,eins og við höfum bent á í umr. um þessi mál hvað eftir annað en ráðstafanir svipaðar þeim, sem er að finna í þessu frv. um Seðlabankann, duga ekki neitt, þær leysa engan vanda, þær getra valdið truflun í sjálfum atvinnurekstrinum, það er rétt, og hefur stundum borið á því, þær geta leitt til þess að viðskiptabankarnir segi það og framkvæmi það , að þeir hafi ekki fé til að lána til gagnlegustu framleiðslustarfa í landinu, minnki þau lán, en það truflar framleiðsluna, sem truflar um leið gjaldeyrismyndunina í landinu og gerir efnahaginn sem heild veikari.

Ég held, að það sé komið meira en svo tími fyrir hæstv. ríkisstj. til að viðurkenna það, að stefna hennar í þessum efnum er röng. Hún getur ekki ráðið við þennan vanda eftir þessum leiðum sem hún hefur farið, eftir leiðum um stjórn peningamála ein og hún hefur kallað það, eða eftir leiðum um hækkaða vexti. Það er ekki leiðin út úr vandanum.

Eins og ég hef sagt hér, erum við Alþb.- menn algerlega andvígir þessu frv. og bendum á allt aðrar leiðir, sem fara ætti í þessum efnum.