20.04.1964
Neðri deild: 81. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður beindi til mín nokkrum mikilvægum fsp., sem ég tel sjálfsagt að ég svari, og skal reyna að gera það í sem allra stytztu máli. Þær lúta að grundvallaratriðum í sambandi við þetta mikilvæga mál, og ég tel ekki nema sjálfsagt að gera tilraun til að svara fsp., sem bornar eru hógværlega fram og óneitanlega snerta mikilvæg atriði málsins.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm., hvort það gæti verið tilætlunin af hálfu Seðlabankans að hagnýta að fullu þá heimild, sem gert er ráð fyrir að Seðlabankinn fái í þessu frv. til innstæðubindingar, allt að 25% af heildarinnstæðufé hjá lánastofnunum. Um þetta get ég sagt það, sem ég raunar held að ég hafi sagt við 1. umr. málsins, að þetta kemur vitanlega ekki til greina, og mér er ekki kunnugt um, að nokkrum hafi dottið það í hug, að hámarksheimildir þessa frv. yrðu nýttar skyndilega. Það er mjög algengt, að hámarksheimildir sem þessar séu í lögum, og eru þær ætlaðar sem hámark og auðvitað til þess ætlazt, að sá aðili, sem með vald fer samkv. l., beiti því valdi skynsamlega og í samræmi við þarfir efnahagslífsins. Ég get því fullvissað hv. þm. og aðra, sem einhvern hliðstæðan ótta kunna að hafa borið í brjósti, að það kemur að sjálfsögðu ekki til mála, að heimild þessa frv. verði notuð að fullu eða með skyndilegum hætti.

Þá spurði hv. þm., hver innstæðubindingin ætti að verða nú í ár. Því hlýt ég að svara með því að benda á, að slíkt hlýtur að fara eftir ástandinu í peningamálum og gjaldeyrismálum þjóðarinnar, eins og það verður metið af Seðlabankanum og ríkisstj. á því ári, sem nú er nýbyrjað. Markmiðið með slíkum heimildum eins og þeim, sem hér er um að ræða, er einmitt að gera ríkisstj. kleift að hafa skynsamlega stjórn á efnahagsmálum og þó sérstaklega peningamálum þjóðarinnar. Tæki það, sem hér er gert ráð fyrir að Seðlabankinn hafi og hann hefur raunar haft hér allar götur síðan 1957, er eitt helzta hagstjórnartæki, sem beitt er í frjálsum þjóðfélögum, til þess að hafa skynsamlega heildarstjórn á peninga- og gjaldeyrismálum þjóðarbúskaparins. Þar er engin ástæða til að ætla annað en Seðlabankinn muni beita því valdi, sem hann nú þegar hefur haft um. 7 ára skeið, hér eftir eins og hingað til af fullri skynsemi, af fullri gát og með það markmið eitt fyrir augum að stuðla að sem mestri festu í efnahags-, viðskipta- og gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Hitt er svo annað mál, að það er augljóst, að þetta tæki eitt dugir ekki til að tryggja stöðugt verðlag og jafnvel ekki heldur til að tryggja heilbrigða þróun í gjaldeyrismálum þjóðar. Þar með þarf annað að koma til, eins og raunar reynslan hér á Íslandi undanfarin ár því miður hefur leitt í ljós. Hér hefur þróunin að mörgu leyti orðið öðruvísi en góðviljaðir menn og stjórnarvöldin hefðu viljað að hún hefði orðið, ekki vegna þess að Seðlabankinn hafi brugðizt skyldu sinni á því sviði, þar sem honum er ætlað að fara með mikilvægan þátt ríkisvaldsins, heldur af öðrum orsökum, sem ég sé ekki ástæðu til að ræða hér að þessu sinni og gera þessar umr. þar með að algerlega almennum umr. um efnahagsmál.

Í tilefni af þessari fsp. hv. þm. um það, hver gert er ráð fyrir að sparifjárbindingin muni verða nú í ár, vil ég sem sagt og get ég í raun og veru ekki sagt annað en þetta, að það hlýtur að fara eftir hinu almenna ástandi í peninga- og gjaldeyrismálum þjóðarinnar, að hversu miklu leyti slíkri heimild til sparifjárbindingar er beitt, og þó mun mér óhætt að segja, að engin grundvallarbreyting á þeirri framkvæmd, sem verið hefur undanfarið, t.d. var á s.l. ári, er í aðsigi eða undirbúningi.

Þá spurði hv. þm., til hvers hugsanleg aukning innstæðubindingarinnar ætti að ganga. Þessu hlýt ég að svara með því að vitna til þess, til hvers innstæðubindingin hefur gengið á undanförnum árum eða síðan tekið var að framkvæma heimildina frá 1957, sem var á árinu 1960. Það var, sem kunnugt er, einn höfuðtilgangur hinnar nýju stefnu í efnahagsmálum, sem núv. stjórnarflokkar tóku upp árið 1959–1960, að koma upp gjaldeyrisvarasjóði, sem gæti verið til aukins öryggis í þjóðarbúskapnum, sérstaklega þjóðarbúskapnum út á við, að koma upp slíkum gjaldeyrisvarasjóði með því að draga úr eðlilegum stuðningi við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Þetta hefur tekizt. Þetta, sem var eitt af meginmarkmiðum í hinni nýju stefnu ríkisstj. frá 1959–1960, þetta markmið hefur náðst. En það hlaut að vera augljóst, að það gæti ekki náðst með öðrum hætti en þeim, að sparifjáröflun landsmanna ykist mjög verulega og hluti af þeirri auknu sparifjáröflun, sem ætti sér stað, gengi til Seðlabankans, til þess annars vegar að standa undir áframhaldandi stuðningi hans við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað, og til þess að binda í gjaldeyrisvarasjóði, sem smám saman skyldi komið upp.

Meginrökin fyrir notkun heimildarinnar til bindingar hluta sparifjárins voru auðvitað þau, að annars vegar þurfti að vera kleift að halda áfram stuðningnum við sjávarútveg og landbúnað, sem hér á landi af hálfu Seðlabankans felst í endurkaupum á afurðavíxlum þessara undirstöðuatvinnuvega, og hins vegar til þess, að Seðlabankinn gæti eignazt gjaldeyrisvarasjóði. Í stórum dráttum skyldi sama fé og áður vera bundið í endurkaupum afurðavíxla sjávarútvegs og landbúnaðar. En Seðlabankinn þurfti að eignast mörg hundruð millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð, — og hvernig gat Seðlabankinn eignazt slíkan mörg hundruð millj. kr. gjaldeyrisvarasjóð án þess að draga úr útlánum sínum til sjávarútvegs og landbúnaðar, nema með því að fá nýja hlutdeild í sparifjáraukningu þjóðarinnar. Þess vegna var ráð fyrir því gert, og sem betur fer var sparifjáraukning þjóðarinnar, sérstaklega á fyrstu árunum eftir 1960, svo mikil, að Seðlabankinn gat fengið nægilegt fé með því að taka aðeins til sín nokkurn hluta af sparifjáraukningunni, þá gat hann fengið nægilegt fé til að koma upp gjaldeyrisvarasjóði, sem nú við síðustu mánaðamót nam 1333 millj. kr., án þess að draga á nokkurn hátt úr grundvallarstuðningi sínum við sjávarútveg og landbúnað með endurkaupum á afurðavíxlum, heldur þvert á móti gat Seðlabankinn haldið áfram að auka endurkaupin á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar í mjög verulegum mæli.

Spurningunni um það, til hvers væntanlega aukningu hlutdeildar Seðlabankans í heildarsparifjármyndun þjóðarinnar ætti að nota, verður bezt svarað með því að vitna til þess, til hvers Seðlabankinn hefur notað þann hluta af sparifjáraukningunni, þann hluta af heildarsparifénu, sem hann hefur fengið. En hann hefur gengið til þessa tvenns: annars vegar til myndunar gjaldeyrisvarasjóðsins og hins vegar til nokkurrar aukningar á endurkaupavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar. En þá kann að vera, að menn spyrji: Hvers vegna þarf Seðlabankinn einmitt nú á nýjum heimildum að halda til þess að auka hlutdeild sína í sparifjármyndun þjóðarinnar? Ástæðurnar eru tvær. Fyrri ástæðan er sú, að nú liggur við, að þeirri hámarksheimild Seðlabankans til bindingar á sparifé, sem felst í gildandi lögum, sé náð. En svo sem kunnugt er, hefur Seðlabankinn nú heimild til að binda hjá sér eða taka til sín allt að 15% af sparifjárinnstæðum og allt að 20% af innstæðum, sem ávísa má með tékka. En það fé, sem ýmsar lánastofnanir eiga nú í Seðlabankanum samkv. þessum reglum, er komið mjög nærri þessu hámarki, og gæti því farið svo, ef þetta frv. næði ekki fram að ganga, að afleiðingin yrði beinlínis sú, að hlutdeild Seðlabankans í sparifénu eða a.m.k. sparifjáraukningunni minnkaði á þessu ári, héldist ekki óbreytt, heldur beinlínis minnkaði, og það væri vissulega mjög óheppilegt, og liggur í augum uppi, að það gerði Seðlabankanum ekki kleifara en fyrr að gegna þeim tveimur mikilvægu hlutverkum, sem ég gat um áðan: að varðveita og auka gjaldeyrisvarasjóðinn og styðja sjávarútveg og landbúnað með auknum afurðalánum.

Það er þess vegna í fyrsta lagi þetta, að hámarkinu samkv. gildandi lögum er í sumum tilfeilum þegar náð, sem hefur gert nauðsynlegt, að þessar heimildir yrðu rýmkaðar. Seinni ástæðan er sú, að einkum upp á síðkastið hafa verið hafðar uppi á hendur Seðlabankanum mjög vaxandi óskir, jafnvel kröfur, um aukinn stuðning Seðlabankans við sjávarútveg og landbúnað og nýjan stuðning af hálfu Seðlabankans við iðnað. En svo sem öllum hv. þm. er kunnugt, hefur Seðlabankinn eingöngu endurkeypt afurðavíxla af sjávarútvegi og landbúnaði, sjávarútvegs- og landbúnaðarfyrirtækjum, en ekki af iðnaðarfyrirtækjum. Það er að mörgu leyti mjög eðlilegt og fullkomlega skiljanlegt, að jafnmikilvæg iðngrein og iðnaðurinn, sem einnig er farinn að flytja út í talsverðum mæli, uni því ekki áratug eftir áratug að sitja ekki við sama borð í Seðlabankanum í þessum efnum og sjávarútvegur og landbúnaður.

Um það má sannarlega deila, hvort það sé eðlilegt hlutverk seðlabanka að annast endurkaup afurðavíxla frá nokkrum atvinnuvegi, eins og hér á sér stað. Slíkt er ekki hlutverk seðlabanka í neinu nálægu landi, að því er mér er kunnugt um. Hitt er svo annað mál, að þessi venja hefur skapazt hér við sérstakar aðstæður og til hennar hafa legið alveg sérstök rök, að það hefur þótt heppilegt, að Seðlabankinn annaðist fyrirgreiðslu við undirstöðuatvinnuvegina, sjávarútveg og landbúnað, í þessu formi, og er sú regla orðin gömul og á raunar líklega fyrst og fremst rót sína að rekja til þeirra tengsla, sem um áratugi voru á milli okkar seðlabanka, seðladeildar Landsbankans, og stærsta viðskiptabanka þjóðarinnar, þ.e. sparisjóðsdeildar Landsbanka Íslands. Hin nánu tengsl milli þess aðila, sem fór með seðlabankavaldið, og stærsta viðskiptabanka þjóðarinnar sköpuðu hér þær sérstöku aðstæður, sem valdið hafa því, að það hefur nú um langt skeið verið talið eitt af meginhlutverkum íslenzka seðlabankans að veita undirstöðuatvinnuvegunum þá fyrirgreiðslu, sem felst í endurkaupum á afurðavíxlum þessara tveggja atvinnugreina. En sjávarútvegur og landbúnaður eru ekki lengur einu undirstöðuatvinnugreinar íslenzks efnahagslífs, heldur hefur iðnaðurinn nú síðustu áratugina bætzt í þann hóp og skiptir einnig sannarlega mjög miklu máli fyrir þróun efnahagslífsins almennt og fyrir aukna þjóðarframleiðslu og bætt lífskjör hér á landi, og þess vegna er mjög eðlilegt, að það sé athugað mjög gaumgæfilega, hvort ekki sé unnt að setja iðnaðinn einnig að þessu leyti á sama bekk og sjávarútveg, — á þann bekk, sem sjávarútvegur og landbúnaður hafa setið á nú um áratugi. Það má öllum vera alveg augljóst mál, að Seðlabankinn getur ekki hafið kaup á afurðavíxlum iðnaðarins, nema því aðeins að honum sé séð fyrir nýju fé til þess. Þess vegna tel ég það í raun og veru ekki geta verið hafið yfir nokkurn efa, ef menn á annað borð eru sammála um það, að Seðlabankinn skuli eiga ríflegan, gildan og vaxandi gjaldeyrisvarasjóð, og ef menn á annað borð eru sammála um, að Seðlabankinn eigi að styðja sjávarútveg, landbúnað og iðnað í formi endurkaupa á afurðavíxlum þessara atvinnugreina og það í vaxandi mæli, ef á heildina er litið, þ.e. ef iðnaðurinn bætist við, þá hlýtur þetta að gerast á þann hátt, að Seðlabankinn fái vaxandi hlutdeild í sparifé landsmanna. Það getur ekki gerzt á annan hátt. Það er ekki hægt að óska eftir því, að gjaldeyrissjóðurinn vaxi, þ.e. Seðlabankinn festi aukið fé í gjaldeyrísvarasjóði, og Seðlabankinn láni nýtt fé til sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, nema því aðeins að Seðlabankanum sé séð fyrir fé til að standa undir þessum auknu útgjöldum, og það fé getur ekki komið frá neinum öðrum aðilum en þeim, sem þjóðin felur varðveizlu síns sparifjár. Í gjaldeyrisvarasjóðnum, þegar öllu er á botninn hvolft, er auðvitað bundinn hluti af heildarsparifé landsmanna. Í öllum útlánum, hvort sem er til sjávarútvegs, landbúnaðar, iðnaðar eða verzlunar, er auðvitað, þegar öllu er á botninn hvolft, fólgið sparifé landsmanna, og þess vegna ér hvorki hægt að auka gjaldeyrisvarasjóðinn né heldur að auka útlánin til atvinnuveganna, nema því aðeins að sparifé vaxi. Þetta er svo einföld staðreynd, að um hana þarf auðvitað ekki að deila.

En ef einum ákveðnum aðila í peningakerfinu, seðlabankanum, er ætlað, eins og honum er ætlað eftir okkar löggjöf og raunar löggjöf annarra nágrannaþjóða, að standa undir gjaldeyrisvarasjóðnum og auk þess er ætlazt til þess, að Seðlabankinn hafi hér það hlutverk umfram það, sem seðlabankar nágrannalandanna hafa, að lána sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, þá verða þeir aðilar, sem fá spariféð, — Seðlabankinn tekur ekki á móti sparifé, þá verða þeir aðilar, sem fá spariféð, að afhenda hluta af því sparifé til Seðlabankans, til þess aðila, sem er ætlað þetta hlutverk.

Það má með sanni segja, að 1960, þegar ríkisstj. var að byrja að framkvæma hina nýju efnahagsstefnu sína og tók að beita heimildum sínum í l. frá 1957 um bindingu nokkurs hluta sparifjárins, hafi það verið höfuðhlutverk bindingarinnar að koma upp gjaldeyrisvarasjóðnum, að koma gjaldeyrisvarasjóðnum á laggirnar. Það hefði aldrei tekizt, um það held ég að enginn maður, sem þekkir til, geti verið í nokkrum vafa, — það hefði aldrei tekizt að koma hér upp gjaldeyrisvarasjóði nema m.a. — ég segi m.a. — jafnvel fyrst og fremst með aðstoð bindingarreglnanna, sem Seðlabankinn beitti. Og það er sannarlega mikið átak að koma upp á 3–4 árum gjaldeyrisvarasjóði, sem nú er 1350 millj. kr. Það er mikið átak, sem þó hefur tekizt. Nú í dag má hins vegar segja, að gjaldeyrisvarasjóðurinn sé orðinn svo gildur, að mjög veruleg aukning hans á þessu ári og næstu árum sé ekki nauðsynleg. Hann þarf að halda áfram að vaxa um nokkur hundruð millj. kr. á ári samfara vaxandi þjóðartekjum, samfara vaxandi utanríkisviðskiptum, en á næstu árum er ekki þörf neins viðlíka átaks til aukningar gjaldeyrisvarasjóðsins og hefur reynzt frá árunum 1959–1960 til dagsins í dag. Þess vegna hefði kannske einhverjum getað dottið í hug: Getur þá ekki Seðlabankinn slakað á, fyrst hann er búinn að sinna þessu verkefni, að festa fé í gjaldeyrisvarasjóðnum? Er þá ekki kominn tími til fyrir hann að slaka á, slaka á bindingarreglunum og láta viðskiptabankana sjálfa ráðstafa í auknum mæli frá því, sem verið hefur, því sparifé, sem þeir fá til umráða? En hér hefur það komið til skjalanna; sem hv. Alþingi er kunnugt af þeim ýtarlegu umræðum, sem hér hafa farið fram í sambandi við mörg mál, sem fyrir þingið hafa verið lögð, að einmitt samtímis því, sem þetta hefur átt sér stað, hafa verið hafðar uppi stórauknar kröfur einmitt á hendur Seðlabankans um aukin afurðalán til sjávarútvegsins, um aukin afurðalán til landbúnaðar og ný afurðalán til iðnaðar. Það er skoðun ríkisstj., að í stað þess, að Seðlabankinn dragi úr hlutdeild sinni í sparifénu og vísi sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði eingöngu á viðskiptabankakerfið, sé skynsamlegra og hagkvæmara, að Seðlabankinn haldi a.m.k. hlutdeild sinni í sparifjáraukningunni, eins og hún hefur verið undanfarið, og a.m.k. ekki minni hluta af sparifjáraukningunni sé beint til undirstöðuatvinnuveganna, til framleiðsluatvinnuveganna þriggja um hendur Seðlabankans í formi þeirra afurðalána, sem löng reynsla er fyrir, hvernig framkvæmd eru.

Það, sem ríkisstj. í raun og veru hefur átt um að velja á síðasta ári og þessu, er það, að Seðlabankinn minnki hlutdeild sína í sparifénu og segi við atvinnuvegina: Eigið þið við viðskiptabanka? Þeir fá spariféð, þeir eiga að sinna þörfum ykkar. — Þetta höfum við ekki talið að hafi verið skynsamlegar niðurstöður í þessu mikla vandamáli, vegna þess að við höfum óttazt, að þá mundi lánsfé skiptast að ýmsu leyti með ranglátara hætti og með óhagkvæmari hætti en það getur skipzt, ef það rennur í föstum farvegi um hendur Seðlabankans. Og þetta er í raun og veru höfuðröksemdin fyrir þeirri grundvallarstefnu, sem að baki þessa frv. liggur. Ríkisstj, telur heppilegra, að talsverður hluti sparifjárins, ekki minni en undanfarin ár, renni í þeim fasta farvegi, sem það hefur runnið undanfarið til undirstöðuatvinnuveganna, um hendur Seðlabankans, í stað þess að lausn lánsfjárvandamálanna sé, ef svo mætti segja, einkamál atvinnnufyrirtækjanna sjálfra og viðskiptabankanna, og þá ekki hvað sízt af því, að á undanförnum árum hafa átt sér stað mjög miklar breytingar á skipulagi íslenzkra bankamála með tilkomu ýmissa nýrra banka, sem í sannleika sagt er ekki alveg öruggt að mundu sinna þörfum undirstöðuatvinnuveganna, sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, í jafnríkum mæli og hægt er að tryggja að þeim verði sinnt, ef hinum fasta farvegi um hendur Seðlabankans er haldið.

Þegar þetta frv. var flutt á s.l. hausti, var fyrirsjáanlegt, að það mundi þurfa að auka mjög verulega afurðalán Seðlabankans til bæði sjávarútvegs og þó einkum til landbúnaðar á því hausti vegna verðlagsbreytinga, sem orðið höfðu. Og einn höfuðtilgangur með flutningi frv. var sá að gera Seðlabankanum þetta kleift. Það fór einnig svo, eins og ráð hafði verið fyrir gert, að það reyndist nauðsynlegt að auka mjög verulega þessi afurðalán til þessara tveggja undirstöðuatvinnuvega, sem Seðlabankinn hefur á sinni könnu, og það var gert. Þeirri reglu er nú fylgt í Seðlabankanum varðandi afurðalánin, að Seðlabankinn lánar 55% út á áætlað skilaverð afurða sjávarútvegs og landbúnaðar. En það skilaverð svokallað, sem Seðlabankinn miðar við, er heildsöluverð að frádregnum opinberum gjöldum, sem eru búnaðarsjóðsgjaldið, að því er snertir landbúnaðarvörurnar, 2%, og útflutningsgjald af sjávarafurðum, að því er snertir sjávarafurðir, sem var 6% í haust. Í nóvemberlok s.l., þegar afurðalánin náðu hámarki eins og öll undanfarin ár, námu afurðalán til sjávarútvegs 525 millj. kr., og afurðalán til landbúnaðar námu þá 380 millj, kr., eða samtals 905 millj. kr. Af starfsfé sínu hafði Seðlabankinn m.ö.o. 905 millj. kr. bundið í beinum útlánum, afurðalánum, til þessara tveggja atvinnuvega þjóðarinnar. Ef þessar tölur eru bornar saman við nóvemberlok árið áður, þegar þessi lán voru einnig í hámarki, votu afurðalán til sjávarútvegs þá 431 millj. og til landbúnaðar 294 millj., eða samtals 725 millj. kr. Á árinu 1962–1963 jukust m.ö.o. endurkaup Seðlabankans á afurðalánum sjávarútvegs um 94 millj. kr., en afurðalán til landbúnaðar jukust um 86 millj. kr., svo að augljóst er af þessum tölum, að afurðalán til landbúnaðar jukust hlutfallslega nokkru meir en afurðalán til sjávarútvegs. En í heild jukust afurðalánin um 180 millj. — um hvorki meira né minna en 180 millj. kr. — á þessu eina ári. Það gefur væntanlega auga leið, að svo mikla aukna byrði getur hvorki Seðlabankinn né nokkur annar aðili tekið á sig, án þess að hann hafi jafnframt skilyrði til þess, ef ástandið á peningamarkaðnum er þannig, að auka hlutdeild sína í sparifé þjóðarinnar, því að í raun og veru, ef útlán Seðlabankans eiga ekki að hafa verðbólguáhrif, ef útlán Seðlabankans eiga ekki að vera kostuð af nýjum pappírsseðlum, sem eingöngu mundi þýða hækkað verðlag og aukna verðbólgu, þá geta t.d. þessar 180 millj. ekki komið neins staðar annars staðar að en af sparifjáraukningu þjóðarinnar á sama tíma. Það var þetta, sem var fyrirsjáanlegt á s.l. hausti, að mundi eiga sér stað, og þess vegna þótti sjálfsagt að gera ráð fyrir auknum heimildum Seðlabankanum til handa til að auka hlutdeild sína í sparifénu á móti þessu aukna fé, sem fyrirsjáanlegt var, að hann hlaut að láta af hendi og hefur nú þegar látið af hendi.

Í þessu sambandi vil ég leggja sérstaka áherzlu á, að reglur þær, sem gilda í Seðlabankanum um endurkaup á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar, eru nákvæmlega hinar sömu. Seðlabankinn framfylgir þeirri reglu að endurkaupa afurðavíxla sem svarar 55% af skilaverði afurðanna, og hefur svo verið síðan í apríl í fyrra, að nákvæmlega sömu reglu hefur verið fylgt varðandi endurkaup á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar. Síðan í nóv. hafa þessi endurkaup minnkað, eins og alltaf á sér stað, vegna þess að í vetur hafa bæði sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir verið fluttar út í mjög verulegum mæli, sumpart hraðar en áður hefur átt sér stað. Nýjustu tölur, sem til eru um heildarútlán Seðlabankans til landbúnaðar or sjávarútvegs, tölurnar frá því 1. þ.m., eru þær, að heildarútlán Seðlabankans til landbúnaðarins eru nú 293 millj. kr. og til sjávarútvegsins 328 millj. kr.

Í þessum orðum hef ég viljað gera tilraun til að svara þeim fsp., sem hv. síðasti ræðumaður bar fram í ræðu sinni varðandi framtíðarstefnuna í þessum málum, Í niðurlagi ræðu sinnar ræddi hv. þm. sérstaklega um þær greinar frv., sem fjalla um heimild Seðlabankans til verðbréfaútgáfu með gengistryggingu. Um þetta atriði skal ég segja það, að þessi heimild til verðbréfaútgáfu Seðlabankans mun ekki verða notuð nema að vandlega athuguðu máli og Seðlabankinn mun ekki nota hana nema í samráði við ríkisstj. og að undangengnum viðræðum við viðskiptabankana.