21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af þeim ummælum og ræðum, sem hér hafa verið haldnar, síðan ég talaði fyrir nál. okkar í minni hl. fjhn. í gær. Ég bar fram í gær nokkrar fsp. til hæstv. ríkisstj. varðandi framkvæmd þeirra laga, sem hér er ráðgert að setja, og ég er hæstv. viðskmrh. þakklátur fyrir það, að hann skyldi bregða skjótt við út af þessum tilmælum. En því miður verð ég að játa, að ýmislegt er þó enn nokkuð óljóst fyrir mér um það, hvað gert verður, ef frv. verður að lögum. Já, jafnvel flest þau atriði, sem ég spurði um, eru mér enn nokkuð óljós. Ég vil þess vegna í örstuttu máli leyfa mér að rifja það upp, hvað það var, sem mér fannst skipta máli að fá svör við, og hvernig mér fannst svörin vera að því leyti til, sem þau útskýrðu málið.

Fyrsta spurning mín var um það, á hvern hátt bindiskyldan mundi verða framkvæmd, þ.e. hvort ástæða væri til að óttast, að hún yrði færð upp í hámarkið, þannig að þær 555 millj. kr., sem enn þá vantar upp á, að bundna féð nái 25% af heildarinnstæðum banka og sparisjóða, byndust. Þessu svaraði hæstv. ráðh. þannig, að ekki kæmi til mála, að heimildin yrði notuð skyndilega, og það eru vissulega mikilsverðar upplýsingar, því að sú framkvæmd að nota heimildina skyndilega mundi hafa orðið bankakerfinu algerlega um megn, eins og ég leitaðist við að sýna fram á í ræðu minni hér í gær. En af svari ráðh. má þó glögglega sjá, að í ráði mun vera að nota alla þessa heimild, enda má þess auðvitað nærri geta, að heimildarinnar er ekki aflað nema í því skyni að nota hana.

Þá spurði ég um það, hvernig bindiskyldunni yrði hagað, þ.e. hversu fljótt væri ráðgert að ná þessu fjármagni inn frá bönkum og sparisjóðum, hvað verður bindingarprósentan há af innlánsaukningunni, eða verður hætt að miða bindinguna við innlánsaukningu, þannig að peningastofnanirnar verði hér eftir einnig skyldaðar til að greiða inn á bundna reikninginn, þótt um enga sparifjáraukningu verði að ræða eða jafnvel þótt lækkun á innstæðum hafi orðið. Um þetta sagði hæstv. ráðh., að það mundi fara eftir mati Seðlabankans og ríkisstj. En hvernig verður þeirra mat? Á því veltur þetta allt, og án þess að upplýsingar liggi fyrir um það, veit enginn, hvað hér stendur til að samþykkja. Eftir því sem hægt var að heyra á hæstv. ráðh. fyrr í dag, er það hans mat, a.m.k. þessa stundina, að langeðlilegasta og öruggasta leiðin til að framkvæma lánastarfsemi til atvinnuveganna sé sú að láta Seðlabankann hafa afgreiðsluna með höndum. Og þá eru viðskiptabankarnir væntanlega alveg óþarfir, nema þá sem milliliðir. Ef mat hæstv. ráðh. skyldi nú breytast, eins og stundum kemur fyrir, má þá ekki búast við því, að viðskiptabankar og sparisjóð9r og Söfnunarsjóður og innlánsdeildir verði einnig óþarfir milliliðir í annarri lánastarfsemi líka? Mér sýnist, að það megi fullt eins vel gera ráð fyrir því. Það segir því vitanlega ekki neitt um það atriði, sem hér um ræðir, að það fari eftir mati Seðlabankans og hæstv. ríkisstj. Það þurfa að koma fram gleggri upplýsingar um það, hvert það mat sé.

Þriðja spurning mín laut að því, á hvern hátt auknum fjármunum Seðlabankans mundi verða varið, þ.e., hver mundi verða prósenta endurkeyptra afurðavíxla landbúnaðarins, hver prósenta endurkeyptra víxla sjávarútvegsins eða hvort hafin yrðu endurkaup á víxlum iðnaðarins og þá eftir hvaða reglum. Því var til svarað, að lán til landbúnaðar og sjávarútvegs yrðu aukin og iðnaðurinn ætti eitthvað að fá líka, en nánar var ekki farið út í það. Þó er að mínum dómi alveg óhjákvæmilegt að fá úr þessum atriðum skorið, áður en málið er endanlega afgreitt hér á hv. Alþingi.

Eins og margoft hefur verið rakið, voru afurðalánin 67% af framleiðsluverði, áður en bindiskyldan kom til. Eftir að farið var að afla fjár til Seðlabankans á þann hátt, þ.e.a.s. með innstæðubindingu, voru lán þessi hlutfallslega lækkuð og látin standa í stað að krónutölu, þrátt fyrir stóraukinn framleiðslukostnað og aukið framleiðslumagn. Nú hefur reglunum verið breytt, og eru nú t.d., að því er landbúnað snertir, endurkeypt 55% af skilaverði, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. í gær. Þannig er þó þessi fyrirgreiðsla talsvert minni en hún áður var. Þegar nú á að leggja nýjar byrðar á viðskiptabankana og sparisjóðina og gera þá þannig enn þá getulausari til að greiða fyrir atvinnuvegunum, er eðlilegt, að spurt sé, og nauðsynlegt, að svar fáist við því: Á að hækka afurðalánin og þá hve mikið? Hver á prósentan að verða? Þetta þyrfti að fást upplýst. Eða hvernig verður t.d. með rekstrarlánin til landbúnaðarins? Búnaðarþing 1964 hefur ályktað um það mál og gert eindregnar kröfur um lagfæringu í þeim efnum. Ályktunin er stutt og skýr, og ég vil lesa hana upp hér, með leyfi hæstv. forseta. Hún er svona:

„Búnaðarþing leyfir sér að vekja athygli á því, að vegna stórhækkaðs verðlags á fóðurbæti, áburði og öðrum rekstrarvörum er landbúnaðinum óumflýjanleg nauðsyn að fá hækkuð rekstrarlán frá því, sem verið hefur. Rekstrarlán landbúnaðarins, sem veitt hafa verið í mánuðunum marz–september, hafa orðið hæst um 162 millj. kr., og hefur sú hámarksupphæð staðið óbreytt um mörg undanfarin ár. Verðmæti landbúnaðarframleiðslunnar var árið 1959 talið um 768 millj. kr., en á þessu ári áætlað nær 1600 millj. kr. Á þessu tímabili hefur magn rekstrarvara landbúnaðarins aukizt mjög. T.d. hefur magn tilbúins áburðar vaxið úr 34 þús. smálesta að verðmæti 60 millj. kr. árið 1958 í um 50 þús. smál. á þessu ári að verðmæti um 160 millj. kr. Á s.l. ári voru afurðalán hækkuð frá því, sem áður var. Eðlilegt og nauðsynlegt er, að svo v erði einnig um rekstrarlánin. Búnaðarþing leyfir sér að skora á stjórn Seðlabanka Íslands að hækka rekstrarlán til landbúnaðarins í samræmi við þessar auknu þarfir hans, eða um 100% frá því, sem var á s.l. ári. Búnaðarþing felur stjórn Búnaðarfélags Íslands að beita sér fyrir því við Seðlabankann og ríkisstj., að rekstrarlánin verði nú þegar hækkuð samkv. framansögðu.“

Hér lýkur ályktuninni, og undirskriftir eru þar. Þegar nú stendur til að afla Seðlabankanum aukinna fjármuna með nýjum byrðum á bankana og sparisjóðina og því er jafnframt haldið á lofti, að megintilgangur innstæðubindingar sé að afla fjár frá bankakerfinu í heild til að standa undir lánveitingum Seðlabankans innanlands, sýnist eðlilegt, að spurt sé, hvort það sé ætlunin að verða við þessum réttmætu kröfum bændasamtakanna, og ég vænti þess, að skýlausar yfirlýsingar fáist um þetta hér í hv. þd.

Ég spurði í fjórða lagi um það, hvaða ákvæði væru fyrirhuguð í sambandi við útgáfu þeirra gengistryggðu verðbréfa, sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir að Seðlabankanum verði heimilað að gefa út einum allra í landinu. Það skiptir geysilega miklu máli, hvernig reglur verða settar um þetta, eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, vegna þess að undir lánstíma og vaxtakjörum er það komið, hvernig vænta megi, að bréfin seljist. Enginn vafi er á því, að gengistryggingin mun gera bréfin girnileg í augum sparifjáreigenda, og því eru miklar líkur fyrir því, að sparifé verði tekið úr öðrum bönkum til kaupa á verðbréfum í Seðlabankanum. En lánstími og vaxtakjör eru þar auðvitað einnig ráðandi þættir í þessu sambandi. Sá ótti, sem viðskiptabankarnir hafa látið í ljós um þetta atriði, er engan veginn ástæðulaus, sér í lagi meðan ekkert fæst upplýst þessu viðkomandi. Hér er því einnig nauðsynlegt, að skýr svör komi til.

Einnig vaknar hér sú spurning, hvað eigi að gera við andvirði bréfanna. Til hvers ætlar Seðlabankinn eða hæstv, ríkisstj. að nota þessa fjármuni? Einhver tilgangur hlýtur að vera með því að afla heimildar fyrir Seðlabankann að gefa út gengistryggð verðbréf og fara þannig inn á alveg nýja braut í peningamálum. Í hvað á að nota þessa peninga? Og hvers vegna má ekki taka upp almenna heimild fyrir alla banka til útgáfu slíkra verðbréfa, í svipuðu formi og t.d. Verzlunarbankinn gerir ráð fyrir í umsögn sinni? En hann segir um þetta atriði:

„Ekki er með öllu óeðlilegt, að sparifjáreigendur séu verndaðir fyrir verðbólguþróun þeirri, sem hér ríkir og hefur ríkt, en lausn sú, sem í frv, er farið inn á, gengur allt of skammt.“ „Réttara væri,“ segir síðar í umsögninni, „að komið yrði á almennri verðtryggingu sparifjár í formi lánsvísitölu, þannig að þjóðfélagsþegnarnir geti aldrei hagnazt á skuldasöfnun og sparifjáreigendur tapað verðgildi peninga sinna sökum verðbólgu í þjóðfélaginu. Með því mundi vinnast stórfelldur áfangi í baráttu þjóðarinnar við verðbólguna,“ segir í umsögn Verzlunarbankans.

Hvernig ætlar Seðlabankinn að fá það skakkafall upp borið, sem leiða mundi af gengislækkun, eftir að hann hefði tekið við einhverju fjármagni með þessu móti? Er hugsunin t.d. sú, að kvaðir komi á lántakandann á móti, því að væntanlega á að lána féð út? Eiga þeir, sem taka lán, að bera þann halla, sem verður vegna gengisfallsins. Það er e.t.v. ekki óeðlilegt, vegna þess að þeir hafa í flestum tilfellum notað lánið til þess að eignast eitthvað það, sem hækkar í verði við það, að gengið fellur. Svör við þessu liggja ekki fyrir, en ef hugsunin er þessi, að Seðlabankinn flytji áhættuna yfir á lántaka, þá ættu allir bankar og sparisjóðir að fá sams konar heimild. Þá gætu allar lánastofnanir í landinu annazt þessi viðskipti, sem nú eru Seðlabankanum einum ætluð. Þá væri líka búið að leysa að nokkru leyti það merkilega viðfangsefni, sem Alþingi mun sjálfsagt glíma við siðar, en það er, hvernig hægt sé að verðtryggja spariféð, en um það liggja fyrir till. hér, eins og hv. alþm. er kunnugt. En um þetta atriði er ekkert hægt að segja, vegna þess að allar upplýsingar vantar. Meðan svo er, vita hv. alþm. ekkert, hvað þeir eru að fjalla um, og þess vegna er alveg ófært, að ekki sé greint frá þessu við meðferð málsins hér á Alþingi.

Í fimmta lagi finnst mér vanta skýringar á því, hvort búast megi við því, að leitað verði samninga við bankana og stærri sparisjóðina um, að þeir kaupi ríkisskuldabréf eða ríkistryggð verðbréf fyrir einhvern tiltekinn hluta innstæðuaukningar, t.d. 15%, eins og gert var á s.l. ári. Þessir samningar, sem voru gerðir með þeim hætti, að um það segir bankastjórn Iðnaðarbankans, að þeir hafi nálgazt valdboð, hafa augljóslega mikla þýðingu í þessu sambandi. Ef bankar og sparisjóðir mega treysta því, að engin tilmæli muni koma frá hæstv. ríkisstj. á þessu ári, t.d. um það að leggja fé fram til verðbréfakaupa, þá skiptir það afar miklu máli að sjálfsögðu, og ekki sízt ef samninganna kynni nú að verða leitað á svipaðan hátt og síðast var gert. Ef engin slík tilmæli koma fram, verður breytingin, sem hér er ráðgerð með frv., að sjálfsögðu miklu léttbærari fyrir peningastofnanirnar. Það hefur því beinlínis þýðingu fyrir afstöðu manna til frv., hvernig þessu verður fyrir komið. Þess vegna er það merkilegt, að það skuli ekkert heyrast frá hæstv. ríkisstj. um það atriði, hvort nokkrar slíkar ráðstafanir séu ráðgerðar, og ég vil leyfa mér að óska upplýsinga einnig um það.

Hæstv. viðskmrh. talaði mikið um það í ræðu sinni í gær, að innstæðubinding væri algerlega óhjákvæmileg, vegna þess að annars mundi koma hér verðbólga. Ef afurðalánin yrðu hækkuð, án þess að aukins fjármagns yrði aflað eftir þessum leiðum, mundi verðbólgan halda hér innreið sína. Þannig eiga bindingarákvæðin að verka sem eins konar hurð til þess að halda verðbólguþokunni utan dyra. Nú er það vitað, að hurðir fyrir geymsluhólfum bankanna og peningastofnananna eru yfirleitt rammgerðar og þéttar. Þó verður ekki varizt þeirri hugsun, að eitthvað hafi gefið með þessum verðbólguslagbrandi hæstv. ríkisstj., og það er óneitanlega nokkuð rokkið þar innan dyra. Sannarlega ætti reynslan undanfarið að vera búin að sýna það, að þessar ráðstafanir duga ekki til þess að halda verðbólgunni í skefjum. Hins vegar valda þær viðskiptabönkunum og sparisjóðunum margvíslegum erfiðleikum, eins og ég leitaðist við að sýna fram á í fyrri ræðu minni hér við meðferð þessa máls. Viðskiptabankarnir hafa allir sínu hlutverki að gegna. Um þá gilda sérstök lög og þeim er af Alþingi falið sérstakt hlutverk, sem þar er nánar skilgreint. Sparisjóðirnir hafa víðs vegar um land verið geysileg lyftistöng fyrir byggðarlagið og á mörgum stöðum einasti aðilinn, sem fólk hefur átt aðgang að til þess að fá aðstoð við framkvæmdir sínar. Innlánsdeildir samvinnufélaganna eru ekki venjulegar peningastofnanir. Þær stunda enga lánastarfsemi, heldur er fjármagn það, sem þar er, fengið þeim sem rekstrarfé, á svipaðan hátt og hlutafé er starfsfé hlutafélaganna. Þetta kemur greinilega fram af meðferð málsins um innlánsdeildir samvinnufélaganna hér á hv. Alþingi 1921, þegar þessi lög voru fyrst sett. Ég tel, að það beri að fara varlega í því að torvelda þessum stofnunum öllum að rækja hlutverk sitt, vegna þess að þær hafa allar mikla þýðingu, en sérstaklega ber að stöðva sig á þessari braut, vegna þess að það er ekki þörf á slíkum aðgerðum frekar en orðið er.

Ég skal ekki, herra forseti, fjölyrða frekar um þetta mál við þessa umr. Ég vildi aðeins undirstrika það, að enn þá er margt í sambandi við þetta mál og framkvæmd þess ærið óljóst og mörg þau atriði, sem þó er alveg nauðsynlegt að liggi rétt og skýrt fyrir, áður en afstaða er tekin til frv.