13.12.1963
Efri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hélt áfram gagnrýni sinni út af því, hvernig vegagerð ríkisins hefur bókfært útgjöld til Keflavíkurvegarins. Ég skal nú ekki ræða það frekar. Ég endurtek það, sem ég sagði hér áðan, að þarna er um bókhaldsatriði að ræða. En mér finnst nú hv. þm., sem er þó orðvar maður og prúður, hafa gengið helzt til langt í því, þegar hann líkir þessari bókfærslu við smyglara, sem setja kútinn utanborðs til þess að leyna honum, og mér finnst það alveg ómaklegt í garð vegamálastjóra og hans starfsmanna að bera þeim á brýn, að þeir hafi sett þennan Keflavíkurkút utanborðs til þess að fela hann, því að allt kemur þetta fram í ríkisreikningnum, ef lesið er vandlega, og skal ég ekki eyða fleiri orðum að því.

Ég minntist hér áðan á hin óvissu útgjöld, að þau hafa jafnan farið eitthvað fram úr áætlun, en þó minna á árinu 1962 heldur en undanfarið. Mér hefur nú borizt í hendur skýrsla, sem gerð var nýlega um þessar greiðslur frá og með árinu 1950, og þar sem hv. þm. hóf umr. um þetta, ætla ég til fróðleiks að lesa þá skýrslu upp. Árið 1950 fóru óviss útgjöld 420% fram úr áætlun fjárlaga, árið 1951 fóru þau 734% fram úr, 1952 123%, 1953 129%, 1954 192% , 1955 140%, 1956 272% , 1957 186%, 1958 177%. Allar þessar tölur eru frá fjmrh.-tíð núv. formanns Framsfl. Árið 1959 var núv. hæstv. utanrrh. fjmrh. Þá fóru útgjöldin 122% fram úr áætlun. Síðan núv. stjórn tók við, hafa umframgreiðslur á ýmsum útgjöldum verið sem hér segir: Árið 1960 79% , árið 1961 79%, árið 1962 35%.