27.04.1964
Neðri deild: 84. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan láta nokkur orð falla í sambandi við þetta frv., áður en það verður afgreitt hér frá hv. d. Ég tók nokkurn þátt í 1. umr. málsins. Það er æðilangt síðan það var, og átti ég þá eftir að svara allýtarlegri ræðu, sem hæstv. viðskmrh. hafði nánast tileinkað mér, en ég sá ekki ástæðu til að ræða nánar þá, vegna þess að ég hafði hugsað mér að tala fáein orð um þetta mál við 3. umr. Það, sem ég segi núna, verður þess vegna að öðrum þræði svar við sumu af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, en að öðru leyti nokkur orð til að draga saman sumt af því, sem mér finnst mest ástæða til að benda á í sambandi við meðferð málsins.

Þegar hæstv. ríkisstj. byrjaði á því að draga spariféð inn í Seðlabankann og draga úr endurkaupum afurðavíxla, byrjaði sem sagt á lánasamdráttarstefnu sinni, var okkur sagt, að þetta væri gert til þess að koma á jafnvægi í efnahagsmálum innanlands, draga úr verðbólgunni, stöðva verðbólguþróunina og koma á jafnvægi innanlands í verðlags- og lánamálum, og einnig til að styrkja hag landsins út á við. Þetta væri tilgangurinn með því að fara inn á þessa braut, að draga úr útlánastarfseminni, minnka peningamagnið í umferð og ná þannig jafnvægi í verðlaginu. Þetta hefur verið gert síðan allharkalega, eins og rakið hefur verið í sambandi við þetta mál og ég kem ofurlítið að síðar, en þó er meining hæstv. ríkisstj. að ganga nú enn þá lengra á þessari braut og með þessum nýju lögum vill hún fá heimild til þess.

Nú er því skotið við af hendi hæstv. ríkisstj., að megintilgangurinn sé sá að fá fé inn í Seðlabankann til þess að auka endurkaup á afurðavíxlum, sem sé til þess að lána féð út aftur atvinnuvegunum. Það er mikil áherzla lögð á þetta og nokkuð einhliða raunar í grg. frv., að þetta sé aðalástæðan núna til þess, að það eigi að ganga lengra en áður í því að draga fé úr viðskiptabönkunum inn í Seðlabankann.

Í tilefni af þessu leyfði ég mér við 1. umr. að spyrja hæstv. viðskmrh. um það, hvort hann vildi þá ekki í framhaldi af þessu gefa yfirlýsingu um, að það fjármagn, sem yrði nú dregið til viðbótar inn í seðlabankakerfið, yrði raunverulega lánað út aftur í aukningu afurðalána. Og hv. frsm. minnt hl. fjhn. lagði einnig í sínum málflutningi mikla áherzlu á að fá að vita þetta og óskaði eftir að fá að vita, hverjar hinar nýju afurðaendurkaupareglur yrðu, sem upp yrðu teknar, þegar Seðlabankinn væri búinn að fá þetta viðbótarfjármagn úr viðskiptabönkum landsins, sem hér væri gert ráð fyrir. — En hæstv. ráðh. hefur alls ekki viljað svara þessum spurningum eða gefa nokkrar yfirlýsingar í þessu efni, sem hægt er að festa hendur á eða byggja nokkuð á, hefur færzt algerlega undan, og síðast endaði með því, að hann við lok 2. umr. lýsti þeirri skoðun sinni, að það væri fjarstæða að vera að spyrja sig um þetta, vegna þess að þetta yrði að vera allt á lausu, um þetta mættu ekki vera fastar reglur. Það mætti ekki ætlast til þess af sér, að hann gæti gefið um þétta skýrar yfirlýsingar, sem sé af þeirri einföldu ástæðu, eins og hann sagði, að þessi inndráttur á fjármagni í Seðlabankann væri hagstjórnartæki, sem stjórnin yrði að hafa í höndum til að vinna að stjórn efnahagsmálanna. Þess vegna væri ekki með neinu móti hægt að ætlast til þess, að þeir gætu lýst því yfir, að þetta fjármagn ætti að fara aftúr út í afurðalán.

Þessi yfirlýsing hæstv. ráðh., sem kom í staðinn fyrir glögg svör um, hvað ætti að greiða mikið fyrir atvinnuvegunum umfram það, sem verið hefði, er býsna eftirtektarverð og sýnir í raun og veru algerlega eðli málsins. Hún sýnir eða gefur a.m.k. fullkomlega þeirri skoðun undir fótinn, sem við höfum látið hér í ljós, að með þessu sé ekki fyrst og fremst ætlað að greiða fyrir atvinnuvegunum með nýjum afurðalánum, heldur sé ríkisstj. hér enn á ný að fá sér nýjar heimildir til þess að draga fjármagn inn í Seðlabankann og auka með því lánasamdráttinn í landinu, auka með því hina raunverulegu „frystingu“, sem átt hefur sér stað. Meiningin með þessu sé ekki sú fyrst og fremst, eins og þó er látið í veðri vaka, á meðan er verið að reyna að smokra þessu óvinsæla máli í gegn, að greiða í auknum mæli fyrir atvinnuvegunum og auka verulega endurkaupin á afurðalánunum. Ef það hefði verið meiningin, hefði áreiðanlega verið mögulegt fyrir hæstv, ráðh. að svara þessu a.m.k. öðruvísi en á þá lund, að þetta yrði allt að vera opið, því að hér væri um hagstjórnartæki að ræða. Hann hefði áreiðanlega getað, ef þetta hefði ekki verið meiningin, gefið skýrari svör um það, hverju atvinnuvegirnir mættu eiga von á um aukna fyrirgreiðslu í afurðalánum.

En þessi yfirlýsing er líka að ýmsu leyti nokkuð sérstök, því að ef hún væri tekin eins og hún er gefin, ætti hún að þýða, að það væri eitt af þýðingarmestu hagstjórnartækjum ríkisstj. að hringla til með endurkaupareglur á afurðalánum fyrir undirstöðuatvinnuvegina í landinu. Það væri eitt helzta hagstjórnartækið, sem hún þyrfti að hafa í sínum höndum. En það er mín skoðun, að með þessar endurkaupareglur eigi ekki að hringla fram og aftur, það eigi ekki að vera liður í hagstjórninni að breyta þeim fram og til baka, heldur eigi þar að reyna að koma á föstum reglum, sem atvinnuvegirnir geti reitt sig á, eins og raunar var búið að gera, áður en núv. hæstv. ríkisstj, fór að hringla með þessi mál og gerði það að hagstjórnartæki að þröngva kosti atvinnuveganna að þessu leyti og draga stórkostlega úr afurðalánum.

Í þessu sambandi kemur svo spurningin: Er ástæða til þess að vera að ganga svona fast eftir því, hvort eigi að bæta úr fyrir atvinnuvegunum að þessu leyti, og hver eru rökin fyrir því og hvað hefur raunverulega gerzt? Hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið ætlun ríkisstj., að þessi nýja lánastefna, sem hún tók upp, þyrfti ekki að íþyngja undirstöðuatvinnuvegunum, og mér skildist hann telja, að þannig hefði til tekizt, að hún hefði ekki íþyngt undirstöðuatvinnuvegunum, þessi breyting á lánastefnunni. Í því sambandi sagði hæstv. ráðh., að því er mér fannst með nokkru stolti, að endurkaup á afurðavíxlum fyrir sjávarútveginn hefðu hækkað að krónutölu úr 640 millj. í árslok 1958 í 750 millj. í árslok 1963, eða um 110 millj. kr., og sagði svo, að raunverulega væri hækkunin sennilega nokkru meiri, vegna þess að minni birgðir mundu hafa verið á bak við 1963. En tökum bara þessar tölur, að aukningin á þessu tímabili á afurðalánum úr Seðlabankanum til sjávarútvegsins sé 110 millj. kr., og þá sjáum við, hvað raunverulega hefur gerzt og hvernig hefur verið hert að sjávarútveginum, því að hvert einasta mannsbarn á Íslandi veit, að 750 millj. eru að tiltölu miklu minni fjárhæð nú en 640 millj. 1958. Verðmæti sjávarafurða og framleiðslukostnaður sjávarafurða hefur vaxið svo gífurlega á þessu tímabili, að hér er um stórfelldan samdrátt á lánum til sjávarútvegsins að ræða. Enda þurfum við ekkert að vera að þræta um þetta, því að áður en þetta nýja hagstjórnartæki var tekið í brúkun, sem hæstv. ráðh. er svo stoltur af, var sjávarútveginum yfirleitt lánað úr Seðlabankanum 67% af verðlagi afurðanna, en síðan hefur aldrei verið farið hærra en í 55%. Raunverulegur niðurskurður á afurðalánum til sjávarútvegsins nemur því eitthvað á milli 18 og 20%. Það er hvorki meira né minna. Og þar við bætist svo, að áður var lánað með 5–51/2 % vöxtum til sjávarútvegsins, en síðan hafa afurðalánin verið höfð með 7% vöxtum og það lánsfé, sem sjávarútvegurinn hefur svo þurft að sækja í aðra banka til þess að bæta sér að einhverju leyti upp þetta áfall, hefur orðið að taka með 9–91/2 % vöxtum.

Það er þess vegna heldur furðulegt að heyra hæstv. viðskmrh. vera að tala hér um það, að þessari stefnu hafi verið hagað þannig, að hún íþyngdi ekki undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, því að varðandi landbúnaðinn er svo enn ljótari sögu að segja. Þar hafa lánin út á afurðir, framleiddar afurðir, verið lækkuð tiltölulega eins og í sjávarútveginum, en því bætt við, að heildarlánin fengu ekki að hækka í krónutölu í nálega 3 ár og fóru þess vegna langt niður fyrir 55% á tímabili, en eru nú einhvers staðar nálægt 53–55 % á afurðir, sem búið er að framleiða, hliðstætt og er í sjávarútveginum. Miðað við núverandi kringumstæður hafa þess vegna lán út á tilbúnar landbúnaðarafurðir verið skorin niður um 18–20% .

En með þessu er þó ekki nema hálfsögð sagan, því að Seðlabankinn hafði áður tekið upp þá reglu í samráði við þær ríkisstj., sem setið höfðu, að lána talsvert fyrir fram af rekstrarlánum til landbúnaðarins. Og þessi rekstrarlán fyrir fram til landbúnaðarins, sem hafa verið veitt í mánuðunum marz–júlí og fram undir haustið smátt og smátt hækkuð, hafa verið skorin miklu meira niður en sjálf afurðalánin á framleiddar vörur. Og til marks um það vil ég enn þá einu sinni vísa í það, sem hv. frsm. minni hl. fjhn. benti á, að þessi rekstrarlán til landbúnaðarins hafa hæst orðið 162 millj., urðu það hæst á árinu 1960, og þeim hefur verið haldið í þeirri hámarksfjárhæð alveg fram á þennan dag. Fram á þennan vetur hefur þeim verið haldið í þessari hámarksfjárhæð. En á þessu tímabili hafa innkaup landbúnaðarins af rekstrarvörum vaxið gífurlega, bæði vegna aukinnar framleiðslu og enn fremur vegna óðaverðbólgunnar, sem geisað hefur í landinu, þannig að t.d. hækkun á tilbúnum áburði einum er um 100 millj. Á þeim eina rekstrarlið er hækkunin um 100 millj., á sama tíma sem rekstrarlánin hafa verið látin standa í stað.

En hæstv. viðskmrh. segir hér samt sem áður, þó að þetta séu staðreyndirnar, segir hér alveg kalt og rólega, að ætlunin hafi verið að framkvæma þessa nýju lánapólitík þannig, að hún íþyngdi ekki undirstöðuatvinnuvegum landsmanna, og það hafi verið gert. Og hann telur það vott þess, að þannig hafi farið, að heildarútlán Seðlabankans út á afurðir hafi ekki lækkað í krónutölu, en raunverulega hafa þessi lán lækkað um hundruð millj. Þessi nýja lánapólitík hefur þýtt mörg hundruð millj. kr. samdrátt á afurðalánum til atvinnuveganna, til þessara tveggja undirstöðuatvinnuvega. Það er þess vegna ekki að ástæðulausu, að við göngum fast eftir því að fá að vita, hvort ætlunin er að halda þessum ljóta leik áfram eða hvort hugsunin er að bæta hér úr og þá að hve miklu leyti. En því hefur hæstv. ráðh. ekki viljað svara, eins og menn hafa heyrt.

Einhvern tíma í þessum umr. mun hæstv. viðskmrh. hafa spurt, hvort nokkur vildi leyfa sér að halda því fram, að það væri hægt að auka afurðalánin, auka endurkaup Seðlabankans á afurðalánum án þess að auka sparifjárbindinguna um leið. Ég ætla að leyfa mér að halda þessu fram, að það sé mjög auðvelt og eðlilegt. Ég held því fram, að það hafi verið með öllu óeðlilegt að breyta þeirri endurkaupareglu, sem var. Það hefði verið hægt að halda því áfram að endurkaupa 67%, eins og gert var, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram, að það sé hægt að breyta þessu aftur, án þess að efnahagskerfið bíði þar nokkurt tjón af, ef ýmsar aðrar skynsamlegar ráðstafanir eru gerðar um leið, t.d. eins og það að taka skynsamlegri tökum á fjárfestingarmálunum en nú er gert og ýmislegt fleira, sem kemur til greina í því sambandi.

Ég tók eftir því, að hæstv. viðskmrh. fór mjög hörðum orðum um þessa kenningu, að hægt væri að auka þannig endurkaupin og hafa þau eins og þau voru áður. Þetta væri mjög lýðskrumskennt og tæpast sæmandi að halda þessu fram. En í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að þetta er sú endurkauparegla, sem í gildi var hér áratugum saman, og ég man ekki eftir því, að nokkur hagfræðingur, sem ég kynntist á þeim árum, héldi því fram, að þessi endurkauparegla væri hættuleg íslenzkum þjóðarbúskap eða verðbólguaukandi. Ég man ekki eftir því, að slíku væri haldið fram. Og hæstv. viðskmrh, hefur verið í mörgum ríkisstj., sem töldu sig vera að vinna að því að reyna að ná sæmilegu jafnvægi í þjóðarbúskapnum og framkvæmdu um leið þessa endurkaupareglu, sem hann nú fer svo hörðum orðum um. Ég er ekki þar með að deila á hæstv. viðskmrh. fyrir það út af fyrir sig að hafa skipt um skoðun. Ég álít, að það sé ekki hægt að lá neinum, þó að hann skipti um skoðun, ef hann telur sig komast að því, að hann hafi haft að einhverju leyti rangt fyrir sér. En hitt ætla ég að fara fram á, að hæstv. viðskmrh. kalli það ekki neinar lýðskrumskenningar, sem þannig hafa verið notaðar í framkvæmd á Íslandi áratugum saman með ágætum árangri. Ég vil fara fram á, að hann kalli það ekki neinar lýðskrumskenningar, sem hann sjálfur hefur áður aðhyllzt, og geri mönnum ekki neinar getsakir í því sambandi um, að þeir hljóti að halda slíku fram gegn betri vitund. Það finnst mér alveg lágmark að fara fram á, að því sé ekki haldið fram af manni, sem áður var sammála um þetta.

Í þessu sambandi get ég líka minnzt á, að við vorum saman í mþn. fyrir nokkuð mörgum árum, ég og hæstv. viðskmrh, núv., um gjaldeyrismál, og þar var mjög rætt um þessi efni og um þau gefið út álit, m.a. um það, hvaða hagstjórnaraðferðir skyldi nota. Og þá vorum við hjartanlega sammála um, bæði ég og hann, að vara við því með talsvert sterkum orðum, að þær hagstjórnaraðferðir væru notaðar, sem hæstv. viðskmrh. hefur beitt sér fyrir af miklum ákafa undanfarin ár. Við vorum alveg sammála um það í okkar nál. að vara mjög við því að nota einhliða þær aðferðir, ef vanda bæri að höndum í efnahagsmálum, að draga saman lánveitingar í bönkunum og nota Seðlabankann til þess. Við vöruðum með sterkum orðum við slíkum einhliða ráðstöfunum, að þær væru heilbrigðar eða ættu rétt á sér, enda þótt við bentum á, að það væru viss takmörk fyrir því, sem skynsamlegt og mögulegt væri að gera í sambandi við afurðaendurkaup og annað því líkt af hendi Seðlabankans.

Hér er um tvær stefnur að ræða, og það er ágreiningur um, hvernig eigi að fara að halda á þessum málum, fullkomlega málefnalegur ágreiningur, sem ástæða er til þess að kryfja til mergjar og ræða, og m.a. í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur. Hér er um tvær stefnur að ræða í lánamálum. Annars vegar er sú stefna, sem framkvæmd var áður, bæði af hæstv. viðskmrh. og mörgum öðrum úr öllum flokkum, áratugum saman nálega, og hún var fólgin í því, að Seðlabankinn teygði sig í endurkaupum á afurðavíxlum, eins og ég hef margtekið fram, upp í 67%, og spariféð var yfirleitt haft í umferð. Viðskiptabankarnir ráðstöfuðu því íhlutunarlaust sjálfir, og það var haft í útlánum. Þetta var sú stefna, sem þá var fylgt í lánamálum. Vöxtunum var stillt mjög í hóf, a.m.k. miðað við það, sem nú er. Ég má segja, að þeir voru yfirleitt oftast nær í kringum 7% — útlánsvextirnir — og innlánsvextirnir þá nokkuð í samræmi við það, en afurðavextirnir voru ekki nema 5–51/2%. Þetta er sú stefna, sem þá var framkvæmd og að mínu viti reyndist á margan hátt ákaflega vel.

En sú stefna, sem síðan var tekin upp, er aftur fólgin í því að reyna að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum með því að draga saman lánsféð, minnka peningamagnið í umferð á þann hátt og hækka vextina stórkostlega til þess að draga úr lánaeftirspurninni og ná jafnvægi á lánsfjármarkaðinum, eins og það var kallað. Ég held því fram, að þessi síðarnefnda stefna, sem nú hefur verið reynd um skeið, hafi reynzt ákaflega illa og það væri ástæða til þess að hverfa frá henni og yfir til hinnar stefnunnar, sem áður var haldið, í stað þess að ganga nú enn þá lengra á lánasamdráttarbrautinni, því að það er ekkert annað, sem ætlað er með þessu frv., en að ganga lengra á lánasamdráttarbrautinni.

Þá er spurningin: Hvernig hefur svo þessi nýja stefna reynzt? Hefur hún reynzt þess megnug að koma á jafnvægi í efnahagsmálum landsins, draga úr verðbólgunni og skapa stöðugt verðlag í landinu? En eitt af því fyrsta, sem Seðlabankinn á að vinna að eftir stefnuskránni, sem er í lögum hans, er að koma jafnvægi á verðlagið í landinu. Það er nú síður en svo. Vil ég nefna tölur því til sönnunar. A meðan þessi lánastefna, sem ég var að lýsa fyrr, var framkvæmd og allir voru þá nokkurn veginn sammála um, en nú er fordæmd og er talin hafa verið ábyrgðarlaus, var þróunin þessi: Ef árið 1947 er sett sem 100 varðandi vísitölu vöru og þjónustu, segir hagstofan mér, að 1960 verði vísitalan 283, þ.e.a.s. 183 stiga hækkun á 13 árum. Það er um 14 stiga hækkun á dýrtíðinni á ári. Þetta þótti mikið þá að vísu, dýrtíðarvöxturinn þótti gífurlegt vandamál. Þó sjáum við núna, að þá var nálega jafnvægi í þessum málum, miðað við þau ósköp, sem síðan hafa dunið yfir.

En ef við svo tökum síðara tímabilið, þ.e.a.s. frá 1. marz 1960, að viðreisnin hófst, og til 1. marz í vetur, þá er mér sagt, að þessi vísitala hafi hækkað úr 283, sem hún var í, og upp í 505, eða um 222 stig á 4 árum eða 551/2 stig á ári til jafnaðar. Þannig kemur fram, að eftir að farið var að nota þetta nýja hagstjórnartæki í lánamálunum, sem átti að koma öllu í jafnvægi, hefur dýrtíðarvöxturinn orðið 4 sinnum meiri en áður, á meðan sú útlánaaðferð var viðhöfð, sem nú er talin hafa verið glannaleg og dýrtíðaraukandi og átt sinn þátt í að hrinda öllu úr skorðum.

Þetta finnst mér óneitanlega, að ætti að verða til þess, að hæstv. ríkisstj. endurskoðaði, hvort hún er á réttri leið í þessum efnum, fremur en að magna sig í forherðingunni og ganga enn lengra inn á þær brautir, sem ekki hafa gefizt betur en þetta. En því miður virðist ekki því vera að heilsa. E.t.v. telur hún, að eitthvað allt annað hafi komið hér til og hrint þessu svona geigvænlega úr skorðum, enda þótt hún hafi farið rétt að í þessu tilliti, en þá er spurningin: Hvað er þá það, sem hefur komið til? Þá er eftir að skýra það. Þá á hæstv. viðskmrh. og hans menn eftir að skýra, hvað það er annað, sem hefur komið til, ef þeir telja, að þarna hafi verið farið rétt í grundvallaratriðum, þ.e.a.s. í lánapólitíkinni. Þá kemur sú spurning, því að eitthvað er að. Engum dylst, að það er eitthvað meira en lítið að. Engum dettur í hug, að það sé nokkurt lag á þessu. Þvert á móti eru efnahagsmálin í svo ferlegu ólagi, að þau vandamál, sem við áður áttum við að glíma í þessu tilliti, verða smávaxin samanborið við þann vanda, sem hér hefur verið skapaður. Hér áður fyrr urðu stjórnarskipti, menn töldu sig alls ekki ráða við þessi mál, það yrði að stokka spilin upp og leita að nýjum aðferðum, ef vísitalan óx um 14 stig að meðaltali á ári. Það var ekki talið viðunandi, og menn töldu sig þurfa að leita að sífellt nýjum og nýjum aðferðum og nýjum úrræðum. En nú hefur dýrtíðarvöxturinn fjórfaldazt frá því, sem áður var, og þó er ekki leitað að nýjum úrræðum, heldur haldið lengra áfram á þeirri braut, sem gefizt hefur á þessa lund.

Stundum heyrir maður hjá hæstv. ríkisstj., að það sé kaupgjaldið, sem hafi fært allt úr skorðum, því að það hafi verið spennt of mikið upp, og þó að þeir hafi farið rétt að, stjórnarherrarnir, í sínum ráðstöfunum, t.d. í lánapólitíkinni og tollapólitíkinni og vaxtapólitíkinni, hafi þessu öllu verið hrint út úr skynsamlegum farvegi með óbilgjörnum launakröfum, — það sé launapólitíkin og þeir, sem hafi getað haft áhrif á hana, sem hafi hrint þessu út í ófæru. En ég get ekki séð, að þetta fái staðizt. Þegar þetta er íhugað og litið yfir þróunina, kemur það í ljós, að núna á þessum síðustu árum, þegar allt hefur farið svona um þverbak, hefur kaupgjaldið hækkað miklu minna en verðlagið í landinu. Kaupgjaldið hefur hækkað miklu minna, og það er nokkuð nýstárlegt, ef litið er yfir lengri tímabil. Það hefur að vísu komið fyrir áður, að kaupgjaldið hefur farið aftur úr verðlagshækkunum stuttan tíma, en þegar litið er yfir lengra tímabil, mun það vera alger nýjung á síðari áratugum, að kaupgjaldið hafi dregizt langt aftur úr verðlaginu, verðlagshækkanir hafi verið svo ferlegar, að kaupgjaldið hafi ætíð verið á eftir. Hér er sagt af þeim, sem bezt geta reiknað, og Efnahagsstofnunin borin fyrir því, að kaupmáttur tímakaups hafi rýrnað úr 115 1956 niður í 101 1962. Ég hef ekki alveg endanlegar tölur fyrir 1963, en sennilega er kaupmáttur a.m.k. ekki hærri 1963 en hann var 1962. Ekki getur það því verið ástæðan til þess, hvernig allt hefur mistekizt, að kaupgjaldið hafi rekið allt úr skorðum.

Sannleikurinn er sá, að þessi efnahagsmálastefna sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, hefur komið ákaflega illa niður á undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, bæði lánasamdrátturinn og vaxtastefnan, því að ef menn reyna að íhuga, hverjir það eru, sem fyrst og fremst þurfa á lánsfé að halda, þá eru það tveir hópar, sem ber þar langsamlega mest á. Það eru framleiðendurnir, þeir sem stunda undirstöðuframleiðsluna í landinu, og unga kynslóðin. Það eru þessir tveir hópar, þeir sem stunda undirstöðuframleiðsluna og unga kynslóðin, sem þurfa að leita eftir lánsfénu. Og lánsfjársamdrátturinn hefur fyrst og fremst komið niður á undirst8ðuframleiðslunni og unga fólkinu, rekstrarfjárskorturinn, vaxtaokrið og raunar öll þessi feiknalega dýrtíð, sem velt hefur verið yfir til þess að reyna að ná jafnvægi, eins og það hefur verið kallað.

En þeir, sem hafa hagnazt á þessu, og þeir, sem leika lausum hala, eru þeir, sem hafa meira eigið fjármagn: Þess vegna fer þetta svona, að eftir því sem lengra er gengið í þá átt að nota þetta hagstjórnartæki, þ.e.a.s. lánasamdráttinn og vaxtapólitíkina, eftir því kemur það verr niður á undirstöðuframleiðslunni í landinu og ungu kynslóðinni, en betur fyrir þá, sem hafa meiri fjárráð og geta leikið lausum hala í fjárfestingunni og grætt á verðbólguástandinu: Það er þetta, sem er að ske núna þessi missirin. Með þessu er dregin stórkostlega burst úr nefi framleiðslunnar og þeirra, sem þurfa á lánsfé að halda, en hinir geta leikið lausum hala. Og eftir því sem lengra verður gengið í því að herða að bönkunum, þannig að þeir geta minna lánað af sparifé þjóðarinnar þeim, sem undirstöðuframleiðsluna stunda, og ungu kynslóðinni, sem á lánunum þarf að halda, eftir því verður harðara á dalnum fyrir þessi öfl, en aðrir taka forustuna í fjárfestingunni, það verður svo til þess, að fjárfestingin verður af handahófi í landinu og það situr á hakanum í sambandi við hana, sem sízt skyldi.

E.t.v. er ekkert einstakt atriði sterkari þáttur í því, hve illa búnast nú á þessum árum, en einmitt þetta, hvaða áhrif þessi pólitík er farin að hafa á fjárfestinguna í landinu. Síðan koma háu vextirnir inn í efnahagskerfið smátt og smátt með vaxandi afli og eru farnir að koma það með sívaxandi hraða. Þeir, sem þurfa að byggja sér húsnæði og gera aðrar ráðstafanir og nota lánin með nýju vöxtunum, að svo miklu leyti sem þeir geta fengið þau, þeir verða að heimta hærra kaup, og alltaf reyrist þetta í harðari og harðari hnút, í staðinn fyrir að nú ætti að snúa aftur að þeirri lánastefnu, sem áður var rekin, og lækka vextina, en taka þess í stað upp í vaxandi mæli verðtryggingu á sparifénu. Þessi stefna háu vaxtanna hefur ekki orðið til gagns fyrir sparifjáreigendur, því að þeir hafa orðið fyrir barðinu á þeirri óðaverðbólgu, sem fylgt hefur í kjölfar allra þessara ráðstafana.

Það hörmulega við þetta ástand allt saman er svo það, að enda þótt kaupgjaldið hafi raunverulega lækkað, eru það ekki framleiðsluatvinnuvegirnir, sem hafa hagnazt á því, það er síður en svo, því að með okurvöxtum, þyngri en nokkurs staðar annars staðar þekkist á byggðu bóli, ofboðslegu nýju álagaflóði í öllum myndum, tollum, sölusköttum, þjónustugjöldum af öllu tagi, útflutningsgjöldum, lánasjóðsgjöldum, ásamt þessum hörkulegu ráðstöfunum til þess að draga úr rekstrarlánunum, hefur verið grafið raunverulega undan rekstrarafkomu sjálfrar undirstöðuframleiðslunnar.

Ég álít og hef sagt þá skoðun mína áður, gerði það við 1. umr. þessa máls og skal ekki fara langt út í það, — ég álít, að reynslan á undanförnum árum sýni það alveg ótvírætt, að óhugsandi er að stjórna Íslandi, svo að nokkurt vit sé í, með peningapólitískum ráðstöfunum einum saman. En það er það, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að reyna núna þessi ár og stórskemmt efnahagskerfið í þeim sviptingum. Þar kemur margt til, sem ég nefndi þá og skal ekki lengja mál mitt nú með því að nefna, en vísa til þess.

Við höfum alls ekki ráð á því handahófi í fjárfestingarmálum, sem leiðir af þessari stefnu, fremur en t.d. frændþjóðir okkar á Norðurlöndum. Ég álít, að við ættum að hafa Norðmenn t.d. meira okkur til fyrirmyndar eða hliðsjónar í efnahagsmálum en nú er gert, stilla vöxtunum í hóf og reka útlánapólitík svipað og hér var gert áður, fara inn á þá braut í vaxandi mæli að verðtryggja spariféð og hafa fjárfestingareftirlit, að því leyti sem þarf til þess að tryggja, að það sitji fyrir, sem skynsamlegast er frá almenningssjónarmiði og mest þarf á að halda, í stað þess handahófs, sem nú ríkir í fjárfestingunni og er þjóðinni allt of dýrt. Ég er alveg sannfærður um, að hverjir sem stjórna hér, hljóta þeir að komast að þessari niðurstöðu. Það verður að halda á þessum málum í aðalatriðum á þessa lund, en ekki eins og nú hefur verið gert. Hitt er svo annað mál, hve miklu tjóni þjóðin á eftir að verða fyrir, áður en menn uppgötva þetta og breyta eftir því.

Nú segir hæstv. viðskmrh., að það megi ekki einblína á það, þó að allt hafi mistekizt varðandi stöðvun verðbólgunnar innanlands og gengið úr skorðum, — það megi ekki einblína á það. Það verði að gera sér grein fyrir því, að með þessu lagi hafi tekizt að ná mjög góðri afkomu út á við og það sé því að þakka, að þessar nýju aðferðir hafa verið notaðar. Það vottaði fyrir því í vetur, þegar þessi mál voru rædd við 1. umr., að hæstv, ráðh. viðurkenndi, að þar hefði fleira komið til en þessar nýju aðferðir, og held ég, að það sé alveg óhætt að hafa það fast í huga.

Sannleikurinn er sá, að afkoma Íslands er því miður ekki glæsileg út á við á undanförnum árum, miðað við þau skilyrði, sem við höfum haft við að búa, því er nú verr. Og ef það dæmi er skoðað, sjáum við, að skuldir að frádregnum innstæðum hafa ekki lækkað á þessu tímabili. Skuldir hafa alls ekki verið greiddar niður. Það hafa verið tekin ný stórkostleg lán, og þegar litið er á afkomuna í heild, hefur hún ekki batnað þrátt fyrir óhemjuuppgrip á öllum sviðum. Á þessum árum hefur t.d. ekkert stórvirkt nýtt verið sett á fót, ekkert stórt raforkuver hefur verið byggt, engri stórverksmiðju hefur verið komið upp hliðstæðri sementsverksmiðju eða áburðarverksmiðju. Í húsnæðismálum hefur verið gengið aftur á bak, þannig að það er stórkostlegur húsnæðisskortur, miklu meiri húsnæðisskortur en þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við. Það er því síður en svo, þegar litið er á dæmið á þessa lund, að miðað hafi fram á við frá því, sem áður var. Þetta eru sorglegar staðreyndir, sem ekki er hægt að komast fram hjá.

Það er rétt út af fyrir sig, að ef litið er á bankareikningana eina, þá hefur staðan á þeim talsvert batnað á þessu tímabili. En þar koma ekki heldur til, að mínu viti, fyrst og fremst þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að draga úr afurðaendurkaupum og frysta sparifé í Seðlabankanum, heldur kemur þar margt fleira til, Í fyrsta lagi betri verzlunarkjör. Þjóðin hefur búið við mun betri verzlunarkjör, hagstæðara verðlag en áður var. Enn fremur þessi óvenjulegu uppgrip, sem orðið hafa, stórkostlegri afli en áður hefur þekkzt. Þá kemur til stórfelld söfnun verzlunarskulda. Þótt bara það atriði eitt sé tekið til greina, verzlunarskuldirnar og tiltölulega stutt lán vegna kaupa á ýmsum tækjum til landsins, verður lítið úr gjaldeyrisvarasjóðnum, þegar dæmið er gert upp. Þá eru miklar erlendar lántökur til langs tíma, eins og ég gat um áðan. Þannig mætti fleira telja.

Það þarf enginn maður mér að segja, að núv. hæstv. ríkisstj. hefði getað komið hér, ef eitthvað hefði gengið mótdrægt, og gortað af betri gjaldeyrisstöðu bankanna, enda þótt hún hefði haft peningafrystinguna í gangi. Ef hér hefði verið lítil síldveiði, eins og áður var, verzlunarárferði ekki hagstæðara en áður og ekkert gengið meira í haginn en áður, hvernig halda menn þá, að útkoman hefði orðið hjá þessari stjórn, þegar hún er svona núna, miðað við þessar kringumstæður allar? Ætli það hefði ekki orðið heldur lítið úr þessari gjaldeyrissjóðsmyndun hjá hæstv. viðskmrh., jafnvel þótt hann hefði beitt harkalegum ráðstöfunum til þess að draga sparifé inn í Seðlabankann og frysta það þar? Það er fáránleg kenning að halda, að það sé hægt að sjá öllu borgið með því einu að draga spariféð úr lánakerfinu og loka það inni í Seðlabankanum, eða með hinu, að minnka endurkaup á afurðavíxlum til framleiðslunnar. Það er fáránleg villukenning að halda því fram, að með slíku sé hægt að sjá öllu borgið. Við sjáum nú, hve þessi mynd er ömurleg inn á við, þegar við athugum dýrtíðarþróunina, og því miður hefði hún einnig orðið jafnömurleg út á við, ef ekki hefði komið til þessi óvenjulega hagstæðu skilyrði, sem ég hef aðeins bent á og viðskmrh. raunar minntist einnig á í vetur, þegar þessi mál voru til 1. umr. Það er í raun og veru furðulegt, hversu útkoman út á við er óhagstæð, miðað við hin glæsilegu skilyrði, sem við hefur verið búið.

Ég skal nú láta máli mínu lokið. Ég vildi aðeins bregða upp mynd af nokkrum þáttum þessara mála, eins og þau horfa við frá mínu sjónarmiði, og lýsa enn einu sinni algerri andstöðu við þetta frv., sem nú er hér til 3. umr.