27.04.1964
Neðri deild: 84. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. hefur auðnazt að sökkva einum klukkutíma í viðbót í þá hít umr., sem hann og hans flokksmenn og stjórnarandstaðan hafa viðhaft á þessu þingi í sambandi við efnahagsmálin. Það er af þeim ástæðum kannske alveg ástæðulaust að fara að blanda sér í þessar umr., sem ég hefði látið afskiptalausar, því að ekkert nýtt kom nú fram í þessari ræðu og þetta er allt sama staglið, frá því að þing kom saman í haust. En það eru svo dæmalausar fjarstæður, sem fram komu í þessari ræðu hjá hv. þm., að það er kannske ekki rétt að láta þetta alveg fram hjá sér fara. Hann er búinn að segja svo margan hálfan sannleika í þessari ræðu sinni, svo margar rangar sögur hefur hann sagt og svo furðulega skekkta mynd af efnahagskerfinu og þjóðfélagsbyggingunni hjá okkur, að það má teljast ótrúlegt, þegar hér er þó um að ræða mann, sem hefur verið jafnlengi í stjórnmálum og hv. 1. þm. Austf. og jafnlengi fjmrh. og hann.

Nú er ég sjálfur sannfærður um það, þegar maður hlustar á mál þessa hv. þm., að hann er sannarlega ekki nú orðið að búa til vísvitandi nein ranghermi í því, sem hann er að segja. Þetta er farið að verða honum alveg eðlilegt. Hann er búinn hægt og hægt að skrökva svo miklu að sjálfum sér, frá því að hann hætti að vera ráðh., að hann er farinn að trúa því, að þetta sé myndin í efnahagsmálunum, sem hann er að lýsa hér fyrir okkur. Þessi ræða boðar þess vegna ekki neitt frá honum, að hann sé að tala sér um hug. Hann er búinn að skekkja sjálfan sig í skoðunum sínum svo gífurlega í þessum málum eins og hér kom fram.

Ég skal víkja aðeins að örfáum þáttum þessara mála og þá lánamálunum sérstaklega. Hann talaði langt mál um, að það hefði verið stórkostlega dregið úr rekstrarlánunum til sjávarútvegsins og enn þá miklu meir til landbúnaðarins, og reiknar út, að það séu 18 –20%. Auk þess séu vextir miklu hærri og þessi lánasamdráttur sé að riða atvinnuvegunum á slig. Hver er þessi lánasamdráttur, þegar rétt er á málin litið, og sem raunverulega öllum ætti að vera ljóst, sem hér sitja á þingi, og ekki sízt þessum hv. þm.? Ef við tökum sjávarútveginn fyrst, þá hefur Seðlabankinn minnkað endurkaupin, eins og hann sagði, úr 67% áður og niður í um 54–55%. En meðan Seðlabankinn lánaði 67%, á þeim tíma þróaðist útvegurinn í það horf, að viðbótarlánin frá viðskiptabönkunum urðu oft og tíðum þannig, að búið var að lána út á afurðirnar 90–100%. Þetta taldi hv. þm. ágætan árangur af útlánapólitík. Þetta þýddi það, að á undanförnum árum og áður en viðreisnarstjórnin tók við voru útgerðarmenn daglega og stundum oft á dag í bönkunum, vegna þess að þeir gátu aldrei sjálfir ráðstafað einni einustu krónu, sem kom inn fyrir afurðir þeirra. Það þurfti alltaf daglega að vera að standa í því og stappa í því, hvernig væri hægt að leysa þetta smáa viðfangsefni og hitt viðfangsefnið. Í tíð viðreisnarstjórnarinnar var tekin sú stefna, að endurkaupalánin hjá Seðlabankanum minnkuðu, viðbótarlánin hjá viðskiptabönkunum hafa að jafnaði farið allt upp í 30%, þannig að rekstrarlánin hafa losað rúmlega 70% af andvirði vörunnar. Nú segja menn: Þetta er minnkun á útlánum frá því, sem var, þar sem þau voru upp í 90–100%. Það er rétt. Þetta er lækkun á útlánum. En þessi lækkun á útlánum er gerð með sérstökum hætti. Hún er gerð með því, að það er opnuð á ný stofnlánadeild sjávarútvegsins með löggjöf 1961 og öll lausaskuldasúpan, 400–500 millj. kr., er sett á föst lán til langs tíma, 10–20 ára, og ekki með 9–91/2% vöxtum, heldur með lægri vöxtum en þessi lán voru með áður, eða 61/2%, og lækkaði öll þessi upphæð þess vegna stórlega í vöxtum. Þegar þessu var þannig fyrir komið, allir reikningar útgerðarfyrirtækjanna höfðu verið færðir til samræmis, allar eignirnar metnar og öllum lausaskuldunum breytt í löng lán, þá var talið farsælast að fara ekki með rekstrarlánin upp úr 70% yfirleitt, miðað við það, að 30% væri rekstrarfé þessara manna sjálfra, og það hefur líka orðið í reyndinni. En hér var þó enn einn hængur á, að það stóð lengi á skilum fyrir vörurnar frá útlandinu. Í þetta gengu ríkisbankarnir einnig að lagfæra fyrir útvegsmönnum, og tekin voru með ábyrgð bankanna, Landsbankans og Útvegsbankans, stór erlend lán til þess að greiða afurðirnar þegar og með lægri vöxtum, ekki 91/2%, heldur 51/2% vöxtum, og þetta er með þeim hætti, að vörurnar greiðast nú jafnóðum og þær fara út. Útvegsmennirnir fá þess vegna nú, jafnóðum yfirleitt og afskipanir eiga sér stað, 30% af andvirði vörunnar, eða skömmu eftir og miklu fyrr en áður, þar sem þurfti að biða í 11/2 ár kannske, og þetta er þeirra rekstrarfé. Enda er sannleikurinn sá, að þessir menn hafa ekki sézt í bönkunum síðan á sama hátt og áður var. Þeir reka sín viðskipti nú fyrir sitt eigið rekstrarfé og með eðlilegum hætti, en ekki með þessum ágæta árangri, eins og hv. 1. þm. Austf. var að lýsa hér áðan, að tekizt hefði að búa þessum mönnum, meðan hann og hans menn voru í stjórn og reyndar með þátttöku núv. stjórnarflokka oft og einatt, en sá ágæti árangur var sá, að þessir menn voru komnir á kaf í rekstrarskuldasúpu og gátu hvergi og aldrei um frjálst höfuð strokið.

Um landbúnaðinn er það að segja, að því leyti sambærilegt við sjávarútveginn, að á þessum tíma, sem að vísu hefur verið dregið úr endurkaupalánum til landbúnaðarins, hefur hins vegar verið komið á réttan grundvöll stofnlánum landbúnaðarins með stórkostlegu átaki, sem á eftir að sýna sig sem ein farsælasta löggjöf fyrir landbúnað íslendinga á komandi árum og mun á undraskömmum tíma skila landbúnaðinum styrkum og öflugum sjóðum til framkvæmda á komandi árum.

Á sama tíma sem talað er þannig um samdrátt á útlánunum til atvinnuveganna, hefur á undanförnum árum verið sett löggjöf um bæði aukin stofnlán og ný stofnlánalöggjöf, bæði fyrir sjávarútveg, landbúnað og iðnað, sem nú er til meðferðar á þessu þingi, en iðnlánasjóður hefur hins vegar þegar verið aukinn með löggjöf frá s.l. þingi. Það er ekki nóg, að stofnlánadeildin hafi þannig verið opnuð aftur og lausaskuldunum hjá sjávarútveginum breytt í föst lán, heldur hafa honum verið útveguð mjög hagstæð, eftir því sem hér er kostur á, og löng lán með erlendri lántöku eða hinu brezka láni ríkisstj., töluvert miklum hluta af því láni, sem var um 240 millj. kr. og tekið var í árslok 1962. Á s.l. ári fóru mjög verulegar upphæðir, a.m.k. 60–70 millj. kr., ef ekki meira, beinlínis í sjávarútveginn og fiskiðnaðinn. Þetta er nokkurs virði fyrir atvinnuvegina, og það er mjög mikill misskilningur, ef menn halda, að það skipti öllu máli, hve menn geta fengið mikil rekstrarlán. Það er miklu meira virði að geta búið þannig að þessum atvinnugreinum, að þær hafi sæmileg stofnlán, og það er enn eftir að gera átök í því sambandi, svo að um muni. Og vegna hvers er það eftir? Með gengisbreytingarl. 1961 gerði ríkisstj. ráð fyrir því, að hluti af útflutningsgjaldinu skyldi ganga til stofnlánadeildarinnar til þess að verða áframhaldandi útlán í stofnlánum til sjávarútvegs eftir þeirri löggjöf, sem þá var búið að framkvæma, þar sem breytt var lausaskuldum sjávarútvegsins í föst lán. Þetta var þó ekki reyndin. Og vegna hvers ekki? Vegna þess að þessu var breytt í meðferðinni af hálfu ríkisstj. hér í þinginu og í samráði við útvegsmenn og þessi hluti af útflutningsgjaldinu var látinn ganga til þess að greiða iðgjöldin, tryggingariðgjöld útgerðarinnar. En þetta samsvarar því, að útgerðin hafi fengið um og yfir 60 millj. kr. á þessum árum með þessum hætti. Hefði það ekki þótt hentara og útvegsmenn sjálfir heldur viljað, að þetta gengi til greiðslu á iðgjöldunum, þá hefði þetta farið í nýja uppbyggingu stofnlána.

Það er eins og hv. þm. viti ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta, sem hefur verið að gerast í kringum hann og hér í þinginu. Svo talar hann um, að það hafi verið tekin mikil erlend lán. En hvert ætli þessi erlendu lán hafi farið? Þau hafa náttúrlega ekki farið í útlánaaukningu hérlendis? Nei, nei, þegar hann er að tala um útlánin hér, þá dragast útlánin alltaf saman. Þegar hann kemur að erlendu lánunum, þá hefur verið gert óskaplegt glappaskot að vera að stofna til þessara miklu erlendu skulda. En þar er sannleikurinn sá, að atvinnuvegirnir hafa bæði orðið aðnjótandi þessara erlendu lána til langs tíma sem fjárfestingarlána og sem rekstrarlána eða sem lána til innkaupa á skömmum tíma, frá 1–3 og upp í 5 ár, til ýmiss konar tækjakaupa og uppbyggingar í atvinnuvegunum, svo að hundruðum millj. nemur á þessum árum. Fram hjá þessu er alveg gengið líka, nema bara þegar verið er að tíunda skuldirnar.

Og loks má svo bæta við fiskveiðasjóði. Hann hefur aldrei veitt viðlíka mikil stofnlán og á undanförnum árum, frá því á miðju ári 1961 ag aðallega á árunum 1962 og 1963, og eru nú að koma síðustu bátarnir til landsins, sem þá voru fest á skömmum tíma kaup á, um 63 bátar og alveg af nýjustu gerð og miklu stærri og betur búnir bátar en við nokkru sinni áður höfum haft. Þetta er fjárfesting í sjávarútveginum, sem er upp á um 700 millj. kr. á þessum skamma tíma. Hver voru afskipti ríkisstj. og ríkisvaldsins af því? Jú, ríkisvaldið eða bankarnir fyrir tilstuðlan ríkisstj. tóku verulegan þátt í því að greiða fyrir því, að erlendis fengjust lán til skamms tíma til að byrja með til þessara bátakaupa, og síðan hefur verið séð um það með lánum m.a., sem fiskveiðasjóði hafa verið útveguð, að hægt hefur verið að veita lán til allra þessara kaupa af hálfu fiskveiðasjóðs. Það hefur aldrei nokkurn tíma verið gert annað eins átak á jafnskömmum tíma í sambandi við endurbyggingu bátaflotans hér á landi.

Og hverjar eru svo staðreyndirnar um allan þennan margumtalaða samdrátt á lánum, sem á að hafa verið mesta böl, sem yfir þjóðina hafi gengið, og meginstefna ríkisstj.? Menn geta nokkuð markað það af því, sem ég hef sagt, að samdrátturinn er kannske enginn samdráttur, og þessi samdráttur hv. 1. þm. Austf., sem hann alltaf er að tala um, er með þeim hætti, að í árslok 1959 eru útlán bankanna 3449 millj. kr., en í nóvemberlok, sem eru síðustu tölur, sem ég hef, á s.l. ári 5335. Útlánaaukningin er 56%. Þetta er samdrátturinn, 56% aukning. En ef sparisjóðirnir eru teknir með, er aukningin 60% í útlánum sparisjóða og banka. 56% útlánaaukning og 60% útlánaaukning er á máli þessa hv. þm. skaðlegur samdráttur í útlánum. Á sama tíma hefur vísitala framfærslukostnaðar í landinu þó ekki hækkað nema 46%, og margs konar annar tilkostnaður við þessa framleiðslu hefur hækkað miklu minna. Nei, það á að taka upp gömlu stefnuna, sem fæstir vita nú, hvað þessi hv. þm. meinar með. Hann er að tala um einhverja gamla stefnu. Hann lýsti því, hvað hún hefði verið ágæt í sambandi við útlánin, þegar allir voru komnir á kaf í skuldafenið. Svo var hann að tala rétt í lok ræðu sinnar um, að það ætti að taka upp gömlu stefnuna um verðtryggingu sparifjár. Hvenær hefur þessi hv. þm., meðan hann réð í þessu landi fjármálum þjóðarinnar, verðtryggt sparifé? Það er í anzi litlum mæli, held ég. Hvar er þessi gamla stefna um verðtryggingu sparifjárins? Það er ekki hægt að tala svona við hv. þm., eins og þeir séu bara hreinustu fábjánar og viti ekkert, hvað hafi gerzt.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, er kannske ástæðulaust að vera að lengja mikið umr. Ég er nú víst búinn að tala í einar 10 mínútur á eftir þessum klukkutíma, sem hv. 1. þm. Austf. sökkti í hítina, umræðuhítina hér, en það var aðeins til þess að árétta nokkur atriði og til þess að mönnum yrði ljóst, sem ég veit nú að öllum er ljóst, enda eru þm. yfirleitt hættir að hlusta á þennan hv. þm., þegar hann er að tala um þessi mál, — þá er mönnum ljóst, hversu gífurlega ranga og skakka og öfuga mynd þessi hv. þm. er að reyna að draga upp af efnahagslífinu og þjóðarbúskapnum eins og hann er, og ekki vegna þess, að hann geri það nú vísvitandi, heldur af því, að hann er farinn að trúa þessum leiðindasögum sínum sjálfur, því miður.