27.04.1964
Neðri deild: 84. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þarf ekki að lengja þessar umræður, úr því sem komið er, en vil þó ekki láta undir höfuð leggjast að segja nokkur orð í framhaldi af þeim tveim ræðum, sem fluttar hafa verið hér í dag af hálfu hv. stjórnarandstöðu, en skal gera mér far um að stytta mál mitt sem mest og gefa ekki tilefni til áframhaldandi umræðna um það atriði, sem ég vik hér sérstaklega að.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Reykv. (EOl), lagði á það megináherzlu í þessari síðustu ræðu sinni, eins og hann raunar hefur gert áður í umræðum um þetta mál, að því fari víðs fjarri, að hægt sé að hafa skynsamlega heildarstjórn á atvinnulífi þjóðar eins og okkar Íslendinga með ráðstöfunum í peninga- og bankamálum einum saman. Um þetta er ég honum algerlega sammála, og að svo miklu leyti sem orð hans gefa tilefni til þess að halda, að hann hafi stjórn Seðlabankans í þessu efni fyrir rangri sök, þ.e.a.s. að hann telji stjórn Seðlabankans hafa einhverja sérstaka trú, sem hann vill kalla oftrú, á gildi stjórnar peningamála sem hagstjórnartækis, þá get ég fullvissað hann og aðra um, að það er á misskilningi byggt. Stjórn Seðlabankans er áreiðanlega jafnljóst og ríkisstjórninni, að stjórn á peningamálum og bankamálum er aðeins eitt af mörgum hagstjórnartækjum, sem til greina kemur að beita í efnahagskerfi eins og því, sem við Íslendingar eigum nú við að búa, og ég vildi leggja á það áherzlu, að því fer víðs fjarri, að stjórn Seðlabankans hafi nokkra óskynsamlega oftrú á þessu eina hagstjórnartæki.

Það er skoðun núverandi ríkisstj., að stefnan í efnahagsmálum þurfi að vera ein heild, þ.e.a.s., að þar komi peningamálin og bankamálin inn í sem aðeins einn þáttur. Það er meira að segja líka skoðun núv. ríkisstj., að einn þáttur í heildarstjórn á atvinnulífi eins og okkar Íslendinga sé sá, að starfað sé eftir samræmdri framkvæmdaáætlun, sem gerð sé hverju sinni fyrir nokkur ár, og er ég í grundvallaratriðum sammála því, sem hv. 3. þm. Reykv. hafði um þetta efni að segja, en um það gildir að sínu leyti eins og stjórnina á peningamálum og bankamálum, að við megum ekki heldur hafa neins konar oftrú á áætlunargerð sem hinu eina tæki, sem til greina komi og allan vanda geti leyst. Áætlunargerð er hjálpartæki við hagstjórn, rétt eins og samning fjárlaga er hjálpartæki við stjórn á ríkisbúskapnum og stjórn á efnahagskerfinu yfirleitt, tæki, sem dugir ekki eitt, en er nauðsynlegur þáttur í skynsamlegri heildarstjórn á efnahagslífinu yfir höfuð að tala.

Grundvallaratriðin í stefnu núv. ríkisstj. má í stytztu máli segja, að séu þessi: Í fyrsta lagi rétt gengi á krónunni, í öðru lagi sem minnst bein höft á utanríkisviðskiptum og framkvæmdum, í þriðja lagi þess konar stjórn á peningamálum og fjármálum ríkisins, að verðbólguáhrif komi ekki úr þeirri átt, í fjórða lagi, að starfað sé eftir samræmdri heildaráætlun um framkvæmdir og alveg sérstaklega framkvæmdir hins opinbera, til þess að auka heildarframleiðslu þjóðarbúsins og framleiðni sem mest, og í fimmta lagi, að stefnt sé að sem réttlátastri skiptingu þjóðarteknanna, m.a. með sem víðtækustum almannatryggingum.

Ég hlýt þess vegna að vísa á bug gagnrýni af hálfu hv. 3. þm. Reykv. á núverandi ríkisstj. og Seðlabankann um það efni, að þessir aðilar hafi ætlað sér að hafa heildarstjórn á íslenzku efnahagslífi með því að beita stjórn peningamála og bankamála einni saman til að ná æskilegum og nauðsynlegum árangri.

Þá vil ég segja nokkur orð til andsvars þess, sem ég vildi telja meginatriði í ræðu hv. 1. þm. Austf. (EystJ), og þar get ég einnig látið duga fáein orð. Það var grundvallaratriði í röksemdafærslu hans gegn þessu frv. og í raun og veru gegn heildarstefnu núv. ríkisstj. í efnahagsmálum, en þó alveg sérstaklega í peningamálum, að síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, eða um áramótin 1959–60, hafi vísitala framfærslukostnaðar hækkað mun meir en hún hafi gerð á árunum eða áratugunum þar á undan. Þetta vildi hv. 1. þm. Austf. telja úrslitasönnun fyrir því, að núv. ríkisstj. hefði fylgt rangri stefnu einmitt í peningamálum. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að verðlagshækkun, eins og hún er mæld í vísitölu framfærslukostnaðar, hefur síðan í ársbyrjun 1960 orðið nokkru meiri en hún var t.d. á 5 næstu árum þar á undan, 1955–59, líka nokkru meiri, ef tekið er enn lengra tímabil, eins og hann gerði nú síðast, allar götur frá 1947. Í þessu sambandi þarf þó þess fyrst að gæta, að ef tekið er jafnlangt tímabil og hér er um að ræða, áratugur, að ég ekki tali um tveir eða þrír áratugir, þá er vísitalan mjög ósambærilegur mælikvarði á raunverulega verðlagsþróun á hinum einstöku árum eða tímabilum, árabilum innan slíks langs tíma. Vísitala framfærslukostnaðar, eins og hún hér hefur verið reiknuð út undanfarna áratugi, er í raun og veru gerólíkur mælikvarði á raunverulega verðlagsþróun á þeim tímaskeiðum, þar sem er beitt höftum í viðskiptum, þar sem er halli á utanríkisviðskiptum og þar sem beitt er mjög ströngu verðlagseftirliti, — á slíku tímabili er verðlagsvísitala mjög ósambærilegur mælikvarði á raunverulega verðlagsþróun, borið saman við tímabil, þar sem verðlagsmyndun er mun frjálsari, höft í viðskiptum hafa verið afnumin og greiðsluafgangur er á utanríkisviðskiptum. Þess vegna er þróun vísitölunnar síðan 1960 í raun og veru algerlega ósambærileg við þróun vísitölunnar næstu 5 árin þar á undan, fyrst og fremst vegna þess, að síðan í ársbyrjun 1960 hafa viðskiptin smám saman verið að verða frjálsari og verðlagsmyndun öll frjálsari og eðlilegri en hún var á næsta 5 ára tímabili á undan, sem einkenndist af mjög ströngum höftum á öllum sviðum og hallabúskap gagnvart útlöndum.

En sleppum þessu, þetta er í raun og veru ekki aðalatriði málsins. Það, sem er aðalatriði málsins í sambandi við þessa meginröksemdafærslu hv. 1. þm. Austf., er það, að þróun verðlagsins ein sannar bókstaflega ekkert um það, hvort stefnan í peningamálum hafi verið rétt eða röng í sjálfu sér. Þróun verðlagsins er fyrst og fremst komin undir því, hver hefur orðið þróun framleiðslukostnaðar á sama tíma. Verðlagið í landinu er fyrst og fremst spegilmynd af framleiðslukostnaðinum á sama tíma, og framleiðslukostnaðurinn er fyrst og fremst háður kaupgjaldinu á sama tíma og breytingum á því. Af samanburði á þróun verðlags á tveimur ólíkum tímabilum er í raun og veru enga ályktun hægt að draga aðra í stórum dráttum en þá, að á þessum tveim tímabilum hafi þróun framleiðslukostnaðar, og þó aðallega þróun kaupgjalds, verið með ólíkum hætti. Og það er einmitt það, sem átt hefur sér stað, ef tekið er tímabilið síðan 1960 annars vegar og hvaða fimm ára tímabil síðan í stríðslok til samanburðar hins vegar. Hins vegar er það rétt hjá hv. 1. þm. Austf. og skal fúslega játað, að núverandi ríkisstj. hefur ekki tekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar, þeirrar verðbólgu, sem verið hefur eitt höfuðmein íslenzks efnahagslífs allar götur síðan á stríðsárunum síðustu. En þróun verðlagsvísitölunnar er enginn mælikvarði á það, hvort verðþenslan hafi verið meiri eða minni, því að áhrif verðþenslunnar og þó alveg sérstaklega þeirrar verðþenslu, sem kann að eiga sér stað fyrir tilstuðlan bankakerfisins, geta komið fram með tvennum hætti, annars vegar í verðhækkunum innanlands og hins vegar í halla gagnvart útlöndum. Ef um er að ræða verðþenslu í þjóðfélagi, sérstaklega í þjóðfélagi eins og okkar, sem hefur mjög mikil utanríkisviðskipti, þá geta áhrif verðþenslunnar komið fram á tvennan hátt, þ.e.a.s. með verðhækkunum innanlands og með halla gagnvart útlöndum — á annan hvorn þessara tveggja vega eða á báðum þessum sviðum.

Svo að ég taki tímabil síðustu fimm ára, áður en núverandi ríkisstj. kom til valda, þá var hér því miður mikil verðþensla, og hún kom fram á báðum þessum sviðum, bæði í verðlagshækkunum innanlands og í mjög miklum greiðsluhalla gagnvart útlöndum. Verðlagsvísitala mun hafa hækkað á þessu fimm ára tímabili u.þ.b. 8% að meðaltali á ári, sem er að vísu nokkru minna en verðlagsvísitalan hefur hækkað um síðan í ársbyrjun 1960. En munurinn á áhrifum verðþenslunnar kemur ekki fyrst og fremst fram í því, að verðlagshækkunin hafi verið nokkru minni árin 1955–59 heldur en 1960–63 eða 1964, heldur fyrst og fremst fram í hinu, að á fyrra tímabilinu var hér mjög verulegur greiðsluhalli gagnvart útlöndum, um 800 millj. kr. á tímabilinu, miðað við núverandi gengi, en á þeim tíma, sem liðinn er, síðan núverandi ríkisstj. kom til valda, hefur verið greiðsluafgangur, sem nemur um 1400 millj. kr. í þessu kemur fyrst og fremst fram munurinn á þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið. Það hefur ekki tekizt að koma í veg fyrir verðbólguáhrif innanlands, þau hafa komið fram í hækkandi verðlagi innanlands, því miður, en það hefur tekizt að eyða hallanum gagnvart útlöndum og breyta mjög verulegum árlegum greiðsluhalla í utanríkisviðskiptamum í heildargreiðsluafgang á þessu tímabili, ef það er tekið sem heild.

Ef menn vilja mynda sér skynsamlega skoðun á því, hvort heildarstefna í peningamálum hafi borið jákvæðan eða neikvæðan árangur eða ekki, það er ekki nóg, eins og hv. 1. þm. Austf. gerði í ræðu sinni hér áðan, að vitna einvörðungu til verðlagsbreytinganna innanlands og allra sízt eins og þær eru mældar í vísitölu framfærslukostnaðar. Það, sem verður að gera, er einnig að taka tillit til þeirra áhrifa, sem komið hafa fram í greiðsluviðskiptunum gagnvart útlöndum, sem eru hinn ventillinn, sem verðþensluáhrif innanlands geta leitað út um, og það er á því sviði, sem stefna núverandi ríkisstj. í efnahagsmálum hefur borið mjög jákvæðan árangur, þó að það hvarfli ekki að mér að bera á móti því, að í baráttunni við verðlagsþróunina innanlands hefur ríkisstj. því miður ekki tekizt að ná þeim árangri, sem hún gjarnan hefði viljað. Þetta veit ég að hv. 1. þm. Austf. er í raun og veru ljóst eða hlýtur að vera ljóst. Hitt er svo annað mál, að hann hefur fullan rétt til að hafa þá skoðun, að það eigi ekki að leggja jafnmikla áherzlu á það að hafa greiðsluafgang í viðskiptum þjóðarinnar út á við og núverandi ríkisstj. hefur gert. Það hefur komið fram í ræðu hv. þm. áður, að hann telji, að ríkisstj. hafi lagt of mikla áherzlu á að bæta stöðu þjóðarbúskaparins gagnvart útlöndum, hún hafi lagt of mikla áherzlu á að safna gildum gjaldeyrisvarasjóði. Þessa skoðun er auðvitað hægt að hafa og ýmisleg rök hægt að færa fyrir henni. En það er skoðun núv. ríkisstj., og hún er ekki aðeins byggð á fyrri reynslu okkar Íslendinga af langvarandi hallabúskap í utanríkisviðskiptum og langvarandi gjaldeyrisskorti, hún er einnig byggð á reynslu allra annarra þjóða, sem við svipað hagkerfi búa, að fátt er þjóðarbúskap dýrara en að búa árum saman, ef ekki áratugum saman, við stöðugan gjaldeyrisskort. Það að þurfa að berjast gegn honum með langvarandi beitingu haftabúskapar á æ fleiri sviðum, það er dýrt. Það hefur reynzt okkur Íslendingum dýrt, og það hefur reynzt mörgum öðrum þjóðum, sem við svipað hagkerfi búa, einnig vera mjög dýrt. Þess vegna taldi ríkisstj. 1960 það eiga að vera eitt af sínum höfuðverkefnum, þegar hún tók við völdum, að eyða hallabúskapnum í utanríkisviðskiptunum og koma upp gildum gjaldeyrisvarasjóði, sem gæti gert kleift að afnema hin óheilbrigðu og dýru höft í utanríkisviðskiptunum; bæði til að beina framleiðsluöflunum innanlands inn á réttari brautir og til að gefa neytendum kost á frjálsara og fjölbreyttara vali, sem raunverulega mundi leiða til lækkandi framfærslukostnaðar, hvað svo sem gömul vísitala framfærslukostnaðar kynni að segja um þau efni. Þessu markmiði hefur ríkisstj. tekizt að ná. Það skulu verða síðustu orð mín í þessum umræðum, að það er bjargföst skoðun mín, að þessu markmiði hefði ríkisstj. ekki náð, nema því aðeins að hún hefði notið í þessu efni fulltingis stjórnar Seðlabankans, nema því aðeins að stjórn Seðlabankans hefði framfylgt þeirri stefnu í peningamálum, sem hún raunverulega hefur framfylgt síðan. 1960 og m.a. hefur verið fólgin í því að beita ákvæðum í gömlum seðlabankalögum, sem nú er gert ráð fyrir eð gera nokkru fyllri og nokkru viðtækari en átt hefur sér stað undanfarið. Það hefur ekki tekizt að eyða hallanum í utanríkisviðskiptunum og eignast um 1400 millj. gjaldeyrisvarasjóð, nema með því að beita heimildunum frá 1957 í því skyni að tryggja Seðlabankanum nokkurn yfirráðarétt yfir hluta — af sparifjáraukningunni, sem hefur myndazt í efnahagslífinu á þessu 4 ára tímabili.