30.04.1964
Efri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. felast till. um tvær breytingar á gildandi I. um Seðlabanka Íslands. Fyrri breytingin er fólgin í því, að frv. gerir ráð fyrir, að nokkuð sé rýmkað um þá heimild, sem Seðlabankinn hefur í gildandi lögum til þess að kveða svo á, að nokkur hluti aukningar innstæðufjár í bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum skuli geymdur á reikningi í Seðlabanka Íslands. Hin breytingin er fólgin í því, að gert er ráð fyrir, að Seðlabankinn fái heimild til þess að gefa út verðbréf eða aðrar skuldbindingar, sem séu bundnar gengi erlends gjaldeyris. Ég skal fara nokkrum orðum um hvora þessara breytinga um sig.

Í seðlabankal. frá 1957 var í fyrsta skipti lögtekin hér á Íslandi heimild fyrir Seðlabankann til að kveða svo á, að nokkur hluti aukningar innstæðufjár í viðskiptabankakerfinu skyldi geymdur í Seðlabanka Íslands. Þessi heimild var þó ekki notuð fyrr en á árinu 1960, þá var henni beitt í fyrsta skipti, og tel ég engan vafa geta leikið á því, að sá hluti aukningar sparifjárins, sem í landinu varð og sú aukning var mikil — og látinn var renna til Seðlabanka Íslands til varðveizlu þar, átti mjög verulegan þátt í því, að Seðlabankanum hefur tekizt á þeim árum, sem síðan eru liðin, að eignast mjög gildan gjaldeyrisvarasjóð, sem nemur nú um 1400 millj. kr. Ef heimildinni í l. frá 1957 hefði ekki verið beitt síðan 1960, tel ég mega fullyrða, að sá mikilvægi árangur hefði ekki náðst í peninga- og gjaldeyrismálum Íslendinga, að við höfum nú eignazt mjög verulegan gjaldeyrisvarasjóð, sem hefur reynzt mikill stuðningur við þá stefnu ríkisstj. að auka frjálsræði í utanríkisviðskiptum og þá sérstaklega í innflutningsverzluninni. Nú er hins vegar svo komið, að því hámarki, sem gert er ráð fyrir í gildandi seðlabankalögum að innlánsbinding í Seðlabankanum megi nema, er bráðlega náð, að því er sumar innlánsstofnanir varðar. En gildandi seðlabankalög gera ráð fyrir því, að viðskiptabönkum skuli aldrei geta verið skylt að eiga meiri inneignir í Seðlabankanum á bundnum reikningum en sem nemur 15% af sparifjárinnstæðum og 20% af innstæðum, sem ávísa má á með tékka. Ef þessar heimildir eru ekki rýmkaðar, eins og hér er gert ráð fyrir, að innstæðubinding megi nema allt að 25% af heildarinnstæðufé hjá hverri stofnun, gæti svo farið, að því er sumar stofnanir varðar, að Seðlabankanum yrði ekki kleift að kveða svo á, að nokkur hluti innstæðuaukningarinnar skuli renna á reikning í Seðlabankanum, en regla sú, sem gilti um þetta á s.l. ári, árinu 1963, var sú, að Seðlabankinn ákvað, að 25% af innstæðuaukningunni skyldu renna til Seðlabankans á reikning þar. En auk þessa gerði ríkisstj, samkomulag við viðskiptabanka um það, að 15% til viðbótar af sparifjáraukningu skyldu renna til kaupa á skuldabréfum ríkissjóðs, en andvirðið var notað til að standa undir fjárfestingarframkvæmdum á s.l. ári.

Segja má, að nú sé ekki lengur a.m.k. jafnbrýn þörf á því, að nokkur hluti sparifjáraukningar renni til Seðlabankans, eins og áður var, vegna áframhaldandi aukningar gjaldeyrisvarasjóðsins, þar eð hann er nú orðinn svo gildur, að þó að aukning hans þurfi að halda áfram að eiga sér stað, þarf það ekki að gerast í jafnríkum mæli og nauðsynlegt hefur verið undanfarin ár. En hér er þó þess að geta, að hlutur Seðlabankans er ekki aðeins að eiga og stjórna gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar og ráðstafa seðlaveltunni, heldur hefur Seðlabankinn hér einnig það hlutverk, sem raunar seðlabankar í öðrum nágrannalöndum hafa ekki, að sjá undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og landbúnaði, fyrir verulegu rekstrarfé og gera það í því formi að endurkaupa afurðavíxla af viðskiptabönkum. Af hálfu þriðja höfuðatvinnuvegar landsmanna, iðnaðarins, hafa verið uppi mjög eindregnar óskir um það, að hliðstæðar reglur yrðu upp teknar varðandi afurðavíxla iðnaðarins og nú gilda varðandi afurðavíxla sjávarútvegs og landbúnaðar. Það hefur undanfarið verið til athugunar að verða við þessum óskum, auk þess sem eindregnar óskir hafa verið uppi um það af hálfu fulltrúa sjávarútvegs og landbúnaðar, að Seðlabankinn auki endurkaup afurðavíxlanna, en nú endurkaupir Seðlabankinn sem svarar 55% af skilaverði útflutningsafurða landbúnaðar og sjávarútvegs, auk þess sem hann veitir verulegar upphæðir til svonefndra fyrirframlána í þágu landbúnaðarins. Það er augljóst mál, að Seðlabankinn getur ekki tekizt það verkefni á hendur að hefja endurkaup á afurðavíxlum iðnaðarins og hann getur ekki tekið til athugunar að auka endurkaup sín á víxlum sjávarútvegs og landbúnaðar, nema því aðeins að hann fái til þess aukið ráðstöfunarfé, og það aukna ráðstöfunarfé getur hvergi annars staðar komið að en frá aukningu sparifjármyndunarinnar í landinu. Þess vegna telur ríkisstj. það vera æskilegustu stefnuna, að Seðlabankinn fái áfram hlutdeild í sparifjáraukningunni og jafnvel fái nokkuð aukna hlutdeild í sparifjáraukningunni, ef hann á að geta tekizt á hendur aukinn stuðning við landbúnað, sjávarútveg og iðnað. Það er grundvallarhugsunin, sem að baki þessu frv. felst.

Auðvitað mætti hugsa sér, að hlutdeild Seðlabankans í sparifjáraukningunni héldist óbreytt eða jafnvel minnkaði, en beinlínis væri gert ráð fyrir því, að viðskiptabankarnir ykju verulega stuðning sinn við sjávarútveg, landbúnað og iðnað frá því, sem verið hefur, þ.e.a.s. aukin útlán viðskiptabankakerfisins til þessara undirstöðuatvinnuvega kæmu í stað aukinna afurðakaupa Seðlabankans þeim til handa. Af ýmsum ástæðum, sem ég skal þá ekki rekja hér, telur ríkisstj. hitt þó heppilegra, að hér eftir sem hingað til renni viss hluti af árlegri sparifjáraukningu þjóðarinnar til sjávarútvegs, landbúnaðar og í framtíðinni einnig til iðnaðar um hendur Seðlabankans, þar eð meiri líkur séu á því, að þetta fé komi sjávarútvegi og landbúnaði og í framtíðinni einnig iðnaði að verulegu gagni með því móti heldur en ef hinum mörgu viðskiptabönkum, sem sumpart eru orðnir einkabankar, væri ætlað það hlutverk til viðbótar þeim stuðningi, sem þessir bankar veita nú þessum atvinnugreinum.

Þá er í frv., eins og ég gat um áðan, ákvæði um, að Seðlabankanum skuli vera heimilt að gefa út verðbréf hér innanlands með ákvæði þess efnis, að höfuðstóll og vextir séu bundnir gengi erlends gjaldeyris. Tilgangurinn væri þá sá, að Seðlabankanum verði gert kleift að gefa út og selja verðbréf með gengisákvæði, er hafi þann tvíþætta tilgang að auka sparnað og auka traust manna á gjaldmiðlinum. Ég vil í sambandi við þetta ákvæði undirstrika, að hér er eingöngu um heimildarákvæði að ræða, og mun þessi heimild að sjálfsögðu ekki verða notuð nema að mjög vandlega athuguðu máli, og Seðlabankinn mun að sjálfsögðu ekki nota slíka heimild nema í fullu samráði við ríkisstj., og Seðlabanki og ríkisstj. mundu þá líka að sjálfsögðu, áður en slík heimild yrði notuð, hafa rækilegt og ýtarlegt samband um málið við viðskiptabankana.

Frekari skýringar, herra forseti, held ég, að séu óþarfar á frv., og leyfi ég mér því að óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.