13.12.1963
Efri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil leiðrétta það hjá hæstv. fjmrh., að ég hafi verið með nokkrar aðdróttanir til vegamálastjóra eða skrifstofu hans um, að hann væri að fela kút með færslum þeim, sem hann hefur verið látinn gera í þessu sambandi. Fyrir vegagerðina er á engan hátt ávinningur að hafa þetta í reikningnum. En það er að því leyti ávinningur fyrir þann, sem sér um ríkissjóðinn, að þá kemur ekki fram beint hjá ríkissjóðnum sú skuld, sem myndast við lántökur vegna Keflavíkurflugvallar til framkvæmda á vegagerðinni, en vegagerðina verður vitanlega ríkissjóður að bera. Hann verður að bera hana og greiða þau lán, sem hennar vegna eru tekin. Ég vona, að þetta liggi ákaflega ljóst fyrir, og sú líking, sem ég notaði þarna áðan og hæstv. fjmrh, þótti heldur sterk, stenzt að þessu leyti vel gagnvart reikningshaldara ríkissjóðsins, en á engan veginn við með nokkru móti gagnvart þeim, sem sér um vegagerð, því að hann er vitanlega bara þjónn hins í þessu efni.

Ég var ekkert sérstaklega að deila á það áðan, að óviss útgjöld hefðu farið mikið fram úr áætlun. Ég nefndi aðeins þá tölu sem hæsta, og eftir eðli málanna er það vitanlega ekki óeðlilegt, að það, sem kallast óviss útgjöld, geti sveiflazt til. En þegar ég fór að athuga 19. gr. yfir óvissu útgjöldin, sýndist mér vera í henni liðir, sem væri sjálfsagt að gefa gát að, og ekki að tilefnislausu, heldur að gefnu tilefni frá yfirskoðunarmönnum, því að þeir gera þar sínar aths., ekki stórorðar að vísu, en alvarlegar, og þeir gera þær ekki sem stjórnarandstæðingar, því að tveir þeirra eru kosnir til endurskoðunar af þeim flokkum, sem styðja ríkisstj., og það er ekki stjórnarandstæðingurinn eða fulltrúi þess flokks, sem gerir þessar aths. einn, þeir gera þær allir saman.

Hv. 6. þm. Norðurl. e., frsm. okkar í fjhn., benti á, að það væri ekki nýtt, að á 19. gr. væri talað um kostnað við ýmsa hluti, þó að það gæti verið, að þar væri að starfað af nefndum. Þetta er vafalaust rétt hjá honum. En til þess að bera saman, hvort meira er um þess háttar nú en áður, þarf gagngerari athuganir en þær, sem hann gerði, þótt menn hafi hér í ræðustólnum fyrir framan sig sundurliðun á þessari grein. En ég hef það á meðvitundinni, að mun meira hafi verið gert að því nú en áður að fella niður það, sem flokkað er undir nefndir, en taka hitt upp, og mér finnst þetta kannske í raun og veru ákaflega mannlegt, vegna þess að þegar hæstv. fjmrh., sem ræður skipan á 19. gr. vitanlega, eftir því sem hann vill, tók til starfa, þá gerði hann það sem vandlætari í þessum efnum. En það munu allir hafa á meðvitundinni, þó að ég sé hér ekki búinn að leggja fram um það ábyggilegar tölur, hvorki um tölu nefnda né hlutfallslegan kostnað við nefndir, — þá munu allir hafa það á meðvitundinni, að það hefur ekki tekizt fyrir hæstv. ráðh. að koma fram sparnaði, þvert á móti hefur straumurinn borið hann í öfuga átt.