09.05.1964
Efri deild: 96. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskmrh. fyrir svör þau, sem hann gaf við þeim fyrirspurnum, sem ég bar hér fram. Að vísu er rétt að taka það fram varðandi fyrstu fyrirspurnina, að hún var ekki um það, hvort reglur um innlánsbindingu almennt tíðkuðust annars staðar eða ekki. Það var mér nú fullvel kunnugt, að slíkar reglur þekkjast víða. En ég held nú, að þvílíkar almennar reglur séu víðast hvar settar einfaldlega vegna öryggis viðskiptabankanna, þeim er gert að skyldu að eiga nokkurt laust fé á öruggum stað, sem sagt í þjóðbankanum. En hins vegar var spurning mín um það, hvort 25% innlánsbindiskylda þekktist nokkurs staðar, og það staðfesti hæstv. viðskmrh., að hún væri hvergi fyrir hendi. En hann vildi réttlæta þessa bindiskyldu hér vegna þess, að Seðlabankinn hefði með höndum útlánastarfsemi, sem þjóðbankar annars staðar hefðu ekki með höndum. Það má rétt vera, en hins vegar minni ég á það, að bindiskyldan var í upphafi alls ekki rökstudd með þeim hætti, heldur var hún þá og lengi fram eftir og eiginlega allt fram til þess, að þetta frv. sá dagsins ljós, rökstudd með því, að það væri nauðsynlegt að binda þetta fé til þess að skapa mótvægi á móti þeim gjaldeyrisforða, gjaldeyrisvarasjóðl, sem talið var nauðsynlegt að koma upp erlendis.

Þess vegna fæ ég nú ekki séð, að það geti staðizt, sem hæstv. ráðherra sagði, — að það geti staðizt út frá hans sjónarmiði, þar sem hann lét orð falla á þá lund, að ef Seðlabankinn hefði ekki þessa útlánastarfsemi, sem hann hefur nú með höndum, þá yrði bara þessari innlánsbindingu alveg sjálfkrafa hætt. Ég verð að segja það, að þá er komið nokkuð langt frá þeim slóðum, sem haldið var inn á 1960 og 1961.

Viðvíkjandi annarri spurningu minni sagði hæstv. viðskmrh., að það væri ekki lengur þörf á þeirri heimild, sem felst í 4. mgr. 11. gr. seðlabankal., þ.e.a.s. að greiða fyrir viðskiptabönkum og sparisjóðum um fullnustu á innlánsbindingu með því að veita þeim heimild til að afhenda verðbréf.

Hann sagði, hæstv. viðskmrh., að það væri ekki lengur þörf á þvílíkri heimild og málið allt væri komið í svo fast horf. Ég verð nú að segja, að ég tel þetta nokkuð hraustlega mælt. Þegar á að hækka bindiskylduna um 2/5, úr 15% upp í 25%, á verulegum hluta, því að spariféð er náttúrlega miklu meiri hluti en það, sem stendur á innlánsreikningum, þá verð ég að segja, að ég býst við því, að sumum sparisjóðum og viðskiptabönkum geti orðið nokkuð erfitt fyrir að inna þessa innlánsbindingu af hendi. Það er kannske gott og blessað, ef menn hafa svo mikið traust á forstöðumönnum þessa máls, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e., að það mundi vera gengið fram í þessu með fyllstu gát og varfærni og engum íþyngt, en það traust virðast ekki kollegar hans við Iðnaðarbankann og Verzlunarbankann hafa í eins ríkum mæli, ef dæma má af þeim umsögnum, sem fengnar hafa verið frá þeim bönkum.

Viðvíkjandi þriðju spurningu minni er þess bara að geta og undirstrika það. að hæstv. ráðh. gat ekki á þessu stigi gefið neinar yfirlýsingar um það, hvort eða hve mikið af þessu aukna innlánsbindifé færi til afurðalána. Það er því allt eftir sem áður í hinni fullkomnustu óvissu, bara slegið úr og í um það, að það verði tekið til athugunar varðandi iðnaðinn, hvort tekin yrði upp eitthvað hliðsteeð fyrir greiðsla við hann og átti sér stað varðandi sjávarútveg og landbúnað.

Viðvíkjandi fjórðu spurningunni er það að segja, að af einhverjum ástæðum hefur hæstv. ráðh, algerlega misskilið þá fyrirspurn mína. Þar er um að tefla, að Seðlabankinn hefur heimild til að gefa út verðbréf, skuldabréf með gengisákvæði. Svo koma menn í Seðlabankann og kaupa þessi bréf, og það eru þeir, sem hafa ekki gengisáhættu, heldur von um gengisgráða, eða sem sagt kannske ekki gróða, en að vera jafnsettir og áður, þannig að verðbréf þessi eiga að fylgja genginu. En þeir láta í staðinn fyrir þessi bréf af hendi við Seðlabankann fé. Það, sem ég spurði um, var það: Hvernig á að verða háttað ávöxtun þess fjár? Á Seðlabankinn sjálfur að bera áhættuna af gengisbreytingu á þessum bréfum eða á hann að lána þetta fé, sem hann fær í staðinn fyrir þessi verðbréf, út með gengisklásúlu? Það var þetta, sem ég spurði um. Þetta hefur náttúrlega að mínu viti geysimikla þýðingu. Um þetta er ekki stafur í frv.

Í fimmta lagi var svo spurningin um gjaldeyrisréttindin til handa bönkunum. Hæstv. viðskmrh. gaf bara þá yfirlýsingu, að þetta mál væri í athugun, og gat ekki meira um þetta sagt. Þá yfirlýsingu skil ég á þá lund, að hún sé neikvæð, hann mundi ekki fylgja og ekki leggja til, að samþ. yrði till, hér, þótt fram kæmi, um það að veita Búnaðarbankanum gjaIdeyrisréttindi, né heldur mundi hann samþykkja till., þó að hún kæmi fram, um að veita viðskiptabönkum almennt, sem fullnægðu vissum skilyrðum, gjaldeyrisréttindi. Þar af leiðandi tel ég vonlaust að koma fram með þvílíka till. nú og mun ekki gera það, en vil jafnframt taka það fram, að ég er fús til að taka þátt í flutningi slíkrar till., ef aðrir vilja beita sér fyrir henni.