11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér fyrir hönd ríkisstj. að flytja 2 brtt. við frv. á þskj. 647. Fyrri brtt. gerir ráð fyrir því, að óski innlánsstofnun að setja á stofn útibú eða umboðsskrifstofu, skuli hún sækja um leyfi til þess til Seðlabankans, sem láti í ljós álit sitt á umsókninni og leggi það fyrir þann ráðherra, sem fer með mál hlutaðeigandi banka eða innlánsstofnunar, og taki þá ráðherra ákvörðun um, hvort leyfið skuli veitt eða ekki.

Það er alkunna, að að undanförnu hefur verið vaxandi samkeppni milli banka um staðsetningu útibúa, og bendir sú reynsla mjög ótvírætt til, að nauðsynlegt sé, að tekið sé upp opinbert eftirlit á þessu sviði, svo sem tíðkast mjög víða erlendis. Mundi þá vera stefnt að því að koma í veg fyrir offjölgun útíbúa á einstökum stöðum, en slíkt mundi að sjálfsögðu aðeins hafa í för með sér aukinn kostnað við rekstur bankakerfisins, en í stað þess verði unnið að því, að bankaútibúin dreifist sem viðast um landið, þannig að bankaþjónusta sé hvarvetna sem bezt.

Nú hefur löggjöf viðskiptabankanna heimilað þeim stofnunum að ákveða einhliða, hvar þær koma á fót útibúi eða umboðsskrifstofu. Þau ákvæði hafa, eins og ég gat um áðan, leitt til vaxandi samkeppni þeirra um staðsetningu útibúa og hafa haft í för með sér fjölgun þeirra, sem sumir telja óhóflega mikla, án þess þó að reynslan hafi orðið sú, að bankaútibúin hafi dreifzt um landið þannig, að sem bezt sé séð fyrir þessari þjónustu. Þetta eru rökin fyrir því, að ríkisstj. telur, að nauðsynlegt sé, að till. sé gerð til heildarskipulagningar á staðsetningu bankaútibúa, og telur, að það markmið geti ekki náðst með öðrum hætti en þannig, að stofnun bankaútibúa séð háð leyfisveitingu ráðherra að fengnum till. Seðlabankans hverju sinni.

Seinni brtt. er um það, að Seðlabankanum sé heimilt að taka að sér innheimtu ávísana, sem innlánsstofnanir hafa keypt og ónóg innstæða er fyrir, og áskilja innheimtugjald frá útgefanda skv. nánari reglum, sem ráðherra setur.

Það er kunnugt, að Seðlabankinn hefur haft forgöngu um sérstakar aðgerðir, sem beinast gegn misnotkun ávísana. Þessar aðgerðir eru fyrst og fremst fólgnar í sérstöku allsherjaruppgjöri, sem Seðlabankinn hefur beitt sér fyrir nokkrum sinnum, og svo í daglegri innheimtu þeirra ávísana, sem innlánsstofnanir í Reykjavík eignast og ónóg innstæða er fyrir. Þessar aðgerðir hafa þegar borið allgóðan árangur, og er greinilegt, að þeim verður að halda áfram. Þess vegna þykir rétt að staðfesta í löggjöf heimild fyrir Seðlabankann til þess að veita þá þjónustu, sem hann hefur veitt í þessum efnum fram að þessu. Það innheimtugjald, sem bankinn áskilur sér, þarf að vera allhátt, til þess að árangur verði af þessum aðgerðum, og er því talið rétt, að ráðh. sá, sem fer með bankamál, ákveði, hversu hátt það megi vera, og setji að öðru leyti reglur um framkvæmdina, eins og gert er ráð fyrir í seinni brtt. Þetta vona ég, að hv. d. telji nægilegt til skýringar á þessum brtt.