11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það er nú, sem vonlegt er, að þessar umr. hafa hér við 3. umr. tekið alveg nýja stefnu, því að hæstv. viðskmrh. hefur borið fram brtt. á þskj. 647, sem hér hefur verið rætt um fyrst og fremst. Ég vil í sambandi við það taka undir það, sem hér hefur komið fram, að þessi málsmeðferð er í sjálfu sér algerlega forkastanleg. Hæstv. viðskmrh. lét í ljós um það ósk áðan, að menn létu ekki formið ráða afstöðu sinni, heldur litu á efnisatriði málsins. Ég get í því sambandi ekki stillt mig um að minna á, að það þinglega form, sem áskilið er, er einmitt haft eins og það er til þess að tryggja, að menn komi auga á og hafi tækifæri til þess að athuga efnisatriði málsins. Ég segi fyrir mig, að ég gat alls ekki gert mér grein fyrir því, þegar þessar till, voru lagðar á borð okkar nú rétt áðan, hvaða afstöðu bæri að taka til þeirra efnislega, en ég sá strax auðvitað, að þetta form var mjög óvenjulegt. Ég vil þess vegna taka undir þau tilmæli, sem borin hafa verið fram til hæstv. viðskmrh. um það, að hann taki þessar till. sínar til baka eða ella verði málinu frestað, svo að menn geti gert sér grein fyrir málinu betur.

Eftir ýtarlega ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. um þetta mál þykist ég þó sjá það, að hér sé um fleira óvenjulegt að ræða við þessar till. en það, hversu seint þær eru fram bornar. Hér er með brtt. við frv., sem fyrir liggur um breyt. á l. um Seðlabankann, ætlazt til þess, að gerð verði breyting á 1. um viðskiptabankana hvern um sig. Og eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. benti á, hlýtur það að vera nauðsynlegt, að slíkar breytingar við allt annað frv. fái eðlilega þinglega meðferð, en séu ekki hengdar aftan í breytingar á löggjöf um Seðlabankann, eins og hér er gerð tilraun til að gera.

Hæstv. viðskmrh: gerði hér tilraun til þess að afsaka það, hversu síðbúin hæstv. ríkisstj. hefði verið með þetta mál og hefði þess vegna ekki átt aðra kosti en að leggja þetta fyrir svona eða láta málið bíða til hausts, sem hæstv. viðskmrh. taldi mjög óheppilegt. Það verður ekki hjá því komizt í þessu sambandi að minna á það, að þetta vandamál, sem hér er um að ræða, er í rauninni alls ekki nýtt. Menn eru búnir að vera að horfa á þá þróun, sem hefur átt sér stað og hér er gert ráð fyrir að stemma stigu við, í alllangan tíma, og ef það, sem gerzt hefur undanfarin 1–2 ár í þessum efnum, hefur verið til mikils skaða, þá verður því nú illa trúað, að það geti átt sér stað eitthvert skelfilegt tjón, þó að það bíði til haustsins, að þetta mál verði afgreitt.

Mér virðist rétt að láta það koma fram í sambandi við þetta mál, að það virðist fara orðið miklu minna fyrir tali hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar um frelsi, viðskiptafrelsi og annað ágætisfrelsi, sem mest var talað um hér fyrir nokkru. Nú er verið að setja allt viðskiptalíf og fjármálalíf þjóðarinnar í algera spennitreyju með ofurvaldi ríkisins yfir Seðlabankanum og ofurvaldi Seðlabankans yfir öllum peningastofnunum landsins, og þá er fyrst hægt að tala um alvarleg höft í þessu landi. Nú sé ég ekki betur en allt viðskiptalíf landsins sé að komast í algera spennitreyju og nú geti hæstv. ríkisstj. farið að skipta sér af og taka í sínar hendur stjórn á næstum hvaða þætti íslenzks viðskiptalífs sem vera skal.

Mér þótti rétt, af því að umr. hafa snúizt um þetta, svo sem eðlilegt er, hér við 3. umr. málsins, að láta þetta koma fram frá minni hálfu, fyrst ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál. En aðalerindi mitt í ræðustól var þó annað, nefnilega það, að ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e., sem er með mér í minni hl. fjhn., á ég brtt. á þskj. 648. Við 2. umr. þessa máls lögðum við til í okkar nál., að frv. yrði fellt. Það kom fram við 2. umr., að það var meiri hl. fyrir því í hv. þd. að samþykkja þetta frv., og við í minni hl. höfum því komið okkur saman um það að reyna nú við 3. umr, að fá fram breytingar á frv., — breytingar, sem mundu, ef samþykktar yrðu, gera frv, nokkurn veginn viðunandi frá okkar sjónarmiði.

Þessar breytingar, sem bornar eru fram á þskj. 648, eru í tveimur liðum, en efnislega eru þær þrjár. Við 1. gr. eru tvær brtt. önnur er sú, að í stað þess, sem stendur í upphafi greinarinnar, þar sem segir svo: „Í stað 2.–4. mgr. 11. gr. l. nr. 10 frá 1961“ — leggjum við til, að komi: „Í stað 2. og 3. mgr.“, þannig að 4. mgr. 11. gr. l. um Seðlabankann haldi sér eins og hún er nú. En þar sem þetta var til umr. við 2. umr, málsins, þarf ég ekki frekar að rekja það, í hverju þessi breyting er efnislega fólgin, annað en minna á, að þessi mgr., sem við þarna leggjum til að haldi sér í seðlabankal., fjallar um það, að Seðlabankinn megi taka verðbréf og þvílíkt upp í bindiskyldu, upp í það sparifé, sem hann bindur fyrir viðskiptabönkum og sparisjóðum, ef sérstakir erfiðleikar verða á vegi þeirra með að inna þessa bindiskyldu af hendi.

Hin breytingin, sem við gerum við 1. gr., er sú, að við leggjum til, að bundna sparifénu verði sett hámark, þ.e.a.s. þannig, að hámarkið verði ekki aðeins 25% af innlánum viðskiptabankanna og sparisjóðanna, eins og gert er ráð fyrir í frv., heldur verði einnig tölulegt hámark, þannig að þessi binding fari í heild aldrei fram úr 1000 millj. kr.

Breytingin, sem við leggjum til við 2. gr., er svo á þá leið, að sú grein falli niður. Við höfum gert grein fyrir því, að við teljum útgáfu gengistryggðra skuldabréfa á vegum Seðlabankans óeðlilega, bæði vegna þess, að í því er fólgin óeðlileg samkeppni við viðskiptabanka og sparisjóði, og eins sökum þess, að við teljum gengistryggingu vera ófullnægjandi í þessu sambandi og beri að vinna að því bráðan bug að koma á verðtryggingu. Og við óttumst, að ef farið yrði út í þetta, mundi það aðeins verða til að tefja raunhæfar aðgerðir í verðtryggingamálunum.

Herra forseti. Ég held, að ég þurfi ekki að orðlengja þetta meira, en mæli með samþykkt brtt. okkar í minni hl. fjhn. á þskj. 648 og tek undir þau tilmæli, sem komið hafa fram til hæstv. viðskmrh. um það, að brtt, á þskj. 647 verði teknar til baka, þannig að tóm gefist til að athuga það mál til næsta þings.