11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég dreg þá ályktun af ræðu hæstv. viðskmrh., að hér sé fremur um fljótræðisverk að tefla heldur en annað verra, eins og mér þó kom fyrst í hug, því að hæstv. ráðh, viðurkenndi í raun og veru allar þær aths. varðandi formhlið máls þessa, sem ég hreyfði hér, og lét í ljós, að honum þætti það leitt, að þessir vankantar væru á málinu. Það er út af fyrir sig virðingarvert, að hæstv. ráðh. viðurkennir það, og vænti ég, að hann breyti nú samkv. því að athuguðu máli og fallist á þau tilmæli, sem hér hafa verið borin fram um það að draga málið til baka, því að sannleikurinn er sá, þegar málið er nú athugað og nokkurt tóm gefst til að athuga þessa brtt., þó er hún ekki aðeins fljótræðisverk að því er formið snertir, heldur er nú efnið í meira lagi vafasamt, þegar maður fer að velta því nánar fyrir sér.

En það er alger misskilningur og var misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ég hefði ekki í minni ræðu gert neinar aths. við efni þessarar till. Ég tók það alveg skýrt fram, að ég teldi það hreina fjarstæðu, þó að það ætti að taka upp eitthvert eftirlit um þessi mál, að fela ríkisstj. eða einstökum ráðh. úrskurðarvald um það efni. Það tel ég alveg fráleitt og mun aldrei geta greitt þvílíku fyrirmæli atkv.

Hitt er annað mál, hvort menn geta léð máls á því eða tekið undir það, að þörf sé á einhverju skynsamlegu eftirliti eða heildarstjórn á þessum málum. En þá þarf vitaskuld að athuga það mál, því að þar koma ýmis atriði til greina og málið er ekki eins einfalt og það gæti litið út fyrir af þessari brtt. Það er rétt, að það hefur komið frsm einhver gagnrýni á því, að það hafi verið sett upp útibú frá viðskiptabönkum. Ekki hef ég heyrt því hreyft, að það væru aðrar þær stofnanir, sem í l. þessum er fjallað um, sem hefðu sett upp slík útibú eða umboðsskrifstofur, heldur aðeins varðandi bankana. Það er nú svo, að það er náttúrlega spurning um það kannske, þegar maður fer að velta því fyrir sér, á hve miklum rökum sú gagnrýni er byggð. Það má skipta þeim útibúum og umboðsskrifstofum, sem upp hafa veríð sett; í tvo flokka: annars vegar þau útibú, sem sett hafa verið upp úti um land, hins vegar þau útibú, sem hafa verið sett upp víðs vegar hér í bænum, Ég hygg, að þau útibú, sem sett hafa verið upp víðs vegar úti um land, hafi víðast hvar, ef ekki alls staðar, verið sett upp samkv. óskum fólksins í viðkomandi byggðarlagi, þannig að það er ekki því til að dreifa, að það hafi þar verið farið að yfirleitt andstætt óskum þess fólks. Í ýmsum tilfellum hefur þetta meira að segja gerzt með þeim hætti, að það hafa farið fram samningar á milli sparisjóðs, sem var á þeim stað, og viðkomandi viðskiptabanka um, að viðskiptabankinn tæki við sparisjóðnum og hann væri síðan framvegis rekinn sem útibú. Það hefur í raun og veru ekki komið til sögunnar nein ný peningastofnun, heldur verið breytt um form í þessum efnum, og tilgangurinn í þeim tilfellum a.m.k. verið sá að styrkja peningastofnun héraðsins með þessum hætti og bæta aðstöðu fólksins í viðkomandi byggðarlagi með þessum hætti. Hvort það má segja, að sömu rök liggi alls staðar til þeirra bankaútibúa og umboðsskrifstofa, sem hafa verið sett upp hér í bænum, skal ég ósagt láta. Það má vel vera, að þær ráðstafanir sumar hverjar eigi talsverðan þátt í auknum rekstrarkostnaði banka. En hitt dreg ég í efa, að setning útibúa þeirra úti um land, sem átt hefur sér stað, hafi haft í för með sér mikið aukinn rekstrarkostnað, þegar tillit er tekið til þess, að í sumum tilfellum hefur sem sé sparisjóðurinn jafnframt hætt störfum og hin nýja stofnun að sumu leyti komið í hans stað, þannig að þótt þetta hafi sætt einhverri lítilfjörlegri gagnrýni sums staðar, er í raun og veru að mínum dómi allt of mikið sagt, að hér hafi einhverjir viðsjárverðir hlutir gerzt og hér sé einhver sérstök hætta á ferðinni. Þetta er í mörgum tilfeilum eðlileg og sjálfsögð þjónusta við fólk úti um dreifðar byggðir.

Ég skal taka fram, að það er mín skoðun, að í sumum tilfellum ætti frekar að dreifa bankakerfinu þannig, að það ætti að reisa höfuðstöðvar sumra ríkisbankanna utan Reykjavíkur, í stað þess að þar séu alltaf sett upp útibú og allar höfuðstöðvar bankans séu hér. Mér koma því nokkuð spánskt fyrir sjónir, eins og hv. 6. þm. Sunnl., þau ummæli, sem hæstv. ráðh. lét hér falla, að það hefði komizt á með því kerfi, sem hefði verið að koma hér upp að undanförnu, ríkisbönkum annars vegar og einkabönkum hins vegar, keppni milli þessara aðila og slíkt hefði stuðlað að óhóflegum vaxtakostnaði og líka rekstrarkostnaði. Þetta kemur mér óneitanlega spánskt fyrir sjónir að heyra af munni hæstv. ráðh. og ríkisstj., sem hefur haft það fyrir sitt aðalboðorð í orði kveðnu, að samkeppnin ætti að lifa og það væri heppilegast öllum aðilum; að samkeppni næði að njóta sín, og hvers konar höft væru voði. En það er eins og það sé dálitið erfitt fyrir hæstv. ríkisstj., ekki aðeins í þessu efni, heldur og ýmsum öðrum; að breyta eftir þessari kenningu.

Ég held, að það sé enginn voði á ferð í þessum efnum, alls enginn. Ég held, að í mörgum tilfellum sé þarna um að ræða sjálfsagða og eðlilega þjónustu við fólk úti á landsbyggðinni, að útibú séu sett upp á þeim stöðum, en menn þurfi ekki sífellt að vera að leita í höfuðstöðvar bankanna hér í Reykjavík. Ég álít, að það sé misskilningur manna, sem staðsettir eru í höfuðstöðvum bankanna hér í Reykjavík, ef á að líta á slíkt sem einhvern voða. Og sannast bezt að segja verður ekki séð, að viðskiptabankarnir hafi litið á þetta sem neinn voða, af því að þeir hafa smám saman verið að færa út kvíarnar í þessu efni, en það hefur gerzt smám saman. Það hefur ekkert gerzt, eins og bæði ég tók fram áðan og hv. 6. þm. Sunnl. benti á, — það hefur ekkert gerzt í þessum málum að undanförnu, á síðustu vikum, sem geri nú þörf alveg sérstakra ráðstafana í þessu efni. Ef þetta væri svona óskapleg ógn, hefur hæstv. ríkisstj. látið sér annað eins til hugar koma og að setja brbl., svo að það er náttúrlega ekki öll nótt úti, þó að þessu þingi ljúki nú án þess að afgreiða þessa brtt., og ég gæti ósköp vel trúað þeim til þess að setja brbl. um þetta, ef þeir sæju, að einhver ógn væri á ferðum í þessu efni.

Það er sjálfsagt alveg rétt og það vefengi ég ekki, að rekstrarkostnaður við bankakerfið hefur vaxið ískyggilega að undanförnu. En ég held, að sá aukni rekstrarkostnaður eigi ekki nema a.m.k. að sáralitlu leyti rætur að rekja til útibússtofnana. Ég held, að þar séu allt aðrar orsakir að verki. En það er náttúrlega mál, sem þarf að rannsaka, og það mál verður sjálfsagt rannsakað, vona ég, í sambandi við þá heildarlöggjöf um bankana, sem meiningin er að semja. Ég held, að það sé mikil nauðsyn að stefna að því að gera bankakerfið einfaldara og ódýrara, en þessi brtt. hefur mjög takmörkuð áhrif í þá átt.

Það er alveg áreiðanlegt, að hér er um mikið fljótræðisverk að tefla. Hæstv. viðskmrh. lét þess getið, að það væri ekki aðeins ríkisstj., sem stæði að flutningi þessarar brtt., heldur væri Seðlabankinn þar einnig að verki. Ég verð að segja, að það hafa þá verið höfð eitthvað hröð vinnubrögð þar í þessu efni, því að ekki kannast ég við, að þessi brtt. hafi verið borin undir bankaráð, svo sem venja er þó að gera og á að gera, að ég hygg, lögum samkv., ef um er að ræða breytingar á seðlabankalögum. Það hefur ekki verið minnzt á þetta í bankaráði Seðlabankans, svo að ég kannist við, þannig að það eru aðeins bankastjórarnir, sem hafa staðið að þessari brtt. með hæstv. ríkisstj. Auðvitað er það engin hæfa, að svona mál sé borið upp, án þess að sagt sé frá því og því sé hreyft í bankaráði Seðlabankans. Það er ástæðulítið að vera með tildursstofnanir eins og bankaráð, ef þau eiga ekkert að gera nema vera upp á stáss. Það má eins leggja þær þá niður og spara þar eitthvað. Það er því ekki í einu, heldur öllu, sem undirbúningi þessa máls hefur verið áfátt, og er bæði utan þings og á þinginu sjálfu alveg óeðlileg meðferð, sem á að hafa á því.

Það er vitaskuld allt annað mál, hvort það að athuguðu mált gæti orðið niðurstaðan að fallast á, að það væri sett einhver skynsamleg stjórn eða eftirlit með þessum málum, heildarstjórn, ef menn álitu það að athuguðu máli nauðsynlegt: Ef menn álitu, að þetta frjálsræði, sem viðskiptabönkunum er veitt í þessu efni í hinum einstöku viðskiptabankalögum, hafi verið misnotað, þá verður auðvitað að leita að einhverjum skynsamlegum leiðum til þess að koma í veg fyrir þá misnotkun. Ég held því alls ekki fram, að þetta hafi verið misnotkun. En ég segi hins vegar: Þessi brtt., er ekki leiðin í því efni, því að með þessu er ekki einu sinni sett upp nein heildarstjórn á þessu, það er nú svo einkennilegt. Samkv. þessari brtt. er það sá ráðh., sem á að eiga úrskurðarvald um þetta efni, sem fer með mál viðkomandi stofnunar. Ef ég veit rétt; — ég vona, að það sé ekki misskilningur hjá mér, — þá heyrir t.d. Búnaðarbankinn undir landbrh., — er það ekki rétt? Aftur á móti heyrir t.d. Útvegsbankinn undir viðskmrh. Ég er nú ekki viss um, undir hvaða ráðh. t.d. innlánsdeildir samvinnufélaga heyra. Það mætti kannske láta sér detta í hug, að þær heyrðu undir viðskmrh., þær gætu nú kannske heyrt undir félmrh., ég veit það ekki: (Gripið fram S: Undir landbrh.) Nú, undir landbrh., jæja. Þá horfir sem sagt dæmið þannig við, að nú telur Búnaðarbankinn sér nauðsynlegt að setja upp útibú á einhverjum stað, færir fram sin rök fyrir því og sendir umsögn um það til Seðlabankans, og síðan er farið með það til hæstv. landbrh. og hann gefur samþykki sitt til þess, að bankaútibú frá Búnaðarbankanum sé sett upp á tilteknum stað, það er kannske ekkert fjölmennt þar, þá dettur Útvegsbankanum það í hug, eða honum hefur kannske verið búið að detta það í hug, áður en Búnaðarbankanum datt þetta í hug, þó að Búnaðarbankinn hafi verið fyrri til að fá þetta leyfi, — þá dettur Útvegsbankanum í hug að setja upp bankaútibú á sama stað. Hæstv. landbrh, mundi líta á það sem algera fjarstæðu að fara að setja upp annað útibú á þeim stað, ef málið heyrði undir hann. Ef málið heyrði undir einn og sama ráðh., mundi þess vegna ekki verða stofnað annað útibú á þessum stað. En um útibú frá Útvegsbankanum þarf að sækja um leyfi til hæstv. viðskmrh., og hæstv. viðskmrh: kann, að líta á þetta allt öðrum augum en hæstv. landbrh. og veitir leyfið. Svona skynsamlegt er nú eftirlitið, sem verið er að setja upp með þessari brtt.

Ég held nú, að það væri ekki nein vanþörf á því að hugsa um þetta svolítið betur, og þess vegna vil ég nú enn á ný beina þeirri áskorun til ráðh., að hann að athuguðu máli fallist á að taka þessar brtt, aftur. En ef hann treystir sér ekki til þess, þá er náttúrlega alger lágmarksósk frá hálfu okkar í þd., að umr. um brtt. verði frestað og fjhn. fái tækifæri til þess að koma saman á fund og fjalla um þær. Ég treysti hæstv. forseta alveg fyllilega í því efni, treysti honum til þess, að hann verði við þeim tilmælum, ef hæstv. viðskmrh. vill ekki fallast á það að taka till. aftur, því að það er náttúrlega svo sjálfsagt mál, að því verður ekki trúað að óreyndu, að ekki verði orðið við þeim tilmælum, að fjhn. gefist tóm til þess að fjalla um till. og kalla á sinn fund forstöðumenn helztu viðskiptabankanna, bankastjóra og kannske formenn bankaráða, og heyra, hvað þeir hafa að segja um þetta: Það er alveg fráleitt og óhæfa að fara að setja svona ákvæði, sem skerða þeirra vald, breyta stjórnarfyrirkomulagi viðskiptabankanna og breyta nú lögum þeirra, eins og ég hef sagt og sýnt fram á, ef það á að gera það, án þess að það sé talað við þá. Það væri ekkert úr vegi náttúrlega, að málið væri sent aftur til Seðlabankans og það væri hafður svo sem einn fundur í bankaráði Seðlabankans um það, áður en það er afgreitt. Það væri óneitanlega viðkunnanlegra, ef það ætti að segja, að þetta væri komið frá Seðlabankanum.

Ég skora enn á ný á hæstv. viðskmrh. að taka málið aftur, því að það þarf efnislega miklu meiri athugunar við sýnilega heldur en liggur að baki þess, og formið er óhæft.