11.05.1964
Efri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta það, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði um það, að ég hefði lýst andstöðu minni við þessar breytingar, sem hér er um að ræða, brtt. hæstv. viðskmrh. á þskj. 647.

Ég tók ekki efnislega afstöðu til till. í n. Ég lagði hins vegar fram í n., eins og hv. frsm. meiri hl. hefur gert grein fyrir, tillögu um það, að n. aflaði sér upplýsinga um ýmisleg atriði, sem þetta mál snerta, og kallaði á sinn fund í því tilefni bankastjóra og e.t.v. aðra sérfræðinga um bankamál, sem þarna ættu helzt hlut að máli.

Það er gerð þannig grein fyrir fyrri till. á þskj. 647, að það beri nauðsyn til þess að setja upp þau höft, sem þar eru lögð til, sökum þess að svo mikil brögð hefðu verið að því að undanförnu, að ýmsir bankar hafi sett upp útibú, að slíkt mundi valda stórkostlegri hækkun á kostnaði við rekstur bankanna. Mér þótti þess vegna eðlilegt, að fjhn., þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, kannaði þetta atriði, aflaði sér upplýsinga um það, hvar hver banki hefur útibú, hve mörg hver þeirra hefur og á hvaða stöðum, og reyndi að gera sér grein fyrir því, við hver rök þetta hefur að styðjast. Ég taldi einnig rétt, að n. aflaði sér upplýsinga um það, hvernig bankarnir litu á þær hömlur, sem hér eru settar, með því að n. hefði tal af fulltrúum þessara banka, sem þarna er um að ræða. Eins og hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir, vildi meiri hl. n. ekki á þetta fallast, með skírskotun til þess, að svo stuttur tími væri eftir af þessu þingi, að það væri ekki hægt að finna tíma til þess að afla þessara upplýsinga. Um þetta get ég aðeins sagt það, að ef hv. Alþingi hefur ekki tíma til þess að afla jafnsjálfsagða gagna og upplýsinga eins og hér er um að ræða í sambandi við mál af þessu tagi, þá hefur hv. Alþingi ekki tíma til þess að afgreiða þetta frv. eða þessar brtt. við frv.

Nú kynni einhver að segja, að þar sem hæstv. ríkisstj. virðist leggja á það áherzlu að fá þessar brtt. samþ., þá gæti Alþingi gert það fyrir hana að gera þetta. En Alþingi ber sjálft ábyrgð á þeim l., sem það samþykkir, og getur ekki komið þeirri ábyrgð yfir á herðar hæstv. ríkisstj. Hins vegar liggur þetta nú allt saman þannig fyrir, að eftir tvo daga hefur ríkisstj. það á valdi sínu að gefa út lög á sína eigin ábyrgð, sem kemur svo síðar til kasta Alþingis að fjalla um. Ef ríkisstj. leggur svo mikla áherslu á þetta atriði, eins og mér virðist hafa komið fram hjá hæstv. viðskmrh., þá sýnist mér, að það séu tveir kostir í því máli: annaðhvort að Alþingi gefi sér tíma til að athuga og ræða og kanna þetta mál á þann hátt, sem sæmir, eða ef Alþingi hefur ekki tíma til þess, þá verður ríkisstj. sjálf að gera nauðsynlegar ráðstafanir upp á sína ábyrgð. Það er ekki hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að ætlast til þess, að Alþingi samþykki svo veigamikil atriði sem hér er um að ræða, sem lögð eru fyrir þessa hv. d. á síðasta eða næstsíðasta starfsdegi hennar.

Af því að það hefur ekki fengizt um það samkomulag í hv. fjhn., að n. taki sér þann tíma, sem nauðsynlegur er til þess að afla upplýsinga um þetta mál og kanna þetta mál, þá mundi ég ekki að þessu sinni gera efnisatriði þess mjög að umræðuefni. Það hefur ekki verið tækifæri til þess að afla sér þeirra gagna, sem nauðsynleg eru, til þess að efnislegar umr. um þessar brtt. geti farið fram. Ég verð að átelja það, að hæstv. ríkisstj. skuli yfirleitt ætlast til þess af hv. Alþingi, að það afgreiði svona mál með þessum hætti. Það er óeðlileg tilætlunarsemi. Ríkisstj. hæstv. hefur það á valdi sínu að gera ráðstafanir í þessum málum, án þess að ætlast til þess af Alþingi, að það afgreiði mál eins og þetta af slíkri hroðvirkni, að teljast verður langt fyrir neðan virðingu Alþingis.

Ég vil þó, án þess að ræða mikið um efnisatriði þessa máls, drepa á atriði, sem ég vil biðja hv. þdm. að gera sér fulla grein fyrir. Ég vil vekja athygli á því, sem fram hefur komið í máli hv. 3. þm. Norðurl. v., að hér er um það að ræða, að allt öðrum l. en þeim, sem hér eru til meðferðar, er breytt með brtt. við það frv. um Seðlabanka Íslands, sem hér er á dagskrá. Brtt. hæstv. viðskmrh. á þskj. 647 eru þess eðlis, að þær fela í sér veigamiklar breytingar á I. nr. 11 frá 29. marz 1961, um Landsbanka Íslands, og enn fremur l. nr. 12 frá sama degi, um Útvegsbanka Íslands. Það hefur ekki verið tækifæri til þess af þeim ástæðum, sem ég hef verið að lýsa, af því, hvernig málinu hefur verið hent hér inn í þingið og flaustrað gegnum n., hefur ekki verið tækifæri til þess einu sinni að kanna það, hve mörgum öðrum l. kunni að vera verið að breyta í leiðinni. Slík vinnubrögð eins og að samþykkja þessar brtt. að svo komnu máli væru þess vegna algerlega ósæmtleg fyrir hv. d., og ég vona, að hæstv. forseti muni taka til athugunar tilmæli hv. 3. þm. Norðurl. v. um að kanna, hvort það er yfirleitt hugsanlegt að bera slíka brtt. upp eða hvort ekki bæri að vísa henni frá.

Í rauninni eru þau efnislegu rök, sem komið hafa fram fyrir þessari fyrri till. á þskj. 647, næsta hlægileg að heyra frá hæstv. ráðh. núv. ríkisstj. Hæstv. viðskmrh. sagði það í ræðu sinni hér áðan, að það hefði komizt á samkeppni milli bankanna. Og þetta var sagt í þeim tón og með þeim hætti, að ekki varð öðruvísi skilið en hér væri um stórkostlegt slys að ræða. Hefur hæstv. viðskmrh. aldrei dottið í hug, að það hafi komizt á samkeppni milli kaupmanna hér í Reykjavík eða annars staðar? Það hefur ekki fram að þessu verið talið neitt böl í sjálfu sér og sízt af þeim talsmönnum hæstv. ríkisstj., sem a.m.k. fyrir nokkrum árum báru mjög í munni sér orðið frelsi, þó að nú sé búið að hefta allt í spennitreyju hæstv. ríkisstj. Auðvitað eiga bankarnir, eins og aðrar stofnanir og önnur viðskiptafyrirtæki almennings í landinu, að sjá sóma sinn í því að veita sínum viðskiptamönnum góða, eðlilega og heilbrigða þjónustu.

Hæstv. viðskmrh. sagði það hér áðan, að áframhald þessarar þróunar, vaxandi þjónusta við fólkið í landinu í þessum efnum, mundi hækka kostnaðinn við rekstur bankanna. Það kemur í sjálfu sér kannske engum á óvart. En hins vegar höfum við sjálfsagt allir gert okkur það ljóst, að þjónusta við almenning og raunar öll þjónusta hlýtur að kosta peninga. Ekki dettur okkur í hug, svo að ég haldi áfram með það dæmi, sem ég nefndi áðan, að setja lög um það, að ríkisstj. skuli hafa það á valdi sínu, hve margar kaupmannabúðir skuli settar upp í Reykjavík, til þess að koma í veg fyrir, að dreifingarkostnaðurinn á vörum hér í bænum væri óhæfilega hár. Hér er þó um alveg hliðstætt mál að ræða. Kannske má raunar vænta þess, og það væri svo sem ekki nema í samræmi við ýmislegt annað, sem upp á síðkastið hefur verið að koma frá hæstv. ríkisstj., að hún geri till. um slíkt efni.

ég þarf ekki að fara mörgum orðum um seinni brtt. á þskj. 647 frá hæstv. viðskmrh., sem fjallar um það, að Seðlabankanum sé heimilt að taka að sér innheimtu ávísana, sem innlánsstofnanir hafa keypt og ónóg innistæða er fyrir, og áskilja innheimtugjald frá útgefanda samkv. nánari reglum, sem ráðh. setur. Hér er ekki um neitt annað að ræða en það, að það er gert ráð fyrir að taka upp þessa setningu í löggjöfina bara til staðfestingar á þeim praxís, sem framkvæmdur hefur verið alllengi. Ég skil hins vegar mætavel, að hv. 3. þm. Norðurl. v. þótti næsta kyndugt að sjá þetta borið fram núna. Hann á sæti í bankaráði Seðlabankans, og mér finnst ekki nema eðlilegt, að hann dragi þá ályktun af þessu, að með þessu væri verið að gefa það í skyn, að Seðlabankinn hefði verið að annast þessa starfsemi án lagaheimildar að undanförnu. Ég get varla trúað öðru en þeim mönnum, sem ábyrgð bera á rekstri Seðlabankans, komi það nokkuð á óvart, að hæstv. viðskmrh, skuli skyndilega finna þörf hjá sér til þess að koma svona ákvæði inn í löggjöf um Seðlabankann og leggja á það svo mikla áherzlu að ætlast til þess, að hv. Alþingi, báðar d. þess, afgreiði slíkt á tveimur dögum. Eitthvað hlýtur við að liggja að fá heimild til þessarar ávísanainnheimtu inn í löggjöfina að dómi hæstv. viðskmrh., fyrst svona er að málinu farið. Efnislega hef ég að sjálfsögðu ekkert við þessa gr. að athuga, vegna þess að það, sem hún segir fyrir um, er búið að eiga sér stað á vegum Seðlabankans í alllangan tíma, — ég skal nú ekki fullyrða, hve langan, en a.m.k. hálft eða heilt ár.

Ég vil leyfa mér að benda hv. þdm. á það, að í ræðu sinni hér áðan talaði hv. 10. þm. Reykv. um þær brtt., sem fyrir lægju, og mælti með þeim. Ég þakka þessar óvæntu undirtektir undir till. okkar hv. 1. þm. Norðurl. e., því að ég gat ekki skilið mál hv. 10. þm. Reykv. öðruvísi en að hann væri að mæla með þeim. Það kemur nú raunar í ljós, að hér mun hafa verið um það að ræða, að hv. þm. hafi verið svo mikið niðri fyrir að mæla með till. hæstv. viðskmrh., að hann hafi alveg gleymt till. okkar hv. 1. þm. Norðurl. e., og þá er víst ekki um annað að gera en ég reyni sjálfur að mæla fyrir þessum till. og hef nú þegar gert það að vísu í ræðu minni hér áðan.

Till. okkar hv. 1. þm. Norðurl. e., sem myndum minni hl. í hv. fjhn., eru þrjár. í fyrsta lagi leggjum við áherzlu á það, að í upphafi 1. gr. frv. sé breytt orðalagi þannig, að sú efnisgrein, sem þar er, komi í staðinn fyrir 2. og 3. gr. l. um Seðlabanka, en ekki þá 4.

4. gr. í l. um Seðlabanka er mjög mikilvæg tilhliðrunarsemi við þá viðskiptabanka og sparisjóði, sem erfitt eiga með að standa við að greiða inn til Seðlabankans sparifjárbindinguna, — tilhliðrunarsemi, sem er í því fólgin, að bankanum er heimilt að taka við skuldabréfum eða verðbréfum í þessu skyni. Það er nú gert ráð fyrir því í þeim brtt., sem hér liggja fyrir, að þessi heimild Seðlabankans verði felld burt. Það getur ekki verið nein önnur meining með því að fella þessa mgr. í burt en að herða nú tökin að hinum minni stofnunum, sem í erfiðleikum hafa átt með að skila þessum upphæðum í reiðufé, og við teljum í minni hl. fjhn., að það sé eðlilegt, að Seðlabankinn hafi þessa heimild, sem þarna er, til þess að sýna svolitla tilhliðrunarsemi og koma til móts við eðlilega erfiðleika þeirra stofnana, sem hann á viðskipti við um þessi efni.

Enn fremur teljum við alveg nauðsynlegt, að sparifjárbindingin í heild sé takmörkuð við vissa hámarksfjárhæð, og leggjum við til í 2. brtt., að hún sé ákveðin 1000 millj. kr. Það er vissulega mikið fé, 1000 millj. kr., og það virðist vera nægilega langt gengið, svo að ekki sé meira sagt, þegar búið verður að binda 1000 millj, kr. af starfsfé viðskiptabanka og sparisjóða.

Enn fremur leggjum við til í þriðja lagi á þskj. 648, að 2. gr. falli niður, en hún fjallar um útgáfu verðbréfa með gengistryggingu é höfuðstól og/eða vöxtum. Við í minni hl. erum mjög miklir áhugamenn um verðtryggingu sparifjár, en teljum, að gengistrygging á skuldabréfum af þessu tagi mundi aðeins verða til þess að tefja raunhæfar aðgerðir í verðtryggingamálum, og það teljum við mikinn skaða.

Ég vil þess vegna mæla með því við hv. þdm., að þeir samþykki till. okkar hv. 1. þm. Norðurl. e. á þskj. 648.

Um till. á þskj. 647 frá hæstv. viðskmrh. óska ég ekki að segja meira efnislega, fyrst ekki var hægt að fá um það samkomulag, að á málinu færi fram eðlileg athugun á vegum þeirrar n., sem hefur þessi mál til meðferðar. Ég álít, ef á að húrra þessum brtt. nú í gegn: um þingið á seinasta degi eða seinustu tveim dögum; sem d. starfa, þá sé Alþingi dregið niður á mjög lágt plan: Slíkar starfsaðferðir getur það ekki leyft sér, ef það vill halda virðingu sinni, sem ég veit að hv. þm. eru sammála um að vilja. Þess vegna vil ég endurtaka þau tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann kanni vandlega, hvort það ekki er rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. skaut hér fram, að þessar till. muni vera þess eðlis, að þeim beri að vísa frá sem brtt. við þetta frv. Í öðru lagi vil ég mælast til þess við hæstv. viðskmrh. enn á ný, að hann dragi þessar till. til baka og setji Alþingi ekki frammi fyrir völinni milli þeirra tveggja afar slæmu kosta að þurfa að neita að afgreiða slíkt mál, sem hæstv. ríkisstj. óskar eftir, annars vegar eða þá hitt að þurfa að húrra því gegnum þingið með slíkum hætti, sem yrði þinginu til beinnar vansæmdar.

Ef ekki fæst samkomulag um neina þá afgreiðslu þessa máls, sem ég hér hef verið að drepa á, að annaðhvort hæstv. forseti eða hæstv, viðskmrh. leysi hv. þm. undan þeim vanda að þurfa að standa frammi fyrir þessu, — ef ekki verður samkomulag um það, legg ég til, herra forseti, að þessar till. verði beinlínis felldar, án tillits til þess, sem þær efnislega innihalda, vegna þess undirbúningsleysis, sem gert er ráð fyrir að afgreiða þessar till. með.