11.05.1964
Efri deild: 90. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða stórt mál og all-áhrifaríkt, þar sem er þetta frv. um breyt. á l. um Seðlabanka Íslands. Um þetta mál hafa orðið nokkrar umr., svo sem eðlilegt er, en ég hef ekki tekið þátt í þeim umr. til þessa og hefði sennilega látið það undir höfuð leggjast, hefði ekki komið fram brtt., sem útbýtt var nú fyrst í dag og við hér hv. deildarmenn lásum, þegar við komum á fund eftir hádegið í dag.

Ég vil vekja athygli á því, að frv. sjálft er 83. mál þessa þings, en nú eru komin fram 229 mál alls á þinginu. Þetta eitt sýnir, hve þetta mál hefur verið lengi í meðförum hv. Alþ., og þar sem hér er um stjórnarfrv. að ræða, þá er ekki hægt að ætla, að við undirbúning málsins hafi ekki verið athuguð löggjöfin um Seðlabankann í heild og skoðuð þau atriði, sem hæstv. ríkisstj. þótti ástæða til að óska breyt. á, þegar frv. þetta var flutt. Eins og ég tók fram, þá var till. á þskj. 647 útbýtt í dag, og við sáum ekki þessa brtt. fyrr en núna eftir hádegið. Ég vil árétta það, sem fram hefur komið hjá öðrum ræðumönnum, einkum hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að þetta er mjög óviðkunnanlegt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.

Við, sem höfum átt sæti hér á hv. Alþ. á undanförnum árum, minnumst að sönnu ýmissa atvika í meðferð mála á þingi, en það er mjög sjaldgæft, að við síðustu umr. í “síðari deild komi fram svo gagnger efnisbreyting á máli eins og hér er lagt til að gerð verði. Ég vil minna á, að það er mjög skammt síðan bankalöggjöfin í heild var tekin til endurskoðunar. Það hefur verið fjallað um bankalöggjöfina í heild, síðan núv. stjórnarfl. komu til valda, og þau lög, sem hér er lagt til að gera breyt. á, eru staðfest 29. marz 1961. Þessi löggjöf og hin sérstöku lög fyrir hvern banka um sig kveða svo á, að stjórn þessara stofnana sé falin 5 manna bankaráðum, sem kjörin eru af hv. Alþ. Og kjör þessara bankaráða hefur farið fram skv. þeirri heildarlöggjöf, sem sett var, eftir að núv. stjórnarflokkar komu til valda. Og ég ætla, að ég fari rétt með það, að skipan þessara þingkjörnu bankaráða sé nú með þeim hætti, að stjórnarfl. eigi þar alls staðar meiri hl., 3 menn af 5. Það verður því ekki annað séð en að út af fyrir sig sé allvel séð fyrir áhrifavaldi stjórnarfl. í bankaráðum og að þess vegna sé ekki ástæða til þess að fara að gera breyt. á valdssviði þeirra, eins og greinilega er stefnt að með brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 647. Bankaráðunum er beinlínis falið af hv. Alþ. að hafa yfirstjórn þessara stofnana, og eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. leiddi glögg rök að í ræðu sinni hér í dag, þá eru sérákvæði um þessa skipan mála í sérlögum fyrir hvern ríkisbankann um sig, þar sem svo er kveðið á, að banka§tjórar og bankaráð kveði á um það, hvar sett eru á stofn útibú. Ég hef gefið því gætur, hvort í þessu frv., sem hér liggur fyrir, séu ákvæði um, að einhver önnur lagaákvæði falli úr gildi, þegar það hefur öðlazt lagagildi, en ég hef tekið eftir því, að um það eru alls engin ákvæði í þessu frv., sem hér er fjallað um, að nein önnur ákvæði falli úr gildi. Nú sýnist mér það alveg augljóst, að þessi brtt. fer efnislega í bága við þau ákvæði í hinum einstöku lögum um hvern ríkisbanka um sig, sem kveða skýrt á um það, að valdið til þess að ákveða um stofnun útibúa sé hjá bankastjórum og bankaráðum hvers banka. Ég vildi vekja athygli á þessu atriði. Seðlabankanum er síðan ætlað það hlutverk að vera samnefnari, ef svo má að orði kveða, fyrir bankakerfið í heild, og það hefur verið látið uppi, að með löggjöfinni um Seðlabankann, eins og frá henni var gengið 1961, hafi verið að því stefnt að gera Seðlabankann og sjálfstæðri og óháðri fjármálastofnun í landinu.

Það má raunar minna á það, að með þeirri skipulagsbreyt. á stjórn bankans, sem gerð var, þegar sú löggjöf var sett, var Seðlabankinn raunar gerður háðari Alþ. en áður hafði verið, því að áður hafði yfirstjórn Landsbankans verið þannig ákveðin, að það var 15 manna landsbankanefnd, sem Alþ. kaus, þó ekki alla í senn, en þessi 15 manna landsbankanefnd kaus síðan bankaráðið og bankaráðið hafði aftur vald til að ráða bankastjórana. En með heildarlöggjöfinni frá 1961 var landsbankanefndin lögð niður og í þess stað kosið 5 manna bankaráð fyrir Seðlabankann hlutfallskosningu á hv. Alþ., þannig að með þessari skipulagsbreyt. var Seðlabankinn vissulega settur í nánari tengsl við Alþ. og þingfl. en áður hafði verið. Enn fremur er það ákvæði í seðlabankal., að ef stjórn Seðlabankans og ríkisstj. greinir á um stefnu í peningamálum, þá skuli stjórn Seðlabankans vera rétt að skýra skoðanir sínar fyrir ríkisstj., en að lokum ber henni skv. löggjöfinni að haga starfi sínu svo, að sú stefna, sem ríkisstj. vill fylgja í peningamálum, nái tilgangi sínum. Þetta ákvæði er til þess fallið að gera Seðlabankann að miklum mun háðari Alþ. og þingflokkunum og ríkisstj. en áður var. Samt sem áður er bankaráði Seðlabankans falið að fara með stjórn þeirrar stofnunar undir yfirumsjón ríkisstj., og það verður að telja lágmarkskröfur, sem hv. Alþ. gerir, þegar mál eins og þetta kemur fram, að það liggi fyrir, hvert álit bankaráð Seðlabankans hefur á slíkri breyt.

En nú hefur það komið fram hér í umr., í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem á sæti í bankaráði Seðlabankans, að honum er alls ekki kunnugt um, að sú efnisbreyt., sem hér er fjallað um, hafi verið rædd þar eða hún hafi verið lögð fyrir stjórn Seðlabankans. Þetta eitt út af fyrir sig gefur ríka ástæðu til þess, þótt ekki kæmi fleira til, að ekki sé hrapað svo að afgreiðslu þessa máls, að bankaráði Seðlabankans gefist ekki kostur á að láta í ljós álit sitt á þessari breyt. Það er sú lágmarkskrafa, sem hv. Alþ. eða hv. þingdeild verður að gera um afgreiðslu málsins. En þar sem yfirstjórn bankanna er nú með þeim hætti, sem ég hef drepið á, þá verður naumast annað sagt en hæstv. ríkisstj. ætli sér óeðlilega mikinn hlut 3 þessum málum með því að keppa að því að fá samþ. þá brtt., sem hér liggur fyrir.

Skv. l., eins og sýnt hefur verið fram á, hafa stjórnir hinna einstöku banka vald til þess að ákveða um stofnun útibúa. En efnisliður þessarar till., fyrri brtt. á þskj. 647, hefst þannig, með leyfi forseta:

„Nú óskar innlánsstofnun að setja á stofn útibú eða umboðsskrifstofu, og skal hún þá sækja um leyfi til þess til Seðlabankans.“

Bankaráðin eiga m.ö.o. að semja eins konar bænaskrá til stjórnar Seðlabankans. Þau eiga ekki lengur að hafa valdið yfir þeirri stofnun, sem Alþ: hefur kjörið þau til þess að hafa stjórn á, heldur eiga þau í þessu falli að hafa aðeins ráðgefandi vald, og þeim á að vera heimilt að senda frá sér bænaskrá, umsókn til Seðlabankans um að mega setja upp útibú eða umboðsskrifstofu einhvers staðar á landinu. Hvað er þá að segja um sjálfan samnefnara bankakerfisins, Seðlabankann, eins og ég hef nefnt hann? Hefur hann þá ekki tvímælalaust úrskurðarvald um þetta mál? Nei, því er ekki þannig farið eftir þessari brtt:, heldur á hann að senda umsóknina áfram með rökstuddu áliti til ráðh., en það á síðan að ákveðast í stjórnarráðinu, hvort farið verður að þeim tilmælum, sem fram eru komin, um fjölgun bankaútibúa eða peningastofnana í landinu. Þetta er svo skýrt sem verða má, og það getur ekki farið milli mála, að hverju hér er stefnt.

Þá er á það að líta, hvort landsbyggðin hafi nú þegar fengið svo góða þjónustu af hendi bankanna, að ekki sé þörf á umbótum í því efni. Það er rétt, að allmikil fjölgun hefur orðið á bankaútibúum nú á síðustu missirum. En það kemur miklu fremur á þann hátt, að útibú séu sett hér, jafnvel hvert í grennd við annað, innan höfuðborgarinnar, heldur en að svo mjög hafi verið aukin bankaþjónustan víða úti á landsbyggðinni. Og við, sem eigum heima úti á landsbyggðinni og erum að vinna þar að félagsmálum, höfum alls ekki orðið þess varir að undanförnu, að slíkt örlæti ætti sér stað af hendi bankanna um stofnun útibúa, að það sé þörf þess vegna að fara að setja nýjan hemil á í þeim efnum. Ég vitna til þeirra ástæðna að þessu leyti, sem er til að dreifa á Austurlandi, í því kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir. Þar hefur um allmörg ár starfað útibú frá Landsbankanum á Eskifirði, og það var um langt skeið aðalpeningastofnunin í þeim landshluta. Að sönnu hefur útibú frá Útvegsbankanum starfað í Seyðisfjarðarkaupstað um alllangt árabil, en með hinni hraðvaxandi útgerð í þessum landshluta, einkum síðan síldveiðarnar lögðust svo mjög að því svæði, þá verður ekki sagt, að bankaþjónustan í þessum landshluta sé um skör fram. Miklu fremur má segja, að hún sé of takmörkuð.

Fljótsdalshérað er eitt með stærri landbúnaðarhéruðum í þessu landi. Þar eru einir 10 sveitahreppar, sem liggja mjög í grennd hver við annan, og það tók mörg ár og mikil umsvif að fá skilning yfirstjórnar Búnaðarbankans á því, að þörf væri á að setja upp útibúið frá Búnaðarbankanum í þessu stóra landbúnaðarhéraði. Því er að sönnu orðið framgengt nú, og getum við, sem störfum á Austurlandi, fagnað því út af fyrir sig. En ég drep á þetta til að sýna, að það hefur alls ekki verið því örlæti fyrir að fara af hálfu bankaráðanna, að það sé ástæða til að ætla, að þau gangi um skör fram að því að fjölga útibúum úti um land. Þegar á þetta er litið, þá virðist enn minni ástæða en ella til að knýja fram þessa brtt., sem hér liggur nú fyrir.

Ég get minnt á það, að t.d. sú sýsla, sem ég er búsettur í og hef lengst starfað að félagsmálum fyrir, þ.e. Austur-Skaftafellssýsla eða Hornafjarðarhérað, það hefur enn alls ekkert bankaútibú fengið frá neinum banka. Er þar þó bráðvaxandi kauptún, þannig að íbúafjöldi á Höfn í Hornafirði hefur vaxið um 30% á 6 árum, og þar er vaxandi útgerð og allstórt landbúnaðarhérað að baki kauptúninu. Við getum ekki séð, sem búum við þessar aðstæður í bankamálum, að það sé nein sérstök ástæða til þess að fara að koma í lög nýjum hemli fram yfir það, sem er á valdi bankaráðanna í þessu efni, og mun ekki auðvelda sókn að því marki að fá peningastofnun inn í hérað sem þetta sú leið, sem gert — er ráð fyrir, að umsóknir um það verði að ganga skv. þeirri till., sem hér er til umr.

Ég hef því ástæðu til þess sem einn af fulltrúum Austurlandskjördæmis og kannske sérstaklega fulltrúi þeirrar sýslu, þar sem ég er búsettur, að líta á þessar till. með nokkurri varasemi, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið. Og þegar þetta mál ber að með þeim hætti, sem lýst hefur verið, þá er eðlilegt að bera fram þá spurningu: Hvað hefur gerzt, síðan frv. var lagt fram hér á hv. Alþ. fyrir nokkrum mánuðum? Það hefur ekki komið fram hjá þeim hæstv. ráðh., sem mælt hefur fyrir þessu máli, að það hafi neinar nýjar ástæður komið upp núna síðustu dagana eða síðustu vikurnar, sem geri það knýjandi nauðsyn að koma fram þessari efnisbreyt. á frv., sem hér er stefnt að því að lögfesta. Ég vildi beinlínis bera fram þá spurningu til hæstv. ríkisstj., og ég sé, að hér er þó einn hæstv, ráðh. viðstaddur: Hvað er það, sem hefur komið fram nú upp á síðkastið, sem gerir það knýjandi að lögfesta slíka efnisbreyt. sem hér er lagt til? Þess má einnig geta í þessu sambandi, sem öllum hv. þm. er raunar ljóst, að nú er komið fram undir miðjan maímánuð, þegar þinglausnir standa fyrir dyrum, en búið er að setja löggjöf fyrr á þessu þingi um samkomudag reglulegs Alþingis 10. október. Það eru, aðeins 4–5 mánuðir, þangað til nýtt löggjafarþing verður kvatt saman, og þegar um mál er að ræða eins og þetta, sem felur í sér mikla efnisbreytingu á bankalöggjöfinni og ágreiningur er um, þá virðist fullkomlega eðlilegt og öll sanngirni mæla með því, að þetta mál sé ekki knúið til úrslita nú, heldur ástæður allar skoðaðar betur á þeim tiltölulega stutta tíma, sem líður nú á milli löggjafarþinga, og þá tekið til athugunar á ný á næsta þingi, ef ástæða þykir þá til, að undangenginni nánari athugun, að taka þetta mál upp að nýju á svipuðum grundvelli og hér er lagt til.

Ég fæ ekki betur séð en það sé fullkomið sanngirnismál að fara þess á leit, að þannig sé farið að við afgreiðslu þessa máls. Og ég vil fyrir mitt leyti taka undir þau tilmæli, sem hv. 3. þm. Norðurl. v, bar fram alveg skýrt og skorinort í ræðu sinni um þetta mál hér fyrr í dag, að hæstv. ríkisstj. taki þessi tilmæli til greina. Það, sem ég hef sagt um þessa till., er í beinu sambandi við bankakerfið, löggjöfina og framkvæmd hennar, eins og hún hefur verið nú á hinum síðustu árum. En hér er í raun og veru um enn þá víðtækara mál að ræða, þar sem er yfirstjórn peningamálanna og þau áhrif, sem Seðlabankinn og bankarnir hafa á allt viðskiptalíf og athafnalíf í þessu landi. Það er út af fyrir sig mjög mikið umræðuefni, og er þá skemmst af að segja, að það er orðið þröngt fyrir dyrum um frelsi í þessu landi, ef ekki má setja upp umboðsskrifstofu eða bankaútibú nema með sérstöku leyfi hlutaðeigandi ráðh. Þó að hér sé um mjög mikilvægt atriði að ræða, þá sé ég ekki ástæðu til að fara að fjölyrða um þann þátt málsins, a.m.k. ekki að sinni, og mun því láta máli mínu lokið að þessu sinni.