12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi D. Gíslason):

Herra forseti. Hv. Ed. samþykkti tvær breytingar á þessu frv. Fyrri breytingin er fólgin í því, að bætt var inn í frv, ákvæði um, að óski innlánsstofnun að setja á stofn útibú eða umboðsskrifstofu, skuli hún sækja um leyfi til þess til Seðlabankans. Hann skal láta í ljós álit sitt á þessari umsókn og leggja hana fyrir ráðh. þeirrar stofnunar, sem hlut á að máli, og tekur þá ráðh. ákvörðun um það, hvort heimilt sé að stofna útibúið eða umboðsskrifstofuna.

Hv. þm. er án efa kunnugt, að í núv. löggjöf viðskiptabankanna eru ákvæði um, að þeim stofnunum er heimilt að ákvarða einhliða, hvar þær setja á stofn eða starfrækja útibú eða umboðsskrifstofur. Hins vegar hefur það gerzt undanfarna mánuði og raunar ár, að mikil samkeppni hefur skapazt milli bæði ríkisbankanna annars vegar og einkabankanna hins vegar og milli ríkisbankanna og einkabankanna innbyrðis um það að koma á fót útibúum, bæði hér í Reykjavík og utan Reykjavíkur. Hefur þetta leitt til þess, að bankastarfsemin hefur orðið mun dýrari en áður var og nauðsynlegt er, án þess þó að bankaútibúin hafi dreifzt þannig um landið, að bankaþjónusta geti talizt vera orðin viðunandi í landinu yfirleitt. Dæmi um það, sem ég vil nefna, að útibúum hefur fjölgað með óeðlilegum hætti á ákveðnum stað, án þess þó að bæta bankaþjónustu þess landssvæðis, sem um er að ræða, er, að á nokkrum mánuðum hefur verið komið á fót þrem bankaútbúum í Keflavík, u.þ.b. 50 km frá Reykjavík, og nú síðdegis í dag mun hafa veríð stofnað fjórða útibúið í þeim kaupstað. Mörg fleiri dæmi um það mætti nefna, að útibúum hefur fjölgað á einstökum stöðum, þar sem eitt eða tvö kynnu e.t.v. að hafa getað veitt næga þjónustu, en á öðrum nálægum stöðum hefur hins vegar verið slíkrar bankaþjónustu mjög vant. Þetta bendir eindregið í þá átt, að æskilegt sé og nauðsynlegt, að opinbert eftirlit sé tekið upp á þessu sviði, svo sem tíðkast mjög víða annars staðar. Tilgangur slíks opinbers eftirlits mundi að sjálfsögð vera að stuðla að því, að bankaútibú dreifðust sem jafnast um landið, í því skyni, að hvarvetna eigi landsmenn kost á þjónustu banka, sem vissulega er nauðsynlegt að sé sem víðast og sé sem bezt, án þess þó að kostnaður við bankakerfið í heild vaxi óhóflega. En það tel ég mér óhætt að fullyrða, að kostnaður við rekstur bankakerfisins íslenzka hefur á undanförnum árum og jafnvel undanförnum mánuðum vaxið svo mjög, að við svo búið má ekki lengur standa.

Seinni brtt. gerir ráð fyrir því, að Seðlabankanum sé heimilt að taka að sér innheimtu ávísana, sem innlánsstofnanir hafa keypt ag ónóg innstæða er fyrir, og áskilja þá innheimtugjald frá útgefanda samkv. nánari reglum, sem viðskmrh. setji. Það er kunnara en frá þurfi að segja, því miður, að útgáfa falskra ávísana hefur færzt mjög í vöxt á undanförnum árum og mánuðum hér á Íslandi. Hefur þótt nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að stemma stigu við slíku. Í því sambandi hefur Seðlabankinn innt af hendi mikilsverða þjónustu, tekizt á hendur að hafa forgöngu um allsherjaruppgjör og innheimt þá daglega allar ávísanir, sem innlánsstofnanir í Reykjavík hafa eignazt og reynzt hafa falskar, þ.e.a.s. ónóg innstæða hefur reynzt fyrir. Þessar aðgerðir hafa þegar borið góðan árangur, og er augljóst og allir raunar sammála um, að þeim verði að halda áfram. Seðlabankanum hefur þótt nauðsynlegt, enda sjálfsagt, að áskilja sér nokkra innheimtuþóknun fyrir þá þjónustu, sem hann hefur innt af hendi í þessu sambandi. Hann hefur notað í þessu skyni innheimtutaxta Lögmannafélags Íslands. Hins vegar hefur Seðlabankanum og flefri aðilum þótt óeðlilegt, að hann beiti taxta einkasamtaka svo sem Lögmannafélagsins, og héfur því Seðlabankinn óskað eftir því, að viðskmrh. setji taxta, sem Seðlabankanum sé heimilt að nota í þessu sambandi. Rn. hefur hins vegar ekki heimild til þess að setja slíka taxta, sem Seðlabankinn geti beitt, án þess að hafa fyrir því lagaheimild. Þess vegna var það, að ég bar fram þá brtt. í hv. Ed., að heimilað væri að setja slíkar reglur og þá Seðlabankanum heimilt að taka að sér þá þjónustu, sem hann hefur gert, og taka þau innheimtulaun fyrir, sem reglur mæltu fyrir um.

Þessar brtt. voru báðar samþykktar í hv. Ed. í gær og frv, þannig breytt því komið aftur til þessarar hv. deildar.

Ég leyfi mér með tilvísun til þessara stuttorðu röksemda að æskja þess, að þessi hv. d. samþ. frv. eins og hv. Ed. gekk frá því.