12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að þeirri furðulegu breytingu eða þeim viðbæti, sem var gerður á þessu frv. í Ed., finnst mér rétt að víkja nokkrum orðum að þessu frv. almennt, þó að það hafi reyndar verið nokkuð rætt hér áður í þessari hv. d. Ég held, að það sé ekki ofsagt, þó að sagt sé, að þetta frv. sé í raun og veru eitthvert mesta haftafrv., sem nokkru sinni hefur verið lagt fram hér á hv. Alþingi, eða kannske réttara að orða það þannig, að það feli í sér meiri höft en nokkurt annað frv., sem áður hefur verið lagt fram hér á Alþingi.

Kannske get ég skýrt þetta einna bezt með því að rifja upp viðtal, sem ég átti fyrir nokkru við allkunnan atvinnurekanda í Sjálfstfl. Tal okkar barst að atvinnurekstri, en hann er nokkuð riðinn við sjávarútveg, og ég spurði hann að því, hvort allt léki nú ekki í lyndi, þar sem tíðarfarið væri eins ákjósanlegt fyrir útgerð og bezt væri á kosið og aflinn eftir því. Hann sagði, að þetta væri að vísu gott, en samt væri mjög erfitt um allan eða flestan atvinnurekstur, því að það væri eins og frosin hönd hvíldi á atvinnufyrirtækjunum. Mér fannst þetta nokkuð skrýtið til orða tekið og innti hann eftir því, hvað hann ætti við, þegar hann væri að tala um hina frosnu hönd. Ég hélt jafnvel, að hann ætti nú kannske við kaupgjaldsmálin, vegna þess að hann hefur að sjálfsögðu heyrt þann áróður í sjálfstæðisblöðunum og hjá stjórnarblöðunum og hjá talsmönnum stjórnarflokkanna, að allir erfiðleikar í ekkar efnahagsmálum stöfuðu af því, hve kaupgjaldið væri hátt, hve launastéttirnar hefðu verið ósanngjarnar í sínum kröfum og knúið fram óeðlilega hátt kaupgjald. En það var alls ekki þetta, sem hann átti við. Hin frosna hönd, sem hann talaði um að legði sína köldu fingur á svo að segja allan atvinnurekstur í landinu, væru hin miklu lánsfjárhöft, sem nú ættu sér stað, — lánsfjárhöft, sem væru miklu meiri en slík höft hefðu nokkru sinni áður verið. Og þessi miklu lánsfjárhöft rekja rætur sínar fyrst og fremst til sparifjárfrystingarinnar í Seðlabankanum og þess vegna kannske ekki óeðlilegt, þó að hér sé rætt um hina frosnu hönd, sem legði sína köldu fingur á allt atvinnulíf í landinu því til lömunar.

Svo er nú komið, eins og hefur verið upplýst hér í umr. á Alþingi, að frysta spariféð í Seðlabankanum nemur orðið 800 millj. kr. Og þetta segir til sín með svo að segja hvern einasta atvinnurekanda í landinu og eiginlega hvern einasta einstakling, sem stendur í einhverjum framkvæmdum, og ekki sízt hvað snertir hina efnaminni íbúðabyggjendur. Að stöðu landbúnaðarins í lánamálum er þannig háttað, að það mun leitun á því landi í Vestur Evrópu, þar sem landbúnaður býr við eins óhagstæð lánakjör og hér. Ég hygg, að í sannleika sagt sé erfitt að finna það Vestur-Evrópuland, þar sem landbúnaðurinn býr við eins óhagstæða aðstöðu í lánamálum og hér á landi. Í flestum nágrannalöndum okkar a.m.k. er því þannig háttað, að landbúnaðurinn getur fengið stofnlán til langs tíma með vægum vöxtum og sömuleiðis það mikil rekstrarlán, að bændur geta fengið sínar afurðir borgaðar strax út í hönd. Hins vegar fer fjarri því, að slíku sé til að dreifa hér á landi, þar sem landbúnaðurinn býr bæði við mikinn skort á stofnlánum og rekstrarlánum og lánin eru bæði til stutts tíma og vextir mjög háir. Og það, sem á að sjálfsögðu ekki lítinn þátt í þessum óhagstæðu lánakjörum landbúnaðarins, er þessi stóra upphæð frysta sparifjárins í Seðlabankanum.

Ef við lítum til útgerðarinnar, býr hún tvímælalaust við miklu óhagstæðari lánakjör en sams konar atvinnuvegur í öðrum löndum, og er þar skemmst að minna á það, — að í þskj., sem nýlega var útbýtt hér á Alþingi, þar sem m.a. var prentað bréf frá bankastjóra Framkvæmdabankans, þar var það upplýst, að þó að það væri nokkurn veginn hægt að fá sæmileg lán út á fiskiskip eða allhá lán út á fiskiskip, væri allt öðru máli að gegna um fiskvinnslustöðvar og fiskiðjuver. Þessi fyrirtæki byggju við hinn tilfinnanlegasta skort á lánsfé og hamlaði það stórlega þeirra starfsemi, bæði uppbyggingu og framleiðslu, því að hér er bæði um skort á stofnlánum og rekstrarlánum að ræða, auk þess sem lánstíminn er stuttur og vextirnir háir. Fiskiðnaðurinn hér á landi býr tvímælalaust við miklu óhagstæðari lánakjör en hliðstæður atvinnuvegur í öðrum löndum, og það stafar ekki að litlu leyti af þessari frystingu sparifjárins í Seðlabankanum.

Um iðnaðinn má svipað segja. Íslenzkur iðnaður býr við miklu óhagstæðari kjör hvað snertir stofnlán heldur en iðnaður í öðrum löndum, bæði skortur á lánsfé, lánstíminn styttri og vextirnir hærri, auk þess sem hann býr við svo að segja algeran eða mjög mikinn skort hvað snertir öll rekstrarlán. Þetta hefur verið mjög rækilega rakið í ályktunum, sem hafa verið gerðar á undanförnum þingum og ráðstefnum iðnrekenda, og sé ég ekki ástæðu til þess að rifja það upp hér.

En þessi óhagstæðu lánakjör, sem íslenzkur iðnaður býr við, gerir hann að sjálfsögðu að verulegu leyti ósamkeppnishæfan við erlendan iðnað á mörgum sviðum, og kom nýjasta dæmið um það í ljós í sambandi við það tollskrárfrv., sem var til meðferðar hér í þinginu fyrir skömmu. Það var nefnilega gerð sú breyting á tollskránni að lækka tolla á kexi úr 125% niður í 80%. Þetta var gert í Ed. En þegar málið kom hingað til Nd., var það upplýst af þeirri n., þeirri tollskrárnefnd eða hvað hún heitir, sem aðallega fæst við þessi mál, að 80% tollur væri allt of lítil tollvernd fyrir kexframleiðsluna og yrði þess vegna að hækka hann upp í 100% aftur, og þetta sýnir það, hvað okkar framleiðsla virðist standa hallari fæti í þessum efnum en sambærilegur atvinnurekstur annars staðar, þar sem hann þarf á 100% tollvernd að halda, en það stafar að sjálfsögðu ekki að litlu leyti af því, að lánskjörin, sem okkar iðnaður býr við, eru mjög miklu óhagstæðari en iðnaður nágrannalandanna býr við.

En þó að höfuðatvinnuvegirnir búi við erfiðan kost í þessum efnum, landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður, þá er þó hlutur húsbyggjendanna langverstur. Sá mikli lánsfjárskortur, sem þeir búa við og gerir raunverulega efnalitlu fólki ókleift að ráðast nú í íbúðabyggingar, hefur verið svo oft rakinn hér í umr. á Alþingi, að ég sé ekki ástæðu til þess að rifja það upp að þessu sinni, enda ekki ætlun mín að halda hér uppi löngum umr. En þetta mál er þm. líka svo kunnugt, að óþarft er að vitna til þess frekar en þegar hefur verið gert. En þessa miklu lánsfjárkreppu, sem bæði aðalatvinnuvegirnir og íbúðabyggjendur eiga við að búa, má ekki sízt rekja til þeirrar frystingar á sparifé, sem hefur átt sér stað í Seðlabankanum á undanförnum árum og nemur orðið 800 millj. kr. Í stuttu máli er óhætt að segja, að með þessari frystingu sparifjárins í Seðlabankanum hefur verið tekið upp í raun og veru hið strangasta haftakerfi gagnvart atvinnuvegum landsins og íbúðabyggjendum, sem nokkru sinni hefur þekkzt í þessu landi. Ég held, að það sé ekki hægt að benda á önnur höft, sem hafa gengið öllu nær atvinnuvegunum og gegn íbúðarbyggjendum heldur en þessi miklu lánsfjárhöft, sem frysting sparifjárins í Seðlabankanum hefur skapað. Þess vegna er það ekki neitt fjarri lagi, eins og íhaldsatvinnurekandinn gerði, að tala um hina frosnu hönd í þessu sambandi, hina frosnu hönd, sem legði nú sína köldu fingur á svo að segja allt atvinnulíf í landinu.

Hæstv. ríkisstj. lofaði því, þegar hún kom til valda, — það var eitt af hennar aðalloforðum, — að draga úr höftum, sem þrengdu að einkaframtakinu og atvinnurekstrinum í landinu. En efndir hennar í þessum efnum hafa orðið þær, að hún hefur með frystingu sparifjárins leitt inn einhver stórkostlegustu höft, sem íslenzkur atvinnurekstur hefur haft við að búa, og með þessu skapað aðstæður, sem eru alveg ólíkar því, sem viðgengst í löndum, þar sem stefnt er að því að halda uppi frjálsum atvinnurekstri, því að þar er það eitt megintakmark valdhafanna að vinna að því, að atvinnuvegirnir búi ekki við lánsfjárkreppu og framtak einstaklinga og félaga geti þess vegna notið sín til fulls. En í stað þess að fylgja þeirri stefnu hér, þá er tekið upp þetta stórfellda haftakerfi, sem mjög lamar atvinnustarfsemina í landinu. Þess vegna held ég það sé erfitt að nefna öllu meiri fjarstæðu en þá, sem stundum heyrist af hálfu stjórnarsinna, að núv. ríkisstj. hafi dregið úr höftum hvað atvinnureksturinn snertir. Þvert á móti hefur stjórnin í sambandi við meðferð lánsfjárins tekið upp miklu stórfelldari og þungbærari höft en íslenzkt atvinnulíf hefur áður búið við.

En þetta er ekki eina atriðið, sem gerir þessi lánsfjárhöft þungbær, það sem ég nú hef rakið. Það, sem er án efa langsamlega alvarlegast í sambandi við þessi lánsfjárhöft ríkisstj., er, að þau verka sérstaklega eins og höft á aukna framleiðni í landinu, því að eigi að auka framleiðnina, svo að nokkru nemi, þá verður það ekki gert með öðrum hætti en þeim, að þau atvinnufyrirtæki, sem vilja auka framleiðni sína, hvort heldur er á sviði landbúnaðar, iðnaðar eða sjávarútvegs, þá þurfa þau að sjálfsögðu nokkurt fjármagn til þess í flestum tilfellum að koma aukinni framleiðni á, því að þótt það sé ekki annað en það að koma á bættri hagræðingu, þá kostar það að sjálfsögðu ýmsar tilfærslur, kannske á húsnæði eða vélakosti o.s.frv., og það verður ekki gert, nema fyrirtækin hafi eitthvert fjármagn til þessara framkvæmda. Lánsfjárhöft hæstv. ríkisstj. hafa í fjöldamörgum, hundruð og jafnvel þúsund tilfellum komið í veg fyrir það, að fyrirtækin fengju það fjármagn, sem þau nauðsynlega þurftu til þess að geta aukið sína framleiðni, og þannig hafa þessi höft ríkisstj. verkað eins og hinn versti þröskuldur fyrir viðleitni landsmanna til þess að auka framleiðni atvinnuveganna. Þetta er að sjálfsögðu mjög tilfinnanlegt fyrir fyrirtækin í dag og þjóðina alla, að það sé ekki hægt að koma þessum framkvæmdum áleiðis, en þó kannske leggst þetta fyrst og fremst á framtíðina, vegna þess að þetta veldur því, að fyrirtækin svara framtíðinni miklu minni framleiðslu og minni afköstum en þau ella mundu geta gert. Þannig verða þessi lánsfjárhöft hæstv. ríkisstj. til þess að lama framtak einstaklinganna í landinu, þrengja kjör atvinnuveganna og til þess að hindra þá nauðsynlegu framleiðsluaukningu, sem atvinnuvegirnir þurfa á að halda.

En þó að þessir ókostir lánsfjárhaftanna eða frystingar á sparifénu í Seðlabankanum séu slæmir og valdi þjóðinni miklum búsifjum, þá er þó kannske það enn alvarlegra í sambandi við frystingu sparifjárins og í sambandi við þau höft, sem henni fylgja, að þau leiða óhjákvæmilega til stórfelldrar spillingar í lánamálum þjóðarinnar, því að þegar með sparifjárfrystingunni er þrengt svo að viðskiptabönkunum í landinu, að þeir geti ekki fullnægt eðlilegum þörfum sinna viðskiptamanna, þá leita þessir viðskiptamenn sér að lánsfé eftir öðrum leiðum, þá leita þeir sér að lánsfé utan viðskiptabankanna, hjá kunningjum sínum, ef þeir eiga kunningja, sem hafa eitthvert fé aflögu, eða frændfólki ellegar þá hjá mönnum, sem hafa miður heppilega lánastarfsemi með höndum, eins og augljóst er af blaðaskrifum, sem orðið hafa að undanförnu. Og á þennan hátt verða lánsfjárhöftin eða sparifjárfrystingin til þess, að meira og meira af sparifé leitar fram hjá viðskiptabönkunum og fer í ýmsa óeðlilega farvegi, sem valda sívaxandi óheilbrigði og spillingu í þessum málum. E.t.v. er þetta eitt hið óheilbrigðasta í sambandi við lánsfjárhöftin og sparifjárfrystinguna, og það verður til þess að ýta hér undir hvers konar okrarastarfsemi á sviði lánsfjármálanna og neyðir margt af efnalitlu fólki til þess að taka fé með okurkjörum, og það á svo síðar sinn þátt í dýrtíðarvextinum í landinu.

Ég held, að í öllum löndum, sem búi við heilbrigða fjármálahætti, sé kappkostað meira en flest annað að beina sparifénu til viðskiptabankanna og halda uppi lánastarfsemi í landinu með þeim hætti, en ekki að þrengja svo að viðskiptabönkunum, að þeir geti ekki fullnægt þörfum sinna viðskiptamanna og þeir verði þess vegna að leita til kunningja og okrara til að fá lánsfé. Ég held, að menn geri sér hvergi nærri ljóst þá óheilbrigðu öfugþróun, sem hefur átt sér stað í landinu í þessum efnum á undanförnum árum og á sér þó sérstaklega nú stað í sívaxandi mæli, vegna þess að alltaf er verið að þrengja meira og meira að viðskiptabönkunum.

En þrátt fyrir þá slæmu reynslu, sem lánsfjárhöftin hafa haft og ég hef nú rakið, bæði hvað snertir atvinnureksturinn í landinu og hvað snertir heilbrigða lánastarfsemi í landinu, þá er hæstv. ríkisstj. síður en svo af baki dottin í þessum efnum. Hún ætlar sér ekki aðeins að halda við þeim höftum, sem hafa gilt fram að þessu, heldur fer hún fram á það með þessu frv. að auka þessi höft mjög verulega eða hækka frystinguna úr 15% upp í 25%. Það sjá allir, hvaða afleiðingar það hefur. Það verður til þess, að viðskiptabankarnir geta enn síður en hingað til fullnægt sínum viðskiptamönnum, og fólk verður því að leita til okraranna í enn ríkara mæli en átt hefur sér stað fram að þessu. Þetta verður einnig til þess, að viðskiptabankarnir geta miklu síður sinnt atvinnuvegunum en þeir gera nú, og lánsfjárskortur atvinnurekendanna gerir þeirra afkomu stórum lakari, auk þess sem það girðir fyrir það í fjöldamörgum tilfellum, hundruð, þúsund tilfellum, að atvinnufyrirtækin geti komið á þeirri framleiðni hjá sér, sem nauðsynleg er.

Með því, sem ég hef nú sagt, hef ég nokkuð rakið það, að hæstv. ríkisstj. hefur efnt loforð sín um að draga úr höftum á atvinnuvegunum á þann veg, að hún hefur aukið þessi höft stórlega frá því, sem áður var, með frystingu sparifjárins og lánsfjárhöftunum. Og þó að íslenzkir atvinnuvegir hafi oft búið við nokkra örðugleika í þessum efnum, ónógt lánsfé og óhagstæð lánskjör, þá hefur aldrei kveðið eins rammt að því og nú. Og þess vegna er ekki hægt að hugsa sér öllu meiri fjarstæðu en þá, þegar núv. ríkisstj. og hennar flokkar eru að hæla sér af því, að þeir hafi dregið eitthvað úr höftum gagnvart atvinnuvegunum og viðskiptastarfsemi í landinu, því að þessi höft hafa verið stórkostlega aukin með frystingu sparifjárins og þeim lánsfjárhöftum, sem af frystingunni hefur leitt. Þetta hefur verið, eins og sá ágæti atvinnurekandi sagði, sem ég minntist á áðan, þetta er hin frosna hönd, sem leggur nú sína köldu fingur á allt atvinnulíf í landinu.

En þó að hæstv. ríkisstj. hafi gengið langt í sinni haftastarfsemi með frystingu sparifjárins og ætli að gera það enn frekar með þeirri löggjöf eða því frv., sem hér liggur fyrir, þá virðist þó, að henni finnist hvergi nærri nóg að gert í haftamálunum með þessu, því að það hefur gerzt á lokastigi þessa máls, nú undir þinglokin og eftir að þetta mál er búið að liggja fyrir þinginu í marga mánuði, að ríkisstj. hefur sett inn í það ný höft í Ed. fyrir fáum dögum. Þessi nýju höft eru þau, að bankar megi ekki stofna til útibúa nema með sérstöku leyfi ríkisstj. Ég held, að slíkar hömlur þekkist hvergi annars staðar, þar sem frjáls bankastarfsemi er leyfð á annað borð. Ég held, að það sé ekki hægt að finna dæmi um slíkar hömlur í okkar nágrannalöndum. Og hvert leiðir það, ef það á að fara að leggja slíkar hömlur á bankana, að þeir megi ekki stofna til útibúa, þar sem þeir telja eðlilegt, að þau séu starfrækt? Hvað kemur á eftir? Hvað vili ríkisstj. fá vald til að skammta á eftir, ef hún kemst upp á lag með að taka upp skömmtun í þessum efnum og segja bönkunum fyrir, hvernig þeir eigi að haga þjónustu sinni við almenning. Er fjarstæða að álykta, að það kynni að koma á eftir, að ríkisstj. vilji ráða því, hverjir megi reka verzlanir og hvort verzlanir megi hafa útibú og annað þess háttar. Ég sé engan mun á því. Ég sé satt að segja engan mun á því, að ríkisstj. taki upp hömlur á útibúum einkabanka, og hún taki t.d. upp hömlur á starfsemi verzlana og segi: Það á ekki að vera nema ein verzlun á þessum stað og kannske í mesta lagi tvær — alveg eins og hún vili nú fá vald til að ákveða, að það megi ekki vera nema kannske eitt eða ekkert útibú að þessum stað.

Ég held, að það sé ástæða til þess fyrir hv. alþm. að athuga þetta mái dálítið nánar, ef þeir á annað borð eru því fylgjandi, að það eigi að halda uppi frjálsri viðskiptastarfsemi og verzlunarstarfsemi í landinu. Ef hæstv. ríkisstj. þykir nauðsynlegt að geta haft það í hendi sinni, hvar bankaútibú eru starfrækt og hvernig einkafyrirtæki á þessu sviði hátta sinni starfsemi, er þá óeðlilegt, að ríkisstj. fari á eftir inn á fleiri svið og heimti sams konar höft og hömlur, heimti það t.d., við skulum segja gagnvart verzluninni, að það sé alveg háð leyfum ríkisvaldsins, hvort það megi reka verzlun á þessum stað eða hvort það megi vera meira en ein eða tvær verzlanir á þessum stað? Ég held, að hv. þm. ættu að hugsa sig nokkuð um í þessu sambandi, áður en þeir fallast á þessi höft hæstv. ríkisstj.

Það hefur verið rækilega rakið hér af hv. síðasta ræðumanni, að það er ekki minnsta ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstj. að fara fram á það að fá þessa haftareglu í sínar hendur, nema þá að þetta eigi að vera undirbúningur að einhverju öðru meira. Af þeim 6 viðskiptabönkum, sem starfa hér í landinu, eru 3 ríkisbankar, og ríkisstj. getur að sjálfsögðu ráðið því, hvernig þeir hátta sinni starfsemi og hvað mörg útibú þeir hafa, og þarf ekki að fá neina heimild frá Alþ. til að ráða í þeim efnum. Hins vegar gildir nokkuð öðru máli um einkabankana. Þar hefur ríkisstj, að sjálfsögðu ekki slík ráð nú, og þar á ríkisstj. ekki heldur að hafa slík ráð, því að fyrst við höllumst að þeirri stefnu, að það eigi að leyfa einkastarfsemi banka í landinu á annað borð, þá á að láta þá hafa hæfilegt frjálsræði, og það er heldur engin hætta á því, að þessir einkabankar fari út í starfrækslu á útibúum, sem leiði til einhvers tjóns fyrir almenning. Ég held, að það sé ákaflega erfitt að færa rök að því. Það gæti hins vegar legið þarna á bak við, að ríkisvaldið vildi fá aðstöðu til þess að mismuna á milli ríkisbanka og einkabanka, þannig að hún láti ríkisbankana fá leyfi til að stofna til útibúa, en ekki einkabankana, en slíkt væri að sjálfsögðu með öllu óeðlilegt. Fyrst við, eins og önnur nágrannaríki okkar eða önnur vestræn ríki, leyfum hér starfsemi einkabanka, þá eigum við að láta þá hafa fullkomna jafnréttisaðstöðu í samkeppni sinni við ríkisbankana og þá leyfi til þess að stofna til útibúa, þar sem þeir telja að slíkt sé eðlilegt og framkvæmanlegt.

Ég varð nú satt að segja mjög undrandi yfir því, að till. eins og þessi skuli vera studd af Sjálfstfl., svo framarlega sem hann meinti nokkuð með því, að hann sé fylgjandi frjálsu framtaki í landinu, því að þetta stríðir eins mikið gegn þeirri stefnu og hugsazt getur. Og ef það er verið að leggja slíkar hömlur á einkabankana, þá sé ég ekki, eins og ég áðan sagði, að það sé nema skref yfir í það, að slíkar hömlur væru teknar upp gagnvart verzluninni í landinu. En það er nú bara þannig með þennan ágæta Sjálfstfl., að þó að hann þykist vera einkaframtakinu hlynntur og vilja allt fyrir það gera og vilja halda uppi frjálsræði í landinu í þeim efnum, þá hefur hann hvað eftir annað stutt að hinum mestu höftum til að þrengja að einkaframtakinu og gerir það ekki sízt nú um þessar mundir, þar sem eru hin stórkostlegu lánsfjárhöft, sem hafa verið tekin upp og ég rakti hér áðan og verða til þess að þrengja stórkostlega að framtaki atvinnufyrirtækja og einstaklinga umfram það, sem þekkist í öðrum löndum, þar sem frjálst framtak er leyft á annað borð.

Það er svo eitt atriði í þessum efnum, sem sýnir glöggt vinnubrögð hæstv. ríkisstj. og þá virðingu, sem hún ber fyrir Alþ., að jafnvarhugaverðu haftaákvæði og hér um ræðir skuli vera skellt inn í frv. við næstsíðustu umræðu þess í þinginu og þegar komið er að þinglokum, eftir að málið er búið að liggja fyrir Alþ. í marga mánuði. Að sjálfsögðu er það skylda við Alþ., ef ríkisstj. vill eitthvert tillit taka til þess, varðandi jafnstórfellt haftaákvæði og hér um ræðir, að Alþ. fái nægilega aðstöðu til að ræða um það, en því sé ekki flaustrað af í þinglokin á næturfundum, eins og hér á sér stað. Og ég satt að segja skil ekki það ofurkapp, sem ríkisstj. leggur á að fá þessu framgengt nú. Er þetta svo stórfellt mál, þessi höft á útibúunum, að þetta mál megi ekki bíða til næsta þings? Hvað er það, sem rekur svona voðalega á eftir, að Alþ. er raunverulega óvirt með þeim vinnubrögðum, sem ríkisstj. hefur hér í frammi?

Það er ekki fjarri lagi að rifja það upp í þessu sambandi, að ýmsir talsmenn stjórnarflokkanna gera mjög mikið að því að vera með yfirlýsingar um það, að þeir séu fylgjandi jafnvægi í byggð landsins og að þeim megi fullkomlega treysta í þeim efnum og ekki síður en stjórnarandstæðingum. En samrýmist þetta haftaákvæði þeirri stefnu? Ég get ekki séð, að svo sé, nema síður sé. Eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hafa það verið óskir margra staða, kauptúna og kaupstaða, að undanförnu að fá bankaútibú. Og að sjálfsögðu mundu þeir ekkert hafa á móti því, þó að það a.m.k. í mörgum tilfellum væri frekar tvö en eitt. En hér eru hins vegar lagðar hömlur á það eða stefnt að því að leggja hömlur á það, að bankarnir geti slíkt, nema þá því aðeins að ríkisstj. þóknist það. Er það kannske með þessum hætti, sem ríkisstj. telur sig vera að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og skapa byggðunum utan Reykjavíkur og kaupstöðunum utan Reykjavíkur greiðari aðgang að lánsfé en verið hefur fram að þessu? hað vitum við vel af starfsemi ýmissa útibúa á undanförnum árum og áratugum, að þau hafa frekar stefnt að dreifingu fjármagnsins um landið heldur en það gagnstæða, þannig að þau hafa fengið í mörgum tilfellum fjármagn til ráðstöfunar frá aðalstöðvunum hér í Reykjavík, og að sjálfsögðu er það v egna þess, sem staðir úti á landinu sækjast eftir því að fá útibú.

Ég held þess vegna, að það sé full ástæða til þess fyrir þá, sem standa að þessari viðbót, sem sett var inn í þetta frv. í Ed., að taka það til athugunar, hvort þeir geti ekki dregið þetta atriði til taka aftur úr frv. og a.m.k. látið það bíða næsta þings til nánari athugunar. Ég vil nú helzt vona, að þetta ákvæði hafi verið sett inn í frv. í Ed. í einhverri fljótfærni, án þess að menn hafi gert sér fulla grein fyrir þeim afleiðingum, sem af því gætu hlotizt, og því fordæmi, sem það getur skapað viðkomandi annarri atvinnustarfsemi, og að sú nánari athugun leiði til þess, að ríkisstj. hætti við að gera þetta að slíku kappsmáli sem verið hefur nú seinustu dagana. En fallist hæstv. ríkisstj. hins vegar ekki á það, þá hefur maður fulla ástæðu til að halda, að hér búi eitthvað undir og hér sé þá jafnvel stefnt að því að skapa fordæmi fyrir enn frekari höftum en felast í þessu eina ákvæði.

Ég vil jafnframt vænta þess, að þó að hæstv. ríkisstj. knýi þetta frv. fram um að auka sparifjárfestinguna, þá láti hún það ákvæði ekki koma til framkvæmda við nánari athugun. Það hefur komið ljóslega fram hér í umr. og í álitsgerðum, sem þingið hefur fengið frá bönkum landsins, að það er mikil andstaða í viðskiptabönkunum gegn hinni auknu frystingu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það hafa bæði borizt hér til þingsins ákveðin mótmæli frá Iðnaðarbankanum og Verzlunarbankanum, og það er líka víst, að þó að ríkisbankarnir hafi ekki svarað á sama hátt fyrirspurnum, sem hafa verið lagðar fyrir þá um þetta efni, þá stafar það ekki af því, að bankastjórarnir þar séu ekki andvígir hinni auknu frystingu, heldur stafar það vitanlega af því, að hér er um ríkisbanka að ræða, og þeir vilja þess vegna ekki koma með álit, sem gengur beint gegn ríkisstj. En það mikið veit ég, að hjá þeim, sem ráða eða eiga að sjá um lánveitingar í ríkisbönkunum og gera sér þess vegna fulla grein fyrir því, hve lánsfjárhöftin þrengja nú að atvinnufyrirtækjunum og almenningi á mörgum sviðum, að þeir eru algerlega andvígir því, að frysting sparifjárins verði aukin, og telja það hið mesta óheillaráð, ekki sízt vegna þess, eins og ég hef áður minnzt á, að þetta verði til þess að auka ýmiss konar óheilbrigði og spillingu í lánsfjármálum, því að þegar viðskiptabankarnir geta ekki fullnægt sínum viðskiptamönnum, þá verður það að sjálfsögðu til þess, að þeir leita fjármagns eftir öðrum leiðum, misjafnlega heilbrigðum, og þetta ýtir undir vaxandi okurstarfsemi í landinu, en einmitt það vilja að sjálfsögðu stjórnendur viðskiptabankanna forðast, ríkisbanka jafnt sem einkahanka, enda er það einmitt það, sem reynt er að leitast við með heilbrigðri bankastarfsemi að koma í veg fyrir, að slík ráðstöfun lánsfjár í landinu eigi sér stað.

Ég vil þess vegna vænta þess, þó að ríkisstj. falli ekki frá því að knýja þetta ákvæði fram um aukningu frystingarinnar, að hún láti það ákvæði ekki koma til framkvæmda. Af pólitískum ástæðum, óska ég ekki neitt sérstaklega eftir því, vegna þess að ég veit, að ríkisstj. mundi ekki auka veg sinn með því að láta slík höft koma til framkvæmda, en vegna atvinnustarfseminnar og þjóðarheildarinnar hvet ég hæstv. ríkisstj. til þess að láta þessa auknu frystingu ekki koma til framkvæmda. Og til þess að hæstv. ríkisstj. gæti fullkomlega þinglegra vinnubragða, vil ég að síðustu skora á hana og sérstaklega á hæstv. bankamrh. að fella aftur úr frv. þá breytingu, sem gerð var á því í Ed., því að ég vil trúa því, a.m.k. að óreyndu, að það hafi frekar verið sett inn af fljótfærni og án þess, að menn hafi gert sér fulla grein fyrir því fordæmi, sem væri verið að skapa með þessu ákvæði.