19.12.1963
Neðri deild: 36. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1962. N. yfirfór og bar saman tölulega frv. við ríkisreikninginn og hafði þar ekki aths. fram að færa.

Um afgreiðslu málsins varð ekki samkomulag í n. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en minni hl. mun leggja til, að afgreiðslu þess verði frestað.

Nm. athuguðu þær aths., sem þingkjörnir endurskoðendur gerðu við ríkisreikninginn, svo og þau svör, sem við þær aths. voru gerð, en þær voru engar þess eðlis, að þeim væri vísað til aðgerða Alþingis, og taka endurskoðendur fram, að umboðsleg endurskoðun sé nú lengra komin en áður.

Það liggur í augum uppi og hefur verið á það bent hér áður á hv. Alþingi í sambandi við ríkisreikninginn, eftir að farið var að hraða afgreiðslu hans, að það veltur á miklu að auka hraða í hinni umboðslegu endurskoðun, því að hún hefur gjarnan viljað vera alllangt á eftir, sú endurskoðun. Hins vegar, eins og ég gat um áðan og tekið er fram af þingkjörnum endurskoðendum, er henni nú mun lengra komið, og sýnist því hér stefnt í rétta átt.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Eins og ég gat um áðan, leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. og því vísað til 3. umr.