13.02.1964
Neðri deild: 55. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

146. mál, þingfararkaup alþingismanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að ræða efni þessa frv., því að það mun vera samkomulagsmál milli ríkisstj, og stjórnmálaflokkanna, þingflokkanna. En ég heyrði, að hv. frsm. gaf upp eina upphæð hér viðvíkjandi þingfararkaupi þm. s.l. ár og sagði, að það hefðu verið 81 þús. kr. að meðtöldu orlofi. Í fyrsta lagi kann ég ekki við það, að orlofi sé blandað saman við laun, hvorki á Alþingi né annars staðar, því að það eru engin laun, og a.m.k. er það svo, að ég hef ekki neinar sögur af orlofi alþm. En það er hins vegar saga, sem er vert að segja frá á Alþingi, að alþm. hafa verið á tvenns konar launum. Sumir hafa verið með þingfararkaup án orlofs, en aðrir að viðbættu orlofi, og ég held, að ég fari rétt með það, að mitt þingfararkaup var gefið upp af skrifstofu Alþingis 76 þús. kr. og nokkur hundruð s.l. ár.

Það eru hins vegar nokkuð mörg ár síðan það vitnaðist, að farið væri að greiða sumum þm. orlof, en öðrum ekki. Við eftirgrennslan kom í ljós, að það hafði verið úrskurðað af einhverjum aðilum, að sumir þm. skyldu njóta orlofs og aðrir ekki eftir því, hvort þeir væru á föstum launum hjá öðrum fyrirtækjum eða ekki. En þeir þm., sem væru á föstum launum hjá einhverjum öðrum fyrirtækjum en hv. Alþingi, skyldu ekki fá orlof á það kaup, sem þeir þó fengju greitt hjá Alþingi. Þetta kemur mér dálítið spánskt fyrir, því að ég veit ekki annað en sérhver atvinnurekandi og þá væntanlega Alþingi Íslendinga líka skuli greiða orlof á þau laun, sem sá atvinnurekandi greiðir, alveg án tillits til þess, hvort viðkomandi launþegi hefur tekjur hjá öðrum aðila eða ekki, en það er hans skylda að greiða honum orlof af þeim hluta launanna og getur hvorki losað einn né annan atvinnurekanda og ekki heldur Alþingi frá þeirri skyldu að eiga að greiða orlofsfé af því kaupi, sem það greiðir. Ég hef alltaf véfengt þennan úrskurð og tel hann rangan, og mun ég nú a.m.k. áskilja mér allan rétt. Þar sem ég hef átt reikning liggjandi hér á Alþingi núna hátt í 2 ár viðvíkjandi orlofi, þá mun ég nú afhenda hann lögfræðingi gegn Alþingi, því að ég uni því ekki að vera á öðru og lægra þingmannskaupi en aðrir, og veit ég, að svo er um marga þm. hér aðra. Fyrir þessu er enginn grundvöllur að mínu áliti. Og lögfræðingar, sem ég hef talað við, telja, að sérhverjum aðila beri að greiða orlof af þeim launum, sem hann greiðir sínum launþegum. Allra helst, þegar þetta er nú kallað kaup af frsm. hér á hv. Alþingi, talið með þingfararkaupinu, þá tel ég ástæðu til þess að una því ekki, að þm. séu hér á tvenns konar launum. Þetta hefur ekki farið eftir því, hvort menn voru tekjuháir eða ekki. Margir af tekjuhæstu alþm., ef þeir tóku ekki sínar tekjur að öðru leyti í launum, höfðu orlof á sitt þingfararkaup. En ef þeir voru á launum hjá öðrum, hversu lágt sem það kaup var, þá höfðu þeir ekkert orlofsfé frá Alþingi. Læknir hefur orlof hér á Alþingi. Lögfræðingur hefur það, sem hefur einkaskrifstofu. En ég hygg hins vegar, að sýslumaður hafi það ekki.

Ég tel, að samkv. l. um orlof eigi þeir alþm., sem ekki vilja una því að vera á einhverju 2. flokks þingmanns kaupi, rétt á að krefja Alþingi um orlof 4 ár aftur í tímann, því að orlof fyrnist á 4 árum, og sé ekki nokkra minnstu ástæðu til annars en að gera það. Ég hef ekkert svar fengið við því bréfi, sem ég skrifaði fyrir fast að 2 árum til þingsins um þetta, og tel mig eiga fullan rétt á því að láta lögfræðing kanna réttmæti á innheimtu þess, ef ekki fæst gert upp með góðu, eins hjá Alþingi og öllum öðrum atvinnurekendum, að greiða orlof af þeim launum, sem viðkomandi aðili hefur greitt, 6%.

En það, að ég hreyfði þessu nú, byggist á þessu einmitt, að þarna er orlofsfénu blandað samán í framsöguræðu við launagreiðslu til þm., sem ég tel ekki rétt. En launagreiðslunni á að fylgja hjá sama atvinnurekanda orlofsskylda til allra launþega hans. Og ég get ekki ímyndað mér, að það samræmist l. um orlof, að sumum launþegum í þjónustu eins fyrirtækis sé úrskurðað orlof, en öðrum ekki.