20.02.1964
Efri deild: 50. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

146. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti: Að tilhlutan þingfararkaupsnefndar var í ársbyrjun 1962 samið nýtt frv. um þingfararkaup alþingismanna, sem af ýmsum ótilgreindum ástaeðum náði þá ekki fram að ganga. Höfuðástæðan mun þó hafa verið sú, að óeðlilegt þótti, að alþm. hefðu frumkvæði að launalagfæringum, og launadeilur hafa á þessum tíma verið alltíðar. Eins og í grg. fyrir frv. segir, fól svo hæstv. þáv. forsrh. samninganefnd ríkisstj. í kjaramálum í samráði við skrifstofustjóra Alþ. að endurskoða lög um þingfararkaup, m.a. með hliðsjón. af þeim breytingum, sem átt höfðu sér stað á launakjörum opinberra starfsmanna. Samninganefndin byggði að mestu á frv. því, sem upphaflega dar samið í ársbyrjun 1962. Tölum hefur hins vegar verið breytt og nokkrum minni efnisatriðum. Auk þingfararkaupsnefndar hefur málið um alllangt skeið verið til umræðu og athugunar hjá þingflokkum og hæstv. ríkisstjórn, og birtast niðurstöður þessara umræðna og athugana í frv. því, sem hér liggur fyrir.

Að sjálfsögðu má um tölur frv. þessa deila, einum finnst þær of lágar, öðrum of háar, eins og venja er til, þegar slík mál eru til umræðu. Margir vitna til þeirra launa og fríðinda, sem þm. annarra þjóða eru greidd, og komast þá að þeirri niðurstöðu, að þeir eru margfalt betur launaðir en frv. þetta felur í sér, enda munu þær þjóðir standa á traustari fjárhagslegum grundvelli en við. Slíkan samanburð heyrum við oft, þegar yfir standa launadeilur hinna ýmsu starfsgreina í þjóðfélaginu, og niðurstaðan er ávallt sú hin sama: sambærileg störf eru erlendis ávallt greidd hærra verði en hér. Sömu sögu er að segja um þingfararkaupið sjálft, þrátt fyrir leiðréttingu þá, sem frv. þetta felur í sér.

Höfuðbreytingin, sem í frv. þessu felst frá fyrri lögum, er, að nú er þingfararkaup gert að árslaunum í stað dagkaups áður. Þingsetutíminn hefur undanfarin ár reynzt allmisjafn, en hefur þó sífellt verið að lengjast, auk þess sem breytt kjördæmaskipan hefur krafizt meiri starfa í sjálfum kjördæmunum. Langur tími er nú liðinn, frá því að fyrst var hreyft hér á Alþ. þeirri till. að gera þingfararkaup að árslaunum í stað dagkaups, og virðast menn á einu máli um, að öll rök séu til þeirrar breytingar.

Eftir að undirbúningi frv. lauk og samkomulag hafði tekizt á milli fyrrgreindra aðila, fór þingfararkaupsnefnd þess á leit við þá hv. alþm., er frv, þetta fluttu í hv. Nd., að þeir tækju að sér flutning málsins, þar sem n. sjálf er kosin af Sþ., og urðu þeir góðfúslega við því.

Ég taldi rétt, að þessar skýringar kæmu fram, áður en hv. Ed. tæki málið til meðferðar. Frv. er raunverulega flutt af nefnd og þyrfti af þeim ástæðum ekki að ganga til nefndar hér. Samkvæmt þingsköpum fara þó fram umræður um öll frv. önnur en fjárlög fram í deildum, og var því fyrrgreindur háttur á hafður um flutning málsins, og í hv. Nd. var málinu að lokinni 1. umr. þar vísað til nefndar, hv. fjhn., og ég legg til, herra forseti, að sami háttur verði á hafður hér, og geri það að tillögu minni, að málinu verði vísað til hv. fjhn.