11.02.1964
Efri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

88. mál, eyðing refa og minka

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég gerðist meðflm. að þessu frv., og er ástæðan sú fyrst og fremst, að ég verð með hverju ári sem líður eindregnari andstæðingur þessarar eitrunar. Strykníneitrun er mjög grimmdarfull aðferð mannsins til þess að ráða niðurlögum óvinar síns í dýraríkinu. Eitrið veldur mjög kvalafullu dauðastríði og oft langvinnu, og af þessum sökum er stryknínið ákaflega óheppilegt efni til eitrunar. Ég er sannfærður um, að það á ekki langt í land, að þessi eitrun verði algerlega bönnuð á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar, að mannúð og menning standi á það háu stigi í landinu, að þetta eigi ekki langt í land úr þessu. Annars vegar stendur maðurinn með sitt vit og sína miklu tækni og hins vegar skynlaus skepnan. Aðstaðan í baráttunni er því alla vega ójafn, og það er enginn efi á því, að maðurinn getur haft í fullu tré við þennan óvin, refinn, þótt ekki sé gripið til jafnniðurlægjandi aðferðar og strykníneitrun er.

Það er annar ágalli, sem fylgir eitrun, strykníneitrun og annarri eitrun fyrir vargdýr. Sá ágalli er, að þetta er ákaflega ómarkviss veiðiaðferð, Það er eitrað og eitrið er sett út á viðavang, og síðan er það algerlega látið ráðast, hverjir fyrir eitrinu verða. Möguleikar eru á því, að það geti orðið alls konar dýr, þ. á m. meinlaus dýr og nytjadýr, og möguleikar eru einnig á, að menn geti orðið fyrir eitrun. Einnig af þessari ástæðu er hér um að ræða aðferð til útrýmingar ákveðnu villidýri, aðferð, sem er mjög gölluð. Ég tel því fortakslaust, að að því beri að stefna að afnema þessa eitrun með öllu en nota jafnframt tæknilega þekkingu til þess að taka upp aðrar öruggari og mannúðlegri aðferðir til að vinna á vargdýrum.

Það hefur verið á það bent, að hér væri um að ræða annars vegar tilveru refsins og hins vegar tilveru fjárstofns bændanna. Það er auðvitað firra að mæla á þessa leið. Tilvera fjárstofnsins er ekki í hættu. Hitt er annað mál, að bændur hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni af völdum vargdýra allt fram á þennan dag og verða það sennilega enn um skeið. En mín skoðun er sú, að þótt strykníneitruninni yrði hætt, væri hægt að halda upp baráttu gegn refnum með öðrum aðferðum, a.m.k. jafnvirkum þessari:

Það eru fleiri ástæður til þess að athuga sinn gang um strykníneitrunina heldur en sú, að hér er um ómannúðlega og grimmdarfulla aðferð að ræða. Þetta er aðferð, sem er harla vafasöm í árangri sínum. Það er mjög umdeilt meðal bænda landsins, að hve miklu gagni þessi eitrun kemur. Og hvers vegna er deilt um það meðal bænda? Það er af því, að árangurinn af eitruninni er mjög vafasamur. Það hefur verið bent á það aftur og aftur af kunnugustu mönnum, m.a. í bændastétt, að refnum lærist að forðast eitrið, í mótsetningu við önnur dýr, m.a. fugla. Það hefur líka verið bent á það, að refir, sem komizt hafa í tæri við stryknineitrun og lifað það af, gerist hálfu verrí dýrbítar en áður var og hættulegri búfé landsmanna. Aðferðin er ljót og manninum ósæmandi, og hún er auk þess mjög vafasöm, hvað nytsemi snertir fyrir manninn. Af þessum tveim ástæðum finnst mér, að allir hv. þm. ættu að íhuga vandlega nú, þegar þetta mál er rætt hér og er til afgreiðslu, hvort ekki væri nú tímabært að bæta hér um og hætta þessum gráa leik:

Auðvitað verður baráttunni gegn minki og ref haldið áfram, og þá baráttu þarf að herða og það þarf að finna leiðir, sem eru betri en strykníneitrunin, öruggari til árangurs og því gagnlegri bændum landsins. Þó að ég geti ekki nú bent á nýjar leiðir, er ég viss um, að á hessari tækniöld gefast möguleikar til betri veiðiaðferða.

Það er fyrst og fremst þetta, sem gerði það að verkum, að ég varð meðflm. að þessu frv. Það er vegna þess, að eitrunaraðferðin er ljót og ómannúðleg og ósæmandi okkur á Íslandi, að ég gerðist meðflm. Hitt hafði líka áhrif á mig í þessu efni, að með því að banna eitrun af þessu tagi, eru möguleikar á að bjarga arnarstofninum íslenzka. Ef haldið verður áfram að eitra með stryknini fyrir ref og mink, er það gefið mál, að íslenzki örninn verður aldauða eftir fáein ár. Ef eitrunininni yrði hætt, eru möguleikar, en ekki vissa fyrir því, að unnt verði að komast hjá útrýmingu þessarar dýrategundar, og ég tel það vera okkur Íslendingum til sóma sem þjóð að leggja eitthvað af mörkum til þess að varðveita þennan fallega fugl, til þess að varðveita dýrategund, sem er nærri því komin að verða aldauða. Aðrar menningarþjóðir gera þetta og leggja á sig mikið erfiði og mikinn kostnað til viðhalds merkum dýrategundum, sem nærri eru því að verða útdauðar.

Ég hygg, að hv. minni hl. þeirrar n., sem þetta mál hefur haft til meðferðar, hafi ekki athugað málið á nógu breiðum grundvelli. Þeir hafa valið sér að mínum dómi heldur þröngt sjónarmið. Væri hér um að ræða að bjarga verðmætum bænda með afstöðu þeirra, þá væri það afsökun fyrir þá. En því er ekki að heilsa. Aðferðin er meira eða minna óvirk, kemur að litlu haldi, og það sýnir bezt, hversu mjög hún er umdeild meðal bænda sjálfra.