09.03.1964
Neðri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

88. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og flutt þar af hv. 8. landsk, þm. og hv. 9. þm. Reykv. Landbn. þessarar deildar hefur haft frv. til meðferðar og skilar um það sameiginlegu nál. á þskj. 357, þar sem mælt er með samþykkt frv. Ágreiningur varð þó í n. um tímatakmarkið í 3. gr., og vildi meiri hl., að eitrunarbannið gilti til 3 ára í stað 5, eins og í frvgr. stendur og samþ. var í hv. Ed., og hafa 3 nefndarmenn flutt brtt. á þskj. 358, þar sem lagt er til, að í stað orðanna „5 ár“ komi: 3 ár. Ég og hv. 5. þm. Vesturl. leggjum hins vegar til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það kom hingað til deildarinnar.

Eins og hv. þm. er kunnugt um, er þetta frv. flutt í þeim tilgangi, að reynt verði að koma í veg fyrir, að íslenzki arnarstofninn verði aldauða, en svo lítur út fyrir, að verða muni, ef ekkert er að gert. Það mun hafa verið um 1890, sem fyrst var farið að eitra fyrir refi að einhverju ráði hér á landi, og hefur það verið gert að síðan. Og árið 1957 var með lögum héðan frá Alþ. oddvitum og bæjarstjórum gert skylt að eitra fyrir refi á hverju ári.

Þegar refaeitrunin hófst hér á landi fyrir aldamótin, eða á síðasta áratug s.l. aldar, var allmikið um örn hér á landi, og verpti hann þá víða um land og í öllum landsfjórðungum. En á þeim árum, sem liðið hafa síðan, hefur erninum fækkað mjög, og árið 1959, þegar gerð var skipuleg talning á erninum, þá fundust 10–12 arnarhreiður, öll á vestanverðu landinu, við Breiðafjörð eða á Vestfjörðum. Úr öðrum landshlutum er örninn horfinn fyrir löngu. Og síðan þessi talning fór fram, eða 1959, er alveg víst, að erninum hefur fækkað enn, og við athugun, sem gerð var á s.l. sumri, virtist koma í ljós, að ekki mundu vera eftir lifandi ernir hér á landi nema 10–15 fuglar.

Það eru til þeir menn, sem telja enga eftirsjá í erninum. En ég er á öðru máli. Að vísu er hann enginn nytjafugl og gerir jafnvel nokkurn skaða, einkum í varplöndum. En sama er um. Dýraríki lands okkar er ekki fjölskrúðugt, og ég tel það vansa fyrir okkur, ef við gerum ekkert til þess að sporna gegn því, að örninn verði aldauða. Og mér finnst það nokkurt ásökunarefni, að við skulum ekki fyrr hafa hafizt handa erninum til bjargar, því að vera má, að það sé rétt, sem sumir telja, að nú sé það um seinan, þegar eftir eru í landinu ekki nema þessir fáu fuglar, 14–15 að tölu. En mér finnst sjálfsagt að gera tilraunina, þótt seint sé.

Það er lagt til í frv., að eitrun fyrir refi og minka verði bönnuð í 5 ár hið fyrsta. Þeir eru til, sem telja þetta bráð og álíta, að dýrbítur muni mjög magnast, ef eitrun verði hætt. Um þetta eru þó skiptar skoðanir. Og ég vil t.d. benda á, að sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu samþ. á síðasta fundi sínum ályktun, sem send hefur verið Alþ. og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sýslunefndin lítur svo á, að það sé mjög hæpin aðferð að reyna að útrýma refum með eitri, og þar sem árangur sé mjög vafasamur, en hætta á, að fuglar og hundar drepist af eitrinu, skorar sýslunefndin á hið háa Alþ. að afnema ákvæði íslenzkra laga um eitrun fyrir refi“.

Mér finnst það athyglisvert, að þessi áskorun skuli berast úr héraði, þar sem sauðfjárbúskapur er svo mikill sem hann er í Vestur-Húnavatnssýslu. En reynsla þeirra Vestur-Húnvetninga virðist vera sú, að takmarkað gagn sé að eitruninni til útrýmingar refnum. Og fæ ég ekki betur séð en þessi skoðun sýslunefndar Vestur-Húnavatnssýslu sé í samræmi við upplýsingar, sem veiðistjóri, Sveinn Einarsson. hefur gefið í skýrslu um refaveiðar. Í þeirri skýrslu segir, að árið 1961 voru felldir 2408 refir, þar af er talið að farizt hafi 81 dýr af eitri eða rúmlega 3%. Árið 1962 voru felldir alls 2065 refir og þar af fundust dauðir af eitri 45 refir eða rúml. 2%. Sjálfsagt eru þessar tölur þó eitthvað of lágar, því að ekki hafa öll dýr fundizt, sem drápust af eftri, svo er aldrei. En þetta bendir þó til þess, að eitrunin sé ekki eins mikilvægur þáttur í útrýmingu refsins og margir telja. Og mér er nær að halda, að sú hækkun á verðlaunum fyrir unnin dýr, sem frv. gerir ráð fyrir, verði fullt eins árangursrík til þess að halda refnum í skefjum eins og eitrun, auk þess sem strykníneitrunin er frámunalega leiðinleg veiðiaðferð og hlýtur ávallt að verða til þess að deyða önnur dýr en þau, sem henni er atlað að tortíma.

Allt frá því að eitrun hófst, hafa nær árlega fundizt ernir dauðir af eitri, og ýmsir óttast, að eitrunin sé að fara sömu leiðina með íslenzka fálkann, því að augljóst er, að honum fækkar nú mjög.

Okkur í landbn. ber ekki annað á milli um efni og tilgang frv. en hvort banna eigi eitrun í 3 eða 5 ár. Veiðistjóri og Búnaðarfélag Íslands, eða stjórn Búnaðarfélagsins, leggja til, að tímatakmarkið verði 3 ár. Náttúrufræðingar mæla hins vegar með 5 ára markinu. Það má segja, að það skipti ekki neinu höfuðmáli, við hvort tímamarkið er miðað, en ég er sammála hv. flm. frv. og náttúrufræðingunum um það, að þessi reynslutími megi vart verða skemmri en 5 ár, til þess að úr því fáist skorið, hvort aðaltilgangi frv. verði náð, þ.e. að koma í veg fyrir það, að eitrunin gjöreyði erninum. Því verð ég að leggja til, að brtt. hv. meiri hl. landbn. verði felld og frv, samþ. óbreytt eins og það barst okkur frá hv. Ed.