09.03.1964
Neðri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

88. mál, eyðing refa og minka

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Í því frv., sem hér er til umræðu, voru samkv. því, sem fram kemur í grg., þegar það var lagt fyrir hv. Ed., tvö meginatriði. Annað atriðið var að hækka greiðslur fyrir að vinna refi og minka til samræmis við verðlagsbreytingar og hitt atriðið að nema úr lögum eitrunarskylduna og banna eitrun næstu 5 ár.

Það orkar varla tvímælis, að það er nauðsynlegt að breyta tölum í lögunum vegna breytinga, sem orðið hafa á verðlagi, og hækka greiðslur til þeirra, sem vinna refi og minka, til samræmis við þær breytingar. í meðferð Ed. hefur greiðslan fyrir að vinna refi verið hækkuð nokkuð, og virðist mér það réttmætt. Jafnframt hefur í hv. Ed. verið bætt við ákvæði um verðlaun fyrir að vinna grendýr. Þau eiga samkv. frv., eins og það er nú, að vera 350 kr. fyrir fullorðið dýr og 200 kr. fyrir yrðling.

Í nál. frá Ed. segir, að hér sé um hámarksákvæði að ræða, og væri það fróðlegt, ef hv. landbn, þessarar d. gæti gefið nánari upplýsingar um það atriði. Ég hef ekki í höndum upplýsingar um það, hvað nú tíðkast að greiða á þessu sviði, og skal því ekki dæma um það, hvort þetta hámark, sem hér er talað um, er eðlilegt.

Hér hefur borizt í tal í umræðunum lítils háttar það ákvæði frv., sem helst virðist valda ágreiningi, og það eru eitrunarákvæðin. Þetta hefur verið allmjög umdeilt mál. Sumir telja, að eitrun sé nauðsynleg, til þess að hægt sé að halda tófunni í skefjum, en á því eru líka aðrar skoðanir. Vil ég nefna bæði þá skoðun, sem fram hefur komið hér í umræðunum og mun ráða nokkru um bað, að þessi breyting er nú fram borin, að eitrun sé hættuleg fyrir aðrar dýrategundir, sérstaklega fuglategundir, sem fer fækkandi hér á landi, og af þeim ástæðum beri að banna hana. Hin skoðunin, sem ég vildi nefna, er sú, að eitrunin hafi alls ekki þau áhrif, sem ætlazt er til. Hv. frsm. landbn. nefndi hér tölur, sem ég hef ekki heyrt fyrr, frá veiðistjóra, en virðast sýna það, að árangurinn af eitruninni, þ.e.a.s. sýnilegur árangur af eitruninni sé í rauninni mjög lítill, það séu ekki nema 2 eða 3% af þeim dýrum, sem unnin eru, sem farast af eitri. En eins og hann sagði, verður auðvitað ekki fyllilega um þetta dæmt. vegna þess að það finnast ekki öll dauð dýr, hvergi nærri. Sjálfsagt drepst eitthvað af dýrum inni í grenjum og holum, sem ekki finnast, eða á öðrum stöðum, þar sem leið manns liggur ekki um. En samt sem áður virðast þessar tölur benda til þess, að árangurinn af eitruninni sé í raun og veru ekki eins mikill og menn hafa álitið, sumir hverjir. En svo er einnig þess að geta í því sambandi, að sumir hafa haldið því fram og þ. á m. sá maður, sem ég ætla einna fróðastan í þessu máli hér á landi, a.m.k. af ólærðum mönnum, sem er Theodór Gunnlaugsson bóndi á Austurlandi í Öxarfirði, en hann hefur ritað bók um þessi mál, að það sé mjög sjaldgæft, að bitvargar drepist af eitri, því að bitvargarnir varist eitrunina, það verði því aðallega hin meinlausu dýr, þ.e.a.s. þau, sem eru ekki bitvargar, sem falla fyrir eitruninni. En eins og kunnugt er, þá eru það ekki nema sumar tófur, sem leggjast á fé. Theódór Gunnlaugsson færir fyrir þessu í bók sinni merkileg rök, sem byggjast á reynslu hans og athugun.

Ég vildi láta þetta koma fram. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að eitrunarákvæði laganna, eins og þau hafa verið, sé rétt að nema úr lögum.