09.03.1964
Neðri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

88. mál, eyðing refa og minka

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um eitrunina að þessu sinni, en hv. frsm. landbn. eða meiri hl. hennar kvartaði um það, að hann hefði ekki heyrt glögglega mitt mál, þegar ég ræddi um 1. gr. frv., eins og það liggur hér fyrir, um verðlaun fyrir að vinna grendýr. Skal ég nú reyna að tala svo skýrt, að hv. frsm. megi nema mál mitt.

Í 8. gr. l. um eyðingu refa og minka, sem afgreidd voru frá Alþingi hinn 28. maí 1957, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Skotmenn og vökumenn, sem liggja á grenjum, sbr. 5. gr., skulu taka laun fyrir störf sín samkv. samningi við aðila þá, er sjá um vinnslu grenja. Heimilt er að semja um verðlaun fyrir unnin dýr og yrðlinga, þegar ráðningarkjör veiðimanna þessara eru ákveðin. Á sama hátt skal semja um kaup þeirra manna, er taka að sér að vinna mink og minkabæli, sbr. 5. gr..“

8. gr. l. gerir sem sé ráð fyrir því, að um verðlaun fyrir að vinna grendýr, fullorðin dýr og yrðlinga, sé samið milli þeirra, sem sjá um grenjavinnsluna, og þeirra, sem að henni vinna. Nú segir í þessu frv.: „Hámark verðlauna fyrir að vinna grendýr skal vera 350 kr. fyrir fullorðið dýr og 200 kr. fyrir hvern yrðling.“ Og það, sem ég var að inna eftir í fyrri ræðu minni, var það í raun og veru, hvort hér gæti verið um það að ræða, að með þessum hámarksákvæðum, sem menn vilja nú setja, sé verið að lækka þau verðlaun, sem grenjaskytturnar fá fyrir að vinna grendýr. — Vænti ég, að þetta sé nú fullljóst.