03.03.1964
Efri deild: 55. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

75. mál, lóðakaup í Hveragerðishreppi

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af hv. 6. þm. Sunnl. eftir ósk hreppsnefndar Hveragerðis og er efnislega á þá leið að heimila ríkissjóði að kaupa lóðir og landspildur í Hveragerði, þar sem þannig standi á, að óhagstæð landamörk valdi erfiðleikum um framkvæmd skipulags, sótthreinsun og nýtingu lóða. Þessu frv. hefur verið visað til heilbr.- og félmn.

Í Hveragerði hefur ekki verið hægt að koma við þeirri stefnu, sem öðrum kauptúnum þykir eðlileg og sjálfsögð, þ.e.a.s. að hreppsfélagið eigi lóðir og lendur í kauptúninu. Orsökin er sú, að ríkissjóður á meiri hluta af lóðum í Hveragerðishreppi og telur sig sjálfsagt þurfa að eiga þær til frambúðar vegna hitavatnsréttindanna, sem þar eru. Hveragerði hefur því sérstöðu að þessu leyti.

Nefndin sendi þetta frv. til umsagnar jarðeignadeildar landbrn., og segir í umsögn hennar, að ráðuneytið hafi ekkert við það að athuga, að frv. verði samþ. sem lög. Enn fremur var frv. sent til umsagnar skipulagsstjóra, en hann segir í sinni umsögn, að hann taki fram, að hann sé frv. efnislega samþykkur, en telji rétt, að heimildin nái fyrst og fremst til makaskipta á lóðaskikum, en lóðakaup verði heimiluð, þar sem makaskipti koma ekki til greina.

Nefndinni þótti rétt að verða við ábendingu skipulagsstjóra í þessu efni með því að flytja brtt. við frv., sem er á þskj. 330, þannig að aftan við orðin „lóðir og landspildur í Hveragerði“ komi: meðal annars með makaskiptum á lóðum, — þannig að ríkissjóði væri þá í sjálfsvald sett í hvert skipti sem til stæði að kaupa lóð í Hveragerði, hvort ríkið gerði það með því að kaupa hana á venjulegan hátt, með því að greiða fé fyrir, eða þá með því að skipta á annarri lóð, sem ríkið á á þessu svæði. Heilbr.- og félmn. hefur einróma mælt með því, að þetta frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem ég gat um.