20.03.1964
Neðri deild: 72. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

196. mál, sala jarðarinnar Áss í Hafnarfirði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins aths., sem ég vildi skjóta til hv. n., sem þetta mál fer til. Það er í fyrsta lagi, hvort það mundi ekki vera rétt að setja inn í lögin, að Hafnarfjarðarbær megi ekki selja þær lóðir aftur, sem hann þar með eignast. Þegar sala landsins í Vestmannaeyjum til handa Vestmannaeyjakaupstað var hér til umr., kom þetta einmitt til mála hér í d. og var að vísu ekki samþykkt í sambandi við lögin, en var hins vegar sett inn í afsalið, þannig að þegar ríkið seldi Vestmannaeyjum, eins og eðlilegt var, landareign sína þar, var það sett inn í afsalið, að Vestmannaeyjakaupstaður mætti ekki selja þetta aftur. Nú held ég, að það sé raunverulega viðkunnanlegra, ef slíkt ákvæði er sett inn í afsal, að það sé heimild fyrir því í lögum, þannig að ég vildi skjóta því til þeirrar n., sem þetta mál fer til, að athuga, hvort ekki væri rétt að setja þetta ákvæði inn í lögin, því að við þykjumst allir vissir um, að Hafnarfjarðarbær ætlar sér ekki að kaupa þetta til þess að fara að selja það aftur, en til þess að girða alveg fyrir það væri þetta bezt.

Svo vildi ég aðeins skjóta því til n. líka til athugunar, hvort 2. mgr. er nægilega sterk í þessu, þar sem stendur: „Náist ekki samkomulag um söluverð landsins, skal það metið af dómkvöddum mönnum,“ — hvort það verður ekki að vera eignarnámsákvæði beinlínis, alveg júridískt, hvort þetta ákvæði er nægilega sterkt.