17.04.1964
Neðri deild: 80. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

196. mál, sala jarðarinnar Áss í Hafnarfirði

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar og afgreiðslu frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Hafnarfjarðarkaupstað land jarðarinnar Áss í Hafnarfirði. Svo sem venja er um mál þessi, sendi landbn. það til umsagnar jarðeignadeildar ríkisins og landnámsstjóra, og mæla þessir aðilar báðir með því, að frv. verði samþ.

Það kemur fram í fskj., sem fylgir frv., sem er bréf bæjarstjórans í Hafnarfirði, að Hafnarfjarðarkaupstaður sé í þörf fyrir að fá þetta land undir byggingarlóðir og til athafnasvæða. Landbn. fellst á þetta sjónarmið. Það kemur enn fremur fram í umsögn landnámsstjóra, að hér er ekki um neina sérstaka landkostajörð að ræða, en hefur mjög takmarkaða framleiðslumöguleika sem bújörð. Ég vil svo einnig geta þess, sem kemur fram í umsögn hans, sem að vísu þarf ekki að taka fram, að við lítum svo á, að Hafnarfjarðarkaupstaður verði að taka á sig allar skuldbindingar til ábúanda gagnvart þeim réttindum hans, sem honum kunna að hafa verið tryggð í ábúðarsamningum. — Landbn. var, eins og ég sagði, samþykk því, að frv. næði fram að ganga.