18.11.1963
Neðri deild: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal taka það fram strax í upphafi míns máls, að ég tel eðlilegt, að það frv., sem hér liggur fyrir, nái fram að ganga í öllum meginatriðum. Ég tel það aðeins eðlilegt og sjálfsagt, að farið verði svipað með ýmis óumsamin lán iðnaðarins eins og gett hefur verið varðandi lán sjávarútvegs og landbúnaðar áður. Að því leyti til er ég í öllum meginatriðum samþykkur þessu frv. En við þær umr., sem hér hafa farið fram, hafa komið fram nokkrar skoðanir, sem ég er hins vegar mjög ósammála og ég tel eðlilegt að gera hér aths. við.

Það er allmikið um það rætt, að íslenzkur iðnaður njóti ekki jafnréttis á við aðra aðalatvinnuvegi landsmanna, eins og t.d. sjávarútveg og landbúnað. Og menn vilja gjarnan hafa það uppi sem eina aðalröksemd fyrir t.d. þessu máli og öðrum nauðsynlegum fjármálalegum ráðstöfunum til stuðnings íslenzkum iðnaði. En ég álít, að fullyrðingar í þessum efnum fái í ýmsum atriðum ekki staðizt. Það er í fyrsta lagi það, að í rauninni er ekkert vit í því að tala um allan íslenzkan iðnað sem eina heild, sem sömu reglur eigi um að gilda í öllum tilfellum. Í fyrsta lagi verða menn að átta sig á því, að málin horfa þannig við, eins og 1. flm. þessa máls minntist m.a. á í sinni ræðu, að sumar starfsgreinar og sum framleiðsla hefur þjóðhagslegt gildi, hefur undirstöðugildi í efnahagslífi þjóðarinnar, en annað er ekki hægt að flokka undir slíkt, heldur verður að teljast til mjög vafasamrar framleiðslu. Það getur verið iðnaður eigi að síður. Það, sem skiptir því öllu máli, er, að það séu gerðar réttlátar og nauðsynlegar fjármálalegar ráðstafanir í öllum greinum fyrir þær atvinnugreinar, sem hafa undirstöðuþýðingu í efnahagslífi þjóðarinnar. Þannig er vissulega ástatt um ýmsar greinar íslenzks iðnaðar, sem nú býr við mjög kröpp kjör og er hart leikinn, það er mér ljóst. Það á því að gera ráðstafanir þessum greinum iðnaðarins til hagsbóta. En það á engan veginn að þýða, að það eigi að gilda nákvæmlega sömu reglur um hvaða aðrar iðngreinar sem er.

Það hefur stundum verið á það minnzt í þessum efnum, að sjávarútvegur og landbúnaður njóti forréttinda viðvíkjandi sérstökum endurkaupalánum Seðlabankans og að eðlilegt væri, að innlenda iðnaðarframleiðslan nyti þar sömu kjara. Vegna einmitt þess, hvernig ástatt er með íslenzkan iðnað, álít ég, að það sé ekki hægt að setja þetta mál upp á þennan veg.

Hið rétta er að mínum dómi, að það þarf á sérstökum lánum að halda, svipuðum og endurkaupalánum Seðlabankans, fyrir útflutningsframleiðsluna, fyrir þá framleiðslu, sem framleiðir fyrir erlendan markað. Hér á landi verður ekki hjá því komizt að hafa slík lán fyrir útflutningsframleiðsluna, og þetta er löngu viðurkennt af öllum þeim, sem með þessi mál hafa haft að gera, enda alveg sambærilegar ráðstafanir gerðar í mörgum löndum annars staðar fyrir útflutningsframleiðslu. Þar gilda alveg sérstakar reglur, allt aðrar reglur en gilda fyrir framleiðslu, sem ætluð er á innanlandsmarkað. Ég stóð því að því m.a. í vinstri stjórninni á sínum tíma að flytja till. þar um það, að öll útflutningsframleiðsla landsmanna, hvort sem hún væri á vegum sjávarútvegs, landbúnaðar eða iðnaðar, skyldi búa við sömu kjör varðandi þessi sérstöku seðlabankalán. Þar á vitanlega ekki að gera neinn mun á iðnaði og sjávarútvegi eða öðrum greinum, sem starfa á sams konar grundbelli fyrir almenna gjaldeyrisöflun. Hinu verður svo ekki neitað, að um alla framleiðslu, sem byggist einvörðungu eða að yfirgnæfandi meiri hl. á svo að segja daglegri sölu hér innanlands, eiga að gilda allt aðrar reglur, Íslenzkur íðnaður hefur einmitt að mínum dómi búið almennt séð, vissulega er þar um misjafna aðstöðu að ræða líka, — hann hefur almennt búið við mikil hlunnindi í sinni starfsemi á ýmsum sviðum varðandi tollvernd, og er það vitanlega ekki sambærilegt á neinn hátt við það, sem okkar útflutningsatvinnuvegir eiga við að búa. Ég hygg líka, að það sé enginn vafi á því, að sumar greinar íslenzks iðnaðar eigi tilveru sína hér alveg á því að byggja, að þessar greinar búa við mikla tollvermd. Ég ér því þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að skapa slíkri framleiðslu aukin sérréttindi til viðbótar við það, sem þessar framleiðslugreinar búa við nú. Og ég álít, að það standi sízt á þeim, sem tala fyrir hönd þessara framleiðslugreina, að kvarta um misrétti, þar sem hallað sé á íslenzkan iðnað í aðbúðinni frá hinu opinbera, t.d. í samanburði við sjávarútveginn. Hitt er svo alveg rétt, eins og ég hef sagt hér áður, að aðrar greinar iðnaðarins búa við litla tollvernd og eru mjög nauðsynlegar framleiðslugreinar hér, og það væri sannarlega þörf á því að veita þeim meiri fjárhagslega aðstoð en gert er.

Hæstv. viðskmrh. minntist hér nokkuð á meðferð þessara mála í vinstri stjórninni á sínum tíma, og hann hagaði orðum sínum á þá lund, að ég hygg, að flestir hafi skilið hann svo, að hann hafi í vinstri stjórninni barizt fyrir því á sínum tíma, að teknar yrðu upp nýjar reglur um endurkaupalán til handa íslenzkum iðnaði: En ekki er mér kunnugt um þessa till, frá hæstv. ráðh. og sat ég í þessari stjórn. Ég minnist þess ekki, að hann hafi nokkurn tíma gert um það till. Og í tilefni af því, sem hann sagði, vildi ég gjarnan spyrja hann um það nú. Er hann samþykkur því, að það verði tekin upp endurkaup á framleiðsluvíxlum iðnaðarins almennt séð á svipuðum grundvelli og nú á sér stað um sjávarútveg og landbúnað? Er hann á þeirri skoðun? Var hann á þeirri skoðun í vinstri stjórninni? Hefur hann verið á þeirri skoðun síðan, og er hann á þeirri skoðun nú? Og hafi hann verið á þessari skoðun, hvað hefur tafið hæstv. ráðh. að koma þessu í framkvæmd?

Ég þarf í rauninni engin svör frá hæstv. ráðh., ég þekki hans skoðanir í þeim efnum allt of vel. Ég veit, að hann hefur ekki verið á þeirri skoðun, að það væri hægt eða það væri rétt að taka upp þessi endurkaupalán. En hitt hygg ég, að hæstv. viðskmrh. kannist vel við, því að ég man eftir því, að hann hefur vitnað í það hér í ræðum sínum áður, að ég hafi flutt í ríkisstj. till. um það, sem ég sagði hér áðan, en það er að láta allar greinar íslenzkrar framleiðslu, hvort sem þær eru á vegum iðnaðar, sjávarútvegs eða landbúnaðar, njóta sömu kjara um endurkaupalán, ef um útflutningsframleiðslu væri að ræða.

En það frv., sem hér liggur fyrir, er um allmikið annað mál en endurkaup á framleiðsluvíxlum iðnaðar. Hér er um það að ræða, hvort taka eigi nokkru fastari tökum en hingað til hefur verið gert óumsamin lán iðnaðarins í hinum ýmsu bönkum landsins, hvort það eigi að reyna að sameina þessi lán og breyta þeim í lengri umsamin lán, á svipaðan hátt og gert hefur verið bæði um sjávarútveg og landbúnað. Þetta tel ég sjálfsagt og mjög eðlilegt að gert sé. En auk þess tel ég, að það beri með rannsókn að athuga, hvaða greinar Íslenzks iðnaðar eru þannig vaxnar, að þær njóta lítillar tollverndar og hafa mikið þjóðhagslegt gildi, og þá ber einnig að gera ráðstafanir til þess, að þær geti búið við eðlilegt rekstrarfjármagn til starfsemi sinnar og búið þar við betri kjör en þessar greinar búa við nú. En hitt tek ég skýrt fram sem mína skoðun, að ég álít, að þarna eigi ekki eitt að gilda um allan íslenzkan iðnað, þar vil ég gera mikinn skilsmun á.

Að endingu vildi ég svo sem sagt endurtaka það, sem ég sagði hér áðan og ég tel aðalatriði þessa máls. Ég er sammála í aðalatriðum efni þessa frv., tel þó, að þar þyrftu að koma frekari skýringar á vissum atriðum, sem væntanlega geta komið fram síðar. Ég er samþykkur efninu í öllum aðalatriðum, og við Alþb.-menn munum styðja framgang þess að þessu leyti, sem ég hef hér gert grein fyrir.