18.11.1963
Neðri deild: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður um það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 73. um breyt. á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán. Þess er að vænta, að því verði tekið með skilningi á vandamálum iðnaðarins. En á það má þó benda í þessu sambandi, að ákvæði þessa frv. mundu að sjálfsögðu hrökkva skammt til þess að leysa lausaskuldamál iðnaðarins, ef ekki kæmi annað til, þar sem ekki verður séð, að í frv. sé gert ráð fyrir úrræðum til þess að koma þeim vaxtabréfum í verð, sem þar um ræðir, eða tryggja það, að þeir, sem lánað hafa iðnaðinum, taki þau upp í lausaskuldir. En það er auðvitað atriði, sem ræða má um á síðara stigi málsins.

Það, sem varð til þess, að ég kvaddi mér hljóðs hér, var það, að mig furðaði nokkuð á þeim ummælum, sem hv. fyrri. flm. þessa máls hafði um meðferð þingmáls árið 1958. Það er nú nokkuð langt liðið síðan og eðlilegt, að menn muni ekki svo glögglega það, sem fram fór í þann tíð, en þó rámaði mig í það, að sú saga, sem hv. þm. sagði hér áðan um meðferð þessa máls, væri eitthvað brengluð í meðförum hans. Þess vegna fór ég að líta eftir því, hver afgreiðsla þingsins hefði orðið á till. þeirri, sem um er að ræða og hann flutti þá á þskj. 547, 1957, um endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins. En hv. þm. lét orð falla eitthvað á þá leið, að allir framsóknarmenn að einum undanteknum, held ég, að hann hafi sagt, hefðu verið andvígir þessu máli.

Till. um endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins var útbýtt á Alþingi 22. maí 1958. Og á 49. fundi í Sþ. var hún tekin til meðferðar. Á þessum fundi var till. vísað til allshn. Sþ., og n. skilaði áliti 3. júní 1958. Undir þetta nál. rita Benedikt Gröndal, Eiríkur Þorsteinsson, Steingrímur Steinþórsson, Jón Sigurðsson, Björn Jónsson, Björn Ólafsson og Ásgeir Bjarnason. Og n. er sammála um að leggja til, að till. verði samþykkt, þannig, að tillgr. orðist svo.

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að vinna að því, að iðnaðurinn fát aukið rekstrarfé með því, að Seðlabankinn endurkaupi framleiðslu- og hráefnavíxla iðnfyrirtækja.“

Brtt. n. og þar með tillgr. var samþ. á Alþingi með 30 shlj. atkv. og till. með 29 shlj. atkv. sem ályktun Alþingis.

Ég tel rétt, að þetta komi fram hér, þannig að ekki þurfi að slæðast inn í þingtíðindin svo meinlegar missagnir á staðreyndum eins og sú, sem hv. þm. fór hér með áðan, vafalaust af vangá.