18.11.1963
Neðri deild: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður hefur upplýst, voru þær upplýsingar alrangar, sem hv. flm. þessa máls gaf í framsöguræðu sinni um afgreiðslu þáltill. á þingi 1958, sem snerti endurkaup á hráefnavíxlum iðnaðarins. Hv. flm. sagði þannig frá þessu máli, að allur Framsfl. þá að einum þm. hans undanskildum hefði greitt atkv. á móti þessari till. Það sýnir sig hins vegar, eins og nú hefur verið upplýst, þegar blaðað er í þingtíðindunum, að þá var samkomulag milli allra þingflokka í nefnd um afgreiðslu á þessu máli, sem hneig að mjög verulegu leyti í sömu átt og fólst í hinni upprunalegu till. flm., og till. var síðan afgreidd shlj. héðan frá Alþingi. Það var enginn þm., sem greiddi atkv. gegn henni, og allir flokkar stóðu saman um hana í allshn. og hafa að sjálfsögðu gert það einnig í þinginu. Ég skil það ekki, vegna hvers hv. flm. segir þessa sögu hér, sem er röng, en ég tel víst, að eftir að hann hefur fengið þetta upplýst, eigi hann sinn þátt í því sjálfur að leiðrétta þessa missögn sína, og sé því ekki ástæðu til að fara fleiri eða harðari orðum um þetta að þessu sinni, vegna þess að ég hygg, að þetta sé frekar af ókunnugleika eða á misminni byggt heldur en hv. flm. hafi ætlað að segja vísvitandi ósatt.

Hæstv. viðskmrh. sá ástæðu til þess að blanda sér í þessar umr., og satt að segja bjó hann til tilefni til þess að blanda sér í þessar umr. Hann hafði það eftir mér, að ég hefði sagt, að hæstv. núv. ríkisstj, hefði ekkert gert fyrir iðnaðinn og engin afskipti haft af lánamálum iðnaðarins. Þetta sagði ég aldrei. Ég minntist aldrei á iðnlánasjóð eða annað, sem hann snerti. Það eina, sem ég sagði, var það, að hæstv. núv. ríkisstj. hefði ekkert gert til þess að framkvæma þáltill. frá 1958, sem fjallaði um endurkaup á hráefnavíxlum iðnaðarins. Hæstv. ráðh. hlýtur að vera það mikið inni í þessum málum, að hann veit, að það er allt annað mál, sú till., sem samþ. var á þingi 1958, og iðnlánasjóður, það eru tvö óskyld mál. Till. frá 1958 snertir eingöngu rekstrarlán iðnaðarins. Iðnlánasjóður snertir hins vegar eingöngu stofnlán iðnaðarins. Þetta eru tvö aðskilin mál, og inn á það málefni fer till. frá 1958 ekki neitt. Hún fjallar eingöngu um rekstrarlán iðnaðarins, en ekki um stofnlán. Og þegar ég átti við það, að hæstv. ríkisstj. hefði ekkert gert til að framkvæma till. frá 1958, þá átti ég að sjálfsögðu við það, að hún hefði ekkert gert til þess að greiða fyrir iðnaðinum hvað snerti rekstrarlán, endurkaup á hráefnavíxlum, svo að hæstv. ráðh. blandar sér inn í þessar umr. til þess að koma að alveg óskyldu máli eða því, að hæstv. ríkisstj. hafi eitthvað gert á sviði stofnlána fyrir iðnaðinn. En það er rétt, með þeim lögum, sem samþykkt voru um iðnlánasjóð hér á þinginu í fyrra, fékk iðnaðurinn nokkra úrbót hvað snertir stofnlánin eða fjárfestingarlánin, en þó allt of litla, eins og var rakið í þeim umr. Enda fluttum við framsóknarmenn till. um það, þegar það mál var til meðferðar hér í þinginu, að fjárráð iðnlánasjóðs yrðu miklu meira aukin en gert var ráð fyrir í þeim lögum, sem þá voru samþykkt, enda sýnir það sig nú þegar, að með þeirri löggjöf, þó að hún væri spor í rétta átt, var allt of stutt gengið til þess að greiða úr stofnlánaþörf iðnaðarins. En hitt stendur líka eftir sem áður, að þó að þetta hafi verið gert hvað snertir stofnlánin, þá hefur ekkert verið gert til þess að bæta úr þeirri rekstrarlánaþörf, sem iðnaðurinn hefur og ætlazt var til að gert yrði á þáltill. frá 1958. Það mál er alveg óleyst enn, ag hæstv. ríkisstj. hefur ekkert gert í heim efnum til að bæta þar úr. En það er þó að vísu rétt að geta þess, að einhver hæstv. ráðh. mun hafa skipað nefnd til þess að rannsaka þetta mál. Ég sé í síðustu ríkisreikningum, fyrir árið 1962, að þá hafa einhverri nefnd verið borgaðar eitthvað milli 60 og 70 þús. kr. fyrir að skila áliti um þetta mál. En það álit hefur hvergi verið birt enn þá opinberlega, og það er ekkert farið að framkvæma enn í þá átt að greiða meira úr rekstrarlánaþörf iðnaðarins en áður var, svo að þessi nefndarskipun virðist hvað það snertir ekki hafa aðrar afleiðingar í för með sér en aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

En hverjir eru það, sem eiga sök á því, að ekkert hefur verið gert til þess að framkvæma þáltill. frá 1958 um úrbætur fyrir iðnaðinn hvað snertir rekstrarlánin? Þeir hafa verið að reyna það hér, hv. fim, og hæstv. viðskmrh., að kenna Framsfl. um þetta og byggja það á algerlega röngum staðhæfingum, byggja það á því, að Framsfl. hafi á sínum tíma verið á móti þessu máli hér í þinginu, þó að þskj. sýni það ótvírætt, að flokkurinn hafi verið með þessu máli, þegar það var hér til meðferðar 1958, og ég er alveg hissa, að þó að hv. flm. yrði það á að segja rangt í þessum efnum, þá skyldi hæstv. viðskmrh. verða til þess að endurtaka þessa skreytni hans og byggja sína röksemdafærslu á því. En hverjum það er að kenna, að ekkert hefur verið gert fyrir iðnaðinn hvað rekstrarlánin snertir, það sést bezt á því, að síðan þessi till. var samþykkt hér í þinginu eru liðin 51/2 ár. Og hverjir eru það, sem hafa farið með völd í landinu á þessum tíma? Er það Framsfl.? Er það Alþb.? Jú, fyrstu 4–5 mánuðina á þessum tíma voru þessir flokkar í stjórn. Síðan eru meira en 5 ár. Þá eru það Alþfl. og Sjálfstfl.; sem hafa farið með stjórnina og hafa átt að sjá um það, að þingviljinn væri framkvæmdur í þessum málum eins og öðrum. Það eru þess vegna þessir flokkar, sem bera ábyrgð á því, að ekkert hefur verið gert fyrir iðnaðinn í þessum efnum þrátt fyrir yfirlýstan vilja Alþingis, sem fólst í till. frá 1958. Það er þetta, sem er höfuðatriðið í málinu. Og það þýðir ekkert fyrir þessa hv. þm. að koma hér upp, eins og hv. flm. og hæstv. viðskmrh., og vera að slá einhverjar bumbur um það, að þeir séu sérstakir áhugamenn og baráttumenn fyrir iðnaðinum, þegar það sýnir sig svart á hvítu, að eftir 5 ára stjórn þeirra er enn ekki farið að framkvæma þingviljann frá 1958 um það, að iðnaðurinn skuli sitja við sama borð og landbúnaður og sjávarútvegur hvað endurkaup á hráefnavíxlum snertir eða úrbætur í sambandi við rekstarlánaþörf hans. Þeir finna það líka, að þeirra hlutur er ekki góður í þessum efnum, og þess vegna er vafalaust þessi missögn, — ég er að vona, að það sé ekki nema missögn, til orðin hjá hv. flm. og hæstv. ráðh. um, að Framsfl. hafi verið sérstakur andstæðingur þessa máls, sú saga eða sú missögn er bersýnilega til orðin til þess að draga athyglina frá því, hverjir það eru, sem hafa stöðvað það mál, að iðnaðurinn fengi jafnrétti við aðra atvinnuvegi í þessum efnum.

Í tilefni af því, sem kom hér fram frá hv. 5. þm. Austf., vil ég láta það koma fram, að ég er honum ekki alveg sammála um það efni, sem hann hélt hér fram. Hann hélt því fram, hv. þm., að það ætti að gera greinarmun á því, hvort það væri um útflutningsiðnað að ræða eða ekki, hvort viðkomandi atvinnufyrirtæki framleiddu útflutningsvörur eða vörur, sem eru seldar á markaði hér innanlands. Ég er því ekki sammála, að það eigi að draga neina sérstaka línu þarna á milli, ef um er að ræða atvinnugrein eða framleiðslu, sem talin er nauðsynleg. Mér finnst það ekki skipta neinu höfuðmáli, hvort þessi atvinnugrein eða atvinnufyrirtæki veldur því eða hefur þau áhrif með framleiðslu sinni að afla erlends gjaldeyris eða spara erlendan gjaldeyri. Ég álít, að það komi að sama gagni, hvort heldur sem er gert. útflutningsiðnaðurinn aflar gjaldeyrís, það er alveg rétt. Iðnaðurinn, sem framleiðir fyrir innlendan markað, sparar í flestum tilfellum a.m.k. erlendan gjaldeyri, svo að niðurstaðan er nokkurn veginn hin sama, hvora framleiðsluvöruna sem viðkomandi fyrirtæki framleiðir. Fyrir heildina hefur það sömu þýðingu, hvort starfsemi fyrirtækisins verður til þess að afla gjaldeyris eða til að spara gjaldeyri, og það er út frá því sjónarmiði, sem mér finnst að eigi að líta á þetta mál og þess vegna eigi þær atvinnugreinar, sem framleiða fyrir innlendan markað, að vera alveg jafnréttháar og þær, sem framleiða fyrir útlendan markað, og þar af leiðandi hefur þessi till., sem samþykkt var á Alþ. 1958, átt fullan rétt á sér.

Ég vil svo vænta þess, að það verði niðurstaðan af þessum umr., að talsmenn og forsvarsmenn stjórnarflokkanna reyni ekki lengur að verja aðgerðaleysi sitt í þessum efnum með því að búa til einhverjar sögur eða halda á loft einhverjum missögnum um það, að Framsfl. hafi verið á móti þessu máli, því að það er nú upplýst, að það er rangt, og vænti þess jafnframt, að sá áhugi fyrir þessu máli, að iðnaðurinn búi við sama borð og sjávarútvegur og landbúnaður hvað snertir endurkaup á hráefnavíxlum, ég vil vona, að sá áhugi, sem hefur komið fram í þeim umr., sem hér hafa farið fram, fyrir þessu máli hjá bæði hv. flm. og hæstv. ráðh., verði til þess, að nú verði farið að gera eitthvað í þessu máli, eitthvað meira en að skipa nefnd, sem fær sínar greiðslur úr ríkissjóði, en ekkert er svo meira gert, meðan a.m.k. hennar till. eru ekki látnar sjá dagsins ljós og ekki framkvæmdar, ef þær eru þá einhverjar. Ég vona, að þetta verði til þess, að það verði ekki hægt — að svæfa þetta mál með einhverjum missögnum eða með nefndarskipunum, sem ekkert kemur út úr, heldur verði nú farið að framkvæma þingviljann frá 1958, og þess vegna álít ég það líka nauðsynlegt, að vegna þess dráttar og aðgerðaleysis og sinnuleysis, sem hefur ríkt hjá hv. stjórnarflokkum í þessum málum, þá sé líka nauðsynlegt að samþykkja þá till. um þetta efni, sem ég ásamt fleiri þingmönnum hef lagt fyrir Alþ. um það, að iðnaðurinn njóti jafnréttis við sjávarútveg og landbúnað hvað snertir endurkaup á hráefnavíxlum. En það er alveg víst, að ef iðnaðurinn á að þróast með eðlilegum hætti í þessu landi, þarf hann að njóta betri fyrirgreiðslu í þessum efnum en hann gerir nú. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að samkeppni við erlendar iðnaðarvörur kemur til með að harðna á komandi árum. Við getum vel átt von á þeirri þróun, að við þurfum að lækka ýmsa verndartolla, sem íslenzkur iðnaður býr við í dag, og til að bæta honum það upp, verður að tryggja honum sambærileg lánskjör við það, sem erlendir keppinautar rúa við nú. En það er alveg tvímælalaust, að íslenzkur iðnaður býr við miklu lakari kjör hvað öll lán snertir heldur en iðnaðurinn gerir a.m.k. í öllum okkar nágrannalöndum, og þess vegna er nauðsynlegt, að úr því verði bætt.