18.11.1963
Neðri deild: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Flm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Ég gleðst yfir þeirri yfirlýsingu hæstv. viðskmrh., að nú skuli endurkaupamálum þannig komið, að frv. verður lagt fram á Alþ. af ríkisstj. um breyt. almennt á endurkaupum Seðlabankans, og vænti ég, að varðandi málefni iðnaðarins verði þá tekið fullt tillit til þeirra. En ég stóð hér upp vegna ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG).

Ég get ekki farið í neinn orðaleik við þennan hv. alþm., en hann var svo elskulegur að lána mér Alþingistíðindi, sem hann hafði flett þessu seðlabankamáli frá 1958 upp í, og það má segja, að þetta sé orðaleikur. Ég kom það seint inn í þingið, aðeins síðustu dagana fyrir þingslit, og till. mín er tekin til atkvgr. á síðustu dögum þingsins og er lagt til, að hún sé samþykkt án þess að fara í nefnd, það er lagt til af mér sem flm. Hins vegar var það þannig, að það voru framsóknarmennirnir að einum undanskildum, sem lögðu til, að till. færi í nefnd, og þannig átti að svæfa málið. Og þeir höfðu meiri hl., þar sem margir voru fjarstaddir, voru 19 á móti 17. En fyrir atbeina góðra manna var þessu máli flýtt í nefnd, svo að till. fékkst samþykkt, og þá voru framsóknarmenn með henni, en það var eftir að till. hafði verið breytt nokkuð.

Ég ætla ekki að þessu sinni að svara hv. 5. þm. Austf., en ég er ánægður með það, að hann skuli vilja taka undir þetta frv. mitt, sem ég flyt nú. Hins vegar get ég upplýst hann um það, að Einar Olgeirsson, hans flokksmaður, tók næstur til máls, eftir að ég hafði lokið framsöguræðu minni um endurkaup Seðlabankans, og var þeirri till. algerlega fylgjandi 1958. Eitthvað hefur nú breytzt.