02.04.1964
Neðri deild: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Frsm. (Sigurður Ingimundarsson):

Herra forseti. Fjhn. hv. þd. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu, um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán, 68. mál á þskj. 73. N. hefur rætt frv. á nokkrum fundum og fengið um það umsögn Seðlabanka Íslands, sem leggur til, að reynt verði að framkvæma þær umbætur á lánaaðstöðu til iðnaðarins, sem frv. gerir ráð fyrir. En það er þess efnis, að iðnlánasjóði verði heimilað að gefa út sérstakan flokk vaxtabréfa í þessu skyni og ríkisstj. ábyrgist þar skuldbindingar, sem stofnað er til í þessu skyni.

Frv. þetta er flutt með hliðsjón af l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins frá 1961, sem heimiluðu stofnlánadeild að opna nýja lánaflokka, og lögum um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán frá árinu 1962, en bæði þessi lög miða að því að bæta lánaaðstöðu þessara gömlu höfuðatvinnuvega þjóðarinnar til öflunar lána til langs tíma.

Framleiðni íslenzkra fiskveiða er sem kunnugt er einsdæmi í veröldinni, og afköst landbúnaðarins hafa stóraukizt með aukinni vélvæðingu. En menn mega ekki gleyma því, að íslenzkur iðnaður hefur vaxið mjög myndarlega úr grasi á skömmum tíma síðustu áratugina og hefur æ meiri þýðingu í þjóðarbúskapnum. Samkvæmt manntali 1950 störfuðu 19.9% þjóðarinnar að landbúnaðarframleiðslu, 10.8% að fiskveiðum og 31% að iðju og iðnaði. Nýrri upplýsingar um þetta efni eru ekki fyrir hendi enn. Það er ekki búið að vinna þetta úr manntalinu 1960, og skylt er að geta þess, að hér er fiskiðnaður talinn til iðnaðar og hlutur fiskveiða og fiskiðnaðar þess vegna miklu meiri en fram kemur í þessum tölum. Við þessa flokkun er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, en rétt er að geta þess í þessu sambandi, því að í frv. því, sem hér liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir, að það taki til fiskiðnaðarins, enda hlaut hann aðstoð á þessu sviði með I. um stofnlánadeild sjávarútvegsins á sínum tíma. Eigi að síður má nokkuð af þessum tölum ráða, hversu þýðingarmikið hlutverk iðnaðurinn hafði í þjóðarbúskapnum þegar árið 1950. Nú er varla að efa það, að þessi hlutföll hafa á þeim 14 árum, sem síðan eru liðin, vaxið iðnaðinum í vil. Ég hygg því, að ég geri hinum gömlu atvinnuvegum ekki rangt til, þó að ég bendi á nauðsyn þess að taka vaxandi tillit til þarfa iðnaðarins.

Framleiðni íslenzkra fiskveiða er, eins og ég hef áður sagt, einstæð framleiðni, og sjálfsagt er að hlúa að hinum gömlu atvinnuvegum, eftir því sem nýir tímar og breyttar aðstæður gefa tilefni til, og hefur það líka verið gert. En full ástæða er til þess, að iðnaðurinn sitji við sama borð og að því verði unnið, að hann njóti jafnréttis á sem flestum sviðum. Að vísu munu ýmsir verða til þess að benda á, að íslenzkur iðnaður sé mjög sundurleitur, sumt eigi alls ekki rétt á sér, sumt hafi einhverju hlutverki að gegna á heimamarkaði, en lítið bóli enn á útflutningi á íslenzkum iðnaðarvörum, öðrum en fiskiðnaðarvörum. Ég vil í þessu sambandi benda á, að íslenzki iðnaðurinn er langyngsta atvinnugreinin, hann hefur tekið mjög stórfelldum framförum á ótrúlega skömmum tíma. Hann gegnir miklu og vaxandi hlutverki á heimamarkaðinum, er í ýmsum greinum fyllilega samkeppnisfær, og á því að framleiða útflutningsvöru eða framleiða samkeppnishæfa vöru fyrir innlendan markað er ekki mikill eðlismunur, enda sparar það að sama skapi gjaldeyrisþörf þjóðarinnar, eykur fjölhæfni í framleiðslu og atvinnuöryggi.

Það er að vísu rétt, sem bent hefur verið á, að sumar greinar iðnaðarins hafa notið nokkurrar tollverndar, en það á ekki við um allan iðnaðinn, og ég vil einnig benda á í þessu sambandi, að á ýmsum öðrum sviðum hefur hann ekki notið jafnréttis við aðrar atvinnugreinar. Má í því sambandi t.d. nefna, að á fjárlögum hafa fjárframlög til iðnaðarmála að jafnaði verið miklum mun lægri en til hinna tveggja aðalatvinnuveganna. Rekstrarnauðsynjar sjávarútvegsins eru svo til tollfrjálsar, rekstrarnauðsynjar landbúnaðarins í lægstu tollflokkum, en margar fjárfestingarvörur og efnivörur iðnaðarins búa enn við háa tolla. Athyglisvert er einnig, að fyrst eru afgreidd sérstök lög um aðstoð við sjávarútveg og landbúnað um breytingu á lausaskuldum í föst lán, en frv. um lausaskuldir iðnaðarins rekur lestina.

Það er vissulega þjóðhagslega rétt að vinna að því, að iðnaðurinn fái á sem flestum sviðum jafnréttindaaðstöðu við aðrar atvinnugreinar. Það á jafnt við um að vinna að því að minnka tollverndina hjá þeim greinum iðnaðarins, sem njóta hennar, og ekki síður við það að bæta hag iðnaðarins á þeim sviðum, þar sem hann býr við lakari kjör og ég hef nefnt ýmis dæmi um, svo að hinni ungu, en mikilvægu atvinnugrein verði búin sem bezt vaxtaskilyrði. Hér er mikilvægt að hafa í huga, að nú er svo komið, að fleiri landsmenn vinna að iðnaði en nokkurri annarri starfsgrein, og ég vil minna á, að þegar til lengdar lætur í framtíðinni á þjóðin meira undir framförum, auknum hagvexti og aukinni framleiðni í þessari grein höfuðatvinnuveganna en nokkurri annarri. Það er þessi grein atvinnuveganna, sem fyrst og fremst hefur tekið við fólksfjölguninni á undanförnum árum og hlýtur að gera það í framtíðinni. Þau þjóðfélög, sem búa við bezt lífskjör, byggja þau fyrst og fremst á háþróuðum iðnaði, og varla er að efa, að svo verður einnig hér, ef vel á að fara með aukinni fólksfjölgun.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að bæta lánaaðstöðu iðnaðarins í samræmi við það, sem áður hefur verið gert fyrir fiskveiðar og landbúnað um breytingu lausaskulda í föst lán. Fjhn. hv. þd. v ar sammála um að mæla með samþykkt frv., þó að einstakir nm. áskildu sér rétt til þess að fylgja eða flytja brtt. N. leggur því til, að frv. verði að lokinni þessari umr. visað til 3. umr. Jafnframt því sem ég legg fram þessa niðurstöðu nefndarinnar, sem fram kemur í nál. á þskj. 401, vil ég vekja athygli á brtt. á þskj. 402, sem ég hef gerzt meðflutningsmaður að ásamt hv. 6. landsk. þm. og hv. 3. þm. Reykn. Brtt. er flutt eftir ábendingu Seðlabankans og til samræmis við tilsvarandi ákvæði í lögunum um iðnlánasjóð. Brtt. felur það eitt í sér, að áður en iðnlánasjóður ákveður vextina með samþykki ráðh., þá skuli hann hafa fengið álit Seðlabanka Íslands. Þessi breyting hefur varla mikla þýðingu í framkvæmd. Það er aðeins gert ráð fyrir, að leitað sé álits Seðlabankans, og ef ágreiningur verður, hefur iðnmrh. eftir sem áður í hendi sér að skera úr þeim ágreiningi, þar sem samþykki hans er áskilið: Okkur flm. þótti hins vegar ekki óeðlilegt, að iðnlánasjóðurinn ákvæði þessa vexti á sama hátt og hann ákveður aðra vexti, og brtt. því samin með hliðsjón af og til samræmingar við 13. gr. l. um iðnlánasjóð. Við flm. teljum a.m.k. ekki óeðlilegt, að þetta sjónarmið komi til álita við afgreiðslu málsins í hv. þd.

Ég vil svo að lokum geta þess, að samtök iðnaðarmanna, bæði 25. iðnþing Íslendinga s.l. haust og ársþing Félags ísl. iðnrekenda, hafa lýst eindregnum stuðningi sínum við frv. og gert samþykktir, sem fela í sér áskorun um, að það nái fram að ganga.