02.04.1964
Neðri deild: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er eitt mikilvægt atriði í sambandi við þetta frv., sem mér finnst að ekki hafi komið nægilega skýrt fram, eða a.m.k. hefur það farið fram hjá mér í þessum umr., en ég vildi gjarnan fá hér upplýsingar um. Í sambandi við þá útgáfu á vaxtabréfaflokki hjá iðnlánasjóði, sem ráðgerð er samkv. 1. gr. frv., til þess að koma fram lengingu á óumsömdum lánum hjá iðnfyrirtækjum, vantar skýringu á því, hvernig þetta er hugsað í framkvæmd. Nú dugir það auðvitað heldur skammt, þó að iðnlánasjóður gefi út þessi nýju vaxtabréfalán eða þennan nýja flokk vaxtabréfa, þó að á þeim flokki lána sé ríkisábyrgð, ef ekki er nokkurn veginn tryggt, að einhver aðili vilji kaupa þessi vaxtabréf. Þegar hliðstæð ráðstöfun var hér gerð með lögum frá Alþingi varðandi landbúnaðinn, voru gefnar hér yfirlýsingar um það, að frá því hefði verið gengið., að Seðlabankinn mundi sjá um, að lán yrðu veitt í þessu skyni, til þess að sú lenging á lausaskuldum landbúnaðarins, sem þar var ráðgerð, yrði að veruleika. Og svipað stóð á um lengingu á lánum sjávarútvegsins, sem hér var samþykkt á sínum tíma. Þar var beinlínis gengið frá því, að sú skylda hvíldi á stofnlánadeild Seðlabankans að sjá um lánalengingu. Nú vil ég spyrja um það, hvernig er frá þessu gengið í sambandi við þessa ráðstöfun fyrir iðnaðarfyrirtæki. Er gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn sjái um að kaupa þau vaxtabréf, sem þarna á að gefa út af iðniánasjóði, eða einhver önnur fjármálastofnun? Eða á þetta aðeins að verða þannig, að þau iðnfyrirtæki, sem þessar lausaskuldir hafa á sér, fái á þennan hátt ríkisábyrgð fyrir sínum skuldum og verði svo hvert um sig að baksa í því að selja bréfin? Ég vildi gjarnan fá upplýsingar varðandi þetta atriði.

En fyrst ég stóð nú hér upp, langar mig enn einu sinni í sambandi við umr. um þetta mál að taka það fram, sem ég hef gert hér áður, að ég tel, að mjög sé rangt og villandi að tala alltaf um allan íslenzkan iðnað eins og eina samstæða heild, sem ein og sömu lög eða reglur skuli gilda um. Á því er auðvitað enginn vafi, að aðstaða hinna einstöku iðnfyrirtækja er geysilega misjöfn í þessum efnum. Ýmis iðnfyrirtæki eiga á ýmsan hátt við erfiða rekstraraðstöðu að búa. Þau njóta svo að segja engrar tollverndar og verða að keppa við svo til ótollaðar innfluttar vörur, og slík iðnfyrirtæki eiga vitanlega í nokkrum rekstrarörðugleikum í ýmsum tilfellum. En ýmis önnur iðnfyrirtæki eiga við þá aðstöðu að búa að njóta stórkostlegrar tollverndar, þar sem þau geta selt framleiðsluvöru sína í skjóli u.þ.b. 100% tollverndar. Hér er vitanlega gífurlegur munur á, og er engin ástæða til þess að láta sömu reglur gilda um iðnfyrirtæki, sem svo misjafnlega stendur á fyrir.

Ég vil einmitt í þessu sambandi líka segja það, að það er auðvitað mesta villa, sem hér var sögð af hv. 1. landsk. þm., talsmanni meiri hl. fjhn., að iðnaðurinn sem heild njóti miklu lakari kjara en bæði sjávarútvegur og landbúnaður hér í þessum efnum. Þar er auðvitað hrein fjarstæða að halda svona nokkru fram, í rauninni hastarlegt, að þetta skuli vera endurtekið hér á Alþingi æ ofan í æ. Auðvitað er það, að íslenzkur iðnaður býr í þessum efnum við allt önnur og miklu hagstæðari kjör frá því opinbera en t.d. okkar útflutningsframleiðsla yfirleitt gerir. Okkar sjávarútvegur verður t.d. að keppa á hinum viða heimsmarkaði og lúta því verðlagi, sem þar er, og verður meira að segja að bera há útflutningsgjöld þar að auki, sem er alveg einstakt, á sama tíma sem mikill hluti af íslenzkum iðnaði býr við þá aðstöðu, sem virðist ekki vera metin til neins hjá þeim, sem haga orðum sínum á þessa lund, að fá að selja sína vöru í slíkri tollvernd sem hér á sér stað, upp í 100%. Ég álít, að íslenzkur iðnaður þurfi sannarlega ekki að kvarta í þessum efnum. En þær greinar íslenzks iðnaðar, sem búa við þau kjör, sem ég nefndi hér áðan, að njóta svo að segja engrar tollverndar, þær greinar geta vissulega borið sig saman við bæði sjávarútveg og landbúnað. Það er rétt, að iðngreinar eins og t.d. báta- og skipabyggingar, eins og veiðarfæragerð og hin almenna viðgerðarþjónusta, þessar iðngreinar búa við þannig aðstöðu, að það er eðlilegt, að þær fari fram á nokkra leiðréttingu sinna mála í samanburði við ýmsa aðra. Og ég vil ekki leggja þær að jöfnu við iðnað, sem framleiðir t.d. súkkulaði eða eitthvað annað þess háttar og á hér að meðhöndla á nákvæmlega sama hátt og þessar iðngreinar. Og svo er því haldið fram, að þær séu eitthvað sérstaklega hart leiknar af ríkisvaldinu samanborið við það, sem sjávarútvegur og landbúnaður sé. Slíkt er vitanlega hrein villa.

Ég hef sagt það áður í umr. um þetta mál, að við Alþb.-menn getum stutt það frv., sem hér liggur fyrir, að iðnaðurinn sé nokkuð aðstoðaður til þess að breyta óumsömdum stuttum lánum í lengri lán og hagstæðari lán. En við álítum, að við framkvæmd þess eigi að taka fullt tillit til þess mikla mismunar, sem á sér stað milli ýmissa iðnfyrirtækja í landinu, því að þar er vitanlega stórkostlegur munur á, og það er aðalatriði málsins. En þetta mál er ekki rétt rekið á þeim grundvelli að halda því fram, að á allan íslenzkan iðnað sé hallað í löggjöf frá Alþingi og það sé nauðsynlegt að hlaupa undir bagga með honum, vegna þess að hann búi við lakari kjör en t.d. okkar útflutningsatvinnuvegir. Slíkt er rangt. En aðalatriðið var það, að mig langaði til þess að fá frekari upplýsingar um það atriði, sem ég spurði hér um fyrst í sambandi við framkvæmd þessara vænanlegu laga.