13.02.1964
Neðri deild: 56. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

91. mál, búfjárrækt

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Landbn, þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar frv. það til l. um breyt. á búfjárræktarl., sem hér er til 2. umr., og skilar n. samhljóða nál. og leggur til, að frv. verði samþ.

Frv. var sent Búnaðarfélagi Íslands til umsagnar, og í svari því, sem n. barst frá stjórn Búnaðarfélagsins, fólst í rauninni engin umsögn um málíð. Hins vegar var á það bent, að búfjárræktarlögin hafi verið í endurskoðun að tilhlutan Búnaðarfélagsins og frv. til nýrra búfjárræktarlaga mundi verða lagt fyrir búnaðarþing, sem er í þann veginn að koma saman, og tekið þar til meðferðar.

Búfjárræktarl. eru allmikill lagabálkur og þótt svo fari, að búnaðarþing afgreiði þau frá sér núna í vetur, er þess vart að vænta, að þau nái w lögfestingu á Alþingi því, sem nú situr. Hins vegar leggjum við flm. þessa frv. áherzlu á það, að þessi breyt. á búfjárræktarl. nái fram að ganga og fái afgreiðslu nú á þessu þingi, og féllust hv. samnm. okkar. í landbn. á sjónarmið okkar.

Við 1. umr. frv. hér í hv. d. rakti ég efni þess og skýrði og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það, sem ég sagði þá: Aðalefnið er, að skýrt sé tekið fram í búfjárræktarlögunum, hverjum beri réttur til þess að handsama stóðhesta, sem kunna að ganga lausir ólöglega, og þeir verði færðir til næsta hreppstjóra í því lögsagnarumdæmi, þar sem hestarnir finnast. Þá gerir frv. ráð fyrir því að rýmka nokkuð heimildarákvæði búfjárræktarlaganna um lausagöngu stóðhesta í þeim héruðum, þar sem hrossabúskapur er rekinn að nokkru verulegu ráði, og skuli það lagt í vald sýslunefnda, hvort leyfa skuli slíkar undanþágur.

Ég vænti þess, að hv, þd. geti fallizt á þá skoðun landbn., að samþykkja beri þetta frv.