04.05.1964
Efri deild: 79. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

91. mál, búfjárrækt

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Mál þetta var flutt í Nd. fyrir alllöngu og hlaut þar einróma samþykki hv. Nd. Það fjallar um nokkrar breytingar á búfjárræktarlögum að því er snertir hrossarækt. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. og minni hl. landbn., er lítill eða máske enginn ágreiningur um, að rétt sé að samþ. tvær fyrri gr. frv., en þær lúta að því að gera skýrari ákvæði í lögum um það, hverjir eigi eða hverjir megi taka stóðhesta, sem ganga lausir í óleyfi. Ég held, að það sé óhætt að segja, að landbn. var sammála um það, að þessar brtt. tvær, sem felast í 1. og 2, gr., séu til bóta og jafnvel nauðsynlegar til þess að afstýra átökum og ósamkomulagi, sem orðið hefur um þessa framkvæmd að undanförnu og leitt jafnvel til málaferla. Hins vegar er nokkur ágreiningur í landbn. um það, hvort rétt sé að samþ. 3. gr. frv., sem fjallar um breyt. á 39. gr. búfjárræktarl. og gengur í þá átt, að sýslunefndum verði heimilað að gera samþykktir um undanþágur frá ákvæðum um lausagöngur stóðhesta, en leiti þó álits hrossaræktarráðunautar íslands um það efni, áður en til framkvæmda kemur. í búfjárræktarlögunum eru ákvæði um það, að Búnaðarfélag Íslands geti veitt undanþágur í þessu efni eftir till, frá hrossaræktarráðunaut Íslands. Aðalmunurinn í þessu er þá sá, að sýslunefndir geta haft þarna meira vald en verið hefur, ef þær meta það heima fyrir, að nauðsynlegt sé að veita einhverjar undanþágur í þessu efni.

Þetta frv. er sprottið af því, að átök hafa orðið um þessi efni í Skagafjarðarsýslu og Húnavatnssýslu undanfarin sumur, og tilgangur frv. er að leita leiða til þess að komast hjá slíkum átökum eftirleiðis. Og þar heima í héraði virðist vera nokkurn veginn samstaða um það, að þessi 3. gr., þ.e.a.s. breyting á 39. gr. búfjárræktarlaganna, muni geta komið á friði um þetta mál. Það hefur verið bent á það, að búfjárræktarl. væru í endurskoðun hjá Búnaðarfélagi Íslands eða búnaðarþingi og jafnvel fullgerð og þess vegna væri ekki þörf á því að samþ. 3. gr. frv., heldur væri eðlilegt að bíða eftir fullnaðarafgreiðslu í heild á búfjárræktarlögunum. Frv. þetta var lagt fram nokkuð snemma á þinginu, og afgreiðsla þess hefur dregizt, m.a. vegna þess, að lengi vel var búizt við, að e.t.v. yrðu ný búfjárræktarlög afgreidd á þessu þingi og þar með yrði þá tekin afstaða til þeirra breytinga, sem margir telja að þurfi að gera á 39. gr. búfjárræktarlaganna, eins og þau eru nú. En héraðsbúar á þessu svæði hafa margir mjög óskað eftir því, að frv. væri nú afgreitt á þessu þingi, þó ekki væri nema til þess að leysa úr vanda, sem skapazt hefur á þessu landssvæði, og þeir telja, að erfitt sé að bíða, þangað til ný búfjárræktarlög hafa verið samþ. á þingi. Það má þó geta þess, að tvær fyrri greinarnar leysa að nokkru leyti úr þeim vanda, sem þarna virðist vera við að etja, en ekki að öllu leyti að áliti kunnugra manna.

Ég tel og meiri hl. landbn., að þar sem þessi sérstöku vandamál snerta naumast aðra en hrossaeigendur í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, þá muni það ekki a.m.k. saka, þó að 3. gr. verði samþ. nú, því að ef búfjárræktarlög verða afgreidd endurskoðuð t.d. á næsta þingi, þá mætti breyta þessum ákvæðum, ef þau í reyndinni yrðu ekki til þess að leysa úr þeim óþægilegu hnútum, sem skapazt hafa þar norður frá. Með þetta í huga hefur meiri hl. n. talið rétt að mæla með því, að frv, verði samþ. eins og það liggur fyrir.