29.04.1964
Neðri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

200. mál, vegalög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v. á þskj. 526. Þessi brtt. fjallar um endurgreiðslu á sköttum til þeirra jeppabifreiða, sem notaðar eru til landbúnaðarstarfa.

Eins og mönnum er kunnugt, hafa verið endurgreiddir þungaskattar af landbúnaðarjeppum um langa hríð, enda nóta þessar bifreiðar þjóðvegina miklu minna en ýmsar aðrar bifreiðar í landinu. Því hefur lengi þótt rétt að láta þær ekki greiða sömu skatta og almennt er um bifreiðar.

Með vegal, frá því í vetur var lagður þungur skattur á allar bifreiðar í landinu. Þessi skattur rennur, eins og kunnugt er, til vegakerfisins. Hann var aðallega í tvenns konar formi. Það var skattur af benzíni annars vegar og þungaskattur á bifreiðar hins vegar, auk þess sem skattur var lagður á bifreiðagúmmi o.fl. En þessi þungaskattur, sem var allhár á allar dísilbifreiðar í landinu, var á lagður til samræmis við þann skatt, sem lagður er á aðrar bifreiðar og kemur fram sem benzínskattur. Aftur á móti er þessi þungaskattur á dísilbíla bændanna ekki lagður á þá, heldur hafður sami háttur á og áður, að þeir skyldu vera án þungaskatts. Skattlagning á bifreiðar til vegagerðar ríkisins með I. frá í vetur nær því ekki til dísilbíla, þ.e.a.s. þeirra dísilbifreiða, sem bændur nota fyrst og fremst við landbúnaðarstörf. Er þetta í fullu samræmi við það, sem áður hefur verið gert um skattlagningu á slíkar bifreiðar. Hins vegar kemur benzínskattur með fullum þunga á landbúnaðarjeppa bændanna eins og aðra bíla í landinu. Þetta kalla ég mikið misrétti, og þetta ættu menn að geta séð bezt með því að hugsa sér tvo bændur, sem búa hlið við hlið, annar á dísiljeppa, en hinn benzínjeppa. Sá, sem á dísiljeppann, hefur engan skatt á sig fengið með hinum nýju vegalögum, en hinn bóndinn, sem á benzínjeppann, verður að borga mörg þús. kr. í skatt á ári til vegakerfisins. Þetta misrétti liggur í því, að það eru engin ákvæði í l. um það að endurgreiða benzínskatt til landbúnaðarjeppa, sem brenna benzíni. Ég tel fyllsta réttlæti að gera þessum tveimur tegundum landbúnaðartækja jafnhátt undir höfði, og því flyt ég þá brtt., sem hér hefur verið útbýtt á þskj. 526. Hún er við niðurlag 88. gr. l. frá í vetur, en niðurlag þessarar gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta

„Eigendur jeppabifreiða eiga rétt á endurgreiðslu skatts samkv. a- og b-liðum 87. gr. (þ.e.a.s. um þungaskatt), ef þeir sanna með vottorðum frá hlutaðeigandi skattstjóra eða umboðsmanni hans samkv. nánari ákvæðum í reglugerð, er fjmrh. setur, að bifreiðarnar hafi verið notaðar næstliðið ár að mestu eða öllu leyti við framleiðslu- og jarðyrkjustörf.“

Ég ætlast til, að svo komi viðbót, svo hljóðandi:

„Sé um jeppabifreið að ræða, sem brennir benzíni, skal endurgreiða innflutningsgjald af því benzíni, er hún notar, þannig að endurgreiðslurnar verði samtals jafnhá upphæð og til jeppabifreiða, er annað eldsneyti nota.“

Þarna ætlast ég til, að báðar þessar bifreiðar fái nákvæmlega sömu upphæð endurgreidda af sköttum, og þá fyrst búa þeir við jafnrétti, þessir tveir bændur, sem ég tók til dæmis, annar, sem á jeppabifreið, sem brennir benzíni, en hinn jeppabifreið, sem brennir dísilolíu.

Ég býst varla við, að það þurfi að orðlengja meira um þetta. Ég held, að þetta liggi alveg ljóst fyrir, að það er aðeins farið fram á jafnrétti milli þeirra manna, sem eiga þessa landbúnaðarjeppa, þótt annar noti benzín, en hinn dísilolíu.